Fyrir viku síðan skrifaði Tryggvi Páll um það í upphitun fyrir seinni leikinn í Evrópuviðureigninni gegn Anderlecht að þar færi mikilvægasti leikur Manchester United á tímabilinu. Það má segja að þessi leikur sé það á vissan hátt líka. Aprílmánuður hefur verið mjög annasamur, Manchester United hefur þegar spilað 7 leiki í mánuðinum og á enn eftir 2 til viðbótar. Sá fyrri þeirra fer fram á Etihad vellinum í Manchester annað kvöld. Manchester United er aðeins einu stigi á eftir bláklæddu nágrönnunum og aðeins 3 stigum frá Liverpool. Baráttan um 3. og 4. sætið er galopin og þessi leikur mun ekki hafa úrslitaáhrif en hann er samt mjög mikilvægur fyrir þá baráttu. Hann hefst klukkan 19:00 og dómari í leiknum verður Martin Atkinson.
Manchester
Þetta verður þriðja viðureign liðanna á þessu tímabili, hinar tvær voru báðar spilaðar á Old Trafford. Fyrst mættust liðin í deildinni 10. september, í fjórðu umferð úrvalsdeildarinnar. Það var mikil spenna og eftirvænting fyrir þann leik, bæði vegna liðanna sem voru að mætast og stöðu þeirra í deildinni en ekki síður vegna þess hvaða stjórar voru að mætast. Margir fjölmiðlar, sérstaklega á meginlandi Evrópu, eyddu meiri orku í að fjalla um stjórana en liðin í aðdraganda leiksins. Svo fór að Pep og hans lið hafði betur í það skipti með 1-2 sigri eftir mörk frá Kevin De Bruyne og Kelechi Iheanacho, Zlatan okkar Ibrahimovic minnkaði muninn með flottu marki.
Þessi leikur var taktísk barátta þar sem stjórarnir tveir reyndu að ná yfirhöndinni með tilfæringum og skiptingum eftir því sem leið á leikinn. Manchester City byrjaði mun betur, ekki síst þar sem sumir leikmenn Manchester United virkuðu ekki rétt stemmdir til að byrja með. En það batnaði að mörgu leyti eftir því sem leið á leikinn og þótt gestirnir hafi haft undirtökin í leiknum meirihlutann af leiktímanum þá hefði ekki mikið þurft að gerast til að United fengi meira úr þeim leik.
Liðin mættust svo aftur á Old Trafford í lok október, í þetta skiptið í 16-liða úrslitum deildarbikarsins. Manchester United hafði stuttu áður tapað illa gegn Chelsea í deildinni en Manchester City hafði þarna spilað 5 leiki í röð án sigurs. Það var því mikil spenna fyrir leiknum þrátt fyrir að hann væri bara deildarbikarleikur. Manchester United kom fram ákveðnum hefndum og vann 1-0 sigur í þessum leik með sigurmarki frá Juan Mata. Í fyrsta skiptið frá árinu 2012 náði Manchester City ekki að koma marktilraun á ramma andstæðingsins.
United vann líka síðasta leik liðanna á Etihad vellinum. Þá voru reyndar aðrir stjórar hjá báðum liðum en United vann 1-0 með frábæru marki frá Marcus Rashford. Munaði þar líklega langmest um tvær bakvarðaskiptingar sem Louis van Gaal gerði í þeim leik. Manuel Pellegrini átti engin svör við þeim.
Manchester-liðin hafa 15 sinnum mæst á þessum velli frá því hann var tekinn í notkun. Fyrsta viðureignin fór fram um miðjan mars 2004 og endaði illa. Heilt yfir er árangurinn samt þokkalegur, 7 sigrar á hvort lið og eitt jafntefli. Rooney og Carrick hafa báðir spilað 11 leiki á vellinum. Rooney hefur skorað 7 mörk þarna í gegnum tíðina, Paul Scholes með sín 2 mörk er eini United leikmaðurinn fyrir utan Rooney til að skora fleiri en 1 mark á vellinum.
Það verður stemning yfir þessu. Hver veit, kannski nær Manchester City jafnvel að fylla völlinn. Manchester United hefur aldrei unnið tvo leiki í röð á Etihad vellinum. Þetta væri ansi góður tími til að byrja á því.
