Manchester United er komið í undanúrslit Evrópudeildarinnar. Framlengingu þurfti til í seinni leiknum en að lokum náði Manchester United 2-1 sigri. Dregið verður í undanúrslitin klukkan 11:00 á morgun.
Liðið sem hóf leikinn fyrir Manchester United var svona:
Varamenn: De Gea, Blind (23′), Herrera, Fellaini (60′), Young, Martial (91′), Rooney.
Byrjunarlið gestanna frá Belgíu var þannig skipað:
Varamenn: Boeckx, Deschacht, Bruno, Nuytinck, Capel, Kiese Thelin, Stanciu.
Fyrri hálfleikur
Eftir frábæra frammistöðu um síðustu helgi gegn Chelsea var eftirvænting í manni fyrir þennan leik, vonandi tækist liðinu að koma inn í þennan leik af svipaðri ákefð og í stórleiknum gegn Chelsea. Svo varð þó ekki til að byrja með. Manchester United tók vissulega stjórn á leiknum til að byrja með en Anderlecht náði líka alveg að spila fótbolta.
Manchester United komst þó snemma yfir. Paul Pogba vann boltann aftarlega á vellinum og átti stórkostlega sendingu upp völlinn á Rashford. Rashford reyndi fyrirgjöf á Zlatan en hún hrökk af varnarmanni og aftur á Rashford. Í það skipti fann Rashford gapandi frían Mkhitaryan á jaðri vítateigsins. Armeninn fékk sendingu frá Rashford og setti boltann í netið, hans fimmta mark í síðustu 6 leikjum í Evrópudeildinni.
Eftir markið átti Manchester United tvö hættuleg marktækifæri á næstu 3 mínútum. Fyrst Pogba með góðan skalla eftir horn, síðan Lingard með fínt skot fyrir utan teig en markmaður Anderlecht varði bæði skotin.
Í kjölfarið á því slakaði Manchester United verulega á. Það var hálfpartinn eins og leikmennirnir héldu að þetta væri bara komið. Ekki bætti úr skák að Marcos Rojo þurfti að yfirgefa völlinn eftir 20 mínútna leik vegna höggs sem hann fékk á hnéð. Inná í hans stað kom Daley Blind sem hefur ekki spilað mikið í miðverðinum í vetur. Munaði mikið um það, ekki síst þar sem Rojo hefur verið að spila frábærlega í miðverðinum.
Anderlecht náði að jafna metin eftir rúmlega hálftíma leik. Þeir náðu hröðu upphlaupi upp völlinn sem endaði með bylmingsskoti frá Youri Tielemans sem endaði í slánni. Leikmenn Anderlecht voru fljótari að átta sig og voru tveir komnir í baráttu um frákastið sem endaði með að fyrirliðinn Sofiane Hanni kom boltanum í netið. Alls ekki nógu vel gert varnarlega hjá Manchester United. Sérstaklega ekki hjá Daley Blind og Luke Shaw. Báðir spiluðu þeir leikmenn Anderlecht réttstæða í aðdraganda marksins og náðu ekki að díla nógu vel við frákastið.
Anderlecht hefur skorað í öllum útileikjum sínum í Evrópudeildinni í vetur. Það hefði því átt að vera nægt tilefni til að vera meira á tánum en leikmenn voru þarna. Að einhverju leyti má skrifa þetta á það að bæði Blind og Shaw mættu ryðgaðir til leiks eftir að hafa spilað lítið en þetta er ekki í fyrsta skipti sem þeir gera sambærileg mistök, ryðgaðir eða ekki.
Luke Shaw var þó reyndar langt frá því að vera alslæmur í þessum fyrri hálfleik. Hann átti nokkra afar góða spretti upp völlinn og inn í teig Anderlecht. Í eitt skipti munaði sáralitlu að fyrirgjöf hans næði á samherja og í annað skipti köttaði hann inn og náði skoti á markið en þar sem það var með hægri fæti þá truflaði það markmanninn ekki mjög mikið. En þetta voru taktar sem var gaman að sjá frá Shaw.
