Fyrir tveim dögum síðan tryggði United sér þáttöku í 32 liða úrslitum Evrópudeildarinnar og ekki í fyrsta skipti tefldi José Mourinho fram sterku liði. Það þýðir að þegar liðið í fimmta sæti deildarinnar kemur í heimsókn á morgun, sex stigum á undan United í sjötta sætinu þá munu mörg okkar óttast að Evrópuþynnka verði okkur erfið.
Af þeim fimm leikjum sem United hefur spilað eftir Evrópuleiki í vetur hefur einn unnist, Swansea úti í kjölfar sigursins á Fenerbahce í Tyrklandi. West Ham og Stoke leikina missti liðið niður í jafntefli á Old Trafford og útileikirnir gegn Watford og Chelsea töpuðust eftir leik í Hollandi og á Old Trafford.
Það þarf því ekki mikla útreikninga til að slengja veðmáli á jafntefli á morgun og ætla að sigur reynist erfið sókn. Það hjálpar ekki að Tottenham er sterkara lið en West Ham og Stoke. Reyndar lék Pocchettino með sitt sterkasta lið á móti CSKA Moskvu á miðvikudaginn, en það var á Wembley og þeir fá aukadag til hvíldar þannig það hjálpar líklega ekkert.
Búast má við Tottenham liðinu svona
Þetta er búið að vera stöðugt lið hjá þeim undanfarið og nú er Toby Alderweireld að koma til baka úr meiðslum og tekur sæti Dier í vörninni. Fram á við eru leikmenn sem við þekkjum vel sem skemmtilega og spennandi leikmenn og verða verðugir andstæðingar. Kane, Alli og Son hafa verið duglegastir að skora í deildinni en Christian Erikssen getur það þegar hann vill. Dembélé og Wanyama á miðjunni eru engin lömb að leika sér við og þessi leikur á morgun verður ansi stór prófraun, ekki á það hvort að United tekst að breyta yfirburðum á vellinum í sigra heldur frekar hvort að United getur dóminerað leiki eins og stundum í þessum leiðindajafnteflum.
Það er þannig stórhætta á að þetta verði frekar leikur eins og seinni hluti jafnteflanna gegn Everton og Arsenal, þar sem United er of mikið til baka og fær á sig mark.
En ef ég væri veðmáladrengur myndi ég setja peninginn minn á 1-1 og að þetta verði eins og alltaf. United sækir og fær markið, gefur svo of mikið eftir.
Hvernig væri það nú að við fengjum loksins eitthvað annað og betra en það?
Þetta er liðið sem ég býst við:
Það er ekki útséð með tilraunir Mourinho með Carrick-Herrera-Pogba miðjuna, hvernig sem hún svo raðast upp á vellinum. Pogba verður líklega ekki jafn framarlega og ef Mata væri þarna, sem er að ég held galli við þessa uppstillingu. En ef Zlatan er farinn að breyta færunum sem Pogba hefur verið að skapa fyrir hann allt tímabilið þá hlýtur þetta að fara að smella.
Við þurfum ekkert lengur að ræða Mkhitaryan, maðurinn hefur sýnt hvað í honum býr (og segir sjálfur að hann hafi þurft þessa áskorun að hvera haldið fyrir utan liðið). Martial er enn maðurinn vinstra megin, og Zlatan fær ekki að hvíla í þessum leik frekar en öðrum.
Í vörninni verður frábært að fá Bailly aftur og Jones hefur unnið sér inn sætið við hliðina á honun. Valencia kemur inn eftir hvíld og þá er bara spurningin hver fer í vinstri bakk? Darmian virðist hafa unnið sér inn traust Mourinho og hraði sóknarmanna Tottenham er ekki það sem við viljum sjá Daley Blind takast á við held ég.
Þetta verður gríðarlega spennandi leikur og þolraun fyrir okkar menn, og ekki síður Mourinho því við viljum sjá aðeins markvissari stjórn á leiknum og flestum finnst líklega að það sé á herðum hans.
Sem fyrr segir eru 1-1 ákaflega líkleg úrslit, en til að saxa á forskot liðanna fyrir ofan okkur er sigur alger nauðsyn. Enn og aftur ætla ég að vona að þetta verði leikurinn þar sem allt smellur og ef það gerist þá verðurinn sigurinn réttu megin!
Leikurinn er kl 14:15 á morgun
Jón Sæm says
Það væri rosalega sterkt að vinna þennan leik. City tapaði í dag og því getum við minnkað munin þar í 6 stig en svo eiga Liverpool og Chelsea leik á morgun líka en ég tel ólíklegt að þessi lið séu að fara tapa stigum á morgun. Vonum það besta! MUFC lengi lifi!