Eftir hæðir og lægðir síðustu daga er komið að næsta leik, 16-liða úrslit Evrópudeildarinnar hefjast á Olimp-2 vellinum í rússneska hafnarbænum Rostov-on-Don. Í beinni loftlínu eru 3.019 km á milli heimavalla Manchester United og FC Rostov. Þetta er ekki skemmtilegasta ferðalagið sem Manchester United hefði getað fengið en andstæðingurinn hefði getað verið mun erfiðari. Þó borgar sig ekki að vanmeta Rússana. Manchester United hefur líka sýnt það í vetur að auðveldur leikur á blaði þarf ekki að þýða að hann verði auðveldur þegar á grasið er komið.
Leikurinn hefst klukkan 18:00 að íslenskum tíma, 21:00 að staðartíma. Veðurspáin er ágæt, á að vera 6-7 gráðu hiti, 6 m/s, heiðskírt og úrkomulaust. Sem verður að teljast nokkuð vel sloppið. Dómari verður Felix Zwayer frá Þýskalandi.
FC Rostov
Það verður ekki sagt að andstæðingar Manchester United séu meðal þekktari félagsliða Rússlands. FC Rostov var stofnað árið 1930, þá reyndar undir nafninu Selmashstroy. Nafnið þróaðist svo með árunum, breyttist í Selmash árið 1936, Traktor árið 1941, Torpedo árið 1953 og Rostselmash frá 1958 til 2003 þegar félagið tók upp nafnið FC Rostov. Fyrstu árin flakkaði liðið stundum ört á milli deilda en eftir að rússneska úrvalsdeildin var stofnuð, árið 1992, hefur liðið aðeins eytt 2 tímabilum utan efstu deildar.
FC Rostov spilaði nú um helgina sinn fyrsta deildarleik í 3 mánuði. Það er ríflegt vetrarfrí í fótboltanum þar, enda ekki girnileg tilhugsun að spila knattspyrnu utanhúss í rússneskum janúargaddi. Fyrsti leikur eftir frí endaði vel, 6-0 útisigur á Tom Tomsk. En Tom Tomsk er reyndar í botnsæti rússnesku úrvalsdeildarinnar.
Rostov er sem stendur í 7. sæti deildarinnar. Að vísu eru liðin í 5.-7. sæti öll með 28 stig eftir 18 leiki en þar sem innbyrðis viðureignir ráða röðinni þá er Rostov í 7. sætinu þótt liðið sé með +13 í markatölu en liðið í 6. sæti með 0 og liðið í 5. sæti með -1 í markatölu. Sinn er siður í landi hverju.
Rostov græddi þó á þessari reglu tímabilið 2014-15. Þá endaði liðið í 14. sæti (af 16 liðum), með jafnmörg stig og Torpedo Moscow, verri markatölu en betri árangur í innbyrðis viðureignum. Það þýddi að Torpedo Moscow féll beint úr deildinni en Rostov fékk umspilsleik til að bjarga sér frá falli. Rostov vann það umspil og hélt sér í deildinni.
Árið áður hafði Rostov unnið rússneska bikarinn, eina titilinn sem félagið hefur unnið. Það gerði liðið með því að sigra Krasnodar í vítaspyrnukeppni í úrslitunum. Ragnar Sigurðsson var annar af tveimur leikmönnum Krasnodar sem klikkaði á víti á meðan aðeins 1 leikmaður Rostov náði ekki að skora úr sinni spyrnu. Við þennan sigur vann Rostov sér þátttökurétt í Evrópudeildinni. Um tíma leit út fyrir að Rostov yrði bannað að taka þátt í keppninni vegna skuldamála en það leystist úr því. Vera þeirra í Evrópudeildinni var þó stutt í það skiptið því Rostov tapaði fyrir Trabzonspor í umspili um að komast í riðlakeppnina.
Þetta tímabil var því ansi skrautlegt, félagið ríkjandi bikarmeistari og tók þátt í Evrópukeppni en samt líka nálægt því að falla. Í desember stigu þeir það gæfuspor að ráða Kurban Berdyev sem stjóra félagsins. Reynslumikill stjóri sem hafði stoppað lengst við hjá Rubin Kazan á árunum 2001-2013. Berdyev bjargaði liðinu frá falli og stýrði þeim svo upp í 2. sæti deildarinnar tímabilið eftir. Rostov endaði aðeins 2 stigum á eftir meisturunum í CSKA Moscow. Þetta var þeirra langbesti árangur í rússnesku úrvalsdeildinni, næst besti árangurinn var 6. sæti árið 1998. Annað sætið tryggði Rostov inn í Meistaradeild Evrópu.