Anderlecht voru þó næstum búnir að bæta við marki rétt undir lok fyrri hálfleiks þegar Hanni náði að nikka boltanum framhjá Romero en aðeins of fast til að hann næði honum áður en hann fór aftur fyrir endamörk.
Staðan 1-1 í hálfleik sem verður að teljast sanngjarnt miðað við hvernig leikurinn spilaðist.
Seinni hálfleikur
Í byrjun seinni hálfleiks gerði Valencia sjaldséð mistök þegar hann missti langa stungusendingu innfyrir sig beint á framherja Anderlecht. En Valencia reddaði því bara sjálfur með flottri tæklingu til að blokka skotið. Aðeins mínútu síðar átti Luke Shaw annan frábæran sprett inn í teig andstæðinganna. Hann náði föstum bolta fyrir en Jesse Lingard rétt missti af fyrirgjöfinni í mikilli baráttu við miðvörð Anderlecht.
Mourinho var greinilega ekki ánægður með hversu illa gekk hjá Manchester United að ná tökum á miðjunni svo hann gerði breytingu eftir klukkutíma leik þegar Marouane Fellaini kom inn á fyrir Jesse Lingard. Fellaini spilaði sem miðjumaður en við hvert tækifæri sem gafst fór hann fram í teiginn og reyndi að valda usla þar. Það munaði ansi miklu um þetta og pressa Manchester United jókst jafnt og þétt.
Með réttu átti Manchester United að gera út um leikinn á þessum kafla rétt eftir að Fellaini kom inn á. Fyrst fékk Rashford dauðafæri þegar hann pressaði aftasta varnarmann Anderlecht og vann af honum boltann. Hann komst einn gegn markmanni, ætlaði að leika framhjá honum en snertingin var ekki góð og hann missti boltann of langt frá sér til að ná skoti.
Tveimur mínútum síðar fékk Zlatan ennþá betra færi. Fellaini sýndi þá gagnsemi sína þegar hann fór einn upp í skallabolta gegn 4 varnarmönnum Anderlecht, vann boltann og kom honum yfir á Zlatan sem stóð þá dauðafrír við markteiginn. Svíinn hafði helling af tíma og tók sér líka helling af tíma til að stilla sig af en Martinez í marki Anderlecht varði skotið hans. Þarna hefði Zlatan átt að gera miklu betur.
Pogba fékk svo færi frá markteigslínunni eftir horn en skaut hátt yfir. Carrick sendi góða stungusendingu á Zlatan sem var einn gegn marki en hitti illa á boltann og skaut framhjá. Rashford fékk svo aðra stungu stuttu síðar en var dæmdur rangstæður. Tæpur, ef ekki hreinlega rangur, dómur.
Venjulegur leiktími kláraðist þannig, eins og svo margir fleiri í vetur, þar sem Manchester United var með mikla yfirburði en náði ekki að nýta þá og 1-1 eftir 90 mínútur. Framlengt.
Framlenging
Venjulegur leiktími kláraðist reyndar á afar leiðinlegan hátt. Zlatan Ibrahimovic lenti þá hrikalega illa sem olli því að hann fékk slæman hnykk á hnéð. Hann gat ekki haldið leik áfram og óttast margir að hann kunni að hafa slitið eitthvað í hnénu. Martial fékk þar með tækifæri til að koma inn á í leiknum, þrátt fyrir að Wayne Rooney hafi verið búinn að hita upp megnið af síðari hálfleik.
Strax í byrjun framlengingar munaði litlu að Manchester United skoraði mark ársins. Marcus Rashford átti þá rabona fyrirgjöf á Paul Pogba sem tók hjólhestaspyrnu en Uros Spajic, miðvörður Anderlecht, skemmdi það með því að vera fyrir skotinu. Frábær varnarleikur reyndar. Aftur var sami miðvörður á ferð seinna í framlengingunni þegar hann kom í veg fyrir að Fellaini næði að skalla að marki úr dauðafæri. Stórgóður leikur hjá Spajic í kvöld.
