Wayne Rooney er orðinn markahæsti leikmaður í sögu Manchester United. Því afreki náði hann með stórglæsilegu aukaspyrnumarki í uppbótartíma gegn Stoke. Markið kom 4.498 dögum eftir að Rooney skoraði sitt fyrsta mark (og reyndar 2. og 3. markið líka) fyrir Manchester United, í sínum fyrsta leik fyrir félagið, gegn Fenerbahce 28. september 2004. Samtals eru mörkin sem Wayne Rooney hefur skorað í treyju Manchester United orðin 250 og enn tími fyrir hann að bæta við þá tölu, jafnvel þótt spilatími hans sé ekki jafn mikill og reglulegur og oftast áður.
Það er ekki úr vegi að nota þessi merkilegu tímamót, bæði í ferli leikmannsins en ekki síður í sögu félagsins, til að fara aðeins yfir þennan magnaða árangur.
Wayne Rooney, rándýri táningurinn
Wayne Rooney var aðeins 18 ára gamall þegar Manchester United gerði hann að dýrasta táningi heims í fótboltanum. Hann kom til Manchester United á lokadegi félagsskiptagluggans sumarið 2004. Samningurinn hljóðaði þannig að Everton fékk örugg 20 milljón pund frá Manchester United, 3 milljón punda bónusgreiðslu þegar Rooney hafði verið hjá félaginu í 3 ár og svo gat Everton fengið möguleg 4 milljón pund í hinum ýmsu bónusgreiðslum eftir árangri Rooney með Manchester United og landsliði Englands. Það verður að teljast ansi líklegt að Everton hafi á endanum fengið allar þær bónusgreiðslur.
Þessi kaup voru risastór á sínum tíma. Aðeins Rio Ferdinand hafið farið á meiri pening í breskum fótbolta og þetta voru stærstu kaupin á Englandi þetta sumar (næst stærstu voru Drogba til Chelsea á 24 milljón pund). Þrátt fyrir ungan aldur var Rooney þegar búinn að spila 77 leiki fyrir aðallið Everton og 17 landsleiki fyrir England. Það var strax gríðarmikil pressa á honum, bæði vegna þess hversu efnilegur hann var en ekki síður vegna verðmiðans. Háu verði fylgir oft mikil ábyrgð.
En Wayne Rooney var meiddur þegar hann kom til Manchester United. Hann hafði byrjað skínandi vel með Englandi á EM 2004 og skorað 4 mörk. En England féll úr leik gegn Portúgal í útsláttarkeppninni þar sem Wayne Rooney þurfti að yfirgefa völlinn með brotið bein í fæti. Það varð til þess að frumraun hans með Manchester United tafðist fram í lok september 2004.
.@WayneRooney scored his first ever hat trick against @Fenerbahce_EN on his @manutd debut in 2004. #ThrowbackThursday pic.twitter.com/e2nTikqf66
— SportsDirect.com (@SportsDirectUK) November 3, 2016
Það tók Wayne Rooney hins vegar aðeins 17 mínútur að skora sitt fyrsta mark fyrir Manchester United. Honum var slétt sama um alla pressu sem verðmiði, félagsliðstreyja eða enskt vegabréf geta sett á eina manneskju, hann var bara mættur til að skora mörk og vinna leiki. Og það gerði hann.
Hann hefur fyrir löngu borgað félagsskiptagjaldið sitt margfalt til baka með leik sínum, bæði í formi marka en ekki síður í sigurhugarfarinu, kraftinum, hungrinu og ástríðunni. Karakterinn sem Wayne Rooney er hefur vissulega oft komið honum í vandræði, innan vallar sem utan, en hann hefur einnig skilað honum þangað sem hann er kominn núna. Hann er óskoraður markakóngur enska landsliðsins og hefur nú komist upp fyrir Sir Bobby Charlton sem hinn opinberi markakóngur Manchester United. Það er engin tilviljun að hann hefur náð þessum árangri, sama hversu umdeildur hann hefur verið í gegnum tíðina.
Sir Bobby Charlton, 249 eða 251?
Sir Bobby Charlton horfir nú á eftir sínu markameti í hendur Wayne Rooney. Hann er eldri en tvævetur í bransanum og í honum slær Manchester United hjarta, hann samgleðst Wayne Rooney án efa innilega fyrir að ná þessu og veit að það þarf að leggja ýmislegt á sig til að ná slíku afreki.
Charlton var 17 tímabil hjá Manchester United, það tók hann 758 leiki að ná metinu sínu. Enda var hann meiri miðjumaður en sóknarmaður. Sóknarsinnaður miðjumaður þó, enda skoraði hann heilan helling af mörkum. Hann var fjölhæfur og skapandi leikmaður, leiðtogi innan vallar sem utan og átti þátt í að byggja upp úrvalslið Manchester United þegar félagið þurfti sárlega á því að halda.
