Eftir mikinn baráttuleik skildu Manchesterliðin jöfn á Etihad vellinum. Manchester United er enn einu stigi frá Manchester City en bilið í Liverpool er núna 2 stig. Manchester United á enn leik til góða á Liverpool.
Byrjunarlið okkar manna í kvöld var svona:
Varamenn: Romero, Tuanzebe, Fosu-Mensah, Shaw, Young, Lingard, Rooney
Lið heimamanna í Manchester City var svona:
Varamenn: Caballero, Sagna, Fernando, Navas, Clichy, Gabriel Jesus, A. Garcia
Fyrri hálfleikur
Þegar byrjunarliðin voru tilkynnt gerðu flestir ráð fyrir því að Marcus Rashford tæki sér stöðu sem fremsti maður. Svo var hins vegar ekki og voru Martial og Rashford á köntunum en Mkhitaryan spilaði sem fölsk nía.
Rashford og Martial voru björtustu punktarnir hjá Manchester United framan af fyrri hálfleiknum, þeir áttu nokkra fyrirtaks spretti sem hrelltu varnarlínu Manchester City. Eric Bailly var svo frábær í vörninni, sérstaklega eftir því sem sóknarþungi Manchester City jókst.
Manchester City lagði greinilega upp með að láta finna fyrir sér. Þeir þreifuðu fyrir sér með því að narta í hæla og keyra í gegnum menn. Ekki aðeins sluppu þeir við spjöld heldur var slakur Martin Atkinson ekki einu sinni að hafa fyrir því að dæma brot í flest þeirra skipta. Til að byrja með virtist þessi taktík vera að virka á Rashford, hann dró sig aðeins til baka fyrst um sinn eftir þessa meðferð en fór svo aftur að keyra á vörn City þegar honum gafst færi á.
Sem var of sjaldan. Manchester City var meira með boltann í fyrri hálfleiknum. Ekki að það hafi verið óvænt en það var hins vegar verra hvað Manchester United liðið settist sífellt aftar. Það gerði það að verkum að skyndisóknarmöguleikar urðu sífellt erfiðari á meðan sóknarþungi Manchester City jókst. Heilt yfir skapaði City samt ekki mikið af góðum færum. Það voru helst skot utan af velli en þó var eitt skipti sem De Bruyne náði fyrirgjöf á gapandi frían Agüero sem setti boltann í stöngina.
Bravo var síðan næstum búinn að gefa mark. Martial náði þá enn einum sprettinum upp kantinn og kom með fyrirgjöf. Bravo skutlaði sér á fyrirgjöfina og blakaði boltanum beint á Mkhitaryan í teignum en náði svo að verja skotið frá Mikka. Herrera fékk síðan alveg frían skalla undir lok fyrri hálfleiks eftir aukaspyrnu frá Rashford en náði ekki að stýra boltanum á rammann. Hefði mátt gera betur þar.
Seinni hálfleikur
Í seinni hálfleik hélt Manchester City áfram að vera mikið meira með boltann og Manchester United hélt áfram að verjast og síga aftar á völlinn. Þegar Manchester United náði boltanum þá gekk illa að halda honum, spila honum milli manna og færa hann upp völlinn.
Að sama skapi var varnarleikurinn hjá Manchester United mjög þéttur. Manchester City fékk að dútla sér með boltann en þeir bláklæddu náðu ekki að brjótast í gegnum vörn Manchester United. Þeir reyndu þá ítrekað skot utan teigs sem ýmist fóru vel framhjá og yfir markinu eða enduðu í öruggum faðmi David De Gea.
Það segir kannski sitt að loksins þegar Bravo þurfti að gera eitthvað í seinni hálfleik þá meiddist hann við að grípa boltann eftir sjaldséða hornspyrnu Manchester United á 75. mínútu.
Stuttu seinna kom fyrsta skipting Manchester United í leiknum, þegar Jesse Lingard kom inn á í staðinn fyrir Anthony Martial. Það hafði dofnað yfir leik Anthony Martial sóknarlega eftir því sem leið á hann en það er erfitt að kenna honum mikið um það þar sem hann neyddist til að færa sig sífellt aftar á völlinn og sinna varnarskyldum.
En fljótlega eftir skiptinguna breyttist leikurinn. Marouane Fellaini fékk þá gult spjald fyrir að brjóta á Sergio Agüero. Manchester City hafði komist upp með það allan leikinn að ganga mjög fast í leikmenn United, sérstaklega þá Rashford og Martial, en Fellaini fékk þarna gult spjald fyrir sitt fyrsta brot í leiknum. Strax í kjölfarið lenti hann aftur í baráttu við Agüero um boltann sem endaði með því að Argentínumaðurinn henti sér niður til að fiska seinna gula á Fellaini. Agüero lét það ekki nægja heldur stóð upp, öskraði á Fellaini og gekk ögrandi að honum. Fellaini setti hausinn á móti Agüero sem henti sér samstundis í grasið og beint rautt á Fellaini.
