Nú þegar komið er í ljós að Zlatan Ibrahimovic fær ekki áframhaldandi samning hjá Manchester United þá er það mjög leiðinlegur endir á frábæru ári hans hjá United. Sjaldan hefur Manchester United endurspeglast jafnvel í einum leikmanni, allavega ekki undanfarin ár. Það er ekki að ástæðulausu að menn tala um Zlatan í sömu andrá og (King) Eric Cantona.
Eins og flestir vita meiddist Zlatan í Evrópudeildarleik gegn Anderlecht og er ekki búist við því að hann snúi aftur á knattspyrnuvöllinn fyrr en eftir sex mánuði. Það er því algjör synd og skömm að síðasti leikur Zlatans sem leikmaður Manchester United hafi verið úrslitaleikur Evrópudeildarinnar þar sem okkar maður þurfti að horfa á leikinn frá hliðarlínunni, á hækjum.
Fögnuður Zlatans í lok leiks var þó eins einlægur og gat gerst enda fyrsti Evróputitill hans.
Það sem stingur undirritaðan hvað mest eru þeir draumórar að EF José Mourinho hefði tekið við Manchester Untied frekar en David Moyes þá hefði United mögulega fengið Zlatan mun fyrr og við hefðum fengið að njóta krafta hans í Úrvalsdeildinni í meira en þetta eina tímabil.
Þvílíkur draumur sem það hefði verið.
Ef og hefði og allt það.
Möguleikinn á að sjá Zlatan Ibrahimovic í Manchester United treyju númer 9 er þó ekki alveg úr sögunni en hann mun klára endurhæfingu sína hjá félaginu og svo mun félagið ásamt Zlatan og umboðsmanni hans eflaust taka stöðuna í janúar 2018. Þetta kemur lítið á óvart og hefur verið rætt í Djöflavarpinu (podkasti Rauðu Djöflanna) undanfarið.
I understand Ibra will complete recovery @ManUtd. No guarantees given over him getting contract when fit but it can't be ruled out either.
— Simon Stone (@sistoney67) June 9, 2017
Eitt glæsilegt tímabil
Þó tímabilið hafi að vissu leyti verið vonbrigði og 6. sæti í deildinni algjörlega óásættanlegt þá er erfitt að vera fúll út í Zlatan – þó svo að efasemdarmenn hafi reynt að halda því fram að liðið spili betur án hans.
Eins og svo margir þá missti undirritaður algjörlega cool-ið þegar Zlatan gekk til liðs við United. Það virtist líka sem að leikmenn félagsins hafi verið mjög spenntir en áhrif Zlatans í búningsklefanum eru umtöluð. Ljónið hreinlega geislar af sjálfstrausti og þó hann sé hrokafullur með eindæmum þá er hann samt svo auðmjúkur.
Svo segir það sig sjálft um vinsældir mannsins að meira að segja Liverpool stuðningsmönnum finnst ánægjulegt að sjá hann skora mörk. Og hann gerði nóg af þeim síðustu 12 mánuðina.
Þann 1. júlí var opinberað hér á síðunni að Zlatan myndi ganga til liðs við United og ljóst að heimurinn yrði aldrei samur. Ólíkt venjulegum félagaskiptum þar sem félagið gefur út yfirlýsingu þá gerði Zlatan það að sjálfsögðu sjálfur.
Time to let the world know. My next destination is @ManUtd pic.twitter.com/DAK7iYlrCq
— Zlatan Ibrahimović (@Ibra_official) June 30, 2016
Það tók Zlatan svo ekki langan tíma að stimpla sig inn í ensku deildina. Þann 7. ágúst skoraði Zlatan sigurmarkið í 2-1 sigri United á Leicester City um Samfélagsskjöldinn. Endilega reynið að segja Zlatan að Samfélagsskjöldurinn sé ekki titill – ég mana ykkur!
Nr 31 pic.twitter.com/xmpYE787do
— Zlatan Ibrahimović (@Ibra_official) August 7, 2016
Var þetta langt frá því að vera eina sigurmarkið sem Zlatan skoraði í vetur. Hann skoraði til að mynda bæði mörk United gegn Southampton í annarri umferð. Sömuleiðis tryggði hann United sigur á Zorya Luhanks í Evrópudeildinni, skoraði hann tvö mörk í 3-1 sigri á Swansea City í nóvember, skoraði sigurmark gegn Crystal Palace, bæði mörkin í 2-0 sigri gegn West Bromwich Albion og svo var það þrennan í 3-0 sigri gegn St. Etienne.
