Erfiður en alveg afskaplega mikilvægur sigur á Watford staðreynd. Juan Mata skoraði sigurmarkið á 83. mínútu. Liðin fyrir ofan okkar töpuðu öll stigum í þessari umferð þannig að United nær að saxa vel á.
Skoðum hvernig leikurinn gekk fyrir sig.
Byrjunarliðið var svona ca. eins og búist var fyrir utan það að Timothy Fosu-Mensah byrjaði leikinn í fyrsta sinn á sínum United-ferli. Juan Mata bar fyrirliðabandið og Marcus Rashford, Memphis og Martial mynduðu framlínu United. Þetta var ansi ungt lið og ekki var bekkurinn eldri.
23y 222d – Manchester United have tonight named their 4th youngest starting XI in PL history. Fledglings.
— OptaJoe (@OptaJoe) March 2, 2016
Bekkur: Romero, McNair, Darmian, Riley, Lingard, Rothwell, Weir.
Watford
Gomes; Nyom, Britos, Prödl, Holebas; Capoue, Watson, Behrami; Abdi, Deeney, Ighalo.
Bekkur: Pantilimon, Cathcart, Paredes, Ake, Suarez, Anya, Amrabat.
Fyrri hálfleikur
Leikurinn byrjaði nokkuð rólega. Bæði lið voru að þreifa fyrir sér og þetta var svona hin klassíska stöðubarátta fyrsta korterið. Watford-menn voru þó örlítið skeinuhættari og fékk Ighalo tvö hálffæri, fyrst eftir lélega sendingu frá Fosu Mensah og svo aftur eftir slappa sendingu frá Blind.
Fyrir utan þetta var ekkert endilega hægt að sjá að Fosu-Mensah væri að spila sinn fyrsta byrjunarliðsleik fyrir United. Hann átti nokkrar mjög góðar tæklingar, sérstaklega á 20. mínútu þegar Ighalo prjónaði sig í gegnum vörnina en okkar maður gjörsamlega át hann í tæklingunni inn í teignum og náði boltanum af framherjanum hættulega.
Skömmu áður hafi Schneiderlin átt besta færi og líklega eina færi United í fyrri hálfleik. United fékk aukaspyrnu á kantinum eftir að Rashford gerði vel í að komast framfyrir varnarmann Watford. Mata gaf fyrir og boltinn barst út í teiginn til Schneiderlin sem tók hann viðstöðulaust. Boltinn rétt smaug framhjá stönginni og þetta var í raun bara millimetraspursmál.
Eftir þetta kom smá hraði í leikinn og United komst nokkrum sinnum í hættulegar stöður án þess þó að mikið kæmi út úr því. Memphis átti tvo hrottaleg skot eftir að hafa gert vel fyrir utan teiginn. Það var mjög hvasst á Old Trafford í kvöld og það spilaði sína rullu, í það minnsta í fyrri hálfleik.
Um miðbik hálfleiksins náði samt Watford tökum á leiknum. Í fyrsta lagi lokuðu miðjumennirnir gríðarlega vel á sóknarbyggingu United þannig að hún fjaraði út í nánast hvert skipti og aftur og aftur þurftu varnar- og miðjumenn okkar að negla boltanum fram án þess að neitt kæmi úr því.
Gestirnir voru svo mjög skeinuhættir í skyndisóknum og voru í tvígang mjög nærri því að skora og í bæði skiptin var það Ighalo.
Á 37. mínútu slapp hann í gegn eftir innkast að mér sýndist. Rojo var sofandi í bakverðinum og Ighalo náði að stinga sér í gegn. Fosu-Mensah gerði hinsvegar gríðarlega vel í því að hlaupa hann uppi og náði unglingurinn okkar að þröngva Ighalo í þröngt færi sem David de Gea gat varið.
Á 42. mínútu varð svo misskilningur á milli Blind og De Gea sem varð til þess að Ighalo, sem var mjög öflugur í fyrri hálfleik, komst einn á móti De Gea en Spánverjinn varði feykilega vel.