En kíkjum aðeins á liðin.
City
Manchester City tapaði undanúrslitaslag við Arsenal síðasta sunnudag eftir framlengdan leik og þar með varð ljóst að Pep Guardiola myndi ekki vinna titil á sínu fyrsta tímabili með liðið. Fyrirfram var búist við því að liðið yrði í baráttu um deildartitilinn og voru margir búnir að spá þeim sigri í þeirri baráttu. Eftir frábæra byrjun í ágúst og september byrjaði liðið að hiksta og síðan þá hafa komið góðir og slæmir kaflar til skiptis hjá liðinu.
İlkay Gündoğan verður frá í lengri tíma hjá Manchester City. Gabriel Jesus hefur verið frá í þrjá mánuði eftir að hann braut bein í rist en hann gæti náð þessum leik. Aðrir sem eru tæpir eru Sergio Agüero, David Silva og John Stones. Bacary Sagna er svo líka meiddur. Það er því ansi mikið sem gæti sveiflast til í byrjunarliðsmálum hjá Manchester City eftir því hverjir eru búnir að ná sér eða ekki. Þetta er þó þannig leikur að maður býst frekar við því að tæpir leikmenn láti sig hafa það en ekki.
Manchester City er líka búið að endurheimta fyrirliðann Vincent Kompany eftir meiðsli og munar ansi miklu um það fyrir liðið. Vörnin hefur svosem ekki verið mikill hausverkur hjá City á tímabilinu, liðið hefur fengið á sig 35 mörk sem er meira en Chelsea, Tottenham og Manchester United hafa fengið á sig en minna en Liverpool og Arsenal hafa fengið á sig. Kompany er samt ekki bara öflugur varnarmaður, hann er líka mikill leiðtogi og töluverð ógn sóknarlega úr föstum leikatriðum.
Etihad völlurinn hefur verið að gefa nokkuð vel fyrir Manchester City. Liðið hefur aðeins tapað einum leik þar í vetur, 1-3 gegn Chelsea í deildinni í byrjun desember. Þess utan hefur City unnið 13 leiki og gert 7 jafntefli, í öllum keppnum. Í deildinni hefur Manchester City náð í 30 stig á heimavelli. Það er jafn mikið og Manchester United hefur náð á Old Trafford, Manchester City hefur þó spilað tveimur heimaleikjum færra en United.
Í síðustu 3 heimaleikjum hefur Manchester City gert 2 jafntefli. Í síðustu 6 leikjum, heima og að heiman, hefur liðið unnið 2, gert 2 jafntefli og tapað 2.
Það verður mjög áhugavert að sjá hvernig Pep stillir upp sínu liði. Hann hefur væntanlega skoðað vel frammistöðu Manchester United gegn Chelsea um daginn og þekkir Mourinho nógu vel til að vita að framundan er knattspyrnuleg skák þar sem stjórarnir þurfa að hugsa nokkra taktíska leiki fram í tímann.
Möguleg uppstilling Manchester City í leiknum:
Pep hefur verið að nota Jesús Navas sem hægri bakvörð í undanförnum leikjum. Það hefur fallið misvel í kramið hjá stuðningsmönnum liðsins en Pep virðist vera ánægður með kappann svo það er ólíklegt að hann breyti því fyrir þennan leik. Annar Jesus, hinn brasilíski Gabriel Jesus, gæti vel dottið inn í liðið líka. Mögulega í staðinn fyrir Agüero en Pep gæti líka farið í einhverjar tilfæringar á uppstillingu til að koma þeim báðum fyrir.
United
Það ætti ekki að þurfa að taka sérstaklega fram við lesendur síðunnar að Manchester United er nú í hörku baráttu á tveimur vígstöðum sem geta skilað af sér Meistaradeildarsæti. En í báðum tilfellum er meira undir en „bara“ Meistaradeildarsætið. Evrópudeildin getur gefið af sér bikar, m.a.s. bikar sem Manchester United hefur aldrei unnið áður. Og eitt af efstu fjórum sætunum myndi þýða að United myndi koma í veg fyrir að einn af aðalkeppinautunum kæmist í Meistaradeildina sem væri bæði mjög skemmtilegt og gæti haft ákveðin sálræn áhrif fyrir næsta tímabil. Mikið undir.
