Klukkan 12:30 á morgun hefur Manchester United leik í hinum fornfræga FA bikar. Liðið hefur titil að verja en liðið vann Crystal Palace eftirminnilega 2-1 í framlengdum úrslitaleik á síðasta tímabili. Var það síðasti leikur Louis Van Gaal sem knattspyrnustjóri Manchester United.
Sigurmarkið var ekki af verri endanum en Jesse Lingard endaði síðasta tímabil, og byrjaði núverandi tímabil, með tveimur rosalegum mörkum.
José Mourinho vill eflaust vinna FA bikarinn og bæta þannig við þann eina sem hann vann tímabilið 06/07 þegar Chelsea liðið hans vann United 1-0 í úrslitaleiknum. Í fyrra datt Chelsea liðið út gegn Everton í sjöttu umferð bikarsins en þá hafði Mourinho þegar tekið pokann sinn.
Tímabilið á undan tapaði Chelsea hins vegar fyrir 4-2 fyrir Bradford City í fjórðu umferð bikarsins, og það eftir að hafa komist í 2-0. Þó að Mourinho vilji ekki sjá neitt því um líkt gerast á morgun má samt sem áður reikna með töluvert breyttu liði frá því í síðasta leik.
Reading
Mótherji morgundagsins eru Reading sem flestir Íslendingar þekkja ágætlega enda liðið hvað þekktast hér á landi fyrir að hafa verið fyrsti klúbbur Gylfa Sigurðssonar í Englandi ásamt því að menn eins og Brynjar Björn Gunnarsson áttu þar farsælan feril.
Við United menn tengjum Reading í dag þó við allt annað en Íslendinga. Það er nefnilega enginn annar en Jaap Stam sem þjálfar liðið í dag.
Stam verður eflaust rólegri en þetta á hliðarlínunni á morgun en hann hefur komið mörgum gífurlega á óvart sem þjálfari. Margir myndu tengja gamla harðjaxlinn við stífan varnarleik en það er ekki raunin. Hollenskt uppeldi Stam spilar hér stóran þátt.
Eftir að hann tók við Reading var hann í viðtali við The Guardian þar sem hann fór um víðan völl. Þar ræðir hann aðeins um hvað hann gerði eftir að hann hætti í fótbolta.
Eitt leiddi svo af öðru og allt í einu var hann kominn í þjálfarateymið hjá Ajax. Þaðan lá leiðin svo til Reading og sýndi það Jaap Stam þar hversu mikið hann elskar góða áskorun. Stam var ekki beint leikmaður sem forðaðist 50/50 tæklingar og það að fara til Reading var í besta falli 50/50 ákvörðun. Liðið endaði í 17. sæti í deildinni í fyrra og er ekki eitt af nýríku félögunum í deildinni.
Stam byrjaði þjálfaraferil sinn hjá Reading ágætlega. Þeir unnu tvo leiki, gerðu eitt jafntefli og töpuðu tveimur af fyrstu fimm leikjunum. Síðan þá hafa þeir bætt um betur og eru sem stendur í 3.sæti Championship deildarinnar. Eru þeir aðeins sex stigum á eftir Newcastle og eiga leik til góða. Það sem er svo enn merkilegra er að liðið er með markatölun 36-32, þegar þeir tapa þá tapa þeir stórt!
Þó svo að Stam hafi keypt nokkra leikmenn í sumar þá virðist sem fjármál Reading séu í tómu tjónu. Það fer þó eftir því við hvern er talað. Hið viðkunnalega blað Daily Mail ákvað að skrifa grein þar sem þeir lýsa Reading sem næsta Portsmouth og í raun aðeins tímaspurs mál þangað til félagið færi í gjaldþrot.
Staðarblað í Reading hefur þó blásið á þessar sögusagnir og vilja meina að liðið sé á ágætis stað þó alltaf megi gera betur.
Hvað varðar Reading inn á knattspyrnuvellinum þá fylgja þeir hollenskri hugmyndafræði út í gegn. Það sést best á því að liðið er í 8.sæti í allri Evrópu yfir þau lið sem eru hvað mest með boltann. Það er meira en til dæmis Arsenal, Juventus, Real Madrid og Manchester United.
Hvað varðar liðið og leikskipulag þá er úr litlu að moða. Þeir virðast spila 4-2-3-1 leikkerfi og fyrrum United mennirnir Tyler Blackett og Paul McShane eru hluti af varnarlínu liðsins. Þeir vilja augljóslega spila sig út úr vandræðum og því væri áhugavert að sjá United beita hápressu á morgun. Liðið er svo við það að festa kaup á varnarmanni Liverpool, Tiago Ilori.
Reading kemur inn í leikinn á góðu skriði en þeir hafa unnið þrjá leiki í röð. Þar á meðal 3-2 sigur á Bristol City þar sem þeir lentu 2-0 undir. Einnig verður þetta annar bikarleikur Reading við úrvalsdeildar lið í vetur en fyrr á tímabilinu tapaði liðið 2-0 fyrir Arsenal á Emirates í EFL bikarnum.
Manchester United
Hvað varðar okkar menn þá er spurning hversu mikið Mourinho hrærir í leikmannahópnum. Liðið hefur fengið nokkra daga í hvíld eftir massífa jólatörn þar sem sigurleikirnir komu á færibandi. Núna taka hins vegar við tveir leikir í bikarkeppnum, Reading á morgun og Hull á þriðjudaginn.
Síðan er komið að leik janúar mánaðar þann 15. En þá kemur Liverpool í heimsókn!
Stærstu fréttirnar úr herbúðum United eru þær að Morgan Schneiderlin virðist farinn í læknisskoðun hjá Everton. Það er því hægt að endanlega útiloka að hann taki einhvern þátt í leiknum á morgun. Annars verður áhugavert að sjá hvernig Mourinho stillir upp með tvo bikarleiki á döfinni.
Sem stendur er aðeins James Wilson á meiðslalistanum en ef til vill er þessi leikur of snemma fyrir Wayne Rooney og Luke Shaw en það gæti verið að þeir spili gegn Hull í miðri viku. Verður áhugavert að sjá hvað Mourinho gerir.
Á blaðamannafundi sagði Mourinho að bæði Sergio Romero og Wayne Rooney myndu byrja á morgun gegn Reading. Sömuleiðis sagði hann að Bastian Schweinsteiger væri í hóp!
Leikurinn hefst 12:30 á morgun.
Runar says
Schweinsteiger… :)
Þórleifur says
Solid leikur góður sigur :)