Nú þegar tímabilið er farið af stað hjá U23 ára liði félagsins er um að gera að skoða hvernig sumarið hefur gengið hjá bæði U23 og U18, hvaða leikmenn eru á láni hjá öðrum félögum og hverju má búast við í vetur. Hugmyndin er að vera með mánaðarlega uppfærslu í lok hvers mánaðar þar sem farið er yfir það helsta sem hefur gerst.
Eitt af því fyrsta sem United gerði í vetur var að ráða Ricky Sbragia aftur til liðsins en hann þjálfaði varaliðið, eins og það hét þá, á árunum 2002-2005. Síðan hefur hann þjálfað hjá Bolton Wanderers, Sunderland AFC og hjá skoska knattspyrnusambandinu. Nicky Butt verður áfram með yfirumsjón yfir yngri flokka starfi félagsins en hann er mjög sáttur með að fá Sbragia aftur til liðsins. Hann talaði sérstaklega um að Sbragia væri einstaklega fær í að þróa hæfileikaríka einstaklinga sem og hann væri auðvitað öllum hnútum kunnugur hjá Manchester United.
Sbragia sjálfur sagðist mjög ánægður með að vera kominn aftur til félagið og sérstaklega á jafn spennandi tímum og þessum en félagið hefur verið að endurskipuleggja yngri flokka starf sitt á síðustu árum.
We're delighted to announce the appointment of Ricky Sbragia as our new U23s manager: https://t.co/PAyosJtzig #MUFC pic.twitter.com/TQF8IHXjYA
— Manchester United (@ManUtd) July 7, 2017
Nicky Butt útskýrði í sumar hvað það þýddi að vera leikmaður Manchester United. Þar fór hann yfir hversu mikilvægt það er að leikmenn félagsins skilji að allir eru jafnir innan félagsins. Á meðan leikmenn koma og fara þá hefur sama starfsfólkið verið hjá félaginu í fjölda ára.
Great stuff from our Head of Academy, Nicky Butt! 👏
Read the quotes which have got people talking: https://t.co/zHN4lRuGdN pic.twitter.com/xLLDPgtKXc
— Manchester United (@ManUtd) July 24, 2017
Lánvaktin
Byrjum á því að skoða hvaða leikmenn eru á láni og hvar.
- Sam Johnstone (Aston Villa): Markvörðurinn var á láni hjá Steve Bruce og félögum á síðari hluta tímabils og stóð sig með prýði. Aston Villa hefur byrjað tímabilið í Championship deildinni illa og er aðeins með fimm stig eftir fimm leiki. Liðinu hefur þó gengið betur að undanförnu og má reikna með þeim í efri helming deildarinnar fyrr heldur en seinna. Liðið er í 18. sæti í deildinni eftir fjóra leiki.
- Dean Henderson (Shrewsbury Town): Henderson var varamarkvörður U20 ára lið Englands sem varð heimsmeistari í sumar. Hann var á láni hjá Grimsby Town á síðasta tímabili og Stockport County þar á undan. Mjög týpískur ferill markvarðar sem elst upp hjá einu af stóru liðunum. Henderson er augljóslega fyrsti kostur en hann hefur spilað alla leiki liðsins til þessa. Hann hefur haldið hreinu tvisvar sinnum í fjórum leikjum í League 1 deildinni en liðið tapaði 2-1 fyrir Nottingham Forest í 1. umferð deildarbikarsins. Liðið er í 3. sæti í deildinni eftir fjóra leiki.
- Regan Poole (Northampton Town): Varnarmaðurinn var lykilleikmaður í þunnum leikmannahópi U23 ára liðsins í fyrra. Hann mun eyða tímabilinu á láni hjá Northampton í League 1 deildinni. Poole hefur aðeins byrjað einn af þremur leikjum liðsins hingað til á tímabilinu en hann spilaði þá 90. mín í hægri bakverði. Liðið er í neðsta sæti deildarinnar eftir fjóra leiki.
- Cameron Borthwick-Jackson (Leeds United): Vinstri bakvörðinn Borthwick-Jackson þekkja flestir en hann átti nokkra fína leiki þegar Louis Van Gaal var ennþá þjálfari. Í fyrra var hann lánaður til Wolverhampton Wanderers en það lán fór algjörlega í vaskinn og er ljóst að United er ekki að fara lána fleiri leikmenn þangað á næstunni. Borthwick-Jackson spilaði 82. mínútur í markalausu jafntefli gegn Preston North End en það eru einu mínúturnar hans til þessa í Championship deildinni. Hann spilaði þó allan leikinn í 5-1 sigri liðsins á Newport County í deildarbikarnum um daginn. Liðið er í 3. sæti eftir fimm leiki.
