Það er von á Djöflavarpi fljótlega en ritstjórar svöruðu nokkrum einföldum spurningum til að gera upp þetta fyrsta tímabil José Mourinho. Fyrri hlutinn birtist í gær og hér kemur seinni skammturinn
Mark árs… tjaaaa
Bjössi
Mkhitaryan, auðvitað.
Elli
Þarf maður í alvörunni að nefna það? Nehh, hélt ekki.
Halldór
Flottasta mark ársins var án efa sporðdrekasparkið hans Mkhitaryan. Merkilegasta markið var vegar aukaspyrnumarkametsmarkið hans Rooney gegn Stoke. Flott var það! Uppáhalds Zlatanmarkið var svo markið gegn Everton, þegar hann vippaði yfir markmanninn og boltinn lak inn eftir að hafa skoppað bæði í slá og stöng.
Maggi
1. Mkhitaryan vs Bournemouth
2. Zlatan vippan gegn Everton
Runólfur
D’uh.
Tryggvi
Mkhitaryan markið gegn Sunderland er væntanlega sjálfkjörið en ég hef mikinn tíma fyrir markið sem Rashford skoraði gegn Northampton í deildarbikarnum. Alltaf vanmetið þegar menn negla boltanum í markið þegar það eina sem þeir þurfa að gera er að pota boltanum.
Leikur ársins
Bjössi
Enginn. Enginn frábær leikur sem ég man eftir.
Það var gaman að vinna bikarana samt
Elli
Auðvelt val. Það er orðið langt síðan maður hefur upplifað spennuna að horfa á United keppa í Evrópuleik sem skipti einhverju máli. Allt of langt og mikið djöf hvað ég hafði saknað þess. Mourinho mætti með hið fullkomna plan og náði að óvirkja hið hættulega lið Ajax og koma United í meistaradeildina.
Halldór
Leikur ársins er mjög auðvelt val. Stokkhólmur, Ajax og titillinn sem vantaði.
Maggi
1. Fenerbahçe á Old Trafford
2. Deildarbikarúrslitaleikurinn gegn Southampton
Runólfur
Manchester United 2-0 Ajax. Segir sig sjálft. Allt undir og leikurinn var aldrei í hættu. Hinn fullkomni Mourinho leikur. Hvað varðar skemmtanagildi þá var sigurinn í Deildarbikarnum auðvitað frábær en ég efast um að Mourinho vilji spila fleiri svoleiðis úrslitaleiki.
Tryggvi
Chelsea á Old Trafford. Langbesta frammistaða United á tímabilinu og þarna sýndi liðið hvernig það getur pakkað okkar helstu keppinautum saman. Nánast hinn fullkomni leikur og mjög Fergie-esque hjá Mourinho.
Vonbrigði ársins
Bjössi
Svo mörg. Schmidfield. Memphis. Luke Shaw enn ekki orðinn fullorðinn, þó hann stefni í rétta átt. Spilamennskan var of neikvæð stundum. Eltingarleikurinn við fjórða sætið var svo mikil tálsýn og síðast en ekki síst: Öll þessi jafntefli!!
Elli
Að mínu mati eru helstu vonbrigðin að horfa á liðið eiga svona erfitt með að skora mörk. Lið með leikmenn eins og Zlatan, Pogba, Mkhitaryan, Mata, Martial og Rashford á að skora fleiri en 54 mörk í deildinni. Sjö lið skoruðu fleiri mörk en United, Chelsea til dæmis skoraði 31 fleiri mörk en United. Klárlega okkar helsta vandamál því varnarlega vorum við að standa okkur frábærlega, með næst besta árangur allra liða í deildinni með 29 mörk á sig fengin. Einungis Tottenham státaði af betri árangri með 26 mörk. Ímyndið ykkur hvar við hefðum endað með 15+ fleiri mörk skoruð á þessu tímabili… (hint: Ekki með 15 jafntefli!)
Í öðru sæti er það vinur minn Luke Shaw. Mikið vona ég að hann nái að koma til baka og eigna sér vinstri bakvarðarstöðuna en ég verð svartsýnni með hverjum deginum sem líður.
Halldór
Mestu vonbrigði ársins voru þegar nokkrir stuðningsmenn Manchester United bauluðu á sinn eigin leikmann. Jafnvel ef Fellaini væri lélegasti knattspyrnumaður sem nokkru sinni hefði spilað fyrir Manchester United (sem hann er ekki, ekki einu sinni nálægt því) þá afsakar það ekki svona lélega hegðun.
