Eftir frústrerandi vikur í deildinni var kominn að öðrum leik í miðri viku, öðrum leik í annarri keppni. Mourinho fékk þær fréttir seinni partinn á leikdegi að hann fengi einn leik í bann eftir brúsasparkið og tæki bannið út í þessum leik. Það stoppaði hann þó ekki í að tefla fram sterku byrjunarliði í leiknum.
Henrikh Mkhitaryan var aftur kominn í byrjunarliðið, sem og Martial og Wayne Rooney. Carrick hafði jafnað sig af meiðslunum svo það kom ekki til þess að Bastian Schweinsteiger byrjaði leikinn. Þjóðverjinn var þó til taks á bekknum.
Byrjunarliðið gegn West Ham í deildarbikarnum var þannig skipað:
Varamenn: Romero, Blind, Schneiderlin, Schweinsteiger, Lingard, Mata, Rashford
Lið West Ham var:
Varamenn: Randolph, Nordtveit, Lanzini, Zaza, Noble, Collins, Masuaku
Leikurinn
Manchester United hóf leikinn af krafti og skoruðu mark strax á 2. mínútu. Það var í flottari kantinum. Wayne Rooney átti frábæra stungusendingu inn í hlaupaleiðina hjá Mkhitaryan. Armeninn vissi upp á hár hvernig Zlatan var að hlaupa fyrir aftan sig og setti boltann í hlaupaleið Svíans með frábærri hælsendingu. Zlatan þakkaði pent fyrir sig með snyrtilegri afgreiðslu yfir Adríán. Adríán var stálheppinn að fá ekki rautt spjald þegar hann átti glórulausa tæklingu og fór með takkana í hnéð á Zlatan. 1-0 fyrir United.
Manchester United hélt áfram að stjórna leiknum og ógna marki West Ham með fínum marktilraunum. Mkhitaryan tók upp þráðinn og átti aftur skínandi leik fyrir Manchester United. Wayne Rooney var líka góður og virtist hafa fundið gamla takta. Sömuleiðis Martial, hann spilaði með sjálfstraust og áræðni sem við höfum sjaldan séð á þessu tímabili en þekkjum frá því á síðasta tímabili.
Eftir rúman hálftíma leik hafði Manchester United átt 9 marktilraunir. Verið mun meira með boltann og miklu betri í leiknum í alla staði. En þá átti West Ham sína fyrstu marktilraun. Dimitri Payet fékk smá tíma með boltann og lét vaða fyrir utan teig. Skotið var ekkert það besta sem við höfum séð frá honum, beint á De Gea í markinu. En De Gea náði ekki að halda boltanum og í stað þess að blaka honum til hliðar þá hrökk boltinn af De Gea og beint út aftur þar sem Ashley Fletcher, fyrrverandi unglingaliðsmaður Manchester United, náði frákastinu og skoraði. Týpískt miðað við gengið að undanförnu. 1-1 í hálfleik.
Það var ekki til að létta lundina að Luke Shaw meiddist undir lok fyrri hálfleiks og þurfti að fara af velli. Daley Blind kom inn á í hans stað.
Liðið hefur þó greinilega talað vel saman í hálfleik, eða í öllu falli stillt sig vel saman og mætti til leiks í síðari hálfleik staðráðið í því að nýta yfirburðina betur. Seinni hálfleikurinn var 5 mínútna gamall þegar United átti aðra frábæra sókn. Í þetta skipti var komið að Valencia að eiga hælsendingu, úti á kantinum, beint á Mkhitaryan. Mkhitaryan brunaði upp að endamörkum og gaf flotta sendingu fyrir þar sem Martial kom og afgreiddi boltann stórglæsilega í netið. Virkilega flott mark.
West Ham hafði lent í sínum skakkaföllum í leiknum. Undir lok fyrri hálfleiks misstu þeir vinstri vængbakvörðinn Cresswell meiddan af velli og á 58. mínútu þurfti hægri bakvörðurinn Antonio, þeirra besti maður þar sem af er leiktíðar, einnig að fara af velli vegna meiðsla. Mjög blóðugt fyrir West Ham, sem hafði þó nýtt tækifærið til að hvíla einhverja af fastamönnunum í byrjunarliðinu. Þetta þýddi líka að þeir þurfti að breyta um uppstillingu, í stað þess að spila 3-4-3 þá spilaði liðið 4-1-4-1.
United svaraði þessari breytingu bara með þriðja markinu. Og enn var um glæsilegt mark að ræða. Zlatan dró sig þá aftur á völlinn og kallaði eftir boltanum. Boltinn kom að sjálfsögðu strax og Zlatan sendi þessa líka eitruðu stungusendingu inn á Valencia. Valencia brunað inn að teig og gaf fastan jarðarbolta fyrir markið beint á Martial sem skoraði sitt annað mark í leiknum. Staðan 3-1 og allir stuðningsmenn United önduðu léttar.
Eftir þetta var leikurinn í raun búinn. Andrúmsloftið á Old Trafford varð léttara og margir stuðninsmenn fóru að kalla eftir skiptingum. Það var sérstaklega ein skipting sem stuðningsmenn biðu spenntir eftir. Svo spenntir að þegar þýski heimsmeistarinn Bastian Schweinsteiger byrjaði að hita upp þá fékk hann standandi lófaklapp frá stúkunni.
Þrátt fyrir að þarna hefði verið kjörið tækifæri til að taka lykilmenn af velli og hvíla fyrir leikinn gegn Everton um helgina þá kom næsta skipting United ekki fyrr en á 87. mínútu. Þá kom Bastian Schweinsteiger inn á fyrir Anthony Martial og var þeim báðum fagnað gríðarlega vel. Mkhitaryan fékk svo verðskuldaða hvíld á 90. mínútu, Rashford kom inn á í stað hans.
Áhorfendur gátu fengið sem mest út úr gleðinni sem fylgdi því að sjá Bastian aftur inná vellinum. Hverri einustu snertingu hans var fagnað innilega og allt ætlaði um koll að keyra þegar kappinn reyndi skot fyrir utan teig. Mátti ekki miklu muna að hann smyrði hann út við stöng, það er hætt við að áhorfendur hefðu ráðist inn á völlinn af kátínu hefði það gerst.
Á 2. mínútu í uppbótartíma sýndi Bastian þó hversu klár hann er í knattspyrnu. United fékk þá innkast rétt inni á vallarhelmingi West Ham. Bastian sá auða braut eftir kantinum og tók sprettinn, lét jafnframt Rooney vita sem gat þá tekið snöggt innkast, beint á Þjóðverjann. Bastian skeiðaði upp völlinn með boltann og gaf síðan hárfína sendingu inn á Ander Herrera, annan kláran knattspyrnumann sem hafði tekið góðan sprett þegar hann sá í hvað stefndi. Herrera fékk boltann og keyrði með hann að endamörkum við markteiginn. Þar gaf hann frábæra sendingu, lausa en hnitmiðaða, út í teiginn á Zlatan sem skoraði sitt annað mark í leiknum. Fjögur frábær mörk hjá United í þessum leik og mjög lýsandi fyrir spilamennsku liðsins í þessum leik sem og flestum leikjum að undanförnu.
Eftir leikinn
Eftir leikinn var dregið í undanúrslit EFL bikarsins. Manchester United dróst þar gegn Hull City. Fyrri leikurinn fer fram á Old Trafford þann 10. janúar en síðari leikurinn í Hull tveim vikum síðar. Í hinni undanúrslitaviðureigninni mætast Southampton og Liverpool. Svo það liggur í loftinu hugmyndin um ansi hreint dramatískan úrslitaleik. En fyrst eru það auðvitað undanúrslitin.
Það var frábært að horfa á liðið spila í kvöld. Það er einfaldlega allt annað að horfa á liðið spila þegar Carrick er með. Það að finna góðan leikmann til að leysa hans stöðu af er svo gríðarlega mikilvægt, líklega mikilvægasta verkefnið sem þarf að leysa.
Mkhitaryan er svo geggjaður í fótbolta! Hrein unun að fylgjast með honum spila þennan leik (og eins og Patrice Evra þá elskum við þennan leik). Hann er svo fljótur að hugsa og hugsar í svo skemmtilega skapandi lausnum að það bara getur ekki annað en smitað út frá sér.
Einn leikmaður sem virðist njóta þess í botn að spila með Mikka er Wayne Rooney. Hann var frábær í kvöld. Það er líka dálítið eins og Rooney og Mkhitaryan hafi spilað saman lengi, svo vel ná þeir saman. Hann virðist líka hafa endurheimt skapið. Það er heilt yfir til bóta að mínu mati þótt það hafi reyndar líka orðið til þess að hann fékk gult spjald og missir þar af leiðandi af leiknum gegn Everton um helgina.
Martial getur vonandi nýtt þessa frammistöðu til að finna aftur formið sem hann var í á síðasta tímabili. Við viljum meira svona. Kannski er þetta líka eitthvað í karakternum, kannski var þetta hans leið til að svara Mourinho. Ef svo er þá á hann hrós skilið.
Varnarlínan má fá hrós líka. Valencia átti virkilega flottan leik í bakverðinum og miðvarðaparið Jones og Rojo heldur áfram að koma skemmtilega á óvart. Ef einhver hefði sagt við mig síðasta sumar að ég ætti eftir að vera þrælánægður með Rojo og Jones saman í miðverðinum þá hefði ég líklega hlegið. En hér erum við nú samt.
Maður leiksins að mínu mati, maðurinn sem er vonandi að fá að spila miklu meira eftir þetta: Henrikh Mkhitaryan.
Helstu atriðin
Það er hreint ekki leiðinlegt að rifja upp helstu atriðin úr þessum skemmtilega leik:
📺 Video highlights: #MUFC 4 West Ham 1 https://t.co/n69AxFP61s
— Manchester United (@ManUtd) December 1, 2016
Rúnar Þór says
Hvernig væri að hvíla Carrick og Zlatan fyrir deildina? Þetta þýðir væntanlega að Carrick spilar ekki um helgina sem er slæmt
Kjartan says
Móri orðinn hræddur, heldur að eitt stk framrúðubikar gæti hugsanlega bjargað starfinu hans.
Fáranlegt byrjunarlið, algjörlega óháð úrslitum leiksins. Af hverju fær Romero, líklegast einn af bestu varmarkvörðum í heimi, ekki að spila í leik sem þessum? Svo er 35 ára gamall maður að spila enn einn leikinn þar sem hann ætti í raun að vera að merenara fyrir deildina.
Bjarni says
Nú á að taka á því sterkt byrjunarlið miðað við þá sem eru tiltækir. Ljóst að Rooney bætir markametið hans Charlton (jafnaði hann ekki um daginn) og Armeninn knái setur opnar markareikninginn og mun brosa út að eyrum.
Karl Gardars says
Mkhitaryan er eins og google streetview bíllinn. Með augu allan hringinn!
Cantona no 7 says
Flottur sigur og vonandi er þetta það sem koma skal.
G G M U
ps. dómgæslan var alger skandall.
Dogsdieinhotcars says
Ef menn sjá ekki að við erum á réttri leið frá síðustu þremur árum, óháð stigum og staðsetningu og blablabla, þá finnst mér vanta bara einhverja skynjun á íþróttinni.
Miklu fleiri skot, miklu meira flæði og bara miklu meira sexý fótbolti. Get lofað ykkur að ef Zlatan héti Ruud værum við top of league og Paul Pogba væri stoðsendingahæstur í Evrópu. Þetta er meira staðreynd en ýkjur skoðiði stats.
Mæli þó með nokkrum finish æfingum fyrir okkar menn. Ég er team Móri alla leið, svo ég er viss um að hann hafi fattað það á undan mér.
Bjarni says
Öruggur sigur en de Gea hefur örugglega ekki sofið í nótt ef ég þekki hann rétt. Spiluðum sem eitt lið af krafti og ákveðni allan tímann. Það frussaðist reiðin og ákveðnin út úr Rooney sem gaman var að sjá nema það varð til þess að hann fékk spjald fyrir litlar sakir er guttinn skeit á sig af hræðslu við að sjá karlinn nálgast sig. Allir leikmenn áttu góðan dag og það er vel.
Hver er hin rétta leið sem allir tala um, er hægt að fá eitthvað meira út úr svona leik nema kannski fleiri mörk. Það er komin mynd á liðið fyrir löngu, nú þurfa leikmenn bara að framkvæma hlutina inná vellinum, gekk upp í dag en alltaf verður spurningin með næsta leik. Menn nutu sín í gær að spila fótbolta og það er það eina sem ég bið um óháð hverjir spila. Stundum falla ekki úrslit með okkur en ef gleðin er fyrir hendi í hópnum þá kemur allt annað. Leikmenn kunna leikinn út og inn, hafa getuna og tæknina, það þarf bara að virkja þessa hluti með gleðinni.
Gleðilegan fullveldisdag.
Georg says
Geðveik spilamennska frammávið , í fyrsta skiptið sem spilið var í líkingu við það sem SAF gerði.
Hraðar sóknir, stuttarsendingar og Mkhitaryan vá!! gæjinn hefur allt, hraði,sendingar og fljótur að hugsa.
Rooney með eldi í maganum er sá Rooney sem við erum vön. Frábær leikur hjá honum.
Meira svona og við erum óstöðvandi.
Tók einhver eftir því að Rooney var ekki með fyrirliðaband? amk ekki í byrjun seinnihálfleiks.
Karl Gardars says
Þetta var ágætur leikur hjá okkar mönnum en West Ham áttu alls ekki góðan dag og meiðsli riðluðu leikskipulaginu hjá þeim.
Við nýttum færin eitthvað betur í þetta skiptið en miklu betur má ef duga skal. Ég verð líka að segja að ég hefði þegið 2 auka stig í deildinni frekar en þennan sigur.
En margt jákvætt í þessu og mér finnst hópurinn vera að hristast saman.
Innkoma Basti og móttökur stuðningsmannanna voru svo magnaðar.
Vonandi ekkert nema bjartir tímar framundan!
Auðunn says
Það verður að segjast eins og er að þetta var heldur betur kærkomin úrslit sem lyftir manni töluvert upp í svartasta skammdeginu.
Það var nánast allt jákvætt við þennan leik, flott spilamennska, hraður og skemmtilegur fótbolti, mikil gæði út um allan völl og svo var frábært að sjá hvað Mkhitaryan er virkilega góður fótboltamaður.
Rúsínan í pylsuendanum var svo innkoma Bastian Schweinsteiger. Frábært að sjá hann loksins loksins aftur.
Verð að segja að ég var drullu fúll yfir meðferðinni sem hann hafði fengið en það er liðin tíð og engin ástæða til að staldra við það lengur.
Nú er bara að halda áfram á þessari braut, vonandi að Móri sé loksins að finna sitt besta lið.
Verð líka að hæla Jones, magnað að hann skuli koma svona sterkur tilbaka eftir þessi erfiðu og löngu meðsli. Klárlega frábær leikmaður þegar hann er heill.
ellioman says
100% sammála því sem Auðunn skrifar hérna fyrir ofan mig.
Ég er alveg gríðarlega spenntur fyrir Mkhitaryan og hversu mikilvægur hann verður fyrir okkur. Persónulega finnst mé sóknarleikur liðsins vera allt annar þegar hann er á vellinum. Hann er sífellt að skapa eitthvað, reyna búa til spil og það klikkar ekki að um leið og hann er búinn að senda boltann á liðsfélaga, þá er hann rokinn af stað í hlaupið til að annaðhvort fá boltann aftur og/eða skapa óróa í vörn andstæðingsins. Fyrir mig er hann búinn að nýta tækifærin alveg fullkomlega í síðustu leikjum og á heima í byrjunarliðinu.
Varðandi Jones þá er ég ennþá gáttaður á þessu. Það er svo langt síðan maður sá hann spila almennilega fyrir United að ég var hreinlega búinn að gleyma því að hann er bara skrambi góður leikmaður. Alveg stórkostlegt að sjá hvað hann og Rojo eru búnir að spila vel því maður var skiljanlega skíthræddur þegar við misstum Bailly og Smalling í meiðsli.
ellioman says
Verð að skrifa aðra athugasemd til að gefa athugasemd nr.4 frá Karli, smá props. Þetta var það fyndnasta sem ég las í dag og á sama tíma hárrétt. Vel gert :)