Staðan var hinsvegar 0-0 í hálfleik og manni leist ekki á blikuna enda saga þessa tímabils að þegar United er slakt í fyrri hálfleik er það slakt í seinni hálfleik.
Seinni hálfleikur
Hálfleikurinn hófst raunar eins og sá fyrri endaði. Watford menn voru gríðarlega þéttir og náðu að stoppa alla sóknaruppbyggingu United. Þeir pressuðu grimmt á vörn United og strax á 46. átti Blind, í þriðja sinn í leiknum, skelfilega sendingu sem varð til þess að Ighalo fékk boltann einn inn í vítateig United. Að þessu sinni var þó Fosu Mensah mættur og náði að trufla Ighalo nægilega.
Rashford bjargaði svo á línu þegar Sebastian Prödl skallaði að marki eftir hornspyrnu. Þetta leit ekkert sérstaklega vel út fyrir United.
Louis van Gaal er þó eldri en tvævetur í bransanum og hann setti Rashford úti á hægri kant og Martial upp á topp í kringum 60. mínútu og þá fóru hlutirnir að gerast.
Aftur og aftur keyrði Rashford á bakvörðinn sem var í stökustu vandræði með hann. Við þetta virtist United skipta upp um gír og United tók öll völd á vellinum.
United tókst reyndar ekki að skapa sér afgerandi færi en loksins tókst að þrýsta Watford niður á völlinn og það varð til þess að á endanum skoraði United mark. Áður en það kom fékk Mata gott skotfæri inn í teignum og skömmu áður hafði Gomes varið vel eftir að Mata átti bylmingsskot fyrir utan teiginn. Þetta var miklu betra frá United og markið lá í loftinu.
Það kom hinsvegar ekki fyrr en á 83. mínútu þegar Martial, sem hafði frekar hægt um sig í leiknum, fiskaði aukaspyrnu fyrir utan teiginn. Það var fyrirliðinn sjálfur Juan Mata sem steig upp og skoraði líklega eitt af mikilvægustu mörkum tímabilsins beint úr aukaspyrnu. Alveg stórkostlegt mark.
Skömmu áður hafði Watford verið nærri því að skora þegar Prödl skallaði boltann nanómillimetra framhjá stönginni. United sigldi svo sigrinum heim fyrir rest.
Hvað þýðir þessi sigur?
Í stuttu máli. United er hreinlega aftur komið í baráttuna um efstu fjögur sætin. Manchester City tapaði, Arsenal tapaði, Tottenham tapaði og Leicester gerði jafntefli. Við erum búin að jafna City að stigum sem á reyndar leik til góða. Svona er staðan í deildinni.
Allt í einu munar bara 4 stigum upp í 3. sæti og 7 stigum upp í 2. sætið. United is back in business!
Nokkrir punktar og pælingar
Marcus Rashford
Það er í raun honum að þakka að United vann þennan leik. Það var hans kraftur og hans áræðni, hans hræðsluleysi við að hlaupa á varnarmenn sem kveikti í United í seinni hálfleik. Það hafði raun ekki mikið sést til hans í fyrri hálfleik þegar hann var frammi en það var afskaplega vel gert hjá Louis van Gaal að færa hann á hægri kantinn, það breytti í leiknum. Framtíðin er hans.
Timothy Fosu Mensah
Hann komst merkilega klakklaus frá þessum leik og var í raun mun betri en samherji hans í miðvarðarstöðunni Daley Blind. Fosu Mensah kom Blind raunar til bjargar í tví- eða þrígang eftir slakar sendingar Hollendingsins. Okkar maður var að spila sinn fyrsta byrjunarliðsleik og stóð sig virklega vel þó auðvitað hafi hann gert sín byrjendamistök. Heilt yfir var þetta þó mjög jákvæð frammistaða. Það er líka mikill kostur að maðurinn er byggður eins og skriðdreki og ótrúlega snöggur í þokkabót.