Tímabilið 1972-73 var hans síðasta með félaginu. Það gekk ekkert alltof vel hjá félaginu það tímabilið, sem sést líklega best á að Bobby Charlton var markahæsti leikmaður Manchester United í deildinni með 6 mörk. En hann kláraði sína vakt með félaginu og síðasti leikurinn sem hann spilaði var leikur í Anglo-Italian keppninni sem Manchester United tók þátt í þann veturinn. Fjórði og síðasti leikur liðsins í þessari keppni fór fram 2. maí 1973 í Verona á Ítalíu þar sem United sigraði heimamenn í Verona með 4 mörkum gegn 1. Bobby Charlton skoraði 2 þessara marka og þrátt fyrir að Manchester United hafi ekki komist upp úr sínum riðli í keppninni þá endaði keppnin, tímabilið og ferill Bobby Charlton allavega á jákvæðu nótunum.
Af einhverjum ástæðum ákvað Manchester United hins vegar að taka þessa keppni ekki með í tölfræði félagsins. Hann taldist því hvorki sem spilaður leikur fyrir Bobby Charlton né fékk hann mörkin talin. Þess vegna eru skráð mörk Bobby Charlton fyrir Manchester United 249 en ekki 251. Þess vegna er opinber kveðjuleikur Bobby Charlton ekki 4-1 sigurleikur gegn ítölskum andstæðingum heldur 0-1 tap gegn Chelsea í deildinni.
Anglo-Italian Cup var aldrei merkileg keppni í sjálfu sér. Hún var til að mynda ekki opinberlega á vegum UEFA. En það var Inter-Cities Fairs Cup, undanfari UEFA Cup, ekki heldur. UEFA tók við þeirri keppni síðar. Og Bobby Charlton hélt allri sinni tölfræði í leikjunum sem hann tók þátt í þar, þótt það héti þá Inter-Cities Fairs Cup. Sum önnur lið sem tóku þátt í Anglo-Italian Cup telja þá tölfræði með í sinni sögu. En Manchester United ákvað að gera það ekki. Kannski var það af því Crystal Palace fór upp úr riðlinum en ekki United, kannski tók United keppnina bara aldrei alvarlega. En sumir vilja þó meina að það hefði átt að telja.
@SkySportsNewsHQ @ManUtd One Behind Sir Charlton, he scored 251 with two in Anglo Italian cup that the club ignores.
— Óskar Utd (@oskarutd) January 21, 2017
Hvað um það, opinberu gögnin segja að Bobby Charlton hafi skorað 249 mörk og við styðjumst við þau hér á þessari síðu. Það væri ekkert verra ef Rooney myndi bara smella í eins og 2 mörk til viðbótar, þá væri hann sannarlega óumdeildur markakóngur Manchester United.
Markakóngurinn Wayne Rooney
Hvað sem öllum Angló-ítölskum keppnum líður þá er afrek Wayne Rooney magnað. Förum aðeins yfir markatölfræðina.
Wayne Rooney hefur skorað mörk á 13 mismunandi tímabilum fyrir Manchester United. Hans bestu tímabil voru annars vegar 2009-10 og hins vegar 2011-12, þegar hann skoraði 34 mörk í öllum keppnum. Afrekið var örlítið betra í seinna skiptið þegar hann skoraði mörkin í 43 leikjum á móti 44 leikjum í fyrra skiptið. Markafjöldinn yfir heilt tímabil hefur aldrei farið undir 14 mörk hjá Rooney.
Eftir keppnum þá raðast markaskorunin þannig:
- Enska úrvalsdeildin: 180 mörk í 384 leikjum
- Meistaradeild Evrópu: 34 mörk í 88 leikjum
- Enski bikarinn: 22 mörk í 39 leikjum
- Evrópudeildin: 5 mörk í 8 leikjum
- Deildarbikarinn: 5 mörk í 19 leikjum
- Heimsmeistarakeppni félagsliða: 3 mörk í 2 leikjum
- Samfélagsskjöldurinn: 1 mark í 5 leikjum
En það er of mikil einföldun að telja eingöngu mörkin sem Wayne Rooney hefur skorað fyrir Manchester United. Wayne Rooney var algjör lykilleikmaður í uppbyggingarstarfi Ferguson á árunum eftir að Rooney kom, starfinu sem leiddi að einhverju besta liði sem Manchester United hefur átt. Liðið sem vann Meistaradeildina 2008, vann deildina 3 tímabil í röð og fór þrisvar sinnum í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á fjórum árum.
Of the 189 games in which Rooney has scored for MUFC, 164 have ended in victory – a win percentage of over 86%. #ROONEY250
— Steve Bartram (@stevebartram1) January 22, 2017
Wayne Rooney hefur flest tímabilin á sínum ferli með Manchester United verið hjartað í sóknarleik liðsins. Ekki endilega fimasti sóknarleikmaðurinn, ekki endilega mesti markaskorarinn en sá sem keyrði liðið áfram í baráttunni og gaf aldrei neitt eftir. Og hey, flest þessara marka sem Rooney hefur skorað eru ekki á færi hvers sem er í boltanum.
