Það er komið að því að henda þessu tímabili í gang. Þrátt fyrir að Evrópumót karlalandsliða hafi svo sannarlega hjálpað til við að stytta biðina í sumar þá getur maður ekki sagt annað en: loksins! Samkvæmt hefðinni byrjar tímabilið á Samfélagsskildinum, leiknum þar sem skorið er úr um hvaða lið er meistari meistaranna. Deildarmeistarar Leicester City gegn bikarmeisturum Manchester United.
Manchester United vann enska bikarinn. Það var auðvitað ekkert nema frábært. Sérstaklega á þann hátt sem liðið gerði það. Tvisvar var liðið með bakið rækilega upp við vegginn, fyrst þegar United lenti undir og skammt eftir af leiknum. En þá brettu leikmenn upp ermarnar og náðu í jöfnunarmark. Svo aftur í framlengingu þegar United missti leikmann af velli. Það skipti engu, United vann bara samt. Karakter!
Undirbúningstímabilið hjá Manchester United hefur ekki verið alveg eins og best er á kosið. Eins gott og EM2016 (*búmm* *búmm* HÚH!) var fyrir okkur fótboltaglápendur þá raska svona stórmót iðulega undirbúningsvinnu félagsliðanna, sérstaklega hjá liðum sem eiga marga leikmenn sem komast langt í stórmótinu og þurfa því frí lengra inn í sumarið. Þessi ferð til Kína var síðan ekki til að bæta á það, aðstæðurnar ömurlegar í flesta staði og missa svo út einn af æfingaleikjunum. En það er þá gott að fá þennan leik til að gefa leikmönnum fleiri mínútur.
Leicester City komu öllum á óvart síðasta vetur með því að vinna ensku deildina. Og það m.a.s. frekar sannfærandi. Allan veturinn var beðið eftir því að Leicester-blaðran myndi springa, að liðið myndi missa dampinn og að önnur lið myndu læra inn á Leicester og stöðva sigurgönguna. En það bara gerðist ekki, eina liðið sem lærði almennilega á Leicesterliðið var Leicesterliðið sjálft, þegar hægðist á markaskorun þá einfaldlega þétti liðið vörnina hjá sér og fann sífellt lausnir þegar á reyndi. En þetta var nú örugglega bara one season wonder, er það ekki? Það er allavega það sem flestir búast við. Sem er kannski akkúrat eins og Leicester vill hafa það.
Leicester missti ekki alveg jafn marga leikmenn í EM eins og Manchester United. Á meðan 10 leikmenn United fóru til Frakklands fóru 4 frá Leicester. Hefðu getað verið 5 en af einhverjum ástæðum ákvað Roy Hodgson bara að skilja Danny Drinkwater eftir heima (HAHAHAHA!). Einn þessara 4 leikmanna var Frakkinn N’Golo Kanté sem er nú farinn til Chelsea. En Leicester hefur að mestu náð að halda í sína sterkustu leikmenn (allavega ennþá) þótt það sé vissulega mjög stórt skarð að fylla þegar Kanté er horfinn á braut. En á móti hafa þeir fengið annan Frakka, Nampalys Mendy. Honum hefur verið líkt við Makélélé, það er alls ekki slæmt. Auk þess hafa þeir fengið nígeríska sóknarmanninn Ahmed Musa. Hann keyptu þeir á metupphæð fyrir Leicester, 16,6 milljón pund (það hefði dugað sem metupphæð hjá Manchester United fram að júní 2001 þegar Ruud van Nistelrooy kom á 19 milljón pund).
Manchester United hefur unnið samfélags-/góðgerðarskjöldinn oftast allra liða, alls 20 sinnum. United vann fyrstu viðureignina um skjöldinn, árið 1908, og það var í eina skiptið sem leiknir voru 2 leikir til að fá niðurstöðu í málið eftir að fyrri leikurinn endaði með jafntefli. Eftir það sögðu reglurnar einfaldlega að lið deildu titlinum ef leikurinn endaði með jafntefli. Því var svo skipt út síðar fyrir vítaspyrnukeppni, enda er ekkert alltof mikið stuð að deila titli með öðru liði, sérstaklega ef það lið er t.d. Liverpool. United hefur 4 sinnum þurft að deila skildinum en 16 sinnum setið eitt að honum. Næstu lið á eftir eru Liverpool með 15 sigra (10 sinnum unnið, 5 sinnum deilt með öðru liði) og Arsenal með 14 (13 sinnum unnið, 1 sinni deilt).
Frá því Manchester United vann úrvalsdeildina fyrst, árið 1993, og þar til Sir Alex Ferguson lagði knattspyrnustjóratyggjóið á hilluna tók Manchester United þátt í 15 leikjum af 20 um góðgerðar-/samfélagsskjöldinn. Liðið vann 9 þeirra en tapaði 6. Af þessum 15 leikjum fóru 6 í vítaspyrnukeppnir, þar sem United vann fyrstu 5 en tapaði svo fyrir Chelsea í vító árið 2009. Mourinho hefur ekki náð jafngóðum árangri í þessari „keppni“. Hann hefur 4 sinnum tekið þátt með Chelsea, tapað 3 sinnum og unnið 1 sinni (2-1 sigur á Arsenal árið 2005).
