Á morgun, heilum sextíu og sex klukkutímum eftir fimmtudagsleikinn gegn Celta Vigo, heimsækja leikmenn Manchester United Emirates Stadium og mæta þar liði Arsene Wenger í Arsenal.
Leikurinn hefst klukkan 15:00 að íslenskum tíma og verður fyrri leikur dagsins viðureign Southampton og Liverpool sem situr í þriðja sæti með fjórum stigum meira en United en hafa spilað einum leik meira.
Það er orðið ansi langt síðan lesendur síðunnar hafa heyrt í félaga mínum og (fyrir eldri lesendur síðunnar) góðkunningja síðunnar, sem gengur undir nafninu „Spaki maðurinn“. Ástæðan ku vera vegna annríkis í vinnu- og foreldraheimunum sem virðist koma fyrir fólk á hans aldri. En í þetta skiptið náði ég að fá hann til að líta aðeins upp frá tölvuskjánum sínum og yfir á minn til þess að skrifa örfá orð fyrir okkur.
Vithát förþer adú…
Mat á tímabilinu
Sæl og blessuð öllsömul!
Í dag langar mig aðeins að ræða þetta tímabil, okkar væntingar og árangur.
Hefjum þetta á einni spurningu. Spyrjið ykkur, hvert er ykkar mat og tilfinning á árangri liðsins á þessu tímabili? Góður, slæmur, mehh? Eru þið kannski enn óákveðin?
Ef töfraandi í lampa hefði í ágúst boðið ykkur það að á þessu tímabili næði Mourinho einungis að komast í meistaradeildina, hefðuð þið tekið því? Hvað með að vinna einn bikar og komast í meistaradeildina? Hvað með tvo bikara, annan þeirra sem United hefur aldrei unnið, plús meistaradeildina? Ég persónulega hefði sagt já við öllum þrem valmöguleikunum en svo kæmi maður með hærri kröfur fyrir næsta tímabil.
Á þessu tímabili er Mourinho og leikmenn hans búnir að koma sér í þá stöðu að vera ansi nálægt því að láta síðasta valmöguleikann verða að veruleika. Að mínu mati væri það alveg stórkostlegur árangur og með góðum kaupum í sumar kæmi liðið alveg nautsterkt inn í næsta tímabil með ársreynslu af Mourinho við stjórnvölin.
Ég held við séum öllsömul sammála hver helstu vonbrigði tímabilsins hafa verið. Þessi ótalmörgu jafntefli og afspyrnuslæma nýting á færum hafa fengið orsakað ansi mörg pirringsköst og hafa hárin á kollinum fækka í kjölfarið. 58 leikir, 35 sigrar, 16 jafntefli, sjö tapleikir og 60% vinningshlutfall. Síðustu þrjú ár, undir stjórn Moyes og Van Gaal, var vinningshlutfallið 52%.
Maður er algjörlega búinn að missa töluna á því hversu oft maður hefur hugsað „hvað ef við hefðum nýtt þessi dauðafæri“ í vetur. Það sló mig samt örlítið í dag þegar ég sá þá staðreynd að þrátt fyrir að hafa klikkað á svo mörgum dauðafærum þá verður næsta mark sem United skorar það hundraðasta í röðinni. (Frábært, þar bættist við önnur „hvað ef“ pæling).
Það jákvæða nefnilega við vonbrigði liðsins á þessu tímabili er það að þau sýna samt merki um að gott sé í vændum. Við erum að skapa gífurlega mikið af færum (erum bara ekki að ná að slútta mörgum þeirra), erum að spila oft á tíðum alveg glettilega flottan fótbolta (erum þó aðeins of háðir Pogba) erum með marga frábæra leikmenn í ýmsum stöðum (sem mun fjölga í sumar) og fyrir leikinn gegn Arsenal er United taplaust í síðustu 25 leikjum (en næstum helmingur þeirra leikja endaði í jafntefli). Þannig lítur árangur United út þessa stundina.
Við erum því ansi nálægt því að verða aftur topplið í líkingu við það sem við flest vorum orðin góðu vön síðustu tvo áratugi.
Sumsé:
góð kaup á leikmönnum√nota unga leikmenn√betri spilamennska√hærra sigurhlutfall√bikar√- Evrópubikar ?
- Meistaradeild ?
Ef liðið nær hinsvegar ekki meistaradeildarsæti, þá tel ég þetta tímabil hafa verið vonbrigði þrátt fyrir marga ljósa punkta. En ímyndið ykkur ef við náum að uppfylla allt sem þið sjáið á þessum lista ásamt því að styrkja liðið í sumar á jafn góða vegu og var gert fyrir ári síðan. Er þá ekki óhætt að segja að Mourinho sé á réttri leið með liðið?
