Núna eru í raun bara tveir fótboltaleikir eftir af tímabilinu hjá Manchester United. Þeir eru báðir í Evrópudeildinni. Sá fyrri þeirra er annað kvöld, seinni leikurinn í undanúrslitaviðureigninni gegn spænska liðinu Celta Vigo. Þann leik verður Manchester United að klára til að komast í hinn leikinn, sjálfan úrslitaleikinn í Friends Arena í Stokkhólmi, miðvikudaginn 24. maí næstkomandi. Tímabilið stendur nú og fellur með þessum tveimur leikjum, það er allt undir.
Leikurinn á morgun fer fram á Old Trafford og hefst klukkan 19:05, að íslenskum tíma.
Allt eða ekkert
Manchester United á reyndar eftir þrjá leiki í ensku úrvalsdeildinni. Í raun eru þeir harla merkingalausir, má bara líta á þá sem vaktir sem liðið þarf að skila af sér. Manchester United tapaði síðasta deildarleik, það var fyrsta tapið í deildinni síðan í október. Samt hefur deildin valdið miklum vonbrigðum í vetur. Það voru miklar væntingar fyrir tímabilið. Fullmiklar, kom síðar í ljós. En við viljum meira, það hlýtur að vera eðlilegt að stefna á toppinn miðað við hvaða félag þetta er, miðað við hversu miklu hefur verið eytt í leikmenn, miðað við að Mourinho er í brúnni.
Það er hægt að taka sitthvað jákvætt út úr leik liðsins í vetur, jafnvel þótt liðið hafi oft verið þjakað af svipuðu andleysi og hefur einkennt það að miklu leyti eftir að Ferguson hætti. Vörnin virðist vera að batna og sóknarleikurinn mjakast í rétta átt. Sóknarleikurinn hefur heilt yfir ekki verið góður en þó betri en hjá van Gaal hvað færasköpun og markaskorun varðar. En við viljum meira.
Leikurinn gegn Celta Vigo er mikilvægasti leikur tímabilsins. Samt ekki alveg, mikilvægasti leikur tímabilsins fer fram í Stokkhólmi 24. maí. Sá leikur mun skipta öllu máli upp á það hvernig við dæmum þetta tímabil. Hann mun skipta gríðarlega miklu máli upp á það að komast í Meistaradeildina á næsta tímabili. Það að komast í Meistaradeildina getur skipt afskaplega miklu máli upp á að vera í margfalt betri stöðu til að geta keypt þá leikmenn sem félagið vill og þarf til að halda enn áfram að bæta sig. Við viljum sjá Manchester United í keppni þeirra bestu, aðeins þannig getur liðið orðið það besta aftur. Næsta skref í þá átt er að klára Celta Vigo.
Deildin er farin, Evrópudeildin er málið. Við viljum meira. Við viljum titil!
Góð staða fyrir seinni leikinn, en…
Fyrri leikurinn var góður að því leyti að Manchester United var miklu sterkara liðið, Celta Vigo virkaði aldrei mjög nálægt því að skora eða setja almennilega pressu á United og Manchester United vann leikinn. Þetta var ekkert glimrandi frammistaða en þó á flestan hátt traust. Og sigurmarkið var frábært hjá Rashford.
United gæti verið í ívið betri stöðu ef 2 frábær færi í fyrri leiknum hefðu nýst en þetta er samt sem áður mjög góð staða. Að hafa unnið fyrri leikinn á útivelli og eiga seinni leikinn eftir á Old Trafford. Þrátt fyrir allt og allt þá ættum við bara að vera mjög bjartsýn á þetta. Hér eru nokkrir punktar um það af hverju:
- Manchester United hefur unnið alla 6 heimaleikina í Evrópudeildinni á tímabilinu, með markatöluna 15-2. Vissulega þurfti framlengingu til í síðasta leik en sigur hafðist þó að lokum, verðskuldaður sigur.
- Manchester United hefur ekki tapað Evrópuleik á Old Trafford síðan 5. mars 2013. Og þá var það José Mourinho sem kom með Real Madrid og náði sigri. Manchester United hefur spilað 17 Evrópuleiki á Old Trafford síðan þá án þess að tapa.
- Liðinu nægir jafntefli. Basic 1-1 jafntefli væri nóg. Ekki að við viljum sjá það, við viljum auðvitað sjá sigur. Held að bæði Mourinho og leikmennirnir séu á sama máli.
- Manchester United á alltaf að vera töluvert betra en þetta Celta Vigo lið.
En! Það borgar sig svo sannarlega ekki að vanmeta þetta spænska lið og þaðan af síður myndi það boða gott að mæta af værukærð inn í þennan mikilvæga leik. Celta Vigo er komið þetta langt í keppninni og það er engin tilviljun.
Það er langt síðan Celta Vigo gaf deildina upp á bátinn, enda er liðið bara í þægilegu miðjumoði og hefur aldrei verið líklegt til að blanda sér í baráttu á öðrum hvorum enda deildarinnar. Það þýðir að félagið hefur getað leyft sér að hvíla menn grimmt fyrir þessa einu keppni. Þannig voru gerðar 9 breytingar á liðinu fyrir deildarleik á sunnudaginn, markmaður og einn útispilari héldu sínum stöðum á meðan aðrir hvíldu og peppuðu sig fyrir ferðina á Old Trafford. Þetta er það eina sem þeir hugsuðu um. Tapið í deildinni skipti þá engu máli.
