Í apríl 1991 komst Manchester United í úrslitaleikinn í Evrópukeppni bikarhafa. Þrátt fyrir að það væru ennþá nokkrir leikir eftir í deildinni og liðið gæti náð 3. sætinu ákvað Alex Ferguson að leggja alla áherslu á úrslitaleikinn og rótera mönnum í síðustu deildarleikjunum. Enginn af þeim 11 sem spiluðu úrslitaleikinn byrjaði í öllum leikjunum heldur róteraði Ferguson duglega á milli leikja, þrátt fyrir að þessir síðustu leikir í deild væru gegn erkifjendunum í Manchester City, gegn toppliði Arsenal, gegn Tottenham Hotspur og Crystal Palace. Enda fór svo að liðið vann ekki síðustu 3 leiki sína heldur tapaði 2 og gerði 1 jafntefli, sjötta sætið varð niðurstaðan í deildinni. En það vissu líka allir þá hvert takmarkið var, takmarkið var að fara til Hollands og vinna Barcelona í úrslitaleiknum.
Svo það er alveg á hreinu að þetta sem Mourinho er að gera núna og hefur verið að gera í síðustu umferðum á sér ansi gott fordæmi.
En að leiknum í kvöld, byrjunarlið Manchester United í kvöld var svona:
Varamenn: J.Pereira, Mitchell, McTominay, Carrick, Ander Herrera, Lingard, Rashford
Byrjunarlið heimamanna í Southampton var:
Varamenn: Hassen, Cáceres, Clasie, Boufal, Pied, Austin, Rodriguez
Leikurinn
Það þarf eiginlega ekkert að eyða mörgum orðum í leikinn sjálfan. Hann var ekkert ferlega skemmtilegur og endaði markalaus. Liðin fengu reyndar bæði færi, Martial skaut t.d. í stöng og Mata skaut yfir úr ákjósanlegu færi. En Southampton var mun líklegra til að skora og hefði vel getað skorað 2-3 mörk ef ekki hefði verið fyrir stórleik Sergio Romero. Hann varði meðal annars vítaspyrnu í upphafi leiks. Reyndar var það rangur dómur, Eric Bailly tók boltann með arminum vissulega en var rétt utan teigs þegar hann gerði það svo aukaspyrna hefði verið réttur dómur. Romero reyndist hins vegar verndari réttlætisins í þetta skiptið og varði mjög vel vítaspyrnuna frá Gabbiadini.
Þetta var ekki eina framlag Romero í leiknum, langt í frá. Hann varði alls 6 skot, sum hver úr ákjósanlegum færum. Hann gerði ítrekað vel í úthlaupum með því að grípa boltann eða kýla hann í burtu, hann dreifði boltanum vel og átti bara heilt yfir mjög góðan leik. Hann hefur gert allt sem hann getur til að réttlæta það að Mourinho velji hann til að verja mark Manchester United í úrslitaleik Evrópudeildarinnar, þrátt fyrir að hinn aðalmarkmaður liðsins sé af flestum talinn einn af 2-3 bestu markmönnum heims. Romero hefur ekki tapað leik með United á tímabilinu.
Fyrir framan hann voru þeir Smalling og Jones að berjast um það hvor þeirra fær að spila við hlið Daley Blind í úrslitaleiknum. Það er erfitt að vera án tveggja bestu og stöðugustu miðvarða liðsins í úrslitaleiknum, ég veit hreinilega ekki hvernig mig langar helst til að sjá miðvarðaparið skipað af þessum þremur valkostum. Af þeim sem spiluðu í kvöld fannst mér Jones þó komast betur frá sínum leik. Smalling átti þó hörkusprett upp völlinn í síðari hálfleik sem hefði næstum því getað orðið að marki. Svo hvaða tveir af þessum þremur miðvörðum ættu að byrja leikinn gegn Ajax eftir viku?
