Ég vil byrja á að minna á greinina sem Björn Friðgeir skrifaði í morgun um skuldamál Manchester United. En vindum okkur þá í hefðbundnari upphitunarmál.
Watford er í fínum málum, félagið hefur ekki að neinu að keppa en jafnframt er það ekki í neinni hættu. Þetta ætti því að vera nokkuð þægilegur leikur fyrir Manchester United en það er hættulegur hugsunarháttur því Watford er taplaust í síðustu 4 leikjum. Síðustu 2 leiki hafa þeir gulklæddu unnið, gegn Arsenal á útivelli og gegn Burnley á heimavelli. Það er því eins gott að leikmenn Manchester United verði með hugann við verkið þegar leikurinn verður flautaður á, klukkan 15:00 á morgun.
Manchester United
Þetta verður síðasti deildarleikur Manchester United í febrúar. Liðið spilar þó 4 leiki til viðbótar í mánuðinum en þeir eru allir í öðrum keppnum. Eftir langan tíma þar sem sigurganga United skilaði góðu peppi en engri hreyfingu á töflunni er staðan núna orðin þannig að sigur í þessum leik gæti skilað liðinu upp um 1-2 sæti. Arsenal hefur tapað síðustu 2 leikjum og tekur á móti Hull-liði sem hefur verið að spila vel í síðustu leikjum. Liverpool spilar svo við Tottenham síðar um daginn. Sigur hjá United þýðir því alltaf að liðið myndi ná að saxa á í það minnsta eitt lið fyrir ofan sig.
Wayne Rooney missti af síðasta leik vegna veikinda. Hann hefur haft tæplega viku til að jafna sig af þeim veikindum og hefur Mourinho staðfest að hann sé tilbúinn fyrir leikinn. Hins vegar er alls óvíst að það breyti miklu þótt hann sé búinn að jafna sig, síðasta innkoma hans af bekknum var nú ekki beint öflug.
Good to see Marcos Rojo and @LukeShaw23 back in training. #MUFC pic.twitter.com/u3H0h2ZLLV
— The Manutd Pics (@the_manutd_pics) January 23, 2017
Marcos Rojo og Phil Jones þurftu báðir að fara af velli í síðasta leik. Marcos Rojo hefur sést á myndum af æfingasvæðinu sem bendir til þess að hann sé búinn að jafna sig en Jones nær ekki leiknum samkvæmt nýjustu ummælum Mourinho. Meiðslin ættu ekki að vera alvarleg en það er óþarfi að taka sénsinn, sérstaklega þar sem liðið er vel mannað í miðvarðastöðunum núna.
Ég spái byrjunarliðinu um það bil svona:
Ég ætla að giska á að Martial fái sénsinn í þessum leik. Væri alveg til í að sjá Shaw líka detta inn en hugsa að hann komi frekar inn í einhverjum af næstu fjórum leikjum.
Watford
Watford er að mörgu leyti heldur undarlegt lið þessa dagana. Í deildinni siglir það lygnan sjó, í 10. sæti. Það á að baki frækna sigra í vetur, til að mynda gegn Manchester United í fyrri leik liðanna í deildinni og gegn Arsenal í lok janúar. En jafnframt hefur liðið tapað illa í nokkrum leikjum í vetur, það tapaði t.d. 1-6 í deildinni gegn Liverpool, 1-4 á heimavelli gegn Tottenham og féll úr bikarkeppnunum gegn Gillingham og Millwall.
Það var nokkuð að gera hjá Watford í janúarglugganum. Liðið sendi 6 leikmenn út á lán og seldi 2 til viðbótar. Á móti keypti Watford Argentínumanninn Mauro Zárate frá Fiorentina og fékk lánaða Tom Cleverley frá Everton og M’Baye Niang frá AC Milan. Þessir leikmenn sem komu inn í janúar hafa verið að spila vel og virðast hafa styrkt liðið mikið.
Markvörðurinn Costel Pantilimon er meiddur ásamt þeim Roberto Pereyra, Christian Kabasele og Nordin Amrabat. Bakvörðurinn José Holebas er tæpur en það er búist við að hann nái leiknum.
Leikurinn
Eins og áður sagði þá vann Watford síðasta leik þessara liða. Manchester United hafði þar á undan unnið 11 leiki í röð gegn Watford. Watford hefur aðeins unnið einn leik á heimavelli Manchester United og það var deildarbikarleikur í október 1978.
Það tímabil var Watford í þriðju deildinni eftir að hafa unnið fjórðu deildina tímabilið á undan. Graham Taylor var á sínu öðru tímabili með liðið og á leiðinni að stýra því upp um deild annað árið í röð. Watford fór alla leið í undanúrslit deildarbikarsins en tapaði þar gegn Englandsmeisturum Nottingham Forest.
Graham Taylor stýrði Watford tvisvar á ferlinum. Fyrra skiptið var á árunum 1977-87 þegar hann kom liðinu úr 4. deild upp í efstu deild á fimm árum. Undir hans stjórn endaði Watford í 2. sæti efstu deildar árið 1983 og komst í úrslit enska bikarsins árið 1984. Seinna skipti Taylor sem stjóri Watford var á árunum 1996-2001. Þá kom hann liðinu upp í úrvalsdeildina, þótt það hafi reyndar aðeins náð einu tímabili þar.
Taylor lést fyrir mánuði síðan og hafa allir sem koma nálægt knattspyrnuklúbbi Watford verið duglegir að minnast hans með hlýhug. Leikmenn hafa verið að tileinka honum frammistöður og sigra síðustu vikna. Ekki í fyrsta sinn sem Graham Taylor hefur fyllt leikmenn Watford innblæstri.
Við kunnum að sjálfsögðu að meta góða knattspyrnukaraktera eins og Graham Taylor en við vonum samt að leikmenn Manchester United minnist hans ekki með því að gefa Watford stig. Þrjú stig til Manchester United er krafan í þessum leik. Áfram og upp á við!
Skildu eftir svar