Auðvitað ætla ég ekkert að taka alla sök af Fellaini. Hann hefði átt að vita og gera betur í þessari stöðu og ekki falla í gildruna sem Agüero lagði fyrir hann. Hann bauð upp á þetta rauða spjald, sama hvað Agüero gerði. Breytir því ekki að þetta var grautfúlt, sérstaklega eftir að hafa horft upp á leikmenn Manchester City komast upp með alls konar fautaskap.
Eftir þetta var í raun bara spurning um að halda í stigið. Mkhitaryan var tekinn út af fyrir Fosu-Mensah, sem spilaði sem mjög varnarsinnaður fremsti maður. Ashley Young kom svo inn á fyrir Rashford í uppbótartíma. Undir lokin skoraði Gabríel Jesus mark fyrir Mancester City en það var réttilega dæmt af vegna rangstöðu.
Pælingar eftir leik
Mikið rosalega, svakalega, ofsalega saknaði liðið Paul Pogba í kvöld. Það var svo innilega áberandi. Það vantaði leikmanninn í hjarta liðsins sem getur haldið boltanum, sent fjölbreyttar sendingar, borið boltann upp og framhjá mönnum og líka manninn sem kemur bæði með yfirvegun og sköpunargáfu í spilið. Hvernig nokkur United maður getur enn verið að vanmeta hans framlag skil ég ekki.
En af þeim sem spiluðu leikinn þá átti varnarlínan og David De Gea mjög góðan dag í dag. Eric Bailly heldur áfram að sýna hverslags hrikalegt beast hann er og það reyndi ekki á Blind á þann hátt sem maður óttaðist að gæti gerst. Miðjumennirnir og kantmennirnir hjálpuðu vel til við varnarleikinn en það bitnaði því miður á sóknartilburðum þegar leið á leikinn.
Manchester City átti 19 marktilraunir. Samt var nánast engin þeirra sem virkaði líkleg til að enda í markinu. Hættulegasta tilraun þeirra kom í fyrri hálfleik, þegar Agüero skaut í stöngina. Manchester United átti tvö færi sem voru betri en restin af færum Manchester City. Það má segja að United hefði átt að gera betur úr báðum þeim færum, þá hefði þetta líka verið allt annar leikur.
Tap hefði verið slæmt. Jafntefli, sérstaklega eins og leikurinn spilaðist og þróaðist, eru allt í lagi úrslit. Það er allt ennþá galopið í baráttunni um 3. og 4. sætið og Manchester United hefur ekki tapað í 24 deildarleikjum í röð.
Turninn Pallister says
Ekkert minna en það sem ég átti von á, hörkuleikur!!
Leikplanið hjá Mourinho gengið upp ennþá og með smá heppni gætum við verið yfir. Seinni hálfleikur eftir og nú reynir á einbeitingu og þor. City mun pottþétt færast framar og það mun verða mikil pressa en að sama skapi tækifæri fyrir Rashford og Martial.
Audunn says
Varnarmenn City eiga alltof auðvelt með að kjöta sóknina okkar. Sir-inn myndi mæta bálreiður í viðtal eftir leik og kalla eftir því að Rashford fái meiri vernd frá dómurunum.
Turninn Pallister says
Oh Fellaini, þvílík vonbrigði (shakes head)
Bjarni says
Ef það á að headbutta menn þá ætti að gera það almennilega. Þvílík vonbrigði með Fellaini að missa svona hausinn. Sætti mig samt við stigið.
Egill says
Aguero vissi alveg hvað hann var að gera. Það er ekki eins og Fellaini hafi bara labbað að honum og skallað hann niður, Aguero ætlaði í þetta dæmigerða „enni við enni“ og Fellaini ætlaði að svara, en tókst ekki betur en svo að Aguero er skíthæll sem lét sig falla með tilþrifum. Barnalegt að falla í gryfjuna, og sérstaklega þar sem hann var nýbúinn að fá gult spjald
En að öðru leiti kvarta ég ekki, mjög svo vængbrotið lið gegn ógnarsterku City liði og þetta var alltaf að fara að verða erfitt. Gott stig.
Auðunn S says
Svo sem þokkalega sáttur með eitt stig og mjög mikilvægt að tapa ekki leiknum.
En mikið skelfilega voru okkar menn slakir fram á við.
Hef fylgst með United í tugi ára og man varla eftir að hafa séð United jafn slaka sóknarlega.
Fannst alveg mátt reyna að setja vörn City undir einhverja pressu því þeim líður ekkert vel með það.
Heilt yfir mjög slakur leikur sem maður verður búinn að gleyma eftir nokkra klukkutíma og Fellaini náttl sami sauðurinn og venjulega.
Vona að þetta hafi verið leikurinn sem Mourinho sá loksins að hann sé algjörlega useless fyrir klúbb eins og Manchester United.