Undir lok fyrri hálfleiks framlengingar svitnuðu stuðningsmenn Manchester United rækielga þegar Tielemans náði hörkuskoti utan af velli sem skoppaði illa fyrir Romero sem varði en náði ekki að halda boltanum. Hann náði þó að stökkva á hann áður en sóknarmaður Anderlecht náði til hans.
En í byrjun seinni hálfleiks framlengingar náði United loksins að skora. Daley Blind náði þá að sýna sínar góðu hliðar þegar hann átti frábæra sendingu úr vörninni beint á Fellaini í teig Anderlecht. Fellaini gerði sem fyrr gríðarlega vel í þeirri stöðu og ekki bara vann skallaboltann heldur skilaði honum mjög vel til Rashford. Rashford var með tvo varnarmenn í sér en náði að snúa þá af sér með skemmtilegum snúningi áður en hann sendi gott skot í markið. Loksins loksins!
Síðustu 12 mínúturnar voru svo frekar taugastrekkjandi áhorfs. Anderlecht fór að sækja meira og Manchester United byrjaði að hugsa um að passa forskotið. Þeirra besta tækifæri kom þegar illa gekk að skalla frá marki og Kaka, hinn miðvörður þeirra, náði að skalla innfyrir vörnina á Acheampong en sem betur fer náði kantmaður Belganna ekki góðum skalla að marki og Romero náði að verja. Martial hafði svo tíma til að skora eitt mark enn en það var dæmt af vegna rangstöðu, réttur dómur í það skipti.
Leikurinn endaði þannig og Manchester United náði sigri. Afskaplega opinn leikur, hellingur af færum og margar tilraunir á báða bóga. Eflaust fyrirtaks skemmtun fyrir hlutlausa en heldur stressandi fyrir okkur stuðningsmenn Manchester United.
Pælingar eftir leik
Manchester United á að vera mun betra lið en þetta Anderlecht lið, með fullri virðingu fyrir því. Frammistaðan í leiknum hefði líka átt að duga til að vinna þennan leik í 90 mínútum. Enn einu sinni nær liðið ekki að klára dauðafærin. En það slapp samt, liðið komst áfram. Hefði þetta sloppið gegn öðrum andstæðingum? Alls ekki svo viss um það.
En núna eru bara 4 lið eftir í Evrópudeildinni. Manchester United, Lyon, Ajax og Celta Vigo. Okkar menn eru nær úrslitaleiknum, nær tækifærinu á að landa öðrum bikar og nær Meistaradeildarfótbolta. Frammistaðan mætti þó batna og færanýtingin hreinlega verður að batna.
Það var hrikalegt að missa Rojo og Zlatan í meiðsli. Sérstaklega Rojo, bæði hefur hann verið gríðarlega öruggur í hjarta varnarinnar í vetur og svo er alltaf mjög slæmt þegar 3 af fjórum aðalmiðvörðum liðs eru meiddir. Rojo haltraði af Old Trafford eftir leikinn en það er þó jákvætt að hann gat gengið sjálfur.
Luke Shaw náði að sýna í kvöld bæði af hverju við söknum hans svona mikið og líka af hverju Mourinho á í erfiðleikum með að treysta honum. Ef það væri hægt að búa til bakvörð sem hefði sóknarhæfileika Shaw og varnarhæfileika Darmian þá værum við líklega með fullkominn bakvörð.
Marcus Rashford, hvílíkur leikmaður! Besti maður leiksins að mínu mati. Sífellt ógnandi, sífellt að reyna að búa eitthvað til. Hann er hugmyndaríkur og skapandi leikmaður. Mourinho virðist líka mjög hrifinn af honum, peppaði hann duglega eftir leik.
Paul Pogba er annar sem átti góðan leik. Ekki allt sem heppnaðist hjá honum en mun oftar sem hann náði að gera góða hluti, bæði í sókn og vörn.
