Klukkan 19:00 annað kvöld fer fram óvenju þýðingarmikill leikur í annars heldur þýðingarlítilli keppni þegar nágrannarnir í Manchester City koma í heimsókn á Old Trafford. Þótt báðum liðum sé líklega nokk sama um EFL bikarinn sem slíkan þá munu þau samt koma inn í þennan leik í leit að langþráðum sigri. Stjórarnir eru undir pressu, leikmenn þurfa að stíga upp, það hefur verið að safnast upp pirringur meðal stuðningsmanna liðanna, blöðin hafa kjamsað á óförum síðustu vikna (reyndar töluvert meira United megin) og hlátrasköll stuðningsmanna annarra liða, sem velta sér upp úr hæðnisfullri Þórðargleði, bergmála í eyrunum. Nú er tíminn til að draga fram sokkaskúffurnar og korktappana, nú er tíminn til að byrja að svara almennilega fyrir sig. Það er komið að næsta stóra prófi Manchester United, endurtektarprófi gegn ljósbláklæddum leikmönnum Pep Guardiola. Bring it on!
United og City
Það er frekar stutt síðan liðin mættust siðast, í 4. umferð deildarinnar. Það var mikil eftirvænting fyrir þann leik um allan heim en hann endaði ekkert alltof vel fyrir Manchester United. Síðan þá hafa bæði lið spilað 9 leiki, með misjöfnum árangri. Hvort lið er með 4 sigra en á meðan United hefur tapað 3 og gert 2 jafntefli þá hefur Manchester City tapað 2 og gert 3 jafntefli.
Undanfarinn mánuður hefur verið erfiður fyrir bæði Manchesterliðin. Rauða liðið hafði yfirburði gegn Stoke en missti þann leik niður í jafntefli áður en það stóðst engan veginn væntingar gegn Liverpool og Chelsea. Að vísu náði liðið að sigra tvisvar í Evrópudeildinni og fyrri hálfleikurinn gegn Liverpool var góður en heilt yfir hefur þessi mánuður verið vonbrigði.
Bláa liðið hefur þó átt verri mánuð. Það er sigurlaust í 5 leikjum í röð eftir jafntefli við Celtic, Everton og Southampton og slæm töp gegn Tottenham og Barcelona. Það hefur einu sinni gerst áður að lið stýrt af Pep Guardiola spilaði 5 leiki án sigurs, það var í febrúar 2009. Pep hefur aldrei á ferlinum stýrt liði í 6 eða fleiri leiki í röð án sigurs. Við viljum sjá það gerast, þá kannski fær Mourinho smá frið á meðan í sínu starfi (ólíklegt þó).
Sögulega samhengið
Manchester United hefur spilað 187 leiki í deildarbikarnum frá árinu 1960. Oftar en ekki hafa leikirnir verið gegn lægra skrifuðum andstæðingum og nýttir til að hvíla aðalliðið og leyfa ungum leikmönnum að spreyta sig. Flestir uppaldir leikmenn Manchester United sem hafa komist í aðalliðið tóku sín fyrstu skref í þessari keppni. En einstaka sinnum dettur inn stórleikur í þessari keppni. Sá síðasti var í september 2013 þegar Manchester United vann Liverpool á Old Trafford með marki frá Chicharito. Tæpu ári áður, í lok október 2012, hafði United tapað 4-5 fyrir Chelsea í mjög eftirminnilegum leik þar sem þrjú mörk voru skoruð í framlengingu.
Síðasta viðureign liðanna frá Manchester í þessari keppni var í undanúrslitum árið 2010. Fyrri leikurinn fór þá fram á Etihad vellinum, sem þá hét reyndar bara The City of Manchester Stadium, 19. janúar 2010. Ryan Giggs kom United yfir en góðkunningi þáttarins, Carlos Tevez, skoraði 2 mörk fyrir City. Seinni leikurinn fór svo fram á Old Trafford 27. janúar. Þegar stutt var eftir af leiknum var staðan 2-1 fyrir Manchester United, eftir mörk frá Scholes, Carrick og Tevez, og allt útlit fyrir framlengingu. En þá tók Wayne Rooney málin í sínar hendur og tryggði United sigur með marki á lokamínútunum. United vann síðan þennan bikar í þriðja skiptið með sigri á Aston Villa á Wembley. Síðan þá hefur United bætt einum deildarbikartitli til viðbótar í safnið.