Miðjan var skipuð af þeim Fellaini og Tuanzebe. Það er athyglisvert að Mourinho hefur verið að nota Tuanzebe á miðri miðjunni í síðustu tveimur leikjum. Það er spurning hvort hann sjái hann frekar fyrir sér sem miðjumann en varnarmann. Líklegra er þó að hann hafi hreinlega viljað hvíla Ander Herrera og ekki taka óþarfa áhættur með gamla manninn Michael Carrick. Tuanzebe skilaði ágætis vinnudegi í baráttu og barningi en það kom hins vegar í hlut félaga hans á miðjunni, Belgans hárbrúða Fellaini, að vera aðalsendingarmaðurinn. Nú fíla ég Fellaini og vil meina að hann hafi marga góða kosti sem geta nýst liðinu vel, bæði núna og á næsta tímabili. En að vera sá leikmaður sem allt spil liðsins fer í gegnum er ekki sterkasta hlið Fellaini. Hann má þó eiga það að hann lagði sig fram um að sinna því hlutverki, bauð sig duglega og var mikið í boltanum. Hann er ekki að fara að galopna varnir andstæðinganna með því að þræða boltann í gegnum nálaraugu, hann er meira í því að halda þessu einföldu. Það lýsir því best hversu mikið hann var í boltanum að hann var sendingahæsti leikmaðurinn sem tók þátt í leiknum, jafnvel þótt hann hafi farið af velli á 75. mínútu. Hann var líka með ágætis sendingarhlutfall, tæplega 90%. En, eins og ég segi, hans styrkleikar liggja annars staðar, ef hann er á miðjunni þá er hann í baráttunni, er í því að vinna boltann og svo senda einfalt á einhvern sem getur gert eitthvað meira við hann. Það batnaði líka til muna um leið og Carrick kom inn á völlinn fyrir Tuanzebe. Þá fór liðið að ná að sækja meira.
Martial komst nálægt því að skora þegar hann skaut í stöng. Annars áttu sóknarmennirnir heilt yfir heldur daufan leik, með nokkrum skemmtilegum augnablikum inn á milli. En ekki nóg til að skora samt. Það var þó bara í takt við allt liðið, enda virtust leikmennirnir staðráðnir í að fara sér alls ekki að voða í þessum leik. Skiljanlega.
Eftir leikinn sagði Mourinho að unglingarnir myndu fá sénsinn í leiknum gegn Crystal Palace um helgina og hann vonaðist til að Sam Allardyce yrði í vinalegu skapi og myndi ekki spila á sínu allra sterkasta liði. Það á semsagt bara að hafa létt og skemmtilegt gaman á sunnudaginn áður en alvaran tekur við í Stokkhólmi.
Aðspurður um hvenær stuðningsmenn Manchester United mættu eiga von á að sjá David de Gea aftur sagðist hann eiga von á að hann myndi næst spila með Manchester United gegn LA Galaxy í æfingarferðalaginu í júlí. Það er eitthvað við þessi ummæli hans sem stressar mig. Vissulega var ég búinn að gera ráð fyrir því að það gæti allt eins gerst að Real Madrid myndi aftur reyna að kaupa de Gea. En fjandakornið, ég vil ekki að hann fari!
Svo helstu pælingar eftir leik eru þessar:
- Er David de Gea búinn að spila sinn síðasta leik fyrir Manchester United?
- Hvaða miðverðir eiga að spila í Stokkhólmi?
- Martial, Mata og Mkhitaryan. Mér finnst ólíklegt að þeir byrji allir gegn Ajax, frekar að 1 eða 2 þeirra byrji. Bara spurning hver/jir?
Auðunn says
Afhverju ætli De Gea sé ekki einu sinni í hópnum?
Runólfur Trausti says
Móri gaf þetta út um daginn. Ætlaði að nota Romero og Pereira í loka leikjum í deild. Af hverju er góð spurning – kannski er eitthvað í gangi á bakvið tjöldin.
Annars verð ég að lýsa smá undrun með þetta byrjunarlið. Bailly og Darmian í bakvörðum er ekkert rosalega sexy. Hvað þá þegar það er bara einn fljótur leikmaður framarlega á vellinum.
Sindri says
Tippa á að Bailly verði í miðverði um helgina og annar eða báðir skaftanna fái frí.
Sindri says
Hefur farið fram hjá mér greinilega undanfarin ár að Southampton séu svona sókndjarfir og góðir að halda bolta.
Karl Gardars says
Ég jinxa þetta örugglega núna en þvílíkur feikna varamarkvörður sem við eigum.