Leikurinn gegn Manchester City verður 56. leikur United á tímabilinu. Það eru ansi margir leikir. Enda hefur hópurinn verið að finna meira og meira fyrir leikjaálaginu. Þrír af fjórum bestu miðvörðum liðsins eru frá vegna meiðsla, þeir leikmenn sem hafa skorað síðustu tvö mörk Manchester United gegn City eru líka frá vegna meiðsla. Pogba, Herrera og Valencia eru allir skráðir tæpir fyrir þennan leik. Menn eru marðir, þreyttir og laskaðir, nú reynir á hugarfarið.
Mourinho er væntanlega búinn að nýta tímann vel ásamt aðstoðarmönnum sínum í að leikgreina Manchester City. Það er spurning hvernig taktíska uppleggið gegn liðinu verður. Í fyrri deildarleiknum ætlaði hann að treysta á Jesse Lingard og Henrikh Mkhitaryan á köntunum gegn 3-5-2 uppstillingunni hjá Pep. Það gekk ekki vel. Hins vegar er hópurinn hjá Manchester United mun samstilltari núna en hann var þá, Lingard og sérstaklega Mkhitaryan hafa spilað mun betur síðan í þessum leik og Manchester City er ekki að spila 3-5-2 lengur. Svo hvað er best í stöðunni?
Mourinho hefur sýnt það vel í síðustu leikjum að hann getur notað leikmenn sem standa mislangt utan sterkasta byrjunarliðs mjög vel þegar kemur að því að sinna ákveðnum taktískum hlutverkum sem gagnast liðinu vel. Þar má nefna leikmenn eins og Ashley Young, Jesse Lingard og Marouane Fellaini. Þetta eru leikmenn sem er alls ekki víst að hann telji sig þurfa að nota gegn Manchester City en veit samt að hann getur treyst á til að sinna þeim hlutverkum sem hann leggur fyrir þá.
Mögulegt byrjunarlið Manchester United:
Öftustu 7 leikmennirnir velja sig nokkurn veginn sjálfir. Það er helst að Shaw gæti bankað á dyrnar. Það verður heldur snúnara þegar framar á völlinn er komið. Rashford hlýtur þó að byrja sem fremsti maður. Young á kantinum hefur verið mjög öflugur þegar kemur að hjálparvörn en fyrst Manchester City spilar líklega með Navas í bakverði gæti verið sniðugt að setja Martial í þá stöðu með það í huga að hann hrelli spænska kantmanninn duglega.
Það kæmi mér svo ekkert á óvart að sjá Fellaini byrja þennan leik. Mourinho einfaldlega treystir honum. Ef hann byrjar ekki þá er nánast öruggt að hann kemur inn á völlinn á einhverjum tímapunkti. Og getur þá vonandi nýtt sýna styrkleika vel í að skapa usla.
Hvernig lið viljið þið helst sjá gegn Manchester City og hvernig haldið þið að leikurinn fari?
Rúnar Þór says
Er ekki Pogba meiddur? Tognaður aftur í lærinu? Fór allaveganna út af í seinasta leik kveinkandi sér…
Halldór Marteins says
Pogba er tæpur fyrir þennan leik. Kemur mögulega betur í ljós í dag hvort hann nær þessu eða ekki. En ég setti hann í mitt byrjunarlið því ef hann getur spilað þá mun hann spila.
Halldór Marteins says
Mourinho er búinn að staðfesta að Pogba nær ekki leiknum. Það er ansi mikill missir. Spurning hvernig miðjan verður þá.
Omar says
Fáir valkostir, reikna með að annað hvort komi Fellaini eða Carrick inn í byrjunarliðið. Erum orðnir ansi þunnskipaðir, því finnst mér ólíklegt að Carrick spili þennan leik sem starter.