Manchester United og City hafa mæst 6 sinnum í þessari keppni. Manchester United hefur unnið 2 leiki, City 3 og 1 endað með jafntefli. Allir tapleikirnir hafa þó komið á útivelli.
Gengi United á heimavelli í þessari keppni hefur verið mjög gott í gegnum tíðina. Af 92 deildarbikarleikjum á Old Trafford hafa 68 verið sigurleikir, 12 leikir endað með jafntefli og 12 tapast.
Byrjunarliðspælingar
Samkvæmt PhysioRoom eru 5 leikmenn meiddir hjá Manchester United. James Wilson er frá lengi vegna alvarlegra hnémeiðsla. Hnémeiðsli Eric Bailly eru sem betur fer ekki jafn alvarleg og fyrstu fréttir gáfu til kynna en það er engu að síður mjög slæmt að missa hann í 4-6 vikur á þessum tímapunkti. Liðið er öllu vanara því að þurfa að komast af án Phil Jones en það væri nú ágætt að hafa kallinn til taks núna. Auk þessara hnjámeiðslagemlinga þá eru vinsælu mennirnir, Wayne Rooney og Marouane Fellaini, líka skráðir meiddir og óvíst með þátttöku þeirra.
Hjá bláliðunum eru Kevin de Bruyne og Bacary Sagna frá vegna meiðsla. Eftir síðasta leik liðanna eru varnarmenn United eflaust mjög fegnir að þurfa ekki að glíma við de Bruyne aftur. Pablo Zabaleta og Fabian Delph eru tæpir og Yaya Toure er að fá Schweinsteiger meðferðina.
Þetta er flottur leikur til að fá Shaw aftur inn í liðið. Miðverðirnir eru vandamál. Það gæti verið að Rojo fengi sénsinn frekar en mig langar að sjá Fosu-Mensah. Ef Smalling er ekki meiddur þá má hann fá tækifæri til að bæta fyrir lélegan leik gegn Chelsea.
Pogba. Ó, Paul Pogba. Þetta væri svosem ágætis tilefni til að hvíla kappann, gefa honum smá tækifæri til að hugsa sinn gang. En Mourinho hefur verið að spila honum mikið, það er ekki ólíklegt að það sé til að spila honum í gang. Ef hvatningin og vinnan á æfingasvæðinu er rétt þá gæti verið skynsamlegast að halda honum í byrjunarliðinu og leyfa honum að sýna úr hverju hann er gerður. En það er stórt ef.
Helstu spurningar stuðningsmanna United síðustu daga og vikur hafa verið: hvar eru Mkhitaryan og Schneiderlin?! Afskaplega góðar spurningar. Mkhitaryan fékk að spila til að byrja með, meiddist svo, kom of snemma inn aftur gegn City, átti ömurlegan leik þar og meiddist í þokkabót aftur. Hefur síðan verið að glíma við að ná sér af þeim meiðslum. Er of mikið déjà vu að henda honum aftur inn í byrjunarliðið gegn Manchester City eftir meiðslatörn? Ég vil sjá það gerast. Hann gæti verið rækilega peppaður í að sanna sig eftir ömurlegan leik gegn þeim síðast. En aftur á móti ef hann kemur inn og stendur sig aftur illa þá gæti hann verið að festa hengilás á frystikistuna sína með því.
Stóra Morgan Schneiderlin málið er heldur dularfyllra. Af hverju fær hann ekki að spila meira?
Samanburðurinn við aðra miðjumenn Manchester United frá því á síðasta tímabili sýnir í það minnsta ágætis tölfræði hjá kallinum. Auðvitað segir hún þó ekki alla söguna. En þegar jafn brösuglega hefur gengið að ná tökum á miðjunni þá er óneitanlega heldur undarlegt að þessi ágæti leikmaður hafi ekki fengið fleiri tækifæri. Í það minnsta bíður undirritaður spenntur eftir að sjá þriggja manna miðju með Schneiderlin, Herrera og Pogba.
Það virðist sérstakt gæluverkefni hjá Pep að færa leikstíl sinna liða aftur í átt að gamla góða 2-3-5 leikkerfinu. Kosturinn við það er að við getum farið að taka upp gömul og góð orð sem voru orðin úrelt, orð eins og innherji, útherji og framvörður.