Það jákvæða var þó að leikmenn Manchester United og stjóri vörðu sinn mann, enda vita þeir hversu dýrmætt það getur verið að hafa Fellaini í sínu liði. Í kjölfarið fóru fleiri að sýna honum stuðning, t.d. hinn harði stuðningsmannakjarni liðsins sem eltir liðið á alla útileiki, það fóru að heyrast lög um Fellaini og hann fékk meira pepp. Hann hefur líka vaxið eftir því sem hefur liðið á tímabilið og endaði það mjög vel með frábærri frammistöðu í úrslitaleiknum í Stokkhólmi. Það er vonandi að við þurfum aldrei aftur að heyra United stuðningsmenn baula á einn leikmann liðsins, hvorki Fellaini né nokkurn annan.
Maggi
- Markaskorunin.
- Luke Shaw
- Anthony Martial
Runólfur
Nýting á færum í deildinni. Þessi hörmulega nýting á færum leiðir til þess að liðið endar í sjötta sæti sem eru massíf vonbrigði.
Tryggvi
Gengi liðsins í deildinni klárlega. Sjötta sætið er ekki ásættanlegt, sérstaklega miðað við væntigarnar fyrir tímabilið og leikmannakaup. Maður bjóst við titilbaráttu en í staðinn fengum við meðalmennsku. Vissulega eru ástæður fyrir því en vonbrigðin voru sár.
Hvað viljið þið sjá gerast í leikmannamálum núna í sumar?
Bjössi
Griezmann kemur þó ég sjái ekki alveg hvernig liðsuppstillingin verður með honum. Einhvers konar 4-4-1-1 hentar honum best þannig það þarf líklega eitthvað að hrókera
Það vantar svo annan mann á miðjuna, miðvörður er alger nauðsyn og síðan þarf líklega vinstri bakvörð, þó að kannski hafi frammistaða Darmian undanfarið og von um að Shaw sýni hvað hann getur gert það ónauðsynlegt.
Og það þarf líklega framherja. Belotti hljómar ágætlega. Andreas Pereira kemur og verður fastamaður í hóp.
Þannig þetta verður líklega mjög annasamt sumar hjá Ed Woodward. Hann er með listann, núna er að vinna úr honum. Það verða líka nokkrir sem hverfa á braut, það mest spennandi er hvað gerist með Zlatan. Rooney virðist á leiðinni, til að geta spilað frekar en að sitja á bekk, og það fer eftir hvaða tilboð koma hverjir fara. Éinu varnarmennirnir sem er alveg víst að verða með næsta sumar eru Bailly og Valencia.
Elli
Við þurfum:
- hafsent sem hoppar inn í byrjunarliðið til að spila í hjarta varnarinnar með Bailly.
- framherja í stað Zlatan (sem líklega mun ekki snúa aftur til United).
- einn til þrjá miðjumenn. Einn byrjunarliðsmann á miðjuna með Pogba & Herrera og svo 1-2 leikmenn til að leysa þá af. Eins og staðan er núna hjá liðinu höfum við einungis Carrick, Fellaini, Blind og Tuanzebe í þau verkefni. Ímyndið ykkur ef United hefði keypt Kante síðasta sumar, hversu scary væri að mæta miðju sem innihéldi Herrera – Kante – Pogba? Að auki finnst mér vera stórt vandamál að ef Pogba skyldi meiðast, þá höfum við engan á bekknum sem kemst nálægt því að skapa færi líkt og hann.
Halldór
Sumarglugginn framundan er spennandi. Verið að tala um að Mourinho vilji 4-6 leikmenn. Eins gott að einn þeirra sé heimsklassa miðjumaður. Pogba og Herrera eru frábærir en það er of langt í næsta mann þar á eftir hvað gæði snertir.Veit ekki alveg hvaða nafn mig langar mest í þar en verð spenntur að sjá hver kemur.
Það þarf að finna út úr sóknarmálunum. Það væri fínt að fá hreinræktaðan, eitursterkan framherja. Slúðrið um Griezmann til United verður alltaf háværara, hann er samt ekki alveg þessi týpa. Myndi bara vilja bæði Griezmann og striker.
Einhverja varnarmenn væri gott að fá. Ef Mourinho gæti grafið upp önnur Baillyesque kaup á miðverði þá væri það geggjað. Og ef maður á að vera með algjöra heimtufrekju þá væri ég til í góðan vinstri bakvörð líka.
Maggi
- Antoine Griezmann
- Miðvörð
- Miðjumann
- Og 2-3 uppá breiddina
Runólfur
Fyrir mína parta þarf að styrkja miðsvæðið og framlínuna. Það þarf annan „skrokk“ á miðjuna með Herrera og Pogba. Svo þarf mann sem skorar 20+ mörk í framlínu liðsins.
Tryggvi
Það sem ég vil fyrst og fremst sjá er að eftir sumarið verði búið að bæta við gæðum í leikmannahópinn þannig að Mourinho geti róterað liðinu á milli leikja án þess að það komi mjög mikið niður á styrkleika byrjunarliðsins í hverjum leik fyrir sig.