Goðsögnin Wayne Rooney
Það var kannski á vissan hátt viðeigandi að markið sem sló markametið skyldi vera þetta mark. Stórkostlega flott mark sem dugði þó ekki nema í jafntefli á þeim tímapunkti þegar liðið þurfti sárlega á sigri að halda. Það hljómar kannski eins og ég sé að gera lítið úr Wayne Rooney eða því sem hann hefur gert fyrir Manchester United í gegnum tíðina en svo er ekki, minn punktur er þessi:
Sagan fer oft mjúkum höndum um goðsagnir. Sagan mun, réttilega, sýna feril Wayne Rooney hjá Manchester United í dýrðarljóma. Akkúrat núna erum við að upplifa tímabil þar sem ákveðins pirrings gætir gagnvart Rooney. Þetta mark kom á svoleiðis tímapunkti, þegar United hefði getað unnið Stoke og sett almennilega pressu á toppsætin en í staðinn þurfti það að láta sér nægja jafntefli. Mark Rooney, þótt flott væri, virkaði í augnablikinu nánast eins og sárabótamark að sumu leyti.
The moment you score an injury-time screamer and become your club’s all-time leading goalscorer… #ROONEY250 🏅 pic.twitter.com/wCGcmFDlJ2
— Manchester United (@ManUtd) January 21, 2017
En þetta er stórmerkilegt og gullfallegt mark. Þetta tímabil mun fara eins og það fer og fljótlega, kannski næsta sumar, kannski eftir 1-2 ár, verður ferill Wayne Rooney hjá Manchester United á enda. Og hann verður markahæsti leikmaður Manchester United frá upphafi. Og þetta mark verður spilað þegar við rifjum upp hverslags snillingur þessi leikmaður var. Burtséð frá úrslitunum þá var þetta mark sem átti skilið að vera markið sem sló metið.
Munu tilburðir Rooney til að knýja fram sölu frá Manchester United koma í veg fyrir að Wayne Rooney verði goðsögn hjá Manchester United? Mun dvínandi form hans undir lokin setja blett á ferilinn þegar fram líða stundir? Ekki aldeilis. Hér fyrr í pistlinum var minnst á tímabilið 1972-73. Það var ekki gott tímabil. George Best var sífellt meira til vandræða, mætti fullur á æfingar, lét sig hverfa, var settur á sölulista og svo inn í liðið aftur. Denis Law var skugginn af þeim leikmanni sem hann hafði verið og skoraði aðeins 2 mörk í deildinni þetta tímabil. Bobby Charlton var líka á niðurleið, skoraði samtals 7 mörk á tímabilinu sem var hans slakasti árangur fyrir félagið á öllum ferlinum. Hetjurnar þrjár töluðust varla við og það var dapur mórall í liðinu. Manchester United tapaði fleiri leikjum en það vann og endaði í 18. sæti. Bæði Law og Charlton hættu hjá United eftir tímabilið. Tímabilið eftir það var ekki mikið skárra, Best var sparkað úr liðinu um áramótin eftir að hafa enn einu sinni látið sig hverfa og United féll um vorið.
Það skal enginn segja mér að það hafi ekki einhver upplifað nettan pirring út í þá félaga einhvern tímann á þessu tímabili, jafnvel tímabilunum á undan. Þegar stuðningsmaður fótboltaliðs veit hversu gott liðið getur verið og hversu góður leikmaður getur, og hefur, verið fyrir liðið, þá getur verið stutt í pirringinn þegar það gengur ekki eins vel. En enginn stuðningsmaður Manchester United er í nokkrum einasta vafa um að þeir félagar Charlton, Best og Law eru risar meðal goðsagna Manchester United. Og sagan mun fara álíka vel með Wayne Rooney. Enda á hann það skilið.
Til hamingju með metið, Wayne Rooney.
Sigurjón Arthur Friðjónsson, SAF says
Frábær pistill í anda Halldórs Marteins ! Til hamingju Rooney !
Jón Þór Baldvinsson says
Magnað met og reyndar öll metin sem hann á og þau eru orðin anskoti mörg í dag.
Það líður varla leikur nema maður lesi að hann hafi slegið eitthvað met þessa dagana en þetta var það stóra sem hann varð að slá og vel að því kominn.
Það gæti orðið ansi langt í að það verði slegið ef þá nokkurntíman en hver veit, kannski Rashford ákveði að verða marka maskínan sem manni finnst hann stefna í og byrja að dæla inn mörkunum en hann verður þá líka að halda tryggð við klúbbinn til að ná svoleiðis áfanga.
Ég vona Rooney verði hjá okkur fram að því að hann leggi skóna á hilluna.
Það er alltaf pláss fyrir gamla og trausta leikmenn sem leggja sig fram, þeir okkar sem muna meistaradeildar leikinn hér forðum munum líka að það var Teddy Sheringham sem kom okkur fyrst á blaðið þar og lengi var Mark Hughes komandi inná í leikjum þegar vantaði bara smá herslu mun.
Rúnar says
Feiti Rooney verður aldrei goð eins og td Giggs, Best, Charlton, Scholes, Beckenham ofl einfaldlega vegna þess að hann er tækifærissinni sem hugsar aðeins um eigin rass.
Rooney er fáviti.