Við erum í svolítið skrýtinni stöðu akkúrat núna, við stuðningsmenn Manchester United. Við erum að bíða eftir stærsta leik tímabilsins, úrslitaleik Evrópudeildarinnar eftir rétt rúma viku, en í millitíðinni þurfum við að spila tvo leiki sem skipta engu máli, svona úr því að liðið á ekki tölfræðilega möguleika á því að komast í eitt af sætunum sem gefa Meistaradeildarsæti. Þessi leikur hefði auðvitað átt að vera mjög mikilvægur en töpin tvö gegn Arsenal og Tottenham, sem og jafnteflin 14(!), hafa gert það að verkum að við erum bara úr leik í deildinni.
Við eigum ekki að venjast þessu enda í öll skiptin sem United hefur átt úrslitaleik í Evrópukeppni síðasta áratugi hefur liðið verið í bullandi baráttu um titilinn. Því höfum við ekki getað leyft okkur það sem til að mynda Liverpool og AC Milan gerðu hér á árum áður þegar þessi lið komust í úrslit Evrópukeppni og voru löngu dottin úr leik í deildinni heima fyrir, fyrr en nú.
Við getum því gert ráð fyrir því að á morgun verði leikmenn hvíldir alveg hægri vinstri. Förum aðeins í það á eftir, förum örstutt í að ræða mótherjann.
Southampton
Claude Puel er með lið sitt á fínum slóðum í deildinni. Liðið er í níunda sæti með 45 stig. Leikmenn hans hafa svo sem ekki að miklu að keppa en þeir geta í mesta lagi endað í áttunda sæti en upp í Everton í því sjöunda eru sextán stig. Það er reyndar athyglisvert að það er styttra fyrir Southampton í fallsæti, aðeins ellefu stig, sem segir þá sögu hvað mikill munur er á milli efstu sex til sjö liðanna, og svo allra hinna.
Liðinu hefur reyndar ekkert gengið neitt sérstaklega vel að undanförnu og ekki náð í sigur frá því 8. apríl þegar liðið lagði WBA. Síðan þá hefur liðið tapað fyrir Chelsea og Arsenal en reyndar náð í ágætt jafntefli gegn Liverpool. Það vill svo til að ég horfði á leikina gegn Liverpool og Arsenal og það verður að segjast eins og er að það lítur allt út fyrir að leikmenn Southampton séu komnir með hugann við sumarfríið, miðað við spilamennskuna í þessum leikjum þar sem leikmennirnir gáfu ekkert aukalega í leikinn.
Okkar menn hafa spilað tvisvar við Southampton í vetur. Við unnum þá auðveldlega á Old Trafford í fyrsta leik Paul Pogba fyrir United í langan tíma. Við tókum þá svo eftirminnilega í úrslitum deildarbikarsins þar sem Zlatan, sá mikli kóngur, minnti svo eftirminnilega á sig.
Hann verður fjarri góðu gamni annað kvöld enda meiddur, en það er önnur saga.
Það er erfitt að segja til um hvað Puel gerir á morgun. Southampton er auðvitað þekkt fyrir að ala upp unga leikmenn á færibandi og því gæti vel verið að einhverjir af þeim fái tækifærið á morgun, umfram þá leikmenn sem hafa verið að spila í sumar. Þetta er hér er þó líklegt byrjunarlið Southampton.
Okkar menn
Á blaðamannafundi fyrir leikinn á morgun sagði Mourinho að hann myndi stilla upp liði sem gæti unnið leikinn enda þyrfti United að byggja upp smá „momentum“ fyrir úrslitaleikinn gegn Ajax eftir töpin gegn Tottenham og Arsenal.
Paul Pogba verður ekki með en hann er staddur í Frakklandi þar sem hann verður viðstaddur jarðarför föður hans sem lést á dögunum. Óvíst er hvort að hann verður með í leikjunum tveimur sem eftir eru. Þá staðfesti stjórinn að Daley Blind verði hvíldur eftir leikjatörnina undanfarið og má telja víst að hann eigi sæti í byrjunarliði gegn Ajax.
Þá er líklegt að Sergio Romero byrji leikinn á morgun enda sagði Mourinho að hann myndi byrja annan af þeim leikjum sem eftir eru. Þá hefur hann einnig sagt að Joel Pereira fái mögulega að byrja síðasta leikinn. 2+2=4.
Leikurinn á morgun snýst eiginlega bara um að enginn meiðist enda er nóg um það fyrir. Fastlega má reikna með að Martial, Jones, Fellaini, Bailly, Smalling og Mata byrji enda þurfa að minnsta kosti þrír af þessum sex leikmönnum að fá smá leiktíma eftir meiðsli að undanförnu.
Ef marka má orð Mourinho snýst allt um að undirbúa leikinn gegn Ajax og mun byrjunarliðið á morgun, sem og um helgina, gefa stórar vísbendingar um hverjir fái að byrja gegn Ajax.
Axel Tuanzebe, Demi Mitchell og Scott McTominay spiluðu ekki með varaliðinu í vikunni og verða þeir líklega í hóp á morgun og spurning hvort einhver fái að byrja. Tuanzebe hefur komið sterkur inn og má alveg fá fleiri mínútur en miðað við spilamennskuna hans í þessum tveimur leikjum sem hann hefur spilað ætti hann að nýtast vel á næsta tímabili.
Það er erfitt að spá fyrir um byrjunarliðið en ég ætla að segja að það verði eitthvað á þessa leið:
Leikurinn er á morgun og hefst klukkan 18.45
Auðunn says
verður áhugavert að sjá hvernig Móri stillir upp liðinu í þessum leik.
Ég hélt kannski að hann myndi stilla upp sama liði (fyrir utan Pogba) í þessum leik og gegn Ajax svona til að slípa menn til ef svo má segja.
En það er ok að gefa öðrum séns að sjálfsögðu, vonast bara til þess að United rífi sig upp úr þessari meðalmennsku sem hefur einkennt liðið í undanförnum 6 leikjum.
Liðið verður að fara að sýna klærnar og koma sér í gang fyrir þennan mikilvæga leik sem framundan er.