Valencia var traustur og flottur eins og vanalega. Það sem hann er búinn að vera frábær í vetur!
Mér fannst innkoma Fellaini góð. Hann kom með allt öðruvísi element inn í leikinn en Lingard. Lingard vinnur mikið með sniðug hlaup sem ýmist búa til pláss fyrir hann eða draga andstæðinginn úr stöðum og opna á eitthvað fyrir samherja. Fellaini kom í staðinn inn í miðjubarninginn og var svo mikið í því að valda usla inní teig andstæðinganna, eins og hann gerir svo vel. Hann er alltaf að sýna betur hvers vegna hann getur alveg sinnt góðu hlutverki fyrir Manchester United eitthvað áfram. Og Mourinho treystir honum.
Romero hefur oft virkað öruggari en í kvöld. Hann náði þó að stoppa skot og gat lítið gert í markinu. Carrick gerði mikið af Carrickstöffi en var orðinn gríðarlega þreyttur. Það var leiðinlegt að þurfa að eyða tveimur skiptingum í meiðsli því annars hefði verið upplagt að skipta Carrick út fyrir Herrera.
Anderlecht má alveg fá hrós fyrir ýmislegt í þessum leik. Miðverðirnir þeirra voru frábærir, markmaðurinn var stórkostlegur (sem er löngu hætt að vera fyndið á Old Trafford) og maður skilur alveg hvers vegna Tielemans er svona umtalaður.
Nokkrar pælingar að lokum
- Þetta var erfitt en það hafðist. Undanúrslit, here we come!
- Zlatan Ibrahimovic er stórkostlegur leikmaður en er hann að stífla flæðið í sóknarleik liðsins of mikið? Hann gæti hafa spilað sinn síðasta leik fyrir liðið.
- Daley Blind hefur verið að fá færri og færri mínútur. Innkoma hans í kvöld var ekki góð til að byrja með en þegar liðið var nánast alfarið í sókn sýndi hann hvað hann getur með frábærri sendingu fram völlinn fyrir sigurmarkið. Það er þó ekki ólíklegt að hann sé einn af þeim leikmönnum sem fari í sumar.
- Hvað þarf eiginlega að gerast til að Manchester United fari að nýta þessi dauðafæri betur?
Egill says
Ánægður með þetta lið, vonandi fáum við að sjá Rooney koma inná í seinni hálfleik. Hann á skilið að enda á góðu nótunum hjá okkur eftir allt sem hann hefur gert fyrir félagið. Annars er ég smá stressaður yfir Bailly, hann er einu spjaldi frá leikbanni og við höfum ekki beint marga leikmenn til að leysa hans stöðu. Smalling og Jones eru báðir meiddir og eini kosturinn er Blind, sem er ekki beint leikmaðurinn sem við þurfum þarna.
Spái 2-0 sigri okkar manna.
Bjarni says
Gott að vera búnir að skora mark en svo virðist allt vera komið í hægagírinn. Erum að bjóða þeim í dans
Bjarni says
Hvað var ég að segja. Djöfullsins moð.
Turninn Pallister says
Þetta er viiiirkilega lélegt maður. Þurfum meiri kraft á miðjuna, reikna með að Herrera komi inn í seinni og bjargi deginum.
Egill says
Það er alveg ótrúlegt að Blind skuli vera notaður í miðvörð. Hann virðist ekki hafa neinn skilning á því hvenær hann þarf að stíga framar til að gera menn rangstæða. Svo er Lingard aftur kominn í sinn vanagír, hleypur bara um og virðist ekki hafa neitt markmið í leiknum. Zlatan mættur í sóknina og við erum orðnir hægir og fyrirsjáanlegir þar aftur.
Þetta verður erfiður seinni hálfleikur.
Hjörtur says
Þessi leikur er tapaður ef þeir ekki bæta sig í seinni hálfleik. Anderlech hefur verið hættulegri og átt betri færi.
Bjarni says
Já spurning hvort við erum svona hægir út af Zlatan og Carrick. Þetta er kópering af útileiknum.
