Annað árið í röð dregst Manchester United með félagi frá Hollandi í Evrópukeppni. Í ár tekur United hins vegar ekki þátt í Meistaradeild Evrópu heldur hinni víðfrægu Evrópudeild sem við höfum fengið að kynnast fullvel á undanförnum árum.
Klukkan 17:00 á morgun hefst Evrópuævintýri okkar manna í Rotterdam, Hollandi. Þetta er fyrsti leikur United af þremur á útivelli í þremur mismunandi keppnum. Það sem gerir leikinn á morgun ef til vill enn sérstakari er að þetta er völlurinn þar sem United lagði Barcelona í Evrópukeppni Bikarhafa árið 1991.
Félögin hafa aðeins mæst tvisvar áður, það var á tímabilinu 1997/1998 en þá drógust liðin saman í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. United vann báða leikina það tímabil og vonumst við eftir að liðið endurtaki það í ár. Fór leikurinn í Hollandi það tímabilið 3-0 og var Andy Cole með öll mörkin, vonandi verða framherjar liðsins jafn heitir fyrir framan markið á morgun.
Evrópudeildin
Við höfum nú þegar fjallað um Evrópudeildina og allt sem henni fylgir hér á síðunni, svo ef lesendur vilja vita meira þá mæli ég með greininni hér og hér.
Mótherjinn
Það eru nokkur kunnugleg andlit í liði Feyenoord. Þjálfara liðsins, Giovanni van Bronckhorst, ættu flest að kannast við en hann spilaði meðal annars með Feyenoord, Rangers, Arsenal og Barcelona. Einnig skoraði hann þetta mark fyrir Hollendinga á HM 2010 ásamt því að vera fyrirliði þeirra í úrslitaleiknum gegn Spáni.
Eftir að hafa lagt skóna á hilluna þó hoppaði hann beint inn í þjálfarateymi Feyenoord sem aðstoðarþjálfari þangað til hann tók við liðinu á síðustu leiktíð og vann meðal annars hollensku bikarkeppnina.
Lykilmenn mótherja
Helstu nöfnin sem maður kannast við í leikmannahópi félagsins eru fyrrum leikmenn Liverpool. Þar má nefna Dirk Kuyt sem er enn í fullu fjöri, skoraði hann meðal annars 23 mörk á síðasta tímabili.
Síðan er það markvörðurinn Brad Jones sem kom frá fyrrum félagi Hannes Þórs Halldórssonar, NEC Nijmegen, en hann var einmitt fenginn eftir að Hannes meiddist á öxl. Flestir muna þó eftir honum eftir tíma hans hjá Middlesbrough og svo Liverpool en þar átti hann afleitan leik í 3-0 tapi gegn okkar mönnum fyrir tveimur árum síðan eða svo.
Að lokum má nefna Eljero Elia en hann á meðal annars 28 landsleiki fyrir Holland og var á láni hjá Southampton árið 2015. Hann hefur byrjað tímabilið vel og gæti loksins, 29 ára gamall, að verða sá leikmaður sem margir héldu að hann yrði. Hann hefur meðal annars spilað fyrir Hamburger SV, Juventus, Werder Bremen ásamt nokkrum hollenskum liðum.
Okkar menn
José Mourinho hefur gefið í skyn hvernig byrjunarliðið sem hann stillir upp á morgun verður. Það er nokkuð ljóst að helsta vonarstjarna United og Englands, Marcus Rashford, mun byrja leikinn.
Að sama skapi hefur Mourinho sagt að Henrikh Mkhitaryan og Jesse Lingard muni ekki byrja eftir slæma frammistöðu í nágrannaslagnum um helgina. Nú í dag kom í ljós að hvorki Mkhitaryan né Phil Jones voru á æfingu félagsins í morgun. Samkvæmt helstu fréttamiðlunum þarna úti þá verður Mkhitaryan meiddur næstu 10 daga en það setur enn stærra spurningamerki við þessa ákvörðun að láta hann byrjar Manchester slaginn núna síðustu helgi.