Seiglusigur
United spilaði þennan leik í raun ekkert sérstaklega vel. Watford-menn komust í góð færi og með smá heppni ef þeir átt að ná forystu í leiknum. United var dapurt í fyrri hálfleik og þegar hefur gerst á tímabilinu hefur sú frammistaða smitast yfir í seinni hálfleikinn.
Ekki í þetta sinn. Það má hrósa leikmönnum United fyrir að stíga upp í seinni og sækja þennan ótrúlega mikilvæga sigur. Þetta var vinnslusigur og lið þurfa að eiga nokkra svona á hverju tímabili ætli þau sér eitthvað. Það er ekki hægt að yfirspila andstæðinginn í hverjum leik. Manni finnst eins og United vinni bara leikina þegar það spilar vel og það er styrkleikamerki að sigla sigrinum heim þrátt fyrir að hafa ekki verið að spila neitt frábærlega.
Ég ætla að enda þetta á tveimur tístum sem mér finnst eiga vel við stöðuna eins og hún er í dag.
Hasn't felt like this at the football for ages. Everyone else losing and United banging in a late winner? Fucking get in.
— Scott Patterson (@R_o_M) March 2, 2016
Það er mikið til í þessu. Það er aftur orðið gaman að horfa á United spila. Eins og ég sagði áðan var United ekkert að spila neitt frábærlega í kvöld en það er allt annað yfirbragð yfir öllu hjá United. Hlekkirnir eru farnir af liðinu og menn spila með meira frjálsræði. Það er uppsveifla í gangi hjá United og ef liðinu tekst loksins að halda þessari sigurhrinu áfram gæti tímabilið endað á hinn þokkalegasta hátt.
Scabby 1-0 wins are brilliant when they’re important scabby 1-0 wins. Imagine where we’d be if we didn’t throw away 5 points last month.
— Chris Cooper (@chrislovescass) March 2, 2016
Það er líka margt til í þessu. Og það er hægt að horfa lengra aftur í tímann. United gekk í gegnum eitthvað það daprasta tímabil sem ég hef orðið vitni að sem stuðningsmaður í nóvember og desember. Ímyndið ykkur ef 1-2 af þeim leikjum hefðu unnist.
Allavega. Fjórir sigurleikir í röð, leikmenn úr akademíunni að brillera. Þetta er United eins og það á vera og við viljum meira svona.
Kjartan says
Gætum hæglega verið undir, Watford eru búnir að eiga hættuleg færi. Persónulega hafði ég meiri áhyggjur af þessum leik heldur en leiknum seinustu helgi, LvG hefur verið að lenda í erfileikum með lið eins og Watford. Þessi fyrri hálfleikur minnir mig á leikinn á móti Norwich.
Bjarni Ellertsson says
Sammála en mér finnst komin eðlileg þreyta í mannskapinn, erfitt að keyra alltaf á fullu gasi eins og 3 síðustu leikir á stuttum tíma.
Kjartan says
Hrikalega óverðskulduð 3 stig en fullt hús engu síður. Watford átti 1 stig skilið heldur öll 3, hörmuleg frammistaða.
Runar says
Meistaradeild.. here we come!
Sveinbjörn says
Ósammála #3 að Watford átti að fá öll stigin. Sanngjörn niðurstaða hefði líklega verið jafntefli, þó ég sé ekkert að hata þrjú stigin.
Watford átti fyrri hálfleikinn skuldlaust og við 90% af seinni. Munurinn á liðunum í kvöld var hins vegar bara vinstri fóturinn á Juan Mata. Þeir nýttu ekki eitt af þeim aragrúa af færum sem þeir fengu, en við nýttum eitt.
Ekkert er gefið við það að sigra Watford í því formi sem þeir voru í í kvöld. Öll liðin í deildinni hefðu átt í erfiðleikum með það.
Þetta er það sem gerir ensku deildina mun skemmtilegri og meira spennandi en hinar stóru í Evrópu. Það er hörkuleikur í hverri einustu umferð, það er ekkert lið sem þú getur garanterað unnið með varaliðinu. Sérstaklega ekki nú í lok tímabilsins þegar meira að segja botnliðin verða hvað best.