Rúnar Þór says
Þetta var hræðilegur leikur. Seinni hálfleikur var bara vörn á móti sókn vorum ekkert með (fyrir rauða spjaldið). Fannst Móri bíða allt of lengi með skiptingar, vorum að tapa öllum einvígunum en hann breytti ekkert. Djöfulsins hálviti var Fellaini. ÓAFSAKANLEGT. Beint rautt þýðir 3 leikja bann. Þetta er ekki það sem við þurfum með öll okkar meiðsli. Hálfviti hálfviti hálfviti. Gott stig miðað við þróun mála en ömurlegur leikur!
Rúnar Þór says
Bravó skelfilegur en við reyndum ekkert á hann. Synd
Turninn Pallister says
Þetta er oft gallinn við Fellaini, hugsaði með mér fram að þessu að hann hafi átt nokkuð solid leik. Var brimskaflinn sem City miðjan brotnaði á og hafði skilað sínu hlutverki vel. Maður leiksins að mínu mati er Eric Bailly. Var stórkostlegur í flestum sínum aðgerðum og passaði uppá að Blind lenti ekki í óþarfa vandræðum. Klárlega einn mikilvægasti leikmaður liðsins það sem eftir lifir af þessu tímabili.
Omar says
Hefðum átt að nýta okkur 1 af þessum 2 dauðafærum sem við fengum í fyrrihálfleik. Mikitaryan á að skora eftir mistökin hjá Bravo og Herrera dauðafrír, skallar boltann í vitlausa átt að markinu skömmu síðar. Er nokkuð viss um að annað hljóð væri í strokknum ef 0-1 hefðu orðið úrslitin en þetta virðist ætla að verða saga þessa tímabils hjá okkur.
Er sammála um að Fellaini hafa hagað sér barnalega og heimskulega. Við megum engan mann missa það sem eftir lifir tímabils. Sú óánægja sem stuðningsmenn hafa sýnt í hans garð er bara honum sjálfum að kenna fyrir vitleysu á borð við þessa.
Georg says
Jæja nú þarf maður að útskýra fyrir börnunum hvað „parking the bus“ þýðir.
Fínt stig en fella skelfilegur í .c.a. 60 sek. Hef ekkert annað en að nú er bara að klára Swansea.
Runólfur Trausti says
1. Ég hefði tekið jafntefli fyrir leik.
2. Þetta var áttundi leikur liðsins í apríl mánuði og enn einn eftir.
3. Í lið Manchester United í dag vantaði markahæsta mann liðsins, næst markahæsta mann liðsins og eru þeir sömuleiðis í 2. og 3. sæti yfir stoðsendingar. Svo vantaði þann leikmann sem býr til mest af færum og þrjá hafsenta.
4. Þetta var einn af „We cannot lose“ leikjunum sem Mourinho setur upp. Vissulega á liðið Tottenham og Arsenal eftir á útivelli en með sigri gegn Swansea á sunnudag þá kemst liðið yfir Liverpool. Þó það sé mögulega bara í 36 klukkutíma þá er það sálrænt og skiptir máli.
5. Marouane Fellaini hefur ekki fengið spjald (að ég held) síðan hann fékk dæmt á sig víti gegn Everton. Persónulega finnst mér þetta vel þreytt að menn grýti sér í jörðina við svona „skalla“. Refsingin ætti að vera gult spjald sem hefði reyndar líka orsakað rautt á Fellaini en hann myndi þá sleppa við þriggja leikja bannið sem er algjör skellur. Það einfaldar hinsvegar rotation fyrir Mourinho þar sem Fellaini getur bara spilað Europa League leikina núna.
6. Ég elska Ander Herrera (Hann hefði þó mátt skalla tuðruna í netið).
7. Bendi á punkt númer sex.
8. Leikur kvöldsins sannaði mikilvægi Paul Pogba. Ég held að hann verði í „league of his own“ eftir 1-2 ár, svona Yaya Toure level þegar hann skoraði 20 mörk hérna um árið.
Ps. Fellaini fer ekki fet í sumar og ég er mjög ánægður með það.
DMS says
Hvenær er Paul Pogba væntanlegur aftur? Miðjan hjá okkur átti klárlega undir högg að sækja í kvöld og saknaði Frakkans.
Runar says
Menn eru bara ánægðir með að leggja rútunni, eitt stig í baráttunni og Fellaini gerði lítið af sér…. er Móri búinn að smita menn með bullinu í sér?
Þessi leikur var ekki stórliði Manchester United samboðinn, eins og móri.
Hallmar Reimarsson says
WE’VE GOT FELLAINI
MAROUANE FELLAINI
I JUST DONT THINK YOU UNDERSTAND
HE’S JOSE’S MAIN MAN
HE’S BETTER THAN ZIDANE
MAROUANE FELAAAAAAAINI