Við þurfum að geta hvílt Pogba, Bailly, Mkhitaryan og fleiri góða og treyst því að þeir sem komi inn standi fyrir sínu. Það var ekki alltaf upp á teningnum á tímabilinu sem nú er liðið.
Ég held að hentugast væri að eyða mesta púðrinu í að krækja í framherja, miðjumann og miðvörð og eyða því sem eftir situr í bakvörð, kantmann og mögulega miðjumann til viðbótar.
Spá og kröfur fyrir næsta ár
Bjössi
Englandsmeistarar. Fjórðungsúrslit í meistaradeildinni. Og mun betri spilamennska. Allt minna og Mourinho fer. En það verður líklega frá góðu búi. Hann kaupir vel, og það má alltaf ráða mann sem gerir betur með þann mannskap.
Elli
Það er engin spurning að Mourinho mun styrkja liðið enn frekar í sumar. Virðist vera kominn nokkuð áleiðis nú þegar þegar flestar fréttir virðast benda til þess að Antoine Griezmann sé á leiðinni til United frá Atlético Madrid. Verð að játa það að spennan er ansi mikil að sjá hann koma þó að óvitað er hvar Mourinho sér Griezmann fyrir sér í byrjunarliði United og hvort það séu framherjakaupin fyrir Zlatan.
Næsta tímabil verður einfaldlega tímabilið þar sem Mourinho fær litla sem enga vorkunn. Hann verður þá búinn að stjórna liðinu í eitt tímabil og fá þrjá leikmannaglugga til að styrkja liðið. Hann á að vera kominn með nóg til að berjast um alla titla. Engar afsakanir. Ég er fullviss um að hann muni standa undir þeim kröfum og að United verði í baráttunni alveg til enda. Vonandi endar það með deildartitli og góðri frammistöðu í meistaradeildinni.
Halldór
Á næsta tímabili vil ég sjá liðið byggja ofan á þennan árangur. Það þarf að finna taktískar og hugarfarslegar leiðir til að breyta þessum jafnteflum í sigra í deildinni. Ég er bjartsýnn á að það takist og ég hlakka til að sjá hvað Mourinho gerir með liðið í Meistaradeildinni.
Maggi
Undanúrslit í Meistaradeild og titilbarátta fram á síðasta dag.
Runólfur
Lenda í efstu tveimur sætunum. Komast í 8 liða úrslit í Meistaradeildinni. Vinna annað hvort Deildarbikarinn eða FA bikarinn. Og helst vinna UEFA Super Cup og Góðgerðaskjöldinn.
Tryggvi
Ósköp einfalt. Vera í titilbaráttu fram á síðasta dag, fara langt í Meistaradeildinni og vinna bikar ef við höfum tíma. Áherslan á þó að vera á deildina. Það er allt of langt síðan titillinn hefur komið heim á Old Trafford.
Jón says
Skemmtilegur pistill. En Runólfur, það væri gaman að vinna Góðgerðarskjöldinn. En við eigum engan möguleika á að vinna hann, þar sem við erum hvorki englandsmeistarar eða bikarmeistarar. Unnum „bara“ allt hitt :)
Björn Friðgeir says
Ég gerði það að gamni mínu að skilja þessa villu eftir hjá Runólfi, bara af því það er svo skemmtilegt að yngsti ritstjórinn skuli enn hugsa um Góðgerðaskjöldinn frekar en Samfélagsskjöldinn. Það afsakar nefnilega sömu villu hjá okkur sem eldri eru!!
Auðunn says
Get persónulega ekki valið sporðdrekasparkið hans Mkhitaryan sem mark ársins því hann var rangstæður og því hefði markið aldrei átt að standa, flott mark engu að síður en ólöglegt.
Já ég er sammála að lágmarkskrafa á næsta tímabili er titilbarátta og 8 liða úrslit í meistaradeildinni.
En til að það náist þurfa nokkur atriði að ganga upp, við sáum vel í vetur að liðið er töluvert á eftir Chelsea, City og Spurs í gæðum og öll þessi lið eiga eftir að styrkja sig töluvert í sumar þannig að það verður alls ekkert auðvelt að ná þessum markmiðum.
Ég meina sæu þið Fellaini spila í þessum liðum??? uuuu nei, hann kæmist ekki einu sinni á bekkinn hjá þessum liðum og Það segir ansi mikið um gæði liðsins.
Þannig að Mourinho þarf að styrkja liðið verulega og losa sig við leikmenn sem eru ekki í United klassa eins og Fellaini, Darmian og jafnvel Smalling.
Síðan eru leikmenn eins og bæði Young og Rooney búnir og mættu líka fara.
Svo eru líklegt að Zlatan fari þannig að það er á nægu að taka.
