Jæja, síðasti leikur tímabilsins er á morgun þegar Eddie Howe og hans menn koma í heimsókn.
Louis Van Gaal reyndi að sannfæra menn um að sæti í Meistaradeildinni að ári væri enn möguleiki á blaðamannafundinum í gær. Með tapinu gegn West Ham í síðustu umferð þá verður samt að segjast að þeir möguleikar eru litlir sem engir. Jafntefli í þeim leik hefði gert það að verkum að Manchester City hefði þurft að fara til Wales og vinna Swansea, en núna dugir þeim að tapa ekki!
Swanseamenn hafa að engu að keppa og eru eflaust farnir að hugsa um sumarfríið sitt, ofan á það verða þeirra bestu leikmenn flestir í fríi en þeir hafa fengið leyfi til að hlaða rafhlöðurnar fyrir Evrópumótið í sumar. Þar má nefna Lukasz Fabianski, Neil Taylor, Ashley Willams og að sjálfsögðu Gylfa Sigurðsson.
Van Gaal talaði sömuleiðis um að endurkomu Luke Shaw væri frestað fram á næsta tímabil en hann hefur þó hafið æfingar með strákunum en æfir sem stendur með U21 liðinu frekar en aðalliðinu. Lítið annað markvert kom fram á blaðamannafundinum nema að hann telur að liðið þurfi að bæta sig miðað við síðustu tvö tímabil… sannkallaður Sherlock Holmes hér á ferðinni. En að leik helgarinnar;
Okkar menn
Eins og áður sagði, ef okkar menn hefðu sigrað West Ham þá væri þetta í okkar höndum og myndi sigur á morgun duga. Því miður er ekki svo og þurfa knattspyrnuguðirnir að sjá aumur á Louis Van Gaal ef United á að skríða í Meistaradeildina að ári. Það kom svo sem ekki á óvart að United hafi ekki unnið West Ham en þrátt fyrir gott gengi undanfarið, meðal annars sigur gegn Hömrunum, þá hafa frammistöðurnar undanfarið hálf máttlausar.
Liðið slefaði sigur á arfaslöku lið Norwich í leiknum á undan og var í raun heppið að vinna lélegasta lið deildarinnar (Aston Villa) á Old Trafford stuttu áður. Það verða eflaust margir hérna ekki sáttir með það en undirritaður er handviss um að United hefði staðið mun betur að vígi ef Marouane Fellaini hefði verið til staðar gegn West Ham, í sumum leikjum þarftu einfaldlega einn stóran fant til að hjálpa til og maðurinn með krullurnar er sá fantur. Ekki skemmir að hann er yfir 1,9 metrar á hæð. Ofan á allt þetta þá var hann búinn að vera í ágætis standi í aprílmánuði þar sem hann skoraði meðal annars í sigrinum gegn West Ham og í undanúrslitum bikarsins gegn Everton. Ofan á allt þetta hefði hann átt að fá víti gegn Leicester City fyrst FA sambandið dæmdi Robert Huth sömuleiðis í bann, því miður þá hljóp skapið í okkar mann og smellti hann olnboganum á sér í grímuna á Huth.
Að því sögðu þá verður liðið gegn Bournemouth eflaust mjög svipað og gegn West Ham, það eru engin ný meiðsli fyrir utan að greyið Adnan Januzaj fékk högg á æfingu og missir af leiknum. Það verða eflaust einhverjar breytingar og spurning hvort Jesse Lingard komi inn. Að sama skapi má reikna með að Michael Carrick komi inn á miðjuna fyrir Morgan Schneiderlin. Fyrir mína parta væri ég til í að sjá Juan Mata í holunni með smá hraða í kringum sig, Memphis mætti alveg fá mínútur á hægri vængnum til dæmis.
Svo eru auðvitað Luke Shaw, Will Keane, Matteo Darmian, Bastian Schweinsteiger og Ashley Young á meiðslalistanum ásamt Januzaj.
Mótherjinn
Bournemouth sitja í 16. sæti og er í raun nokkuð síðan þeir björguðu sér frá falli. Mjög solid fyrsta tímabil fyrir Eddie Howe og hans menn, ef maður fær að sletta aðeins. Það er lítið um meiðsli hjá þeim og hafa þeir örugglega sett sér það markmið að vinna á morgun og með því tekst þeim að vinna Manchester United bæði á heimavelli sem og útivelli á sama tímabilinu. Það væri ekki amalegur endir á tímabilinu fyrir nýliðana.
Á Twitter síðu Rauðu djöflanna settum við fram lauflétta könnun þar sem aðdáendur máttu velja hvort þeir vildu reka Van Gaal eða Ed Woodward, en aðeins mátti velja annan. Eftir 116 atkvæði vann Van Gaal kosninguna með 55% atkvæða. Undirritaður telur hlut Woodwards ekki jafn veigamikinn og Van Gaal og því mikilvægara að losa sig við Van Gaal frekar en Woodward. Að því sögðu þá tel ég að félagið þurfi nauðsynlega einhvern yfirmann knattspyrnumála eða ráðgjafa við hlið Woodwards til að hjálpa honum með hin ýmsu málefni sem viðkoma knattspyrnahluta félagsins. Hann er einfaldlega of viðskiptalega þenkjandi að mínu mati.
Að lokum rak ég augun í þá staðreynd á Twitter að á síðustu 25 árum hefur United aðeins tvisvar endað tímabilið með mínus markatölu á útivöllum. Annað þessara tímabila er tímabilið sem er að klárast, hitt tímabilið var í fyrra! Tek þó fram að þetta var á Twitter og hefur engin rannsóknarvinna verið lögð í að staðfesta umrædda staðreynd. Sömuleiðis hefur komið í ljós af þeim 52 mörkum sem liðið hefur fengið á sig hefur 21 þeirra komið eftir fast leikatriði, fyrir mann sem er jafn varnarsinnaður og taktískt þenkjandi og Van Gaal er það hreinlega óskiljanlegt. Sérstaklega þegar litið er til þess að liðið getur varla skorað eftir fast leikatriði til að bjarga lífi sínu.
Að öllu þessu sögðu þá hefur liðinu gengið ágætlega og ég held hreinlega að leikmennirnir telji sig skulda stuðningsmönnunum það að standa sig í síðustu tveimur leikjum tímabilsins OG HVER VEIT, KANNSKI VINNUR SWANSEA BARA MANCHESTER CITY! Allavega, 2-0 heimasigur á morgun og svo er það Wembley.
Bjarni says
Huth átti þetta skilid, sigur á morgun og City jafnar á síđustu mínútu, þar hafid þiđ þađ.
Siggi P says
United vinnur ósannfærandi sigur. City slefa í 1:1 jafntefli með marki í uppbótartíma og fara í Meistaradeild á markamun. Kannast einhver við það…