Manni er nánast fjandans sama hvor er í marki. Það er að vísu mögulega út af því að maður veit það innst inni að leikurinn fer í jafntefli hvort eð er. 🤦♂️
Rúnar Þór says
Seinustu leikir hafa hreint út sagt verið leiðinlegir! Allt of varnasinnaðir. Nánast ekkert skapað hvað þá skorað! Southampton áttu skilið að vinna. Fleiri skot, hraðari sóknir og mun meira að gera hjá Romero en hjá Forster.
Romero maður leiksins.
Get ekki beðið eftir að tímabilið klárist og hreinsunin hefjist. Vona bara að við klúðrum þessu ekki á móti Ajax
Joi says
Móra fyrst út
Silli says
@Joi –
„Enska úrvalsdeildin
Southampton 0:0 Manchester United
Halldór Marteins skrifaði þann 17. maí, 2017 | 7 ummæli
Í apríl 1991 komst Manchester United í úrslitaleikinn í Evrópukeppni bikarhafa. Þrátt fyrir að það væru ennþá nokkrir leikir eftir í deildinni og liðið gæti náð 3. sætinu ákvað Alex Ferguson að leggja alla áherslu á úrslitaleikinn og rótera mönnum duglega í síðustu leikjunum. Enginn af þeim 11 sem spiluðu úrslitaleikinn byrjaði í öllum leikjunum heldur róteraði Ferguson duglega á milli leikja, þrátt fyrir að þessir síðustu leikir væru gegn erkifjendunum í Manchester City, gegn toppliði Arsenal, gegn Tottenham Hotspur og Crystal Palace. Enda fór svo að liðið vann ekki síðustu 3 leiki sína heldur tapaði 2 og gerði 1 jafntefli, sjötta sætið varð niðurstaðan í deildinni. En það vissu líka allir þá hvert takmarkið var, takmarkið var að fara til Hollands og vinna Barcelona í úrslitaleiknum.
Svo það er alveg á hreinu að þetta sem Mourinho er að gera núna og hefur verið að gera í síðustu umferðum á sér ansi gott fordæmi.“.
Mér finnst þetta alveg borðleggjandi. Spara þann fremur litla hóp sem „við“ höfum og komast slysalaust frá þessum leikjum sem skipta engu máli, a.m.k. ekki upp á stöðuna í deildinni.
Varðandi miðverðina í Stokkhólmi, þá finnst mér Jones líklegri en Mike… en auðvitað meiðist Jones í næsta leik, svo það verða Blind og Smalling (djöfulsins helvíti að verða án Bailly og Rojo)..
Svo er spurning hvort þeir verði ekki 3 og kallinn í brúnni hendi í 3-4-3 eða 3-5-2 á móti þessu ægihressa Ajaxi, sem að öllum líkindum spilar 3-4-3?
Eins glatað og það væri að missa DDG, þá sýnist mér okkar menn vera í fínum málum með markmannsstöðuna.
GGMU.
Halldór Marteins says
Það kæmi mér gríðarlega á óvart ef Phil Jones spilar mikið á sunnudaginn. Þó er aldrei að vita og það er ekki eins og Jones þurfi að vera að spila í fótboltaleik til að meiðast. En við vonum ekki, betra að hafa sem flesta heila úr þessu.
Ajax hefur ekkert spilað með þrjá miðverði á þessu tímabili. Þeir eru nánast eingöngu í 4-3-3 en hafa einstaka sinnum farið í 4-1-4-1 eða 4-2-3-1. Reikna samt með þeim í sínu sterkasta kerfi, 4-3-3.
DMS says
Ég vil alls ekki missa De Gea, en ef hann endar á að fara þá er það enginn heimsendir. Stóru vandamálin hjá okkur liggja á allt öðrum stöðum en að vera illa settir með markmenn. En fari svo að Real nái loks að klófesta hann, þá vil ég fá eitthvað í staðinn frá þeim. Fyrsta val væri Toni Kroos. En svo er spurningin, er Móri að gefa De Gea early sumarfrí þar sem hausinn á honum er ekki á réttum stað ef Real eru byrjaðir að spyrjast fyrir? Mér finnst að við ættum auðveldlega að geta heimtað 50-60 milljónir punda fyrir hann í beinni sölu – annað er bara óþarfa afsláttur. Drengurinn á enn 2 ár eftir af samningnum.