- Timothy Fosu-Mensah: Næsti John O´Shea vilja menn meina en hann hefur nú þegar leyst af allar stöður í varnarlínunni fyrir United. Hann verður á láni hjá Crystal Palace í vetur en Frank De Boer þekkir hann frá tíma þeirra hjá Ajax. Fosu-Mensah hefur byrjað alla þrjá leiki Palace í deildinni og tekist að heilla þrátt fyrir að spilamennska liðsins hafi verið arfaslök. Hann kom inná í hálfleik í 2-1 sigri liðsins á Ipswich Town í deildarbikarnum. Liðið er í 19. sæti í deildinni eftir þrjá leiki.
- Devonte Redmond (Scunthorpe United). Miðjumaðurinn ungi mun vera á láni hjá Scunthorpe í League 1 deildinni þangað til í janúar. Hann kom inn á undir lok leiks í 4-0 sigri á Plymouth Argyle í síðustu umferð. Liðið er í 6. sæti eftir fjóra leiki.
— Timothy fosu-mensah (@tfosumensah) August 12, 2017
U23 ára liðið
Við sáum á Demitri Mitchell og Scott McTominay eiga fínt undirbúningstímabil með aðalliðinu og má reikna með því að þeir verði í aðalhlutverkum hjá U23 ára liðinu í vetur. Sama má segja um Axel Tuanzebe en hann er í raun alltof góður fyrir þetta getustig. Ef hann verður ekki lánaður út er þó mikilvægt að hann fái leiktíma með U23 ára liðinu. Hinn 18 ára gamli Callum Gribbin sem braust inn í U23 ára liðið á síðasta ári verður því miður ekki með næstu vikurnar en hann handleggsbrotnaði á dögunum. Gribbin var fyrirliði liðsins á undirbúningstímabilinu en það má reikna því að hann og McTominay verði illviðráðanlegir á miðju liðsins í vetur.
Það er talað um að Andreas Pereira sé mögulega á leiðinni á lán til Valencia en hann eyddi síðasta tímabili á láni hjá Granada. Persónulega væri ég til í að sjá hann vera hjá United fram að áramótum allavega og spila með U23 ára liðinu ásamt því að spila mögulega í deildarbikarnum og einum leik hér og þar með aðalliðinu. Hann hefur þó ekki komið við sögu hjá hvorugu liðinu hingað til á tímabilinu.
Framherjinn James Wilson er svo ennþá að jafna sig eftir að hafa slitið krossbönd á síðasta tímabili en hann verður varla lánaður upp úr þessu. Verður áhugavert að sjá hvað hann gerir með U23 ára liðinu í vetur en það voru margir innan herbúða United mjög spenntir fyrir honum á sínum tíma. Að lokum er vert að nefna RoShaun Williams en það er einn öskufljótur varnarmaður sem margir telja að eigi bjarta framtíð fyrir sér. Eins og svo margir hefur hann verið að glíma við meiðsli undanfarið og þurfti einmitt að fara útaf um daginn eftir að hafa fengið höfuðhögg.
Liðið hefur nú þegar leikið þrjá leiki í U23 ára deildinni. Það byrjaði með 1-0 sigri á Leicester City, 1-1 jafntefli við Swansea City í kjölfarið en stórt tap gegn Tottenham kom í þriðja leiknum nú á dögunum. Það áhugaverðast við Swansea leikinn var að bæði Luke Shaw og Ashley Young spiluðu 57. mínútur. Shaw spilaði svo allan leikinn í 3-0 tapinu gegn Tottenham. Persónulega styð ég það að nota leikmenn sem eru að koma til eftir meiðsli eða hafa lítið spilað með aðalliðinu í U23 ára liðinu. Einnig spilaði markvörðurinn Joel Pereira en hann kom ekki við sögu gegn Leicester.
McTominay fékk sérstakt hrós fyrir 1-0 sigurinn gegn Leicester en hann stjórnaði miðjunni í þeim leik. Mark United skoraði Demitri Mitchell úr aukaspyrnu. Mitchell var þó skúrkurinn í 1-1 jafnteflinu gegn Swansea en hann brenndi af vítaspyrnu þegar staðan var enn markalaus. Í báðum leikjum var United mikið mun meira með knöttinn og skoraði Swansea til að mynda úr sinni fyrstu alvöru sókn í leiknum. Leikmenn Swansea voru óþarflega grófir og fengu bæði Shaw og Young að finna fyrir því sem og RoShaun Williams eins og kom fram hér að ofan. Tuanzebe fékk sérstakt hrós fyrir leikinn en mark United skoraði Indy Boonen.
Tottenham leikurinn var í raun búinn eftir 25 mínútur en þá var United komið 3-0 undir. Þrátt fyrir að eiga fín færi og skjóta meðal annars í marksúlurnar þá tókst United ekki að skora.
U18 ára liðið
Það stefnir í annað spennandi tímabil hjá U18 ára liðinu en liðið byrjaði þó á óvæntu 4-2 tapi fyrir West Bromwich Albion. