Þá er komið að því. Annað kvöld er síðasta umferð riðlakeppninnar fyrir Evrópudeildina þar sem United þarf að sætta sig við langt ferðalag til Úkraínu og mætir þar Zorya Luhansk á Chornomorets Stadium.
Fyrir þá sem ekki muna þá mættust þessi lið fyrir rúmum tveimur mánuðum á Old Trafford og endaði sá leikur með 1:0 sigri United þar sem okkar menn áttu í stökustu vandræðum með gott lið Zorya. Eins og ég nefndi í leikskýrslunni þá hafa Zorya hafa sýnt fólki að þeir eru með ansi gott lið. Hefðu átt að vinna fyrsta leikinn gegn Fenerbahce og þeir unnu Dynamo Kiev á þessum tímabili. Þeirra plan er frekar augljóst, spila þétt og verjast vel og nýta skyndisóknirnar til að skora.
Alls ekki svo galið plan því eftir rúmar 12 mínútur í leiknum gegn United voru þeir búnir að fá tvær hættulegar skyndisóknir þrátt fyrir að United hafi haft boltann 87% tímans. En United slapp með skrekkinn og Wayne Rooney ákvað að sýna okkur snilligáfu sína, enn og aftur, með þessari stórkostlegri stoðsendingu yfir á herra Zlatan Ibrahimovic.
United hefur einungis þrisvar sinnum ferðast til Úkraínu og voru þeir leikir allir spilaðir í Meistaradeildinni. Gegn Dynamo Kiev árið 2000 náði liðið jafntefli, 2007 náði United að vinna Dynamo Kiev með fjórum mörkum gegn tveimur og svo gerði United jafntefli við Shakhtar Donetsk 2013.
Fréttir/Slúður
Einn af okkar uppáhaldsleikmönnum er að koma aftur á Old Trafford er herra Jip Jaap Stam mætir með Reading liðið sitt á Old Trafford í 3ju umferð bikarsins í janúar. Verður svo sannarlega gaman að sjá Hollendinginn aftur á sínum heimaslóðum.
Eftir enn eitt jafnteflið og sérstaklega slæma frammistöðu gegn Everton þá hafa öll slúðurblöðin tekið sig saman og byrjað að orða Maroune Fellaini frá United sem ég er viss um að gleðji marga stuðningsmenn liðsins. Sterkustu orðrómarnir eru að hann fari á lán til West Ham.
Svo staðfesti Fonte að Southampton muni ekki bjóða honum nýjan samning sem eykur líkur á því að hann komi til United. Ef United vill fá hann þá skemmir ekki fyrir að hann er með sama umboðsmann og Mourinho, herra Jorge Mendes. En miðað við síðustu fréttir þá er United mun áhugasamara um Victor Lindelöf hinn sænska varnarmann Benfica. Verður spennandi janúarmánuður.
Hópurinn
Þeir Michael Carrick, Matteo Darmian og Antonio Valencia fóru ekki með liðinu til Úkraínu né Memphis Depay og Morgan Schneiderlin. Að auki eru Chris Smalling og Luke Shaw einnig frá vegna meiðsla og Schweinsteiger fær að slaka á þar sem Mourinho skráði hann aldrei í Evrópudeildarhóp United.
Hópurinn sem ferðaðist til Úkraínu er: De Gea, Romero, Johnstone; Fosu-Mensah, Jones, Bailly, Rojo, Blind, Young; Fellaini, Herrera, Pogba, Lingard, Mata, Mkhitaryan; Martial, Rashford, Rooney, Ibrahimovic.
Ólíklegt verður að teljast að Bailly muni spila fyrir liðið en gaman væri, ef United er í góðri stöðu, að sjá hann fá 15-20 mínútur.
Hvað þarf að gerast til að United komist áfram?
United kemst áfram ef:
- United vinnur Zorya
- United nær jafntefli gegn Zorya
- Feyenoord vinnur ekki Fenerbahce
Þó að bæði Feyenoord og United myndu enda með 10 stig, með Feyenoord sigri og United jafntefli, þá myndu innbyrðis viðureignir liðanna koma United áfram (1:0 sigur Feyenoord vs. 4:0 sigur United).
Að lokum…
Verður maður ekki bara að stinga á kýlið og fara sætta sig við það að hvorki Morgan Schneiderlin né Memphis Depay eiga einhvern sjens að verða framtíðarleikmenn United? Mourinho ákvað að vera ekkert að taka þá með í þetta ferðalag. Samkvæmt transfermarkt.com er Schneiderlin búinn að fá að spila 238 mínútur á þessu tímabili í átta leikjum, 136 af þessum 248 mínútum hafa komið í Evrópudeildinni (tveir leikir) á meðan hann hefur einungis fengið 11 mínútur í úrvalsdeildinni. Memphis er kominn með 134 mínútur í 8 leikjum. Verður að teljast líklegt að þeir tveir kappar yfirgefi United í janúar eða næsta sumar sem er fúlt. Ég var mjög spenntur fyrir Memphis þegar hann var keyptur en það er orðið soldið síðan ég missti vonina þar. Hinsvegar er ég enn handviss um að ef Schneiderlin fengi nokkra leiki með t.d. Herrera og Pogba á miðjunni þá myndum við vera í ansi góðum málum þar. En ég er ekki á æfingum United, er ekki í beinum tengslum við leikmennina og hlýt því að vera missa af einhverju sem Mourinho virðist sjá. Þrátt fyrir það er ég leiður yfir þessu.
Ég veit svo ekki með ykkur en ég vil sjá United komast langt í þessari keppni. Ég veit að hún fellur svo sannarlega í skuggann á Meistaradeildinni en þetta er keppni sem United hefur aldrei unnið og sigur færir liðinu sæti í Meistaradeildinni á næsta tímabili. Það er svo sannarlega win-win pakkadíll að mínu mati, þrátt fyrir langt ferðalag og Tottenham í næsta leik.
Bjarni says
Hef trú á því að það rigni mörkum annað kvöld. Rooney fer hamförum, dýrseðlið er smá saman að gera vart við sig, Jónes þyrfti að skalla hann í hnakkann fyrir leik, þá er öruggt að báðir munu eiga góðan leik. Sigurinn annað kvöld mun gefa mönnum sjálfstraust fyrir jólatörnina, ekki síst okkur hundtryggu eiginmönnum, við munum eiga margar gleðistundir og liðið mun ekki tapa leik í desember. Hvað sigrarnir verða margir veit ég ekki, vandi er um slíkt að spá en eitt er víst að alltaf verður ákaflega gaman þá. MK tarían einsog margir bera fram hefur glatt mitt litla hjarta, farið hamförum og mun hvetja menn til frekari dáða í komandi leikjum með leifturhraða sínum og útsjónarsemi. Spurningin er hvort Rooney verði á nýju skotskónum sínum eða Romero í síðum buxum, það verður að koma ljós.
Keane says
Verður hrútleiðinlegt býst ég við.. Ég tók meðvitaða ákvörðun um að horfa ekki á leiki meðan hryllings trúðurinn frá Belgíu er á leikskýrslu. Njótið leiksins.
Keane says
Allt i lagi að láta fylgja með i upphitun klukkan hvað