Lið Manchester United er komið til Spánar og mun á morgun etja kappi við Celta Vigo í undanúrslitum Evrópudeildarinnar, sem eins og staðan er í dag virðist besta leið United að tryggja sér sæti í Meistaradeildinni á næsta ári.
Síðustu leikir hafa sýnt að José Mourinho er líklega á þessari skoðun og hefur stillt upp sterkara liði í Evrópudeildinni en deildinni. Meiðslahrinan undanfarið hefur hins vegar sett strik í reikninginn og gert honum erfitt fyrir. En fréttir hermdu að Smalling, Jones, Bailly og Pogba æfðu allir í morgun og Duncan Castles sem öðrum blaðamönnum fremur ku tengdur José segir að reiknað sé með Bailly og Pogba á morgun. Við stillum því upp liðinu svona
Það er kannske bratt að setja inn fjóra leikmenn nýkomna úr meiðslum en Mata æfði á vellinum eftir leikinn gegn Swansea og er því kominn lengra en hinir í að ná sér. Luke Shaw verður reyndar frá út leiktíðina samkvæmt Mourinho þannig það eru ekki allt góðar fréttir.
Lið Celta Vigo hefur komið nokkuð á óvart í Evrópudeildinni. Þeir urðu í sjötta sæti í deildinni í fyrra en eru nú í 10. sæti enda hefur þátttaka þeirra í Evrópudeildinni tekið fókus þeirra. Liðið hefur til að mynda aðeins unnið einn leik af síðustu sex, tapað hinum fimm. Það má ekki síst rekja til þess að liðið hefur verið að hvíla lykilmenn, átta slíkir voru ekki í liðinu í 3-0 tapi fyrir Athletic Bilbao um síðustu helgi.
Liðið varð í öðru sæti í sínum riðli í Evrópudeildinni á eftir Ajax, en hefur síðan unnið Shakhtar Donetsk, FC Krasnodar og Genk, og voru á heimavelli í fyrri leik í öll skiptin.
Það er ekki hægt að segja að lið Celta sé skipað þekktum leikmönnum, þeirra bestur er Iago Aspas sem var herfilegt flopp hjá Liverpool, gekk litlu betur hjá Sevilla en er nú kominn til síns heimaliðs og er þeirra helsti markaskorari. Hann er markahæsti Spánverjinn í La Liga í vetur, með 17 mörk í 29 leikjum og fimm að auki í Evrópudeildarleikjum. John Guidetti, 25 ára Svíi er hinn senterinn þeirra og á miðjunni er Pione Sisto sem stóð sig vel á móti United með Midtjylland í fyrra og skoraði í báðum leikjum. Lykilmaður þeirra á miðjunni mun þó vera Daninn Daniel Wass.
Þjálfari Celta er Argentínumaðurinn Eduardo Berizzo. Hann er fyrrverandi aðstoðarmaður Marcelo Bielsa og er undir miklum áhrifum frá honum. Samkvæmt Berizzo ætlar hann að finna innblástur í sigri Athletic Bilbao á United árið 2012, og spila pressubolta, halda boltanum vel og gefa United leikmönnum hvergi frið, leikaðferð sem er vel kunnug þeim sem horft hafa á lið undir stjórn Bielsa. Þetta krefst mikils úthalds hjá leikmönnum, nokkuð sem hvíldin um helgina ætti að gera þeim auðveldara fyrir
Þessi leikur er sýnd veiði en ekki gefin. United liðið ætti undir flestum kringumstæðum að vera sterkara en við höfum séð nóg af leikjum í vetur til að vita að það skiptir ekki öllu máli
Leikurinn hefst kl 19:05 á morgun, fimmtudag.
Auðunn says
Jæja nú er að duga eða drepast.
Ég er drullu smeykur fyrir þetta einvígi og eitthvað sem segir mér að United eigi eftir að lenda í bullandi vandræðum í þessum fyrri leik á Spáni.
Það er allt undir hjá United og liðið verður að ná mjög góðum úrslitum.
Sé liðið ekki koma tilbaka með tveggja marka tap á bakinu.
Að vinna þessa keppni ekki úr þessu yrði gífurlegt áfall og mikil vonbrigði.
Liðið er töluvert laskað og það er stærsta áhyggjuefnið fyrir þetta mikilvæga einvígi.
Runar P. says
Ajax rúllaði upp Lyon og eg sem vildi mæta Ajax.. kannski best að mæta þeim bara í úrslitaleiknum?
einar__ says
Skíthræddur við þennan leik, okkur vegnar aldrei vel á spáni, hugsa að þetta verði skítfúlt 1-2 tap og meiðsli hjá enn einum lykilmanni en svo tökum við heimaleikinn 3-1 #nostradamus
DMS says
Já það væru mikil vonbrigði að detta út úr keppni núna, það er búið að fara alltof mikið púður í þessa keppni í vetur og það hefur svo sannarlega haft áhrif á deildina, meiðsli og liðshópinn.
Vonast til að sjá Bailly og Pogba aftur í liðinu, við erum búnir að sakna Pogba mikið undanfarna tvo leiki. Hann er stýrimaðurinn þarna á miðjunni hvað varðar spilið.
Tek undir það að þetta verður án efa erfiður leikur. Celta Vigo mæta til leiks með úthvílt byrjunarlið eftir síðustu helgi. En við eigum að vera með meiri gæði í okkar röðum, en spilamennskan undanfarna tvo leiki hefur verið slök þannig að skiljanlega er maður smeykur.
pall sigurðae says
þessi leikur fer 1-1 og svo vinnum við heima.
við kunnum á jafnteflin.
Halldór Marteins says
Þetta eru aðstæður sem Mourinho kann vel á og kann vel við sig í, crunch tíminn í útsláttarkeppnum. Hjálpar líka gríðarlega mikið að fá varnarmennina aftur inn og svo munar sérstaklega miklu um að Pogba sé orðinn heill.
Ég er bjartsýnn fyrir þetta, Mourinho mun sýna hvað hann getur.