Leikirnir koma hreinlega á færibandi þessa dagana alveg nákvæmlega eins og það á að vera þegar komið er fram í það sem menn kalla ‘The business end‘ tímabilsins.
Það er nokkuð bjart yfir okkar mönnum þessa dagana eftir það sem ég vil meina að sé besti sigur United frá þvi að Sir Alex Ferguson steig til hliðar. Það var eitthvað við það að sjá alla þessa krakka sem hafa verið hjá United frá 7-8 ára aldri pakka einu sterkasta Arsenal-liði seinni ára saman.
Ólíkt því sem Woodward heldur þá er það þetta, ungir uppaldir leikmenn, sem félagið snýst um og allt það sem félagið á að einbeita sér að, frekar en að heilla einhver núðlufyrirtæki og eltast við kaup á ofurstjörnum sem munu hvort sem er aldrei ganga til liðs við félagið.
Marcus Rashford og félagar hafa kveikt nýtt líf í mannskapnum og í fyrsta sinn á þessu tímabili finnst manni eins og eitthvað sé á réttri braut, loksins. Eftir þrjá fína sigra og mjög skemmtilega leiki er komið að Watford á Old Trafford.
Watford
Ef ekki væri fyrir hið undraverða ævintýri Leicester væri Watford hiklaust spútnik-lið deildarinnar. Nýliðirnar hafa staðið sig frábærlega á tímabilinu og sitja í 10.sæti með 37 stig, einu minna en Liverpool og 7 stigum á eftir okkar mönnum. Það er afar fátítt að nýliðar nái svona góðum árangri og Watford-menn eru því góð klisja: Sýnd veiði en ekki gefin.
Það verður hinsvegar að segjast eins og er að Watford er ekki að næla í stig gegn liðunum í efsta þriðjungi deildarinnar, þ.e. liðunum sem raða sér í efstu sjö sætin. Af þeim 10 leikjum sem liðið hefur spilað við United, City, Leicester, Spurs og hin liðin hefur það aðeins unnið einn og gert eitt jafntefli, rest hafa tapast. Sigurinn kom gegn West Ham og jafnteflið gegn Southampton.
Eigendurnir og leikmannakaup
Það er hin ítalska knattspyrnufjölskylda Pozzo sem á Watford. Fjölskyldan er ýmsu vön enda á hún einnig í spænska liðinu Granada og ítalska liðinu Udinese. Það er Gino, sonur Giampaolo Pozzo, sem sér um rekstur Watford. Nýta þeir feðgar tengslin við hin liðin óspart til þess að hjálpa Watford á markaðinum og sem dæmi um þá nefna að Odion Ighalo, helsta stjarna liðsins, spilaði áður bæði fyrir Granada og Udinese.
Þeir virðast vita hvað þeir eru að gera með þetta lið og það verður að segjast eins og er að hin fjölmörgu leikmannakaup liðsins fyrir tímabilið hafi heppnast ansi vel. Liðið fékk til sín nokkuð stór nöfn, að minnsta kosti miðað við Watford. Leikmenn eins og Etienne Capoue, Jose Juarado og Valon Behrami mættu á svæðið.
Stjórnendur og þjálfarar bættu svo bara í í janúarglugganum og fengu til liðs við félagið fjóra nýja leikmenn, þar á meðal Mario Suarez sem varð Spánarmeistari með Atletico fyrir ekki svo löngu síðan. Það er því ágætur metnaður í gangi hjá Watford og ljóst að þetta lið er komið til að vera í Úrvalsdeildinni eftir nokkuð jójó á milli deilda undanfarin ár.
Helstu leikmenn
Þeirra bestu menn mynda hið stórskemmtilega og líklega eitraðasta framherjapar deildarinnar. Troy Deeney og Odio Ighalo spila frammi og hafa sýnt að það þarf ekki alltaf að spila 4-2-3-1 með djúpa miðjumann og mann í holunni, nei. Stundum svínvirkar það einfaldlega að vera bara með 4-4 fokking 2.
Ighalo er búinn að skora 14 mörk og er með markahærri mönnum í deildinni. Deeney þessi er hinsvegar meira í stoðsendingunum með 8 mörk og 6 stoðsendingar. Þeir eru alveg eitraðir saman frammi og ljóst að vörn United mun þurfa að eiga býsna góðan leik til þess að hemja þessa drengi.
Í markinu er svo góðvinur okkar Herheulo Gomes að ganga í gegnum endurnýjun lífdaga en hann hefur staðið sig mjög vel og verið besti maður Watford ásamt framherjunum tveimur. Hann hefur haldið hreinu tíu sinnum á tímabilinu, aðeins Hart og Cech eru með betri árangur.
Gomes virðist þó sjaldan eiga góðan dag gegn United. Það er ekki langt síðan hann fékk á sig fimm mörk í einum hálfleik gegn United og hver getur svo gleymt þessu marki sem Nani skoraði á hann fyrir ekki svo löngu?
United
Meiðslataflan er enn sem fyrr frekar svakaleg en sem betur fer talaði Louis van Gaal í dag um að nokkrir leikmenn á töflunni frægu gætu mögulega verið með á morgun. Það virðist þó reyndar ekki skipta neinu máli, það er alltaf hægt að sækja í hinn óendanlega sjóð sem unglingastarf United er.
Af þeim sem eru meiddir ber helst að nefna að Anthony Martial og Matteo Darmian séu klárir í slaginn. Ég myndi þó segja að það sé alls ekki víst að þeir labbi í liðið eftir frammistöðu Rashford og Varela í síðustu leikjum.
