Á morgun klukkan 16:15 er Manchester United er að fara að spila undanúrslitaleik í FA bikarnum á Wembley Stadium. Í gegnum árin hefur United verið tíður gestur á Wembley, hvort sem það var í Samfélagsskildinum, deildarbikar nú eða jafnvel í úrslitaleik Meistaradeildar. Hlutirnir hafa hinsvegar ekki alltaf gengið upp hjá okkur í FA bikarnum síðan liðið vann bikarinn árið 2004. United hefur tapað í úrslitum gegn bæði Arsenal (2005) og Chelsea (2007) og svo tapað undanúrslitum gegn einmitt Everton (2009) og Man City (2011). Þrátt fyrir að þessi bikar hafi vafist fyrir okkur þá hafði liðið alltaf í nógu að snúast á öðrum vígstöðvum og verið í bullandi séns að vinna aðra titla. Þar af leiðandi hefur la-la árangur í FA bikarnum kannski ekki truflað okkur svo mikið.
Núna er tíðin aftur á móti önnur, leikurinn á morgun er klárlega mikilvægastur fyrir sálarlíf stuðningsmanna United því liðið hefur ekki verið í meira dauðafæri til að vinna eitthvað síðan Sir Alex Ferguson hætti. Þó úrslitaleikir í bikar geti alltaf dottið hvernig sem er þá verður að teljast líklegast, bara út frá tölfræðinni, að sá sem fer með sigur á hólmi á morgun sé líklegri til vinna annað hvort Crystal Palace eða Watford í úrslitaleiknum á Wembley þann 21 maí (ég afsaka jinxið hér með).
Everton
Tímabilið hjá Everton hefur verið mikil vonbrigði. Eftir snaggaralega spilamennsku undir stjórn Roberto Martínez síðustu tvö ár hefur liðinu hrakað töluvert á þessu tímabili og sitja aðeins í 11 sæti, 2 stigum frá 16 sætinu. Þeir hafa til dæmis ekki landað sigri í síðustu 6 leikjum og þar á meðal er háðuleg útreið í grannaslagnum gegn Liverpool á miðvikudaginn þar sem liðið tapaði 4-0.
Nokkuð er um forföll í hópnum hjá Everton, sérstaklega hjá mikilvægum varnarmönnum. Hvorki Jagielka né Coleman verða með og síðan fór John Stones af velli gegn Liverpool og er því á mörkunum að vera leikfær, sömu sögu má segja um Gareth Barry sem er í basli með nárann á sér. Í sama leik var Funes Mori vikið af leikvelli eftir eftir glórulausa tæklingu og verður hann því í banni gegn United. Þrátt fyrir allt þetta þá munu þeir leikmenn sem mæta til leiks verða æstir í að rétta skútuna við og bjarga tímabilinu á lokametrunum með sigri í FA bikarnum.
United
Við eigum það sameiginlegt með Everton að tímabilið hefur hingað til verið svolítil vonbrigði. Ég held að enginn hafi svo sem búist við því að United myndi fara alla leið og vinna ensku deildina, en eins og deildin hefur spilast í vetur þá verður að segjast að United missti af góðu tækifæri til að gera mun betur en þeir hafa gert. Liðið hefur þó verið að rétta úr kútnum undanfarið og spilað miklu betri bolta, sem hefur skilað 5 sigrum í síðustu 6 leikjum. Það er því enn von að klára tímabilið með stæl, vinna FA bikarinn og enda í 3-4 sætinu á undan Arsenal og/eða Man City. Það væri vel ásættanlegt tímabil miðað við hvernig allt hefur þróast.
Leikmenn eru meira og minna komnir aftur inn í hóp eftir endalausa meiðslasögu í vetur þannig að við ættum að geta stillt upp nokkurn veginn sterkasta hóp, fyrir utan Shaw og Schweinsteiger auðvitað. Liðið mun eflaust líta út einhvern veginn svona:
Ég vona auðvitað að við munum frekar sjá Herrera og Schneiderlin í liðinu á kostnað Carrick og Fellaini en miðað við róteríngar Louis Van Gaal hingað til þá spilar Schneiderlin einungis í deildarleikjum. Mér þykir því líklegt að LVG verði með tvo varnarsinnaða miðjumenn til að eiga við hina sterku miðju Everton. Það er reyndar alveg séns að hann setji Herrera inn fyrir Mata fari með liðið í 4-3-3 eins og gegn West Ham, en mér þykir það þó ólíklegt.
Ég held að það sé óhætt að segja að þetta sé mikilvægasti leikur sem United hefur spilað síðan þeir áttust við Wolfsburg í Þýskalandi þann 8 desember. United féll á því prófi en núna er sjúkrapróf og það er um að gera að nýta tækifærið, þau koma ekki á hverju ári.
Ég hef trú á þessu!
Skildu eftir svar