Celta Vigo hefur líka verið í þessari stöðu áður á tímabilinu. Í 32-liða úrslitum tapaði Celta Vigo fyrri leiknum gegn Shakhtar Donetsk á sínum eigin heimavelli, 0-1. Í seinni leiknum stefndi allt í að Donetsk myndi rúlla sér í gegnum þetta á 0-0 jafntefli þegar Iago Aspas skoraði í uppbótartíma og leikurinn fór í framlengingu. Þar bætti Celta Vigo við öðru marki og sigraði þar með í einvíginu.
En við hljótum nú að gera ráð fyrir því að Manchester United sé betra lið en Shakhtar Donetsk. Og Celta Vigo.
Leikmenn Shakhtar hafa líklega einnig haldið að þeir væru með töluvert betra lið en Spánverjarnir, þeir höfðu jú unnið sinn riðil sannfærandi með fullu húsi stiga og 21 mark skorað í 6 leikjum.
Svo verður líka að taka með í reikninginn að Celta Vigo hefur náð flottum úrslitum í vetur gegn liðum sem standa Manchester United alveg örugglega mun framar þessa dagana. Celta Vigo vann Barcelona 4-3 á heimavelli. Vigo fór líka til Madrid og lagði Real Madrid á útivelli í spænska bikarnum, 2-1. Og það var ekkert varalið sem Real Madrid tefldi fram í þeim leik.
Seinni leikurinn gegn Hull í undanúrslitum deildarbikarsins er líka ákveðið víti til varnaðar fyrir leikmenn Manchester United. Eftir að Fellaini tryggði 2-0 sigur í fyrri leiknum með frábæru skallamarki var eins og liðið héldi að það kæmist upp með að spila varla seinni leikinn. Á meðan leikmenn Hull höfðu engu að tapa og mættu grimmir í þann leik. Að lokum þurfti Manchester United að hanga á 1-2 tapi en það stóð alltof tæpt miðað við getumuninn á liðunum. Þann leik þurfa leikmenn að hafa í huga fyrir þennan leik gegn Celta, staðan er góð en það er alveg hægt að klúðra þessu samt ef hugarfarið er ekki rétt.
Við hverju má búast?
Það hlýtur að vera hægt að búast við að leikmenn beggja liða mæti vel stemmdir í þennan leik. Tímabilið er í raun búið hjá því liði sem tapar þessu einvígi. Það er ekkert annað undir neins staðar.
Það var æfing hjá Manchester United í morgun. Þar gátu allir tekið þátt fyrir utan Ibrahimovic, Rojo, Shaw, Fosu-Mensah og Young. Það er helst Young sem maður bjóst við að gæti mögulega náð þessu en það er ekkert víst að hann hefði endilega spilað fyrir það. Herrera fékk högg gegn Arsenal en virðist vera búinn að jafna sig. Valencia var búinn að virka þreyttur en fékk kærkomna hvíld í síðasta leik.
Ég myndi telja að liðið yrði nokkuð svipað og í fyrri leiknum:
Ef ég ætti að benda á líklegustu breytinguna þá gæti ég trúað að Mata dytti inn fyrir Mkhitaryan, hann myndi þá líklega víxla köntum við Lingard.
Romero hefur heilt yfir verið traustur í þessari keppni og ég reikna með að hann klári allavega þessa viðureign. En það verður virkilega áhugavert að sjá hvað Mourinho gerir fari svo að liðið komist í úrslitaleikinn. Er verjandi að spila úrslitaleik í Evrópukeppni og spila ekki besta markmanninum þínum? Er sanngjarnt að kippa markmanni sem hefur verið solid alla keppnina úr liðinu þegar kemur að úrslitaleiknum?
Ég hugsa að Celta Vigo stilli líka upp sama eða svipuðu liði og síðast:
Iago Aspas er þeirra hættulegasti leikmaður. Hann er markahæsti leikmaður liðsins bæði í deildinni og Evrópudeildinni. Það er því mikilvægt að passa vel upp á hann. Fremsti leikmaðurinn verður líklega hinn sænski John Guidetti, hann er kominn með 4 mörk í Evrópudeildinni í vetur.
Síðan þarf að passa föstu leikatriðin, leikmenn Celta Vigo geta verið hættulegir í þeim. 22% marka liðsins hafa komið upp úr föstum leikatriðum. Til samanburðar hafa 14% af mörkum Manchester United komið eftir föst leikatriði.
Að lokum
Þessi leikur gegn Celta Vigo er ekki það eina sem á hug okkar Manchester United stuðningsmanna í dag. Í morgun var nýja útivallartreyjan fyrir næsta tímabil opinberuð formlega. Reyndar kom útlitið ekki mikið á óvart eftir að myndir af treyjunni höfðu lekið út en flott er hún. Vísar í 25 ára gamla treyju sem mörgum þykir með flottari útivallartreyjum sem United hefur átt, auk þess sem sú treyja kom fram á ákveðnum tímamótum hjá Manchester United þegar gríðarlega efnileg kynslóð var að mæta til leiks og ævintýralega góður árangur var rétt handan við hornið. Það er því vonandi að þeir leikmenn sem halda áfram hjá félaginu, í bland við þá góðu leikmenn sem bætast við hópinn í sumar, muni nýta sér þessa öflugu treyju sem innblástur til sigurs.
In the stadium. 🏟
On the streets. 🌇
Always on point. 💯#HereToCreate #MUFC @AnderHerrera pic.twitter.com/HaDoy6KPct— Manchester United (@ManUtd) May 10, 2017
Robbi Mich says
Frábær upphitun. Koma svo!