Berdyev sagði upp störfum í ágúst 2016. Við stjórn tók aðstoðarmaður hans, Ivan Daniliants. Berdyev fór þó ekki langt heldur færði sig í stjórn félagsins og er nú varaforseti FC Rostov. Daniliants hefur haldið áfram störfunum, kom Rostov í riðlakeppni Meistaradeildarinnar þar sem liðið endaði í 3. sæti í riðli með Bayern Munchen, Atletico Madrid og PSV Eindhoven. Í 32-liða úrslitum Evrópudeildarinnar vann Rostov góðan 4-0 heimasigur á Sparta Prague og kláraði einvígið í fyrri leiknum, 1-1 jafntefli í seinni leiknum var meira en nóg.
Rostov spilar sína heimaleiki á Olimp-2 vellinum. Völlurinn var byggður árið 1930 og tekur núna 15.840 áhorfendur. Miðað við áhorfendafjölda er hann 35. stærsti völlur Rússlands (væri númer 54 á Englandi, rétt á undan County Ground í Swindon). Þetta er þó mögulega síðasta tímabilið sem liðið spilar á þessum velli því það er verið að byggja 45.000 manna völl í Rostov-on-Don sem á að verða tilbúinn fyrir heimsmeistaramótið á næsta ári. Rostov mun síðan spila sína leiki á nýja vellinum.
Það stefnir í að Rostov ætli að kveðja þennan gamalgróna völl með stæl. Í deildinni er Rostov taplaust á heimavelli og hefur aðeins fengið á sig 2 mörk í 9 leikjum, skorað 15. Rostov hefur að auki spilað 6 Evrópuleiki á heimavelli, unnið 3 þeirra, gert 2 jafntefli og aðeins tapað einum. Þessi eini tapleikur liðsins á heimavelli á tímabilinu var 0-1 tap gegn Atlético Madrid. Rostov vann m.a.s. þýska stórveldið Bayern Munchen á heimavelli í nóvember, 3-2 eftir að hafa lent undir í leiknum. Rostov vann líka Ajax 4-1 og Sparta Prag 4-0 á heimavelli.
Það er ekki nóg með að Rostov hafi náð að gera heimavöllinn að sálrænu virki heldur virðist völlurinn sjálfur líka ætla að verða til vandræða. Stjóri Rostov, Ivan Daniliants, varaði við því að völlurinn væri ekki í góðu ástandi og kæmi illa undan vetrarfríinu. José Mourinho sagði að ástand vallarins væri óboðlegt og varla hægt að kalla þetta fótboltavöll. Maður hefur oft séð ferskari grasvelli í fyrstu umferðinni í Pepsideildinni.
Here’s the pitch in Rostov. Can see why jose is unhappy pic.twitter.com/i2gqvQUGcr
— Paul Hirst (@hirstclass) March 8, 2017
Ég þekki ekkert til leikmanna Rostov og aldrei séð leik með liðinu áður. Það er enginn leikmaður í banni hjá þeim en tveir leikmenn eru tæpir vegna meiðsla. Annars vegar er það markvörðurinn Soslan Dzhanaev. Hann er líklega aðalmarkmaður liðsins, í það minnsta hefur hann spilað 13 leiki í deildinni og alla 6 leiki liðsins í Meistaradeildinni. Hann hefur þó sennilega verið meiddur í einhvern tíma því Nikita Medvedev hefur spilað 5 deildarleiki auk þess að spila báða leikina í 32-liða úrslitum Evrópudeildarinnar.
Hinn leikmaðurinn sem er tæpur er Dmitriy Poloz. Sá hefur aðallega spilað sem framherji en getur líka spilað á kantinum eða sem sóknarsinnaður miðjumaður. Hann spilaði alla leikina í riðlakeppni Meistaradeildarinnar og báða í Evrópudeildinni, hefur skorað 5 mörk í Evrópukeppnunum og 4 mörk í 14 deildarleikjum.
Annars nýt ég aðstoðar WhoScored.com þegar kemur að því að spá líklegu byrjunarliði Rostov. Spekingarnir á þeirri síðu reikna með að Rostov spili 3-5-2 og stilli upp þessu byrjunarliði:
Það er mögulegt að uppstillingin verði nær 5-3-2, þannig stillti WhoScored upp liði Rostov í báðum leikjunum gegn Sparta Prague. Það er kannski ágætt að halda því til haga að Sparta Prague missti leikmann af velli með rautt spjald í báðum leikjunum gegn Rostov. Í fyrri leiknum á 32. mínútu og á 66. mínútu í seinni leiknum. Það hefur örugglega hjálpað Rostov mikið í þessum leikjum. Í bæði skiptin var um seinna gula að ræða.
