Eftir kvöld- og næturvaktir við að fylgjast með Manchester United spila æfingaleiki í Bandaríkjunum var fínt að fá seinnipartsleik á sunnudegi. Vålerenga er í 7. sæti norsku úrvalsdeildarinnar eftir 16 umferðir af 30. Liðið spilaði síðast 17. júlí í norsku deildinni og á næsta leik 7. ágúst. Vålerenga er því á miðju tímabili en samt búið að vera í smá sumarpásu frá deildarkeppninni.
Fyrir leik var tilkynnt að þetta yrði byrjunarlið Manchester United:
Here is how we’ll line up for the penultimate game of #MUTOUR… ⚪️ pic.twitter.com/u6QOoTG0MA
— Manchester United (@ManUtd) July 30, 2017
En stuttu áður en leikurinn hófst kom í ljós að Matteo Darmian myndi hefja leikinn í hægri bakvarðarstöðunni í staðinn fyrir Timothy Fosu-Mensah. Það var þó eingöngu taktísk ákvörðun, Mourinho sagði fyrir leik að hann ætlaði að spila með 4 manna varnarlínu í fyrri hálfleik en þrjá miðverði í seinni hálfleik.
Manchester United spilaði því með 4-1-4-1/4-3-3 í fyrri hálfleik, þar sem Michael Carrick sat fyrir framan varnarlínuna með Pogba og Fellaini fyrir framan sig á miðjunni. Mkhitaryan var svo á vinstri kanti, Mata á hægri kanti og Rashford einn frammi.
Það var fínt að fá leik gegn liði eins og Vålerenga, þetta var lið sem sat vel til baka, reyndi að halda skipulagi og spila þéttan varnarleik. Ófáa svona leiki á Manchester United eftir að þurfa að spila á komandi tímabili, svona leikir ollu of oft vandræðum á síðasta tímabili.
Fyrri hálfleikurinn spilaðist nokkurn veginn eins og búast mátti við, Manchester United mikið með boltann og að reyna að finna leið í gegnum tvær þéttar varnarlínur Norðmannanna. Það munaði þó ekki miklu að Mkhitaryan næði að skora strax á 2. mínútu þegar hann fékk góða stungusendingu eftir flotta skyndisókn, sem hófst á því að Fellaini vann boltann gríðarlega vel af miðjumanni Vålerenga. Mkhitaryan náði ágætis skoti en markvörður heimamanna varði vel.
Pogba átti líka tækifæri, í kjölfarið á skoti Mkhitaryan datt boltinn til hans og hann átti skot rétt yfir. Seinni í hálfleiknum fékk United aukaspyrnu á hættulegum stað eftir einn af mörgum flottum sprettum Pogba upp völlinn. Pogba tók aukaspyrnuna sjálfur en hún var ekki mjög góð, endaði í veggnum. En Pogba fékk boltann stuttu síðar í vítateig Vålerenga, sólaði varnarmann með flottri hreyfingu og átti fallegt innanfótarskot með vinstri sem flaug í boga beint í stöngina. Þessi stangarskot!
Það var ekki oft sem Manchester United þurfti að hafa miklar áhyggjur af sóknaruppbyggingu Vålerenga. Vörnin var traust og ef boltarnir fóru yfir eða í gegnum hana þá var Romero á tánum að vanda.
Fyrri hálfleikurinn virtist ætla að enda markalaus þegar Manchester United fékk hornspyrnu. Hún var skölluð frá en boltinn barst upp kantinn þar sem Mkhitaryan átti virkilega flotta fyrirgjöf beint á afrókollinn á Fellaini sem skallaði boltann í markið af varnarmanni. Vel gert hjá báðum leikmönnum og United fór með forystu inn í hálfleikinn.
📹 | Fellaini goal. pic.twitter.com/ccUsQ2BcJ0
— Man Utd Stuff (@ManUtdStuff) July 30, 2017
Það voru gerðar 9 breytingar í hálfleiknum, aðeins Romero í markinu og Pogba á miðjunni héldu sínum stöðum. Pogba tók auk þess við fyrirliðabandinu af Carrick. Lindelöf, Smalling og Tuanzebe byrjuðu í miðvörðum með Fosu-Mensah í hægri vængbakvarðarstöðunni og Demetri Mitchell í vinstri. Ander Herrera sat aftast af miðjumönnunum með Pereira og Pogba sitt hvoru megin við sig. Frammi voru svo Martial og Lukaku mættir. Það tók liðið ekki langan tíma að bæta við marki. Pereira kom þá með þrusuflotta hornspyrnu sem endaði beint á enninu á Lukaku sem kom á fluginu framhjá varnarmanni Vålerenga. Mjög vel gert hjá báðum og samvinna sem við eigum vonandi eftir að sjá meira af í vetur.
