Nokkuð þægilegur 2-0 sigur á Crystal Palace í kvöld.
Liðið sem hóf leik var eftirfarandi;
Bekkurinn; Romero, Fosu-Mensah, Rojo, Young, Fellaini (’77), Herrera (’71) og Memphis (´64 mín).
Það fyrsta sem maður tók eftir þegar leikurinn byrjaði var að stúkan var hálftóm. Að sama skapi var augljóst að Morgan Schneiderlin var í rauninni eini djúpi miðjumaður United í fyrri hálfleik. Fyrir framan hann voru svo Juan Mata og Wayne Rooney, á vængjunum voru svo Anthony Martial og Jesse Lingard.
Okkar menn byrjuðu leikinn af krafti og strax eftir 4. mínútur átti Matteo Darmian fyrirgjöf af vinstri kantinum sem hrökk af Demian Delaney og í netið, staðan orðin 1-0. United hélt öllum völdunum á vellinum og fékk Martin Kelly gult spjald stuttu síðar fyrir að reyna toga í Martial eftir að Frakkinn þaut framhjá honum.
Hvað varðaði leikskipulagið þá var augljóst að Lingard og Martial áttu að þrýsta mikið inn völlinn og báðir bakverðir United sóttu stíft upp vængina. Allavega fyrstu mínútur leiksins þar sem United reyndi að pressa Crystal Palace út um allan völl. Svínvirkaði hún þar sem Palace komust varla yfir miðju fyrstu 10 mín. leiksins. Eftir það róaðist leikurinn aðeins.
Eftir um hálftíma leik tók United aftur völdin og átti þónokkur skot á markið en Julian Speroni stóð vaktina vel í markinu og staðan því 1-0 í hálfleik.
Síðari hálfleikurinn var í raun mjög svipaður og fyrri hálfleikurinn. United byrjaði mjög vel og eftir 53. mínútur fékk United horn. Ótrúlegt en satt þá ákvað Daley Blind að lúðra boltanum inn í teig í stað þess að taka stutt horn. Þar var boltinn skallaður út þar sem Darmian tók boltann á bringuna áður en hann HAMRAÐI honum stöngin inn.
Eftir það virtust bæði lið nokkuð sátt með stöðuna en leikurinn spilaðist út mjög svipað og fyrri hálfleikurinn. Crystal Palace ógnaði lítið sem ekki neitt og United var nálægt því að bæta við.
Lokatölur 2-0.
West Ham United vann sinn leik og eru því aðeins stigi á eftir okkar mönnum en eftir jafntefli nágranna okkar í bláu þá eru aðeins tvö stig á milli liðanna þó svo að Arsenal sitji á milli okkar í töflunni með leik til góða.
Nokkrir punktar
a) Mjög fagmannleg frammistaða. Liðið spilaði fínan fótbolta og núlluðu Crystal Palace algjörlega út.
b) Hluti af punkti a) var örugg frammistaða Chris Smalling. Ekki í fyrsta skipti í vetur. Setti hann Emanuel Adebayor í vasann og leiddi það til þess að David De Gea þurfti ekki að verja skot í kvöld.
c) Það var þó annar varnarmaður sem stal athyglinni í dag en maður leiksins var Matteo Darmian með mark og stoðsendingu. Einnig tók hann Wilfried Zaha og setti í rassvasann en það er vert að benda á að Zaha er sá leikmaður í úrvalsdeildinni sem er með flestar heppnaðar Take ons. Vonandi að Ítalinn haldi þessu áfram út tímabilið því hann þarf nauðsynlega á sjálfstraustinu að halda.
d) Eins gaman og mér finnst að sjá nýjar útfærslur á föstum leikatriðum þá held ég að einu mörkin sem United hefur skorað eftir horn í vetur er þegar boltanum er bombað beint inn í teig frekar en að taka stutt krúsídúllu horn.
d) Magnað hversu vel spilandi liðið er þegar það er aðeins einn djúpur miðjumaður að stjórna spilinu.
e) United er núna búið að vinna sex heimaleiki í röð, og haldið hreinu í fimm þeirra. Vonandi er liði að detta í smá gír núna þegar squeeky bum time á tímabilinu er að fara í gang.