Með fullri virðingu fyrir Real Madrid, Barca, og Bayern, þá sæji ég þau ekki vera jafn mikið yfirburðalið í ensku deildinni og þau eru í sínum heimalöndum. Þú getur ekkert verið að slaka neitt á þegar öll lið berjast eins og sultnir hundar í hverjum einasta leik. Það væri að minnsta kosti áhugavert að sjá hvernig þau myndu standa sig í þeim aðstæðum.
En aftur að leiknum..
Varela, Schneiderlin, og Mata fannst mér vera bestir, þá sérstaklega Varela. Hann hleypur stanslaust upp og niður kanntinn, og þegar hann tapar boltanum vinnur hann hann bara aftur.
Blind finnst mér arfaslakur í þessari miðvarðarstöðu (ekki skrýtið þar sem það er ekki staðan hans) og vona ég innilega að Smallarinn verði heill sem fyrst.
Annars erum við á fjögurra leikja sigurhrinu, og finnst mér hlutir vera loksins að smella hjá okkur þegar allt gamla byrjunarliðið er á meiðslalistanum. Er farinn að skemmta mér yfir leikjunum okkar, og farinn að trúa að við náum jafnvel að taka fram úr City.
West Brom næstu helgi. Bring it on!!
Karl Garðars says
Gríðarlega mikilvæg 3 stig. Ég varð smeykur þegar hann tók Herrera út af en þetta hafðist.
Menn voru skemmtilega graðir á köflum og ég er mjög hrifinn af þessu liði fyrir utan Dalay fokking Blind. Ég veit að þetta er ekki staðan hans og allt það en kræst on a cracker hvað þetta manngrey með allt sitt andleysi fer í mínar fínustu. Squadplayer-punktur.
Að öðru leiti fannst mér allir fínir og þetta lið samanspilað og fullmannað með tvo miðverði gæti gert fína hluti. Rashford og Fosu-Mensah eru að standa undir væntingum og rúmlega það.
Hjörvar Ingi says
Eitthvað mikið sem böggar mig að lesa „Manchester tapaði“ þegar það er átt við City
Heiðar says
Mensah maður leiksins að mínu mati. Gjörsamlega frábært að sjá hvernig hann tókst á við það sem voru í raun úrslitaaðstæður ca. 10x í leiknum. Oftar en ekki eftir mistök frá Blind. Það mæddi í raun miklu meira á Mensah í dag en myndi gera á venjulegum degi. Virkilega flottur.
Það er svo sem of snemmt að fara að spá fyrir um enda tímabilsins en hitt veit ég að ef við höldum áfram á sömu braut, vinnum leiki og það með akademíustráka brillerandi þá verður voða erfitt fyrir stjórnina að ætla að neita van Gaal um að klára samninginn sinn (út næsta tímabil). Just sayin’!
Runar says
ég sá bara síðustu 2mín af fyrri hálfleik og get því lítið sagt, en fannst okkar menn vera mjög frískir og graðir (horny) að ósk LVG í þeim seinni, mjög sáttu við spilamennskuna og Varela var klárlega maður leiksins!
Tryggvi Páll says
@Hjörvar Ingi
Þarna átti vissulega að standa Manchester City.
Komst einnig ekki í að minnast á Schneiderlin og Varela sem voru ansi sterkir í kvöld. Schneiderlin er að græða á því að fá að spila marga leiki í röð og ég er ansi hræddur um að Varela sé búinn að slá Darmian út úr þessari hægri bakvarðarstöðu.
Hannes says
Á sama tíma og maður fagnar að við séum að nálgast toppliðin að þá svíður alveg rosalega núna að hafa hent frá okkur ölllum þessum stigum eins og Norwich og Southampton heima, báðir leikirnir gegn Newcastle og hörmungin gegn Sunderland.
Siggi P says
Skyldi þó ekki vera við laumum okkur í Meistaradeildina. Það væri þá fyrst og fremst vegna hruns annarra liða. Tek fram að ég sá ekki leikinn í kvöld. Ef við náum inn í CL þýðir það bara eitt: 9 meiri mánuðir af rússibanareið með Van Gaal. Kannski bara allt í lagi.
