Rauðu djöflarnir óska öllum lesendum síðunnar gleðilegra jóla.
Það er komið að jólafótboltanum. Annar dagur jóla og það verða spilaðir 8 leikir í 18. umferðinni. Fyrri hluti tímabilsins er að klárast og þessi leikur er upphafið að leikjatörn þar sem Manchester United spilar 3 leiki á viku. Hin liðin gera það auðvitað líka og fá mislangan tíma á milli leikja eins og gengur og gerist.
Manchester United á leik kl. 15:00 á öðrum degi jóla og það eru Sunderland sem mæta í heimsókn.
Jólaboltinn
Enski boltinn er ómissandi hluti af jólahátíðinni fyrir ansi marga, enda hafa jóladagarnir og áramót verið nýttir fyrir knattspyrnuleiki í Englandi frá því fótboltinn byrjaði fyrst að rúlla þar í landi. Í mörgum öðrum löndum eru sérstök vetrarfrí en hreint ekki í Englandi, þar er álagið aukið á knattspyrnumennina. Enda hafa ófáir leikmenn og knattspyrnustjórar farið illa út úr því hafa þurft að tækla enska jólaboltann eftir að hafa vanist öðru fyrirkomulagi.
Það er algengt umfjöllunar- og kvörtunarefni knattspyrnustjóra að það sé stutt á milli leikja í jólatörninni. Þeir ættu þá að þakka fyrir að búið er að leggja niður jóladagsleikina en það var lengi vel hefð að spila fótbolta á jóladag. Raunar var það svo að fram á 6. áratug síðustu aldar var það nokkuð algengt að lið þyrftu að spila leik bæði á jóladag og annan í jólum. Liðin þurftu jafnvel að ferðast landshorna á milli til að komast í seinni leikinn. Fótbolti var, og er, jólaskemmtun í Englandi.
Þegar leikjahæstu dagar hvers mánaðar ársins eru skoðaðir í sögu Manchester United kemur í ljós að í flestum mánuðum tímabilsins eru þeir frá 25 leikjum og upp í 31 leik. Maí er ein undantekning, þá fara yfirleitt færri leikir fram vegna þess að tímabilið er að klárast. Í maí eru fjórir dagar þar sem Manchester United hefur spilað 15 leiki.
Þegar tölurnar fyrir desember eru skoðaðar sjást greinilega áhrifin sem jólatörnin hefur. Þar koma fjórir dagar í röð þar sem Manchester United hefur spilað yfir 30 leiki. Það eru 25.-28. desember. Það er merkilegt að hugsa til þess að Manchester United hefur spilað 33 leiki á jóladag þegar það er haft í huga að síðasti leikur liðsins á þeim degi var árið 1957. Annar í jólum sker sig samt út og er langefstur þegar kemur að þessari tölfræði. Manchester United hefur spilað 93 fótboltaleiki á öðrum degi jóla.
Þetta verður 7. árið í röð sem Manchester United spilar leik á þessum degi. Á síðustu 33 árum hefur liðið 31 sinni spilað deildarleik 26. desember. Ef frá er tekið tap gegn Stoke City í síðasta leik hefur United átt góðu gengi að fagna í leikjum á þessum degi síðustu ár. Frá stofnun ensku úrvalsdeildarinnar hefur United spilað 22 leiki á annan í jólum. 18 þeirra hefur United sigrað, 2 enduðu með jafntefli og 2 töpuðust.
Í heildina er tölfræðin á þessum degi þannig:
- 93 leikir spilaðir
- 51 sigurleikur
- 15 jafnteflisleikir
- 27 tapleikir
- 187 mörk skoruð
- 134 mörk fengin á sig
Þess má til gamans geta að sá dagur sem kemur næst á eftir 26. desember er nýársdagur. Í gegnum tíðina hefur Manchester United spilað 55 leiki á þeim degi. 34 hafa endað með sigri.
En þrátt fyrir að desembertörnin hafi verið að skila svona mörgum leikjum þá er desember ekki efstur á blaði þegar kemur að leikjahæstu mánuðunum. Manchester United hefur spilað 662 leiki í desember en bæði september (684) og apríl (727) eru leikjahærri mánuðir.
Hinn útvaldi snýr aftur
Síðast þegar David Moyes stýrði liði í leik á Old Trafford þá mættust Manchester United og Bayern Munchen í fyrri leik 8-liða úrslita Meistaradeildar Evrópu 1. apríl 2014. Það var líklega viðeigandi dagsetning fyrir lokaleik Moyes því hann var dálítið eins og lélegt 1. apríl grín hjá United.