City er því miður búnir að kaupa þann miðjumann sem ég vonaðist til að kæmi til United.
Ég myndi vilja sjá united kaupa Eric Dier, Danny Rose, Ivan Perisic, Griezmann, Michael Keane og Dele Alli eða mjög góðan miðjumann í svipuðu hlutverki.
Veit að þetta er óraunhæfur innkaupalisti en kannski fáum við að sjá eitthvað af þessum nöfnum í United á næsta tímabili.
Björn Friðgeir says
Já ég sé Fellaini alveg spila í þessum liðum sem Plan B.
Halldór Marteins says
Það er góð ástæða fyrir því að Fellaini fer ekki neitt í sumar.
Hann hefur t.d. spilað mikilvæga rullu í öllum 3 bikurunum sem Manchester United hefur unnið á síðasta ári, með því að skora í undanúrslitum og standa sig vel í úrslitaleikjunum (sérstaklega þeim síðasta og stærsta).
Ég er alveg á því að Manchester United eigi að kaupa betri leikmenn og finnst eðlilegt að spilatími Fellaini minnki eitthvað með tímanum. En hann er frábær leikmaður til að hafa í hópnum og hefur kosti sem munu nýtast liðinu vel eitthvað áfram. Hugarfarið hans er líka til fyrirmyndar, það eru margir sem gætu lært mikið af honum hvað það varðar.
Björn Friðgeir says
Auðunn: nú er sumarið komið, Fella er ekki að fara nett þannig hann verður ekki í umræðunni. Ég splæsi á þig einum öl ef þú nærð tíu kommentum í röð hérna án þess að minnast á hann ! :D :D
Auðunn says
Já já það er hægt að nýta Fellaini þegar það á að spila ákveðinn fótbolta sem önnur lið en United hafa hingað til verið frægari fyrir að spila.
Lið á stærð við United á alltaf að hafa meiri gæði innan sinna raða alveg sama þótt liðið fari útí plan B.
Ég bara því miður get aldrei séð Fellaini fyrir mér sem plan B hjá hvorki City, Chelsea, Spurs né Arsenal. Kannski mögulega Everton.
Hann hefur gert meira ógagn en gagn þann tíma sem hann hefur verið í herbúðum liðsins, látið reka sig útaf, gefa víti og kostað liðið mörg mikilvæg stig sem má rekja til hægagangs og getuleysi svo eitthvað sem nefnt.
Kannski væri hægt að nota hann sem plan C, ´þá gæti hann mögulega fengið 2-3 leiki yfir tímabilið.
Held að bæði Axel Tuanzebe og Scott Mctominay verði komnir framar en Fellaini í goggunarröðina fyrir næstu jól, jafnvel fyrr.
Fellaini er lélegasti miðjumaður sem United hefur átt.
Halldór Marteins says
Við verðum seint sammála um Fellaini, sérstaklega þegar þú hunsar svona markvisst allt það sem Fellaini gerir vel. Ég veit alveg að hann hefur sína galla en hann nýtist vel í hóp (enda geturðu aldrei búið til leikmannahóp fullan af gallalausum leikmönnum).
Þú segir: „Hann hefur gert meira ógagn en gagn þann tíma sem hann hefur verið í herbúðum liðsins.“
Og: „Fellaini er lélegasti miðjumaður sem United hefur átt.“
Þetta er hvorugt rétt hjá þér.
Auðunn says
Það er þín skoðun en ekki mín, Fellaini hefur aldrei unnið fyrir kaupinu sínu sem leikmaður United og ég stend fastur á því að liðið sé mikið betur sett án hans, hræðilegur leikmaður í allastaði.
Halldór Marteins says
Tjah, hann vann fyrir kaupinu sínu með því að skora í undanúrslitaleikjum, hjálpa liðinu að vinna bikara og komast í Meistaradeildina. Fyrir utan aðrar góðar frammistöður sem hann hefur átt, t.d. í leikjum gegn Liverpool. Hræðilegur leikmaður í alla staði hefði aldrei gert það.
En við erum sammála um að vera ósammála um þetta.
Robbi Mich says
Ég held að það megi svona næstum fullyrða að Eric Djemba-Djemba á góðum degi hafi verið lélegri miðjumaður en Fellaini á slæmum degi.
Hannes says
Þakka mjög fínt uppgjör og bara skemmtilega umfjöllun í vetur. Er með eina fyrirspurn fyrir hlaðvarpið. Hver finnst ykkur staðan vera hjá Anthony Martial? Maður hefði vissulega viljað að hann hefði skorað meira í vetur. Hann er hins vegar ungur og hefur oft sýnt skemmtilega takta.
Björn Friðgeir says
Hannes: Komið á lista. Tökum vonandi upp í kvöld!
Fleiri spurningar?