📹 | Lukaku goal. pic.twitter.com/ZgTWVIjfik
— Man Utd Stuff (@ManUtdStuff) July 30, 2017
Eftir klukkutíma leik kom svo tvöföld skipting, þar sem Joel Pereira kom inn á fyrir Romero í markinu og Scott McTominay inn fyrir Pogba á miðjunni. Við það tók Chris Smalling við fyrirliðabandinu af Pogba. Stuttu seinna skapaði Vålerenga sitt hættulegasta færi í leiknum þegar liðið náði að koma boltanum upp kantinn og þaðan fyrir markið á dauðafrían sóknarmann sem skaut boltanum yfir úr opnu dauðafæri. Miðað við að þarna var á ferðinni markahæsti leikmaður norska liðsins verður að segjast að vörnin var hreint ekki með á nótunum að missa svona illilega af honum.
Þegar 20 mínútur voru eftir af leiknum bætti Scott McTominay við þriðja marki United. Martial átti þá skemmtilegan sprett að vítateignum, ætlaði að gefa stungusendingu á McTominay en varnarmaður Vålerenga virtist hafa komið í veg fyrir þá sendingu. En boltinn skoppaði inn í teiginn þar sem McTominay var sterkari en varnarmaðurinn og náði með góðum snúningi að leggja boltann fyrir sig og slútta með virkilega góðu innanfótarskoti. Mjög vel gert hjá piltinum.
📹 | Goal McTominay. pic.twitter.com/ilGLgce6IW
— Man Utd Stuff (@ManUtdStuff) July 30, 2017
Eftir það spilaði Manchester United leikinn út af öryggi og hann endaði 3-0. Fín frammistaða, fínn sigur.
Auðvitað var andstæðingurinn ekki sá sterkasti en þetta var samt góður sigur gegn liði sem spilar á þennan hátt. Maður hafði ekki miklar áhyggjur af því að United myndi fara í gegnum þennan leik án þess að skora og vinna, jafnvel þótt það hafi tekið allan fyrri hálfleikinn að ná fyrsta markinu. Ungu strákarnir halda áfram að koma skemmtilega inn í þetta. Sérstaklega Pereira en auk hans áttu Tuanzebe, McTominay, Mitchell og Fosu-Mensah allir góða innkomu.
Andreas Pereira taking inswinging corners with his right foot and left foot. Some confidence and great delivery for Lukaku. #mufc
— Samuel Luckhurst (@samuelluckhurst) July 30, 2017
Helstu fréttir helgarinnar hafa verið að Manchester United væri búið að ná samkomulagi um kaup á Matic og svo slúður um að Galatasaray sé langt komið með að kaupa Marouane Fellaini. Matic kaupin eru flott viðbót inn í hópinn. Sama hvort United spilar 4-2-3-1, 4-3-3 eða jafnvel eitthvað eins og 3-5-2 þá kemur hann með aukna breidd og meiri gæði inn í hópinn.
En hvað Fellaini slúðrið varðar þá vona ég innilega að það sé ekki rétt. Og ég hugsa að ef það væri rétt þá hefði Fellaini ekki spilað þennan leik í dag. Raunar staðfesti Mourinho þetta eftir leik:
It’s easier for Galatasaray to get me than Marouane. He is too important to me. No chance.
Þetta kemur mér ekkert á óvart. Auðvitað skilur Mourinho hvers virði leikmaður eins og Fellaini er fyrir liðið og hópinn. Fellaini hefur oftsinnis sýnt hversu mikils virði hann getur verið og átt góðar frammistöður, ekki síst í bikarkeppnunum. Það eru rétt tveir mánuðir síðan hann var besti maður vallarins þegar Manchester United vann Evrópudeildina.
Fellaini er ekki hluti af besta byrjunarliði Manchester United, og á ekkert að vera það. En hann er alltaf tilbúinn að leggja sig fram fyrir United og Mourinho. Hann hefur ákveðna kosti, sérstaklega í þessari stöðu sem hann spilaði í dag, þegar hann getur verið á miðri miðjunni eða framar. Hann getur líka leyst af aftarlega á miðjunni í miklu hallæri. Hann er líka alveg til í að sitja á tréverkinu ef þess þarf.
Tala nú ekki um ef Perisic er á leiðinni. Það er ekki bara Romelu Lukaku sem myndi græða á fyrirgjafahæfileikum króatíska kantmannsins, Fellaini myndi örugglega skora nokkur mörk til viðbótar eftir sendingar á fjærstöngina.
Karl Gardars says
Amen við niðurlagi greinarinnar. Fellaini er alltaf til í að berjast fyrir liðið og við þurfum svoleiðis menn í klefann.
Ekki byrjunarliðs- en fràbær breiddarleikmaður.