Turninn Pallister says
Ertu að djóka!
Ef við getum ekki skorað úr þessum dauðafærum, þá skorum við ekki meira í kvöld…
Helgi P says
Hvað þurfum við að fá mörg færi til að skora
Egill says
Jæja sigur, og sanngjarn í þokkabót, en mikið rosalega var þetta dýrt. Leit alls ekki vel út með Zlatan.
En mikið rosalega þurftum við mörg færi til að klára þennan leik, Zlatan og Rashford hefðu getað skorað þrennu hvor. En Rashford maður leiksins og Pogba í öðru sæti.
Cantona no 7 says
Góður sigur og mjög harðsóttur.
Liðið getur miklu meira og vonandi klára menn næstu leiki.
G G M U
Auðunn says
Úff tæpt var það og stressandi en fullkomlega verðskuldaður sigur.
United miklu betri aðilinn og sérstaklega í seinni hálfleik.
Jæja nú fer að færast mikið fjör í þessa keppni, vona að við fáum Ajax næst.
Omar says
Gott að við komumst áfram en þessi sigur var mögulega dýr. Þó auðvitað sé alltaf ömurlegt að missa frábæra menn eins og Zlatan í meiðsli, þá er ég hræddur um að það geti reynst okkur jafnvel enn meira dýrkeypt ef Rojo er lengi frá. Það hefur því miður sýnt sig að Blind bara ekki nægjanlega góður sem aðalmiðvörður og í augnablikinu eru hann og Bailly okkar einu nothæfu miðverðir (sú staða á vellinum þar sem maður hélt að væri nú nokkuð trygg með mannskap). Ég hef fulla trú á að Rashford og Martial muni leysa framherja stöðuna með sóma og svo eigum við alltaf Rooney karlinn til að bakka þá upp með reynslu. Erfitt prógram framundan og nóg af stórleikjum, nú fyrst reynir á úr hverju menn eru gerðir.
Heiðar says
Ég er pínu fúll út af ummælunum sem ég les víða á MUFC spjallborðum um Zlatan. Mourinho setti hann á bekkinn gegn Chelsea, leikskipulagið gekk 100%, allir spiluðu vel og við unnum. Í kvöld kom Zlatan aftur inn og átti ekki góðan dag. Síðan meiddist hann. Allt í einu er umræðan orðin á þann veg að svíinn sé akkilesarhæll í liðinu! Þessi maður er búinn að EIGA þetta lið í mestallan vetur. 28 mörk í liði sem hefur ekki alltaf skilað mörgum færum í leik segir sína sögu. Mörkin hafa líka verið sum hver extra mikilvæg, m.a. mörkin tvö í úrslitaleik deildarbikarsins gegn Southampton.
Ég vil fá striker í liðið í sumar en ég held að Zlatan gæti alveg tekið eitt tímabil í viðbót sem squad player. Við látum ekki þá 36 ára striker bera Man.Utd á herðum sér en gæðin sem hann hefur sýnt á löngum köflum í vetur segja mér að hann gæti vel átt amk eitt semi-gott tímabil í sér. Alltaf í dúndurformi og vonandi eru meiðslin sem hann varð fyrir í kvöld ekki jafnslæm og þau litu út fyrir að vera.
Rúnar says
Djöfull var ég orðinn þreyttur á því að heyra sagt „Mikilvægasti leikur tímabilsins“ það er eins og menn séu bara búnnir að gefa upp 3-4. sætið??? Eða er ég bara svona bjartsýnn að sjá okkur taka 3. sætið? LFC tappar stigum fyrir Palace, Watford og Middlesborough, ásamt því að City tapar stigum fyrir okkur og Palace ;)
Svo vil ég minna alla helsta sparksnillinga, að til þess að vera í 8 liða úrslitum Evrópu Keppni félagsliða þá þarftu að vera mjög gott lið, hvort sem þú ert frá Belgíu (þar sem full af stórstjörnum koma frá) eða Englandi, þannig bið ég ykkur um að hætta öllu vanmati á belgískum og hollenskum liðum
Þetta var svakalega skemmtilegur leikur, þó svo að ég hefði vilja sjá hann unninn miklu fyrr og djöfull er Rashford að gera flotta hluti, bakklippusendinginn sem hann gef á Pogba og hvernig hann breyti um stefnu fyrir seinna markið, klárlega framtíðar heimsklassa leikmaður!
