Er ekki janúar? Er ekki einhver gluggi opinn sem leyfir knattspyrnufélögum að kaupa og selja leikmenn?
Við minnum á 19. þátt af podkasti okkar sem við tókum upp á mánudaginn.
Samkvæmt áreiðanlegum heimildum er svarið við báðum þessum spurningum já þrátt fyrir að akkúrat ekki neitt hafi verið að frétta af leikmannamálum hjá okkar mönnum. Svo virðist reyndar einnig vera raunin hjá öðrum liðum enda stærstu kaupin í deildinni það sem af er glugga verið kaup Norwich á Gary Naismith og kaup Southampton á Charlie Austin.
Semsagt, það er ekkert að gerast. Eða hvað?
Edinson Cavani
Blaðamaður ESPN telur sig hafa heimildir fyrir því að umboðsmenn Edinson Cavani hafi haft samband við forráðamenn United og látið vita að umbjóðandi þeirra hafi gríðarlega mikinn áhuga á að ganga til liðs við United.
Þetta er svo sem ekkert nýtt enda hefur United verið orðað við úrugvæska framherjann allt frá því að Moyes tók við liðinu sumarið 2013. Hvað um það, blaðamaðurinn segir jafnframt að forráðamenn United séu alvarlega að íhuga það að bjóða í kallinn.
Þrátt fyrir að Wayne Rooney hafi fundið markaskóna sína á nýjan leik eiga Louis van Gaal og félagar að sjá Cavani og sérstaklega hraða hans, sem lausn við hinni miklu markaþurrð United á þessu tímabili en liðið hefur aðeins skorað 28 mörk í 22 leikjum í deildinni sem er alveg frekar glataður árangur.
Lengi hefur verið talað um að Cavani sé ekki sáttur við að þurfa í sífellu að lúffa fyrir Zlatan sem framherji nr. 1 hjá PSG. Lið hans á að hafa hafnað nokkrum tilboðum í hann í gegnum tíðina en ESPN heldur því fram að í þetta skipti gæti liðið verið til í að selja til þess að fá örlítið fjármagn til að endurnýja liðið.
Cavani er auðvitað hinn ágætasti framherji og þokkalegur markaskorari. Hann skoraði helling fyrir Napoli áður en hann fór til PSG þar sem hann hefur skorað 69 mörk í 120 leikjum sem er alveg ágætt, sérstaklega í ljósi þess að honum er oft ýtt út á kant til að hliðra til fyrir Zlatan.
Það er alveg ljóst að United myndi alls ekki tapa á því að hafa leikmann á borð við Cavani innan sinna raða og hann myndi auka breiddina í framlínunni til muna.
Hann verður hins vegar 29 ára í febrúar og því ljóst að hann yrði enginn langtímalausn fyrir United sem myndi þá fá max 3-4 tímabil út úr honum. Með Woodward við stjórnvölinn er alveg hægt að bóka það að United myndi henda að lágmarki 40 milljónum í það að kaupa Cavani sem verður aldrei ódýr og því má vel setja spurningamerki við það hversu sniðugt það væri að borga stórfé fyrir framherja sem er að nálgast efri árin?
Auðvitað er þetta bara slúður og þar að auki slúður sem dúkkar upp í hverjum glugga án þess að nokkuð hafi gerst í þessum málum og því eðlilegt að slá niður varnöglum við þetta.
Sjáum hvað setur.
Karl Garðars says
Hvar er Wesley Sneijder???
_einar_ says
Það er búið að vera fabúlera með að LVG verði rekinn udanfarnar vikur og stóllinn ansi heitur þrátt fyrir sigurinn á liverppol. Á meðan þetta óvissuástand ríkir með LVG held ég að stjórnin sé ekki að fara rétta honum mikinn pening til að eyða í nýja leikmenn að hans skapi. Liðið þarf augljóslega á styrkingu að halda, en ég er hræddur um að það sé ekki að fara gerast einsog staðan er í dag.
Kostuleg þessi slúðurvél sem fer á fullt tvisvar á ári. Nú er hálfur heimurinn orðaður við United.. Bale, Ronaldo, Cavani og meira að segja Pep að laumupúskast á hóteli með United mönnum þrátt fyrir að það sé eitt verst geymda leyndarmál boltans að hann sé að fara taka við City í sumar. Varðandi Cavani, hann er frábær leikmaður, en 40m fyrir 29 ára framherja frá Úrúgvæ? Held það yrði aðeins of mikið gamble fyrir leikmann frá S-Ameríku og hugsanlega kominn fram yfir ‘best before’ dagsetninguna og tæki líklegast eitthvað tíma í að aðlagast enska boltanum.
Runólfur Trausti says
Ég er reyndar ekki svo viss að Pep sé að fara taka við City. Allavega ekki ennþá.
Fyrir mér er Pep soddan knattspyrnu rúnkari – hann er búinn að vera hjá Barcelona og Bayern, tvö risastór félög með mjög langa og sigursæla sögu.
Ég held að hann vilji taka við álíka verkefni á Englandi, þá heillar United eflaust aðeins meira en City + að United virðist eiga nóg af peningum til að berjast við City á leikmannamarkaðinum.
Ég myndi ganga svo langt að segja að Pep sé líklegri til að taka við Arsenal en City, Wenger gæti þarna séð hinn fullkomna arftaka til að taka við liðinu, tala nú ekki um ef þeir vinna deildina.
En miðað við spádómsgáfur mínar kæmi ekkert á óvart að hann myndi svo hoppa til City. Vonandi að hann haldi bara áfram sama mynstri og forverar hans, vinni deildina með yfirburðum á fyrsta tímabili og svo fer allt í háaloft.