Tímabilið 2017 til 2018 hefst á leik gegn West Ham United frá austurhluta London. Þessi leikur fer þó fram á heimavelli Manchester United, okkar ástkæra Old Trafford. Fyrsti leikur okkar liðs og sá síðasti fara fram á heimavelli, akkúrat eins og við viljum hafa það.
Að sama skapi viljum við sjá liðið gera Old Trafford að þeim heimavelli sem hann á skilið að vera. Of mörg lið hafa komið í heimsókn á síðustu árum og talið sig eiga skilið að fá eitthvað með sér úr þeim leikjum. Lið eiga að koma á Old Trafford og hugsa um það eitt að tapa ekki of neyðarlega. Þannig viljum við hafa það.
En það gerist ekkert af sjálfu sér. Hafi útilið slíka tilfinningu fyrir velli þá má bóka það að heimaliðið hefur unnið mikla vinnu til að komast á þann stall.
Leikurinn fer fram á Old Trafford og hefst klukkan 15:00 á morgun, sunnudag. Dómari í leiknum verður Martin Atkinson.
Ég minni líka á tímabilsupphitunina hjá okkur í ritstjórn Rauðu djöflanna og svo upphitunarupphitunina frá því í gærkvöldi.
Fyrri viðureignir
Manchester United hefur 137 sinnum áður mætt West Ham. 64 leikir hafa endað með sigri, 46% sigurhlutfall. Liðin hafa 70 sinnum mæst á Old Trafford, þar er Manchester United með 67% sigurhlutfall eða 47 sigra.
Liðin mættust þrisvar sinnum á síðasta tímabili, tvisvar í deildinni og einu sinni í deildarbikarnum. Zlatan Ibrahimovic kunni greinilega vel við sig í leikjum gegn West Ham því hann skoraði í öllum þessum leikjum, samtals 4 mörk.
Fyrsti leikurinn af þessum þremur var deildarleikur sunnudaginn 27. nóvember. Líkt og áður var slen yfir liðinu eftir að hafa þurft að spila í Evrópudeildinni fimmtudaginn á undan. Leikurinn endaði 1-1, West Ham komst yfir strax í byrjun leiks en Zlatan jafnaði á 21. mínútu. Mourinho fékk svo rautt spjald fyrir að sparka í brúsa.
Næsti leikur liðanna kom strax í kjölfarið, miðvikudaginn 30. nóvember mættust liðin í 8-liða úrslitum deildarbikarsins. Mourinho gat ekki stýrt liðinu í þeim leik þar sem hann fékk glórulaust bann fyrir brúsasparkið. Það kom þó ekki að sök, Manchester United náði í þetta skiptið að nýta yfirburðina inni á vellinum og vann 4-1 með tveimur mörkum frá Zlatan og tveimur frá Martial.
Báðir leikirnir í nóvember fóru fram á Old Trafford. Í byrjun janúar fór Manchester United svo til London og mætti West Ham á þeirra heimavelli. Í þetta skiptið tók það heldur langan tíma að nýta yfirburðina en tókst að lokum og Manchester United vann 2-0 sigur með mörkum frá Juan Mata og Zlatan Ibrahimovic.
Andstæðingurinn
West Ham endaði síðasta tímabil í 11. sæti eftir að hafa verið í botnbaráttunni um tíma. Flutningur á nýjan völl og dramatík í kringum Payet fór illa í þá en þeir réttu aðeins úr kútnum eftir því sem leið á. Félagið hefur misst 14 leikmenn í sumar en þó voru ekki mjög margir af þeim að spila lykilrullu. Það er helst að þeir gætu saknað Ashley Fletcher, sem skoraði m.a. gegn Manchester United á síðasta tímabili, eða Enner Valencia sem átti stundum fína spretti fyrir liðið. Svo gætu þeir nú átt eftir að sakna markvarðarins Darren Randolph.
Þeir hafa svo fengið fimm leikmenn til sín í sumarglugganum. Það eru:
- Marko Arnautovic frá Stoke
- Sead Haksabanovic frá Halmstad
- Joe Hart frá Manchester City
- Javier Hernandez frá Bayer Leverkusen
- Pablo Zabaleta frá Manchester City
Haksabanovic er 18 ára unglingur, efnilegur en á líklega ekki eftir að spila lykilhlutverk fyrir liðið í vetur. En það verður áhugavert að sjá hvað hinir leikmennirnir gera í West Ham.
Liðið sem þeir stilla upp á Old Trafford gæti orðið eitthvað þessu líkt:
Antonio gæti einnig komið inn í liðið, mögulega þá í staðinn fyrir Ayew.
Okkar menn
Manchester United hefur ekki misst það marga leikmenn í sumar. Harrop og Varela náðu aldrei að spila stór hlutverk með aðalliðinu og Januzaj dalaði mikið eftir að hafa byrjað vel. Wayne Rooney er vissulega risastórt nafn í sögu félagsins, en hans hlutverk hafði engan veginn verið jafn stórt síðustu ár. Þó finnst mér gaman að sjá hann byrja vel fyrir Everton. Hins vegar er alveg ljóst að það verður ekki auðvelt að fylla upp í skarð Zlatan Ibrahimovic. En að sama skapi er auðvitað sá möguleiki að hann snúi aftur eftir meiðslin.
Þeir sem eru komnir til þessa í glugganum eru:
- Victor Lindelöf frá Benfica
- Romelo Lukaku frá Everton
- Nemanja Matic frá Chelsea
Zlatan hafði mjög gaman af því að skora gegn West Ham á síðasta tímabili svo það munar um minna að hafa hann ekki í liðinu. Lukaku er hins vegar líka maður sem hefur haft gaman af að skora gegn West Ham, hann skoraði í fyrstu 9 leikjum sínum með Everton gegn West Ham. Auk þess átti hann fjórar stoðsendingar í þeim leikjum. Lukaku, við treystum á þig!
Ætla að segja að byrjunarliðið verði svona:
Við höfum séð á þeim leikjum sem eru búnir í 1. umferðinni að enska deildin getur verið mögnuð, dramatísk, óútreiknanleg og umfram allt skemmtileg. Það er ekkert gefið í þessu en ég er bjartsýnn á að liðið okkar muni byrja þetta tímabil vel.
Skildu eftir svar