Sömuleiðis skoraði hann í nokkrum 1-1 jafnteflum í vetur enda gerði liðið um það bil þúsund slík í vetur.
Alveg rétt, hann skoraði líka tvö mörk í úrslitum Deildarbikarsins þegar United vann Southampton 3-2 í epískum úrslitaleik.
Nr 32 pic.twitter.com/j8pjB3TsfD
— Zlatan Ibrahimović (@Ibra_official) February 27, 2017
Samtals spilaði Zlatan 46 leiki fyrir Manchester United. Skoraði 28 mörk og lagði upp önnur níu. Var hann fyrsti leikmaður Manchester United til að skora meira en 20 mörk á tímabili síðan Robin Van Persie gerði það (einnig á sínu fyrsta tímabili fyrir klúbbinn).
Mörk Zlatans tryggðu United sigur eða jafntefli í 11 leikjum í vetur. Þar á meðal í tveimur leikjum þar sem það var titill í boði (hér er Samfélagsskjöldurinn talinn með því Zlatan telur hann með – það er bara þannig!).
Alveg rétt, hann lagði líka upp mörk í fimm leikjum þar sem stoðsendingarnar tryggðu sigur eða jafntefli.
Fótbolti er vissulega flóknari en svo að það sé hægt að segja að United hefði ekki unnið eða gert jafntefli í öllum þessum 16 leikjum en það er nokkuð ljóst að Zlatan spilaði risa hlutverk í því sem United gerði í vetur.
Framtíðin
Nú þegar hver framherjinn á fætur öðrum er orðaður við United er erfitt að sjá fyrir sér að Zlatan komi inn í liðið á næsta ári – hvað þá á hans aldri. En samt sem áður þá kæmi það einhvern veginn ekki á óvart. Zlatan elskar að troða sokkum upp í menn og einhvern veginn væri það mjög Zlatan-legt að koma aftur inn í liðið, slá aðra framhejra út og lyfta svo þeim stóra næsta vor.
Sama hvað gerist þá var það samt hrein og bein unun að horfa á Zlatan í Manchester United treyju og hver veit nema það gerist aftur.
Ég veit ekki með ykkur en ég trúi!
Björn Friðgeir says
Zlatan verður á Carrington í endurhæfingu. Það er svakalega flott fyrir móralinn að hafa hann þar, jafnvel eins og auka þjálfara, og ef hann nær sér af meiðslunum þá er alveg garanterað að hann spilar aftur fyrir United. Hann er samt ekkert að fara að skrifa undir hjá United heldur ef hann telur sig ekki nógu góðan. Þetta er eina ‘ef’-ið og þó að Morata komi og standi sig mjög vel, þá væri það frábært að fá Ibra inn í hópinn um áramót.
Ég er að hugsa um það síðast þegar það kom Svíi á besta aldri inn í hópinn eftir áramót… Henke skilaði góðu verki og Zlatan gerir það líka ef …
DMS says
Gott að heyra að hann muni klára endurhæfinguna hjá United. Ef hann nær sér góðum í janúar þá gæti ég alveg séð okkur nýta hann eftir áramótin þegar leikjaálagið fer að aukast. En það fer auðvitað líka eftir því hvaða menn United kaupir í sumar í sömu stöðu.
En hvað sem verður þá er ekki annað hægt en að segja TAKK fyrir allt Zlatan!
Auðunn says
Zlatan er einn af örfáum leikmönnum sem virðast hafa farið framhjá Ferguson því miður.
Jesús Pétur hvað það hefði verið gaman að fá þennan gaur til Man.Utd 2003 eða ári áður en hann fór frá Ajax til Juve.
Það hefði ekki verið amarlegt að hafa hann og Ruud saman í framlínunni, maður fær vatn í munninn við þá tilhugsun… uss….
Því miður varð ferill hans hjá United allt allt allt allt of stuttur.
Hann hefði orðið eitt allra mesta goð ever hjá stuðningsmönnum United ef hann hefði komið fyrr.
Maður getur þó þakkað fyrir að hann hafi klæðst treyjunni og skemmt okkur þessa mánuði.
Má hann eiga miklar þakkir fyrir það.