Á morgun koma lærisveinar Alan Pardews í heimsókn á Old Trafford.
Í mjög stuttu máli þá er þetta frekar einfalt, til að halda draumnum um að spila í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili þá þarf leikurinn á morgun að vinnast. Mjög einfalt.
En við skulum þó aðeins fara ofan í saumana hérna.
Crystal Palace
Eftir að hafa gert 0-0 jafntelfi við okkar menn í lok október þar sem þeir voru almennt á fínu róli þá fór allt til fjandans og er Crystal Palace búið að sogast niður í fallbaráttu. Þeir eru þó níu stigum frá fallsæti svo þeir hafa eflaust ekki of miklar áhyggjur af því að spila í Championship deildinni á næsta ári.
Með það í huga þá hefur Alan Pardew sagst ætla að hvíla nokkra leikmenn á morgun sökum þess að undanúrslit FA bikarsins fara fram um helgina. En þar mætir Crystal Palace nýliðum Watford á meðan okkar menn mæta Everton í hinum leiknum.
Þrátt fyrir að hafa ekki unnið í síðustu fimm heimsóknum á Old Trafford þá kemur Crystal Palace á ágætis skriði inní leikinn á morgun. Þeir hafa unnið Norwich,gert jafntefli við Arsenal og West Ham í síðustu þremur leikjum. Það er því ljóst að vanmat mun ekki skila United neinu á morgun.
Talið er að Yannick Bolasie, Scott Dann. Joel Ward og Joe Ledley missi allir af leiknum.
Okkar Menn
Fyrir utan afhroðið gegn Spurs núna um daginn þá hafa okkar menn unnið fjóra af síðustu fimm leikjum. 1-0 sigrar unnust á Manchester City, Everton og Aston Villa á meðan West Ham United var sigrað 2-1. Var Marcus Rashford aðalmaðurinn eins og undanfarnar vikur.
Í sigrinum gegn Aston Villa þá gerði Louis Van Gaal þónokkrar breytingar á liðinu svo stóra spurningin hvort einhver af þeim sem kom inn haldi sæti sínu. Talið er að Van Gaal sé með hugann við Everton leikinn um helgina í FA bikarnum og hvíli því nokkra leikmenn.
Hvað meiðslalistann varðar þá sitja Luke Shaw, Adnan Januzaj, Bastian Schweinsteiger og Will Keane enn sem fastast á téðum lista en Van Gaal staðfesti að Ander Herrera kæmi inn í hópinn.
Miðað við blaðamannafund Van Gaal þá má reikna með því að Rashford byrji þar sem hann er vægast sagt heitur fyrir framan mark andstæðingana þessa dagana en drengurinn hefur tryggt sigra aftur og aftur undanfarnar vikur. Á fundinum var hann spurður út í Arsenal og möguleikann á því að enda í topp fjórum en hann svaraði með því að liðið gæti aðeins einbeitt sér að sínum eigin leikjum og það væri planið. Að lokum hrósaði hann þjálfara u21 liðsins, Warren Joyce, í hástert en virðist sem Van Gaal sé mjög sáttur með þjálfarann sinn.
Jákvæðar fréttir fyrir leikinn eru þær að bati Luke Shaw gengur mjög vel þó hann sé ekki enn farinn að æfa með liðinu. Miðað við þá jákvæðni sem geislar af Shaw í viðtali við heimasíðu félagsins þá er vonandi að hann finni sitt gamla form um leið og hann snýr aftur á völlinn. Held að allir geti verið sammála um að liðið hefur saknað hans gífurlega í vetur.
Leikurinn hefst klukkan 19:00 á morgun.
Bjarni Ellertsson says
Enn og aftur fáum við tækifæri til að komast nær fjórða sætinu og þá er bara að biða og sjá í kvöld hvort menn eru klárir eða ætla að spara sig fyrir Wembley næstu helgi. Spái sigri en ekki öruggum.
GGMU