Leikurinn á morgun er fyrsti leikurinn af átta í röð sem á pappírnum eiga að vinnast og sem með góðri raunhæfni er hægt að búast við að liðið fari a.m.k. taplaust í gegnum.
Það er Stoke á bet365 leikvanginum eins og völlur Stoke heitir nú og er alveg örugglega nafnið sem stuðningsmenn nota. Síðustu þrír leikir í Stoke hafa ekki verið gifturíkir fyrir United, tvö töp og jafntefli raunin og það er á hreinu að það verður að gera betur á morgun.
Stoke er að standa sig þokkalega á nýju ári með sigrum á botnliðum Watford og Sunderland í deildinni en töpuðu fyrir Úlfunum í bikarnum á heimavelli. Síðustu tveir leikir þeirra fyrir áramót töpuðust hins vegar 1-4 fyrir Liverpool og 2-4 fyrir Chelsea. Það er því lítið í spilunum sem segir annað en að United skori á morgun og ef vörnin og markvörðurinn stendur sig eins og undanfarið verður þetta sigur og ekkert annað. En eins og alltaf er kálið ekki sopið þó í ausuna sé komið, og leikmenn þurfa að rífa sig upp eftir að hafa ekki átt góðan leik gegn Liverpool.
Enn á ný er United meiðslalaust og José getur valið liðið eins og hann vill. Það verða einhverjar hreyfingar á mönnum en stærsta spurningin er hvort þetta verði leikurinn sem Luke Shaw fær tækifærið í? Ég ætla bara að skella upp þessu liði og verð ekkert hissa ef þetta lítur öðruvísi út á morgun
Ég ætla hreinlega ekki að hafa áhyggjur af því hverjir spila fyrir okkur á morgun, United á að vinna þennan leik.
En það héldum við líka fyrir leikinn á Old Trafford og það var sko ekkert gaman þá. Skemmtilegu fréttirnar eru þær að Jack Butland er meiddur og Lee Grant sem lék múrvegg í marki Stoke á Old Trafford fær því tækifæri á morgun til að leika sama leik. Það þarf að launa honum lambið gráa!
Liði Stoke er spáð einhvern veginn svona
Þarna eru alveg prýðilegir leikmenn á ferð og búist er við að Bojan Krcić verði góður fyrir leikinn þannig hann gæti komið inn í liðið. Þannig að 2-0 með mörkum Arnautovic og Joe Allen, aftur væru úrslit sem stuðningsmenn annarra liða í toppbaráttunni væru ánægðir með og í haust hefði það kannske getað gerst.
En á morgun fáum við að sjá liðið sem vann níu leiki í röð en ekki liðið sem stóð sig ekki nógu vel á móti Liverpool. Þannig verður það bara.
Leikurinn er aldrei þessu vant kl 15:00
Skildu eftir svar