Leicester City hefur einu sinni tekið þátt í leiknum um skjöldinn áður. Það var árið 1971. Það ár hafði að vísu Arsenal unnið tvöfalt en gat svo ekki tekið þátt í þessari viðureign vegna þess að liðið hafði samið um að spila leiki í æfingaferðalagi á sama tíma. Leicester City, sem hafði unnið 2. deildina um vorið, var því boðið að taka þátt í leiknum í staðinn og spila gegn Liverpool sem hafði tapað fyrir Arsenal í úrslitaleik enska bikarsins. Leicester gerði gott betur en að taka þátt því þeir unnu Liverpool og hömpuðum skildinum það ár.
Dómarinn í þessum leik verður Craig Pawson. Hann er nokkuð ungur dómari, fæddur árið 1979, en hefur þó verið að dæma fótboltaleiki síðan 1993. Hann hefur dæmt í úrvalsdeildinni síðan 2013. Hann hefur til þessa dæmt 7 leiki hjá Manchester United og hefur United ekki enn tapað leik þegar hann er á flautunni. 5 sigrar (m.a. 3-2 sigur gegn Arsenal á síðasta tímabili) og 2 jafntefli. Merkilegt nokk þá kom hann nærri báðum leikjum þessara liða í deildinni á síðasta tímabili. Hann dæmdi þann fyrri, sem fram fór í Leicester, en var svo 4. dómarinn á Old Trafford. Báðir þessir leikir enduðu 1-1.
Leicester hefur getað spilað á nokkurn veginn sterkasta liðinu sínu í undirbúningnum. Bæði þeir sem fóru á EM (utan Kanté auðvitað) og nýju leikmennirnir hafa getað spilað 1-4 undirbúningsleiki. Þessi leikur hefur oft verið kallaður uppblásinn (e. glorified) vináttuleikur en báðir stjórar hafa blásið á slíkar fullyrðingar. Ranieri:
CR: “This is not a friendly. We will give the maximum and also Manchester Untied will too. Both teams want to win it.” #CommunityShield
— Leicester City (@LCFC) August 5, 2016
Og Mourinho sagði á móti að leikurinn við Leicester væri ekki æfingaleikur heldur alvöru leikur sem hann vildi vinna. Þetta er í fyrsta skiptið sem United fer í leik um Samfélagsskjöldinn síðan árið 2013 þegar United vann Wigan í fyrsta alvöru leiknum undir stjórn nýs stjóra. Nú er svipuð staða upp á teningnum en það er samt ærin ástæða til að vera spenntari fyrir nánustu framtíð núna en fyrir 3 árum.
Ég held að byrjunarliðið verði svipað og byrjaði gegn Everton. Það eru auðvitað nokkur spurningamerki, sérstaklega þar sem þetta er undirbúningsleikur og allt það. Ég myndi halda að Mkhitaryan kæmi inn fyrir Lingard. Smalling og Fosu-Mensah fá mínútur en þar sem þeir hafa verið meiddir (auk þess sem Smalling missir af leiknum í 1. umferð í deildinni hvort sem er) þá held ég að þeir byrji ekki heldur komi frekar inn á. Svo er spurning með öftustu 2 miðjumennina. Ég held að þar sé Carrick enn það besta sem United hefur, þegar þessi uppstilling er spiluð. Svo er spurning hver verður með honum. Pogba kemst ekki, hann er enn fastur í limbói í landi hinna eilífu 48 klukkustunda svo það verður að bíða betri tíma. Schneiderlin gæti auðvitað byrjað, eða jafnvel Fellaini. Bastian kemur víst ekki til greina, Mourinho er búinn að gera það alveg skýrt. Ætla að tippa á Herrera þar.
Leikurinn hefst klukkan 15:00 að íslenskum tíma.
Ingi Utd says
Vinnum þetta 3-1, Zlatan 2 og Marcial.
Spái okkur einnig sigri í deildinni þetta season.
Egill says
3-0 sigur allan daginn, Zlatan kemur okkur yfir og Rooney hendir í tvennu.
Bjarni says
1-1, Mikitaryan međ mafkið. Líklega komumst við í evrópukeppnina að ári.
Pétur GGMU says
Tökum þetta 3-1 Zlatan setur 2 og Carrick hendir í eitt
Runar P says
Ég er með £5 á 3-1 sigur ManUtd :)
Hjörvar Ingi Haraldsson says
https://youtu.be/G529Iv2a0-Q
Full time devils að ræða um leikinn
Hjörvar Ingi Haraldsson says
Og já, spái 3-1 fyrir United (sé okkur ekki halda hreinu því miður)
Hjörtur says
Bjartsýnir menn hér að ofan, en það er svo sem gott að vera bjartsýnn. En það er komið 1-0 fyrir Utd þar sem Lingard sólaði leicester menn.og stutt í hálfleik. Rooney lélegur að mínu mati vil sjá hann út í hálfleik