Mitt gisk er að Móri breyti uppstillingunni, setji Fellaini inn og spili með 3 manna vörn (Bailly, Blind og Darmian) og bakverðina hátt (Valencia-Shaw/Young). Þá Herrera og Fellaini á miðjunni og svo Mikitaryan í holunni, Rashford og Martial frammi. Ekki ósvipað og Conte stillti upp á móti City, fyrir utan að við höfum meiri hraða heldur en Chelsea liðið ef Martial og Rashford eru frammi. Á móti Chelsea voru City í miklum vandræðum með þannig skyndisóknir og gæti Fellaini spilað lykilhlutverk við að brjóta sóknir og skapa aðstæður fyrir skyndiáhlaup. Einnig hefur Herrera bætt mikið sendingagetu sína í vetur og virðist vera við það að fullkomna „deadball“ sendingar þegar við mætum liðum sem liggja framarlega.
Auðunn says
Ekki beint jákvæðar fréttir úr herbúðum United með öll þessi meiðsli á mjög svo mikilægum tíma.
Geri ekki ráð fyrir öðru en Móri komi með eitthvað óvænt útspil hvað svo sem það nú verður.
Hef miklar áhyggjur af þessum leik og svo úti leiknum gegn Celta Vigo.
Erfitt að segja hvernig Móri stillir þessu upp en ekki ólíklegt að hann spili svipað kerfi og gegn Chelsea.
Blind kæmi þá inn fyrir Rojo og Carrick fyrir Pogba.
Er ekki viss um að Rooney henti í þennan leik þar sem hann er frekar hægur leikmaður en maður veit aldrei.
Þetta verður hrikalega erfiður leikur og það er alveg klárt að allir leikmenn United verða heldur betur að eiga topp leik ætli United sér að fara með með sigur, og það er vel gerlegt.
City hafa ekki verið að brillera undanfarið og vörnin þeirra ansi brothætt á köflum, það eru veikleikar í því liði sem Móri mun einbeita sér í að nýta sem best. Ef það tekst þá er allt hægt.
Mourinho er snillingur í að setja upp svona leiki þó svo maður sjái það ekki alltaf fyrirfram og undrast ansi hreint oft á hans liðsvali og uppstillingu.
Halldór Marteins says
Já, ég er alveg sammála því að maður reiknar eiginlega með einhverju óvæntu útspili frá Mourinho. Og jafnvel frá Pep líka. Það verður mjög forvitnilegt að sjá byrjunarliðið á morgun.
Runar P. says
Ég er einhvern veginn svo rólegur fyrir þennan leik að ég skil það hreinlega ekki?
Held að ef Móri stillir þessu upp rétt og nær að sanfæra litlu strákana um að hald ró sinni og vera bara öryggir á sínu, þá vinnur hann leikinn fyrir okkur!
Heiðar says
Ef að Herrera spilar ekki (merktur tæpur) þá hlýtur Rooney að koma inn á miðjuna með Fellaini eða Carrick. Young mætti vel fá tækifærið á vinstri kantinum. Var góður gegn Chelsea og hefur sannað sig síðustu tvö tímabil sem góður squad player.
Cantona no 7 says
Það væri nú gaman ef Rooney myndi eiga stórleik sem er eiginlega kominn tími á og skoraði nú eitt eða tvö mörk t.þ.a. sýna nú hver er einu sinni kóngurinn í Manchester.
Vonandi sýnum við nú okkar besta leik .
G G M U
Atli Þór says
Það verður mjög áhugavert að sjá hvernig liðinu verður stillt upp í kvöld.
Ég geri ráð fyrir að Herrera sé leikfær og hann verði með Carrick og Fellaini með sér á miðjunni.
De Gea í marki með Bailly og Blind fyrir framan sig og Valencia hægra megin. Ég hugsa að hann verði með Darmian vinstra megin en myndi fagna því að sjá Shaw þar.
Rashford fremstur með Mikitaryan og Lingard sitt hvoru megin.
Martial gerir þó tilkall til þess að byrja eftir síðasta leik.
Ég sé Rooney ekki byrja þennan leik. Vill sjá hraða frammi eins og gegn Chelsea.
En eins og fleiri hafa bent á getur Mourinho alltaf spilað út einhverju óvæntu.
Er líka spenntur að sjá hvort hann taki einhverja úr umferð eins og gegn Chelsea.
Verða Toure og de Bruyne teknir út úr leiknum? Límir Bailly sig á Aguero?
Bíð hrikalega spenntur eftir leiknum og læt mig dreyma um eitthvað svipað og gegn Chelsea :)