Rauðhaus says
DDG – 9: Besti markvörður heims, við vitum það öll. Gerði allt fullkomlega í kvöld.
Varela – 8: Þessi strákur er heldur betur að stíga upp. Ég fíla hann í botn. Improved Rafael.
Fosu-Mensah – 8: Frábær, þvílíkt efni sem þetta kjötstykki er.
Blind – 3: Einn slakasti leikur sem ég hef séð manninn spila. Virtist harðákveðinn í því að gefa andstæðingnum mark/mörk á silfurfati. Hefur verið traustur í vetur en var afleitur í kvöld.
Rojo – 6: Var ágætur, kom með nokkrar ágætar fyrirgjafir en maður sá að það dró af honum þar sem hann er að stíga upp eftir langtímameiðsli. En gott að hafa hann aftur heilan.
Schneiderlin – 7: Öflugur og ósérhlífinn, Miklu betri í dag en í síðasta leik þar sem hann kostaði okkur bæði mörkin.
Herrera – 7: Solid eins og venjulega.
Mata – 8: Slakur í fyrri hálfleik en mjög góður í þeim seinni. Markið gæti reynst ótrúlega mikilvægt.
Memphis – 6: Slakari en síðustu tvo leiki og átti í vandræðu með að skila boltanum vel frá sér. Samt ógnandi.
Martial – 7: Upp og niður, inn og út. Var í erfiðleikum með að komast í takt við leikinn þarna hægra megin en breyttist þegar hann var orðinn fremstur. Fékk aukaspyrnuna sem skilaði markinu.
Rashford – 7: Ekki sama fyrirsagnaframmistaðan og í síðustu leikjum, en engu að síður frábær eftir að hann fór út hægra megin. Algjörlega frábært að fylgjast með honum undanfarna daga.
Georg says
Sáu þið hraðann í leiknum?!?!
Ég hef átt erfitt með að sannfæra konuna um að endurnýja sjónvarpið en eftir þennan leiftarbolta þá verður það pís of keik ,leikmenn voru blörri á skjánum hjá mér !!
Geðveikur leikur sem hélt mér á sætisbrúninni allann leikinn og vá hvað kikkið var mikið þegar Mata skoraði úff.
Blind skelfilegur og Darmian helst bara lélegur þegar hann kom inná.
Annars frábær frammistaða, meistaraheppin komin aftur?
Dogsdieinhotcars says
Ég ætla bara að segja það: Jesse Lingard er vanmetnasti leikmaður United, og er einn af lykilmönnunum í jákvæðu gengi undanfarna daga. Áfram Lingard.
Runólfur Trausti says
Missti af leiknum en miðað við highlights pakkann þá er hálf ótrúlegt að United hafi stolið sigri. Var vel við hæfi að elsti leikmaður liðsins og fyrirliði innsiglaði sigurinn.
Ætla ekki að ganga svo langt að kalla þetta „Meistaraheppni“ en „Meistaradeildarheppni“ er kannski betra hugtak í dag.
Það er allavega bjart yfir mannskapnum og margir leikmenn að koma til baka – vonandi helst stemmningin í liðinu áfram út tímabilið.
Hvað varðar liðið þá er þetta það sem ég hef verið að bíða eftir, Juan Mata á bakvið þrjár rakettur fram á við. Þá fyrst máttu spila með tvo holding miðjumenn. Tala nú ekki um þegar bakverðirnir fara með fram.
Að því sögðu þá finnst mér menn vera full æstir yfir Varela, mjög fínn en að sama skapi orsakar hann oft stórhættu þegar hann heldur ekki línu varnarlega. Monreal færið gegn Arsenal kom einmitt þegar Varela sat eftir og allavega tvisvar í gær var hann fyrir aftan hafsentana og orsakaði það stórhættu.
En frábær úrslit og nú er bara að vona að liðið heldur þessu áfram gegn free flowing og free scoring WBA á sunnudaginn.