Eru þið ekki spennt fyrir því sem er í vændum?
Ég er það.
Kv,
Spaki Maðurinn
Leikurinn
Nú skuluð þið draga nokkrum sinnum inn djúpt andann og átta ykkur á þeirri staðreynd að deildin er ekki lengur í forgangi. Þið getið alveg gleymt því að ná topp 4 á þessu tímabili nema eitthvað stórkostlegt gerist hjá Liverpool og City. Jafnteflið gegn Swansea um síðustu helgi var það sem endanlega drap þá baráttu og þannig er staðan í dag. Semsagt, deildarleikir eru núna einfaldlega tilneyddir vinnudagar fyrir leikmennina.
Allt byssupúður er núna réttilega nýtt í Evrópudeildina þar sem við eigum mesta möguleika til að komast í meistaradeildina. Við getum því átt von á ansi mörgum breytingum á byrjunarliðinu í þessum leik til að hvíla lykilmenn liðsins fyrir seinni leikinn gegn Celta Vigo næstkomandi fimmtudag. Enda grínaðist Mourinho á fréttamannafundinum fyrir leikinn að Wenger yrði í fyrsta skipti ánægður að sjá sig. Wenger vonast til að vinna sinn fyrsta sigur gegn Mourinho í sextándu viðureign kappanna
Mourinho staðfesti þó að De Gea muni spila, sem kemur kannski ekki svo mikið á óvart þar sem Romero hefur verið aðalmarkmaður liðsins í Evrópukeppninni. Fellaini verður pottþétt ekki með þar sem hann er ennþá í banni eftir rauða spjaldið sem hann fékk í deildarleiknum gegn Manchester City. Ashley Young verður að teljast ólíklegur eftir að hafa haltrað af velli á fimmtudag. Svo að sjálfsögðu eru Zlatan, Rojo og Shaw frá.
Hinsvegar eru ansi góðar líkur á að leikmenn eins og Phil Jones, Chris Smalling, Juan Mata, Michael Carrick, Anthony Martial og Wayne Rooney muni spila. Verður að segjast að það er frábært að fá Jones, Smalling og Mata aftur í liðið. Hreint útsagt gríðarlega mikilvæg tímasetning og fær þá Bailly vonandi smá hvíld eftir að hafa spilað hátt í 1000 mínútur samfleytt fyrir liðið.
Það er því gríðarlega erfitt að spá eitthvað fyrir um byrjunarliðið og því slembi ég hingað liði sem er algjört gisk en þykir líklegt að sjá á morgun. Innst inni vona ég samt að Tuanzebe fái sjens.
Auðunn says
Alls ekki ólíklegt lið en ég hefði samt haldið að Blind yrði þá vinstri bakvörður, Darmian hægri og Jones og Smalling miðverðir, það meikar meiri sens hjá mér amk.
Halldór Marteins says
Skemmtilegur pistill og mikið til í þessu varðandi tímabilið og væntingar. Það verður áhugavert að fara vel yfir tímabilið þegar að klárast og bera saman við það hvernig pælingarnar voru hjá okkur fyrir tímabilið.
En þetta er skrýtinn leikur. Hann ætti að vera meira spennandi en hann er. Auðvitað vill maður helst ekki tapa fótboltaleik gegn Arsenal en miðað við aðstæður vill maður helst bara klára þetta dæmi og fara að hugsa aftur almennilega um Evrópudeildina.
Þetta er þó tækifæri fyrir ýmsa leikmenn til að sýna sig og sanna í alvöru fótboltaleik. Kannski fá einhverjir unglingar mínútur, það væri gaman. Kannski stíga einhverjir upp og stimpla sig inn í baráttu um að fá að spila seinni leikinn í Evrópudeildinni og svo, vonandi, úrslitaleikinn.
Reynir says
Vona bara að United reyna að spila fótbolta í þessum leik en ekki þennan hálofta kick and run bolta sem liðið hefur svo oft spilað á útivelli undir stjórn Mourinho.
Og vegna þess hefur orðspor United beðið hnekki sem er alls ekki gott uppá að draga að sér heimsklassa leikmenn.
Bjössi says
Spurning hvort úrslit í fyrri leik dagsins hafi einhver áhrif. Ef Liverpool tapa stigum, þá er ennþá allt undir. Spurs búnir að skíta á sig og þurfa ekki lengur að vinna sinn leik gegn okkur um næstu helgi…