Góður vinur Rauðu djöflanna er hér mættur á ný, Halldór Marteinsson lagðist í rannsóknir á bakvarðaskiptingum Louis van Gaal og varð vel við bón okkar um að fá að birta þær hér.
Bakvarðaskiptingar Manchester United
Eftir því sem liðið hefur á tímabilið hefur mér fundist pirringur út í að því er virðist endalausar bakvarðaskiptingar van Gaal fara stigmagnandi. Ég hef fundið það hjá sjálfum mér auk þess sem ég hef séð sífellt fleiri kaldhæðnar vísanir í bakvarðaskiptingar á hinum ýmsu samfélagsmiðlum í umræðum um Manchester United. Þegar enski boltinn fór í páskafrí ákvað ég að skoða hvort þessi pirringur væri rökréttur eða hvort maður væri kannski að mikla þetta mál aðeins fyrir sér.
Ég byrjaði á að telja einfaldlega bakvarðaskiptingarnar. Ákvað að hafa þetta einfalt bara, miðaði eingöngu við 4ra manna varnarlínu og þegar bakverði væri skipt útaf án þess að uppstillingin breyttist.
Miðað við stöðuna um páskana þá er ca. fjórða hver skipting bakvarðaskipting. Í meirihluta leikja, 26 af 48, eru ýmist 1 eða 2 bakvarðaskiptingar. Það virkar alveg frekar mikið. Matteo Darmian hefur spilað 32 leiki á tímabilinu, í 16 þeirra hefur hann ýmist komið inn á eða farið út af.
Ég ákvað að skoða þetta aðeins betur og flokka niður eftir keppnum til að athuga hvort það væri mikill munur þar á.
Það þarf auðvitað lítið til í þeim keppnum þar sem leikir eru fáir til að tölurnar sveiflist meira til. Ef aðrar keppnir en enska deildin eru sameinaðar þá eru leikirnir þar 18, skiptingarnar samtals 52 (2,9 pr. leik), bakvarðaskiptingar 11 (21,2% skiptinga) og tími milli bakvarðaskiptinga ca. 147 mínútur.
Mér fannst tölfræðin í ensku deildinni ansi áhugaverð. Rétt tæplega fjórða hver skipting þar er bakvarðaskipting og miðað við tölurnar má áætla að það séu bakvarðaskiptingar hjá United í 2 af hverjum 3 leikjum. Til að sjá almennilega hvort það sé eitthvað eðlilegt við þessar tölur eða hvort pirringurinn sé réttlætanlegur lá því beinast við að henda í samanburð við liðin í kringum United í deildinni. Ég ákvað að taka efri helming deildarinnar í þessum samanburði.
Þetta er eiginlega alveg ótrúlegt. Samanburðurinn sýnir mjög skýrt að þessi pirringur er ekki út af engu, Manchester United hefur hreinlega verið að gera fáránlega mikið af bakvarðaskiptingum á þessu tímabili. Næsta lið á eftir Manchester United er Southampton með helmingi færri bakvarðaskiptingar, þrátt fyrir að hafa spilað einum leik meira í deildinni. Manchester United er með að meðaltali einn og hálfan deildarleik á milli bakvarðaskiptinga, Arsenal er með 15 leiki á milli bakvarðaskiptinga. Manchester United er með fleiri bakvarðaskiptingar í 30 leikjum en efstu fjögur liðin eru samtals með í 122 leikjum.
Ég lagðist svosem ekki í ítarlega greiningu á öðrum skiptingum liðanna en tók samt alveg eftir því í gegnum þetta grúsk að það var áberandi mest um skiptingar á sóknarsinnaðri mönnum. Kantmenn, holumenn og framherjar myndu líklega skora hæst hjá öllum liðum. Enda skiljanlegt, þar er sennilega líklegast að hægt sé að hafa taktískustu áhrifin á leikinn með skiptingum, þarna eru liðin með fjölbreyttari leikmenn sem valkosti heldur en í bakvarðastöðunum.
Að lokum langaði mig að skoða hvort hægt væri að sjá einhvern greinanlegan mun á árangri liðsins eftir fjölda bakvarðaskiptinga. Svo ég kíkti á úrslit leikja og mörk skoruð eftir því hvernig bakvarðaskiptingum var háttað í leikjum.
Nú er líklega rétt að setja fyrirvara við niðurstöðurnar. Þetta er fyrst og fremst til gamans gert og ekki ætlunin að halda því fram að þarna sé um beina orsök og afleiðingu að ræða. En þó, samkvæmt þessu fer maður líklega að hugsa það í næstu leikjum að ef það kemur á annað borð bakvarðaskipting þá sé betra að önnur fylgi í kjölfarið.