Bæði Chris Smalling og Marcos Rojo eru í kannski-flokknum en stjórinn sagði líklegt að Rojo yrði klár í slaginn.
Stóra spurningin er einfaldlega hvort Rashford eigi að fá að byrja eftir frábæra frammistöðu gegn Arsenal. Ég myndi segja að hann ætti það skilið auk þess sem að það gæti verið hyggilegt að ganga úr skugga um það að Martial sé 100% klár í slaginn áður en hann snýr aftur. Leikjaprógrammið framundan er ansi stíft og við viljum hafa okkar mann heilan fyrir það.
Varela á að mínu mati hiklaust að fá sénsinn áfram. Mér þótti það mjög aðdáunarvert hvernig hann náði að núlla út Alexis Sanchez gegn Arsenal um helgina, sérstaklega miðað við það að fyrstu 10 mínúturnar leit út fyrir að Sanches myndi valta yfir Varela. Okkar maður er einnig mjög góður í að styðja við sóknina sem er jákvætt, mér finnst United aldrei spila betur undir stjórn LvG en þegar bakverðirnir eru mættir til að hjálpa til í sókninni.
Ég vona að LvG geti nýtt tækifærið núna á Old Trafford með því að nota þá sem eru að koma úr meiðslum sparlega á morgun. Strákarnir sýndu að þeir ráða fyllilega við verkefnið og því ómetanlegt að geta notað þá til þess að hjálpa til við þetta ruglaða leikjaprógram sem framundan er.
Leikurinn á morgun er ansi mikilvægur. Liðið er í ákveðinni uppsveiflu og umræðan í kringum liðið er loksins orðið jákvæð. Þetta er hinsvegar eitthvað sem við höfum séð áður. Allt frá því að Louis van Gaal tók við höfum við séð þetta ganga svona, það skiptast á skin og skúrir og alltaf þegar liðið er búið að setja saman smá sigurhrinu og maður heldur að nú sé allt að fara á blússandi siglingu kemur tapleikur.
Leikurinn á morgun er ansi mikilvægur. Eftir hrottalegt gengi fyrir áramót er staðan einfaldlega þannig að ef liðið ætlar sér að ná 4. sætinu má það einfaldlega ekki við þvi að tapa mikið fleiri stigum. Það er algjör frumskylda að vinna leikina á Old Trafford og þá sérstaklega þessa leiki gegn nýliðunum, sama hversu vel gengur hjá þeim. United á alltaf að vinna Watford á Old Trafford, sama hvað.
Það er gott og blessað að vinna Arsenal en sá sigur skiptir nánast engu máli ef liðið sigrar ekki á morgun.
Þrjú stig, takk.
Leikurinn er á morgun, miðvikudag og hefst klukkan 20.00
Auðunn Atli says
Ég trúi ekki öðru en að síðustu sigrar hafi gefið liðini gott sjálfstraust, nógu mikið til að klára svona leiki.
Það eru svo margir plúsar við að þessir strákar séu að fá tækifæri og nýta sér þá vel, einn er sá að menn eins og Fellaini, Rooney ofl sem hafa ekki staðið sig á þessu tímabili hafa fengið samkeppni loksins og labba ekki svo glatt inn í liðið aftur, þeir þurfa að berjast fyrir sinni tilveru hjá klúbbnum.
Þessir menn ásamt fl hafa spilað allt of marga leiki á þessu tímabili þar sem þeir hafa ekki getað nokkurn skapaðan hlut.
Van Gaal á að halda sig við þessa yngri menn ef þeir eru í standi, amk í svona leik.
Rashford og Varela hafa verið frábærir og ég var líka hrikalega ánægður með innkomu Timothy Fosu-Mensah (alvöru nafn) og finnst að haænn mætti líka alveg fá fleiri sénsa.
Ætli það sé ekki hlutverk Van Gaal að koma þessum strákum til manna, vinna þessa undirbúningsvinnu, byggja upp lið með þessum strákum fyrir Ryan Giggs sem tekur svo við sumarið 2017? Mikið helv er mig farið að gruna að það hafi alltaf verið planið með ráðningu Van Gaal því það eru færri betri en hann að vinna með ungum leikmönnum og hjálpa þeim að taka næstu skref.
En að þessum leik aftur, trúi ekki öðru en að United taki þetta 3-0 .. kannski er maður orðin of bjartsýnn.. Sjáum til.
Halldór Marteinsson says
Takk fyrir góða upphitun :)
Þetta gæti orðið strembinn leikur. Hætt við að Watford bakki vel og treysti á að vera þéttir fyrir.
En United virðist vera komið með svar við slíkri taktík miðað við síðustu leiki. Unglingar, meira sjálfstraust í Memphis og aggresífur Juan Mata. Ef þessir hlutir kikka inn í kvöld eins og í síðustu leikjum þá ætti þetta að verða solid United sigur
Rauðhaus says
Enginn Carrick í hópnum, því miður.
Verður spennandi að sjá hver mun spila í miðverðinum.
Ætli það verði ekki Rojo og Blind. Darmian í LB og Varela í RB.
Bjarni Ellertsson says
sama gamla taugaveiklunin í vörninni að gera vart við sig, heppnir að vera ekki undir 1-2 mörkum. Líst illa á framhaldið, leikmenn augljóslega þreyttir og ráða ekki við sig. En vonandi girða menn sig í brók,okkur vantar 3 stig í kvöld sem aldrei fyrr.