Silli says
@Halldór Marteins..
Sorry – Ég var eitthvað að rugla með gamla hollenska systemið, sem ég ég hélt að Ajax hefði tekið upp aftur.
Svosem ekkert í fyrsta skipti sem ég þarf að biðjast forláts og snæða fótaklæðnað..
En – Ég er samt heitur fyrir 3 CB og svo Young og Valencia hlaupandi upp og niður, utan á þeim.
Silli says
… og annað bull – Young er auðvitað meiddur,,
Björn Friðgeir says
Slúður í gær um að Mendes og forseti Benfica væru komnir til Englands til að ræða um kaup á Joel Pereira. Að spila Pereira væri fínt upp á að reyna að sannfæra hann um að vera áfram. Það er ekkert mikið að því að enda með Romero sem aðalmarkmann á næsta ári og Pereira sem nr 2. Það er samt klárlega Plan C.
Plan A: De Gea áfram
Plan B: Oblak
og jafnvel í því samhengi er Plan C ekkert svo slæmt
Auðunn says
Gaf þriðja sætið eitthvað árið 1991? Kannski evrópukeppni félagsliða sem var nú ekki beint beisin keppni né skilaði fúlgu fjár í kassann á þeim tíma.
Það eru aðeins breyttir tímar núna, eða reyndar svolítið mikið meira en aðeins.
Í mínum huga er ekki hægt að bera 1991 við 2017 þegar kemur að þriðja sætinu í deildinni.
Auðunn says
Að uppstillingu liðsins gegn Ajax þá vill ég hafa liðið svona.
Romero
Valencia – Jones – Smalling – Blind
Herrera – Carrick – Pogba
Mkhitaryan – Mata
Rashford
Halldór Marteins says
Að mínu mati er þetta frekar sambærilegt þar sem möguleikarnir á einhverju meira en 5. sæti voru orðnir langsóttir eftir klúðrið gegn Swansea.
Hér eru mínar pælingar varðandi þetta:
– Það er vægast sagt svekkjandi að Manchester United sé ekki löngu búið að negla niður amk eitt af 4 efstu sætunum í deildinni en eftir leikinn gegn Swansea finnst mér algjörlega eðlilegt að Mourinho og liðið hafi sett allan fókus á Evrópudeildina.
– Það er ekki úr karakter fyrir liðið að leggja minni áherslu á leiki vegna þess að það eru mikilvægari leikir framundan, Ferguson gerði það margoft.
– Spilamennskan hefði mátt vera betri hjá þeim sem komu inn í þessum tilgangslausu leikjum en ég get alveg skilið að það hafi ekki verið stórkostlega auðvelt að peppa sig upp í þá leiki.
– Allt þetta verður að engu ef leikurinn gegn Ajax tapast. Þá er tímabilið bara klúður. Mourinho tók ákvörðun sem hann stendur og fellur með. En hann kann á úrslitaleiki og veit hvað þarf að gera til að vinna.
Ég man hreinlega ekki eftir þvi að hafa upplifað einn leik með Manchester United sem mér fannst svona mikið undir eins og í þessum leik í Stokkhólmi. Oft hafa verið titlar undir en núna finnst mér eins og Manchester United sé að spila upp á framtíð sína.
Halldór Marteins says
En vissulega rétt að 3. sætið árið 1991 gaf ekkert, svo að því leyti er 3. sætið þá og 3. sætið núna sannarlega ekki sambærilegt. Ég bara tel að liðið hafi ekki verið í neinum alvöru séns um sæti 3 eða 4 eftir Swansea leikinn.
Kjartan says
Smalling og Blind náðu ágætlega saman undir stjórn LvG, þannig mér finnst líklegt að þeir byrji leikinn í Stokkhólm. Vonandi þorir Móri að sækja á hið unga AJax lið, enda þykja þeir ekki vera öflugri í öftustu víglínu.
————–Rashford
Martial———————Mikki
————–Mata
———-Pogba–Herrera
Darmian-Blind-Smalling-Valencia
————-Romero
Ég veit samt að Fellaini spilar þennan leik