Mig grunar að Pep muni fara í nokkuð sterkt byrjunarlið en þó ekki sitt allra sterkasta. Hann vill vinna þennan leik, það held ég að sé engin spurning. En þetta er jú eftir allt saman bara deildarbikarinn.
Kjartan says
Lítill fugl hvíslaði að mér ef Man Utd vinnur á morgun þá er þetta Man City run það versta í sögu Guardiola sem knattspyrnustjóra.
Því miður grunar mig að Móti setji fram sitt sterkasta lið og hvíli ekki lykilleikmenn. Ég segji því miður að því ég vil sjá leikmenn eins og Depay, Carrick og Mensah fá tækifæri. Höldum kúlinu, sendum B-liðið í þessa B-keppni þótt það væri vissulega freistandi að takast á við Shitty head on með sterkasta liðið.
—————–Martial
Depay———-Mata——–Mkhitaryan*
————-Carrick–Mensah
Shaw, Blind, Jones*, Darmian
———–Romero
*ef heill
Halldór Marteins says
Litli fuglinn sem hvíslaði því að þér gæti mögulega hafa lesið það í upphituninni sem þú ert að kommenta á ;)
Jones er ekki heill, kemur líka fram í upphituninni. Mkhitaryan á að vera búinn að jafna sig af meiðslum, það er bara spurning um leikform og hvort það sé eitthvað issue í gangi. Vona allavega að hann spili.
Kjartan says
Einn pínu sár af því ég las ekki upphitunina nógu vel ;) Annars rosa fín upphitun hjá þér Dóri.
Halldór Marteins says
Haha, takk :D Ekkert sár annars, fannst þetta bara fyndið.
Audunn says
Ég vill meina að fysti naglinn í kistu Móra hafi verið negldur um síðustu helgi, sá næsti gæti mögulega komið í kvöld ef United tapar enn og aftur.
Tvö stig í síðustu 3 leikjum og aðeins 4 sigrar í síðustu 10 er frekar dapurleg niðurstaða.
Móri virðist líka ekki höndla þetta mótlæti alveg hann er farinn að kvarta og kveina, skamma menn eins og Conte fyrir að fagna sigri og kvarta yfir því að búa á hóteli og vaktaður af blaðamönnum 24 tíma á sólarhring.
Afhverju kaupir maðurinn sér ekki hús í nágrenni Manchester og flytur þá af þessu hóteli? á hann ekki efni á því eða?
Allt mjög skrítið eitthvað finnst mér.
En að leiknum, mér finnst þetta vera góður tímapunktur fyrir Móra og leikmenn að sýna stuðningsmönnum úr hverju þeir eru gerðir.
Eru leikmenn nógu góðir og fókuseraðir til að stíga núna upp og berja almennilega frá sér?
Er Móri nógu góður stjóri til að koma þessu skipi aftur á rétta braut?
Ég held að menn þurfi að vera hugaðir og gera róttækar breytingar á liðinu ef það á að takast að koma þessu liði almennilega í gang aftur.
Runar says
Ég ætla að lifa í draumi um að Schweinsteiger byrji í dag eða verði allavega á bekknum :)
Halldór Marteins says
Schweinsteiger er ekki í hópnum skv. MEN. Ekki óvænt svosem.
Aðrir sem eru ekki í hóp eru t.d.
Smalling
Martial
Rooney
Fosu-Mensah
En Mkhitaryan og Schneiderlin eru þarna. Verður hins vegar afar forvitnilegt að sjá hvernig Jose ætlar að leysa miðvarðamálin. Blind-Rojo liggur beint við miðað við að þeir hafa mest spilað miðvörð af þeim sem eru í hóp. Það er hins vegar ekki miðvarðapar sem lítur traustvekjandi út. Allar aðrar leiðir til að leysa þetta eru þó álíka stressandi.
Rauðhaus says
Jose var nú að tala um að Pogba gæti verið geggjaður miðvörður :)
Það skyldi þó aldrei vera að…
Nei andskotinn, þó ég hafi lýst yfir efasemdum þá trúi ég því nú ekki.
Ekki strax allavegana.
Oddi says
Fyrsta skipti sem eg hef dottið hérna inn – Er Poolari og þetta er vönduð og fagleg umfjöllun.
Gaman af þessu. Spái 3-1
Mkhitaryan setur eitt og leggur upp 2 fyrir ykkur.
Fáum svo Liverpool-United á Wembley – það myndi gefa þessum bikar aukið „swag“