Á síðasta degi ársins kemur Middlesbrough í heimsókn á Old Trafford. Middlesbrough situr nú í 15. sæti deildarinnar og hefur gengið frekar brösuglega undanfarið en þó sigrað tvö neðstu liðin, Hull og Swansea. Það er því um að ræða skyldusigur á morgun, ekki síst til að viðhalda góðu gengi undanfarið. Og um leið og ég skrifa orðið ‘skyldusigur’ þá fer auðvitað um mig kaldur hrollur, því reynsla síðustu ára hefur auðvitað verið sú að slíkir leikir hafa reynst örgustu bananahýði.
Við ættum þó að gera ráð fyrir að United ætti að geta tekið vel á móti Middlesbrough. Það er ekki hægt að segja að lið þeirra sé skipað þekktum leikmönnum, en þó eru tveir þeirra vel kunnugir á Old Trafford. Victor Valdés er ratar reyndar betur á bekkinn en út á völlinn, en það verður án efa tekið vel á móti honum Fábio da Silva. Hann er nú kominn til Middlesbrough eftir þrjú ár hjá Cardiff og við búumst við honum í byrjunarliði Middlesbrough. Auk þeirra er nafn Álvaro Negredo kunnuglegt en hann hefur skorað fimm mörk í vetur.
Að öðru leyti er það helst áhugavert um Middlesbrough að stjóri þeirra, Aitor Karanka var aðstoðarmaður José Mourinho í þrjú ár hjá Real Madrid og þekkjast þeir því nokkuð vel.
En að liði United. Það eru engin ný meiðsli í liðinu, Rooney verður væntanlega ekki orðinn góður eftir að hafa fundið fyrir meiðslum í læri fyrir leikinn gegn Sunderland um síðustu helgi og Luke Shaw er ekki kominn til baka. Það er því tiltölulega auðvelt að spá liðinu.
Það er ólíklegt að Eric Bailly byrji þó hann sé heill, til þess hafa Jones og Rojo verið að spila of vel saman. Að auki heldur Bailly til móts við landslið Fílabeinsstrandarinnar eftir þennan leik til að taka þátt í Afríkukeppni landsliða og verja titilinn og því ekki ástæða til að láta hann trufla þessa tvo. Það gæti eins verið Martial eða Lingard sem byrjar vinstra megin, það er líklega sú staða í liðinu í dag sem er minnst niðurnelgd, ásamt vinstri bakvarðarstöðunni.
En það er einhvern veginn afskaplega lítið hægt að segja meira. Liðið hefur sýnt í síðustu leikjum hvers það er megnut og á morgun kemur mótherji sem er ekki sá erfiðasti, þó að vissulega geti þeir strítt United. Það væri afskaplega vel þegið ef við fengjum auðvelda sigur í hús til að halda áfram að auka traust leikmanna og halda sigurgöngunni áfram
Heiðar says
Velti svolítið fyrir mér hvort ekki verði einhverjar breytingar á liðinu í dag, sökum þess að við eigum erfiðan leik eftir 2 sólahringa gegn West Ham. Þetta lið sem þú nefnir er „idal starting 11“ miðað við meiðslastöðu en kannski Martial, Rashford, Lingard og Bailly fái sénsinn til að dreifa álaginu. Zlatan mun þó pottþétt spila enda munu tvö mörk í dag tryggja honum titilinn markahæsti leikmaður ársins í stóru deildum Evrópu!
Heiðar says
Bæti því kannski við að það er erfitt að rótera liði sem gengur vel að óþörfu og því ekki víst að Móri taki neina sénsa, nú þegar hannn virðist hafa fundið sterkasta byrjunarliðið. Mikið væri ég þó til í að Fonsu-Mensah fengi að spila eitthvað, tel að þar sé framtíðarmaður fyrir okkur !