Lýsendurnir töluðu sérstaklega um hvað völlurinn var tómur í lok leiks.
Karl Garðars says
Skelfilegt var að sjá öll auðu sætin á vellinum. Ég man bara ekki eftir því að það hafi farið svona í augun á mér áður.
Allnokkrir góðir sprettir hjá okkar mönnum og þegar ég sá t.d byrjunarliðið þá tók sig upp gömul bjartsýni hjá manni f.u. að ég hefði viljað sjá Fosuh Mensa inni fyrir Darmian sem svo hægeldaði óþveginn 30 ára lopasokk og tróð honum niður í skeifugörn á mér.
Mér fannst þessi miðja skemmtileg og Rooney sýndi það sem ég hef óskað sem heitast eftir í nokkur ár, smá Scholes takta. Þessi stórkostlega áhættusækni LVG að spila bara með einn varnarsinnaðan miðjumann mátti bara alls ekki klikka því mér hefur frekar þótt karlinn mun líklegri hingað til að fjölga þeim í 3 jafnvel 4 (líkast til eru meiðsli eina ástæðan fyrir því að ekki hafi á það reynt hingað til.)
En þó okkar menn hafi átt ágæta spretti og nokkur skot á rammann þá voru Crystal Palace alveg hreint sorglega lélegir í þessum leik og ég verð mjög hissa ef Pardew þjálfar þarna á næsta ári. Óeiningin skein í gegn hjá þessu liði og Speroni og léleg skot okkar manna björguðu þeim frá algjörri niðurlægingu.
Heiðar says
Missti af leiknum. Er búinn að hlaupa yfir helstu atriði og verð að segja að þeir eru ekki margir leikirnir í vetur þar sem United hefur átt svona mörg færi og hálffæri. Innkoma Rooney virðist hafa sitt að segja enda líður þeim minna reyndu greinilega vel með hann sem kjölfestuna.
Auðunn says
Ég er ekkert bjartsýnn á topp 4 og þó það næðist þá væri alveg eftir bókinni að það myndi ekki duga til þess að fá sæti í meistaradeildinni að ári. Nefni ekki liðið sem gæti komið í veg fyrir það.
Jú jú svo sem betri spilamennska en þetta Crystal Palace lið gat ekki rass og hafði engan áhuga á þessum leik.
Já ég var hissa á þessum auðu sætum, ekki eitthvað sem maður sér á Old Trafford í úrvalsdeildinni.
Hver skýringin er veit ég ekki en ef menn og konur eru hætt að nenna að mæta á völlinn vegna spilamennsku liðsins þá eru dagar Van Gaal senn taldir.
Það verður þá ströggl að selja ársmiða fyrir næsta tímabil ef hann verður áfram og það munu eigendur og stjórn ekki líða.
Runólfur Trausti says
Biðst afsökunar á sömu myndinni tvisvar og smá klúðri í lýsingunni á fyrra marki liðsins.
Maður var bara eftir sig eftir þessa rosalegu frammistöðu.
Annars er sæti í top4 alveg mikil bjartsýni þar sem liðið á jú eftir að fá Leicester í heimsókn og fara aftur til West Ham (sem hafa ekki tapað í síðustu 15 heimaleikjum í deildinni).
Ps. Jú ætli Rooney hafi ekki verið ágætur í gær. Átti nokkra fína Hollywod bolta og svona.
Siggi says
Voru auðu sætin ekki vegna þess að leikurinn var færður af næstu helgi fram um hálfa viku? Öll liðin sem spila undanútslit FA Cup lentu í þessu. Ferðamenn sem voru búnir að bóka næstu helgi hafa kannski ekki komið eða skipt yfir á Wembley á laugardag. En það að svona margir áhorfendur séu ferðamenn sem koma bara á einn leik er svo sem umhugsunarefni líka.