Einnig er vert að nefna að samkvæmt PhysioRoom.com að Luke Shaw er einnig á meiðslalistanum en mig grunar að það sé ekki alvarlegt og hugmyndin hafi nú alltaf verið að hvíla drenginn þar sem hann á eflaust ekki góðar minningar frá Hollandi.
Miðað við fögur orð Mourinho um Ander Herrera eftir leik helgarinnar má áætla að hann byrji á morgun. Hann sagði meðal annars að innkoma Herrera hefði gert liðinu kleift að vinna boltann ofar á vellinum og að sama skapi að pressa ofar á vellinum. Mourinho hrósaði einnig hugarfari Herrera og sagði að hann hefði verið „phenomonal in his attitude“.
Persónulega vill ég nota Evrópukeppnina sem spiltíma fyrir alla þá leikmenn sem hafa lítið eða ekkert spilað. Til þess hreinlega að gefa mönnum mínútur sem þess þurfa. Mig grunar að Mourinho róteri meira en hann er vanur en eflaust verða einhverjir sem byrjuðu leikinn gegn City áfram í liðinu. Það er þó hádegisleikur á sunnudaginn og því væri ég til í að sjá gjörbreytt lið og helstu lykilmenn og ellismelli alla hvílda á morgun.
Hópurinn sem Mourinho tekur til Hollands er eftirfarandi; David De Gea, Sergio Romero, Sam Johnstone; Matteo Darmian, Eric Bailly, Daley Blind, Timothy Fosu-Mensah, Marcos Rojo, Chris Smalling; Michael Carrick, Marouane Fellaini, Ander Herrera, Juan Mata, Memphis, Paul Pogba, Morgan Schneiderlin, Ashley Young; Zlatan Ibrahimovic, Anthony Martial og Marcus Rashford.
Ég ætla ekki að spá fyrir um byrjunarlið en ég væri þó til í að sjá Darmian, Smalling, Fosu-Mensah, Carrick, Schneiderlin, Herrera, Memphis, Martial og Rashford byrja leikinn. Meira segi ég ekki.
Að lokum spái ég 2-1 sigri okkar manna í fanta leik en Feyenoord er á toppi hollensku deildarinnar með fullt hús stiga eftir fimm leiki og markatöluna 15-2.
Bjarni says
Erfið ferð yfir Ermasundið. Fnykur í lofti og deja vu fílingur frá PSV leiknum í fyrra. Vona að menn séu klárir þ.e þeir sem spila þennan leik annars loka ég fyrir póstinn og símann frá liðinu í Rottuborg sem ég þekki.
Runar says
Þetta verður svakalegur leikur, á ekki von á neinu öðru en að Móri sé með eitthvað pottþétt plan til þess að vinna þennan leika.. Annars á enska pressan eftir að éta hann lifandi!
P.s. bara til þess að leiðrétta nokkrar landafræði villur sem margir Íslendingar halda, þá heitir það að fara yfir Norðursjó þegar þú ferð frá Englandi til Belgíu, Hollands, Þýskalands eða Danmörku, Ermasundið er aðeins á milli Englands og Frakklands!
Bónus landafræði.. Það eru aðeins 50 stjörnur í ameríska fánanum.. því það eru aðeins 50 ríki í US&A :P hehehehe
Dogsdieinhotcars says
Get ekki beðið eftir þessum leik: aðallega til að sjá yngri og efnilegri fá að spila og gera tilkall á sæti í liðinu næstu árin. Þessi evrópudeild getur gert okkur að betra liði í framtíðinni.
Audunn says
Mest spenntur að sjá viðbrögð leikmanna eftir síðasta leik.
Ég held að það séu nokkrir leikmenn á ansi gráu svæði hjá Móra og hann mun ekki hafa mikla þolinmæði gagnvart þeim.
Einhverjir þeirra fá séns í kvöld, ef þeir nýta hann ekki þá eru ekki margir sénsar eftir.