Núna vona ég að við fáum annað hvort Celta eða Ajax
Egill says
Ég held að þessi færanýting sé orðin sálræn hjá okkar mönnum. Ég man eftir leiknum gegn Schalke hérna um árið þar sem Neuer fór á kostum og við hreinlega gátum ekki komið boltanum framhjá honum. Svo skoraði Hernandez mark undir lok fyrri hálfleiks sem var dæmt af en það gaf mönnum sjálfstraustið aftur og við enduðum á að rústa einvíginu. Ég held að Rashford sé allur að koma til með þetta enda kominn með 3 mörk og eina stoðsendingu í 4 leikjum, en aðrir menn virðast ennþá vera soldið fastir í þessu, þá sérstaklega Zlatan (sem skorar þá við og við ennþá) og Pogba.
Við erum í raun að gera allt rétt nema að koma tuðrunni yfir línuna, og það er að kosta okkur.
Það verður bara að viðurkennast að Zlatan hefur verið skugginn af sjálfum sér undanfarnar vikur, leikurinn í gær var hans besti í langan tíma hvað varðar þáttaka í leiknum sjálfum og ég held að meiðslin hafi orsakast af langtíma þreytu. Það er ekkert heilbrigt að vera 35 ára gamall og spila svona mikið eins og hann hefur verið að gera, en ég átti samt von á honum ferskari eftir leikbannið. Þegar maður er búinn að spila svona marga leiki, og stekkur uppí bolta eftir 90 mínútna sóknarleik þá er eðlilegt að þreyta í fótunum fari að hafa áhrif og það fannst mér gerast í gær.
Mourinho sagði í viðtali eftir leik að þetta liti ekki vel út með hann og Rojo, en fréttamaður spurði Rojo hvernig hann hefði það eftir leikinn og hann sagði „I’m fine“ og haltraði í burtu, vonandi er hann ekki frá út tímabilið. Shaw sagði svo eftir leik að Zlatan hefði gengið um í búningsklefa eftir leik og virkað sprækur. Nú verður maður bara að vona það besta.
En mikið rosalega er Rashford orðinn góður leikmaður, ljósárum á undan Welbeck hvað varðar hæfileika og getu á sama aldri.
DMS says
Þessi færanýting okkar er auðvitað bara eitthvað djók. Menn þurfa að taka sig á í þeim efnum, þá værum við á grænni grein í flestum leikjum – sérstaklega á heimavelli.
En varðandi Zlatan þá væri ég alveg til í að sjá hann taka annað season en þá ekki í sama aðalhlutverki og hann hefur verið. Hann þyrfti þá að sætta sig við einhverja meiri bekkjarsetu en í dag. Það er ekkert víst að hann nenni því og vilji þar með frekar fara til USA og vera aðalnafnið í LA Galaxy. Framlag hans til Man Utd í vetur hefur engu að síður verið gríðarlegt og við eigum honum mikið að þakka.
Það er slæmt að missa hann út en vonandi gefur það bara Rashford meiri spilatíma í framherjastöðunni. Martial getur einnig spilað þar en hann mætti nú alveg fara að rífa sig í gang drengurinn. Sáum í hálfleik í framlenginunni að Mourinho eyddi ansi miklum tíma í að skammast í honum enda leit hann ekki út fyrir að vera sá maður inn á vellinum sem var með ferskustu lappirnar – allavega að mínu mati.
Heilt yfir gríðarlega mikilvægur sigur þó hann hafi verið dýrkeyptur hvað varðar meiðsli og þreytu.