Manchester United
Það var gjörsamlega ótrúlegt að Manchester United væri ekki búið að ganga frá leiknum gegn Bournemouth í fyrri hálfleik, jafnvel strax eftir 25 mínútur. Liðið er réttilega gagnrýnt fyrir slaka frammistöðu í þeim leik og að hafa enn einu sinni mistekist að nýta yfirburðina og nýta tækifærið til að gera almennilega atlögu að topp 4. En fyrsti hálftíminn í þessum leik er samt með því besta sem Manchester United hefur sýnt í spilamennsku á tímabilinu. Það vantaði bara að klára færin, ekki í fyrsta skiptið í vetur.
Miðað við ástandið á vellinum þá verður erfitt að segja hvernig liði Mourinho stillir upp. Það væri galið að taka sénsinn með tæpa leikmenn eða nýkomna úr meiðslum. Rooney og Shaw urðu eftir á Englandi, það er spurning hvort það þýði að þeir séu eitthvað tæpir eða verið sé að spara þá alfarið fyrir bikarleikinn gegn Chelsea á mánudaginn. Mkhitaryan fór með en ég vona að það verði ekki tekinn séns á honum. Eric Bailly er í banni. Zlatan getur spilað þennan leik, hann er ekki að fara að spila á Englandi næstu þrjá leiki. Það er spurning hvernig andlega hliðin á Marcos Rojo er eftir að hann missti ungan frænda sinn á sviplegan hátt í byrjun vikunnar.
Lið Manchester United gæti litið um það bil svona út:
Annars hefði ég ekkert á móti því að Pogba fengi bara að sitja þennan leik af sér. Það væri of slæmt að missa hann í kjánaleg meiðsli á ömurlegum velli. Ég tæki glaður steindautt 0-0 út úr þessum leik ef það þýddi að allir leikmenn kæmu heilir út úr honum.
Talandi um 0, Manchester United er nú búið að halda hreinu í fjórum leikjum í röð í Evrópudeildinni. Tíu lið hafa áður náð því í Evrópudeildinni, af þeim náði aðeins Napolí að halda hreinu í fimmta leiknum líka. Sergio Romero hefur spilað í marki í þessum fjórum leikjum.
Auðvitað væri fínt að klára bara einvígið í þessum leik en fyrst og fremst þarf bara að halda þessu í góðu fari fyrir næstu leiki. Forðast meiðsli og klúður, það er þá alltaf hægt að klára þetta á Old Trafford eftir viku. Við viljum enn sjá þennan titil koma á Old Trafford.
Jörgen says
Langaði bara að segja að þetta er virkilega flott upphitun, gaman að sjá hvað hefur verið lagt í hana.
En að leiknum eins og sagt er hér að ofan þá virðist þetta lið alveg getað spilað fótbolta og að vinna Bayern Munchen verður að teljast vel gert. Er sammála að það væri fínt ef þeir sem hafa spilað eitthvað minn taki meiri þátt í þessum leik.
Væri til í klassískan ferguson úti leik sem myndi enda 0-0 eða 0-1 fyrir okkur.
Audunn says
Þetta verður mjög líklega afar rólegur leikur, ætla að spá 0-1.
Móri mun ekki taka neina óþarfa sénsa og leggja meiri áherslu á að fá ekki á sig mark en að skora sem er líklega það rétta í stöðunni.
United í hag að reyna að drepa leikinn í rólegheitunum niður í stað þess að hleypa honum upp í einhver læti.
Erfiðar aðstæður og því óþarfi að fara inn með miklum látum, vorkenni samt ekki þessum leikmönnum sem þéna tugi milj á viku að þurfa að glíma við erfiðar aðstæður einstaka sinnum.
Þetta eru ekki postulín styttur.
Grímur says
Skil alveg það sjónarmið Auðunn en hins vegar má líka líta svo á að það getur kostað þessa menn milljónir króna að meiðast. Það getur skemmt feril þeirra. Svo áhættan að spila á vondu grasi er mun meiri en hún er fyrir skrifstofumenn sem hafa ekki lífsviðurværi sitt undir í bumbubolta.