Það var þó ákveðin bjartsýni ríkjandi þegar hann tók við. Manchester United var meistari. Sir Alex Ferguson sjálfur hafði handvalið Moyes sem arftaka sinn og fáir hvoru jú betri í að finna hæfileika. Upp fóru fánarnir og upphrópanirnar sem merktu David Moyes með orðunum hinn útvaldi.
En þó voru alltaf einhverjar efasemdaraddir. Og þeim fjölgaði eftir því sem leið á sumar David Moyes. Síðan byrjaði tímabilið sjálft og eftir því sem leið á það urðu efasemdaraddirnar fleiri og háværari. Enda var það þannig að Moyes réð ekki við starfið og á endanum var hann rekinn, eftir aðeins 51 leik í starfi.
Síðustu daga, í aðdraganda þessa leiks, hefur Moyes verið að tjá sig um Manchester United. Hans helstu punktar virðast vera annars vegar:
Manchester United hefur snúið baki við hefðir sínar og það sem félagið hefur staðið fyrir með því að eltast við stærstu og dýrustu bitana á leikmannamarkaðnum.
og svo hins vegar:
Ég hefði keypt stærstu og dýrustu bitana á markaðnum ef ég hefði fengið tíma/tækifæri til þess.
Þetta er auðvitað mikið til endurorðað hjá mér en nokkurn veginn sá skilningur sem ég legg í þetta tuð hjá Moyes. Hann lætur þetta hljóma eins og hann hafi verið nálægt því að gera eitthvað af viti hjá Manchester United, að hann hafi verið við það að búa til nýtt meistaralið. Að hann hafi ekki verið vandamálið. En sannleikurinn er auðvitað allt annar.
Moyes má þó eiga það að hann er að henda sér á fullu í einhvers konar sálfræðistríð fyrir þennan leik. Þetta er betra sálfræðistríð af hans höndum en við sáum nokkurn tímann þegar hann stýrði Manchester United. En það segir nú reyndar ekki mikið.
Sunderland
Sunderland réð David Moyes til sín eftir að Sam Allardyce var ráðinn landsliðsþjálfari síðasta sumar. Moyes byrjaði strax að peppa sitt lið og sagði öllum stuðningsmönnum að búa sig undir fallbaráttu. Það varð og raunin, Sunderland hefur verið að verma neðstu sæti deildarinnar í vetur. Fyrir þessa umferð er Sunderland í 18. sætinu með 14 stig eftir 17 leiki og -13 í markatölu.
Aðeins þrír leikmenn liðsins hafa náð að skora í deildinni í vetur. Markamaskínan Jermaine Defoe er með 8 mörk og þeir Victor Anichebe og Patrick van Aanholt hafa skorað 3 mörk hvor. Defoe og Duncan Watmore eru stoðsendingahæstir, báðir með 2 stoðsendingar.
Samkvæmt nýjustu meiðslatíðindum eru þeir Steven Pienaar, Javier Manquillo og Billy Jones allir byrjaðir að æfa aftur með liðinu eftir meiðsli. Það er þó ekki víst að þeir nái allir leiknum.
Adnan Januzaj má ekki spila þennan leik þar sem hann er á láni frá Manchester United.
Paddy McNair er frá vegna meiðsla, sömuleiðis þeir Lee Cattermole, Lynden Gooch, Jack Rodwell, Duncan Watmore og Jan Kirchhoff.
Það má því búast við að lið Sunderland verði einhvern veginn svona:
Manchester United
Okkar menn eru hafa verið á góðu skriði. Síðustu 10 leikir hafa verið taplausir og síðustu 4 hafa allir endað með sigri Manchester United. Lykilmenn virðast vera farnir að finna sig ansi vel og það smitar út frá sér. Pogba er farinn að stjórna miðjunni, Carrick slær varla feilnótu, vörnin fyrir aftan þá hefur verið solid (fyrir utan einstaka glæfratæklingu) og fremst hefur Zlatan verið að skora grimmt. Sjö mörk úr síðustu 8 tilraunum, það er frábær tölfræði hjá Svíanum.
Meiðslalistinn er farinn að líta mun betur út. Mourinho staðfesti að bara Luke Shaw væri alveg frá vegna meiðsla. Henrikh Mkhitaryan og Eric Bailly eru báðir farnir að æfa aftur eftir meiðsli.
Möguleg útfærsla á byrjunarliðinu gæti því verið á þessa leið:
Cantona no 7 says
Vonandi verða okkar menn í jólaskapi og taka sigur í þessum leik.
Liðið er á réttri leið hjá Mourinho,en getur enn bætt sinn leik.
Vonandi vinnum við með nokkrum mörkum t.þ.a. bæta markatöluna.
Gleðileg jól.
G G M U