Af öllum þessum bakvarðaskiptingum var nánast alltaf um að ræða varnarmann inn fyrir varnarmann, yfirleitt alltaf bakvörður fyrir bakvörð en þó stundum miðvörður inn fyrir bakvörð en oftar en ekki fór sá miðvörður þá í bakvörðinn (t.d. Fosu-Mensah). Aðeins einu sinni sá ég bakvarðaskiptingu nýtta beint í taktískum tilgangi. Það var í seinni leiknum gegn PSV í meistaradeildinni þann 22. nóvember. Þá kom Juan Mata inn á fyrir Matteo Darmian og Ashley Young bakkaði við það í bakvörðinn.
En hvernig er staðan þessa dagana? Er þetta að minnka eða færast í aukana? Miðað við síðustu 10 leiki í öllum keppnum er staðan þannig að heildarfjöldi skiptinga eru 29, þar af eru bakvarðaskiptingarnar 10. U.þ.b. þriðja hver skipting er bakvarðaskipting, ein slík pr. leik. Í síðustu 5 leikjum eru 6 bakvarðaskiptingar. Sama ef við tökum bara deildina, í síðustu 5 deildarleikjum eru 6 bakvarðaskiptingar. Af hinum liðunum í topp 10 eru 4 þeirra með 2 bakvarðaskiptingar, 3 lið með 1 bakvarðaskiptingu og 2 lið með enga bakvarðaskiptingu í síðustu 5 deildarleikjum. Þetta virðist vera að aukast hjá United ef eitthvað er.
Það sem ég skoðaði hins vegar ekki í þessu grúski mínu var nákvæmar ástæður skiptinganna. Vissulega hafa meiðsli spilað stóra rullu í þessu. Mér finnst alveg líklegt að van Gaal vilji, líkt og flestir knattspyrnustjórar, halda varnarlínu sinni sem mest óhreyfðri. En það útskýrir samt ekki allt og það verður að segjast að pirringur stuðningsmanna með bakvarðaskiptingar virðist eiga fyllilega rétt á sér.
Auðunn Atli says
Hluti af þessu eru þau stóru mistök sem gerð voru síðast liðið sumar að treysta á Jones og versla ekki miðvörð eða miðverði.
Það er alltaf verið að hræra með vörnina og þá helst bakverðina því menn spila nokkra leiki og meiðast svo.
Ég skil vel að hann vilji fara varlega með menn eins og Rojo og svo hefur Darmian engan vegin staðið undir væntingum þannig að þetta er í sjálfu sér ekkert auðvelt að eiga við.
Ef liðið væri betur mannað í miðverðastöðum þá væri ástandið miklu betra, það er skárra að notast við Blind í vinstri bak en í miðverðinum þar sem hann á alls alls alls ekki heima.
Halldór Marteinsson says
Tvær leiðréttingar í fljótu bragði:
1) Valencia hefur 4 sinnum komið inná fyrir Darmian en ekki 5 sinnum.
2) Bakvarðaskiptingarnar í enska bikarnum eru bara 2 so far, ekki 3.
Karl Garðars says
Virkilega góð greining hjá þér Halldór. Þetta er merkilegur fjandi með karlgarminn og þessar skiptingar. Þetta er svo spot on að það er ekki einu sinni hægt að ræða þetta!! :)
Mér finnst stundum eins og stóra planið fyrir leiktíðina hafi verið að spila 2 holding miðjumönnum og sækja á bakvörðunum með þá Shaw og Darmian (Valencia og Young til vara). Innkaupin benda svolítið til þess og að Rooney hafi átt að skora 60 mörk. Svo meiddust þessir 4 bakverðir auk Rojo og loftið fór úr blöðrunni. Sama hvernig fer þá verð ég alltaf þakklátur fyrir þessa leiktíð því ég tel að akademían komi mun sterkari út úr þessu öllu.
En hvað segja bændur núna þegar Sörinn er búinn að bakka LVG upp formlega… Er það vegna þess að hann ætlar að troða Giggs að sem stjóra eða vegna þess að hann vill alls ekki Móra inn. Þó maður viti ekkert hvað er í gangi á bak við tjöldin þá er maður farinn að óska þess að línurnar fari að skýrast, það er ekki hollt fyrir neinn í þessu sambandi að hafa hlutina svona.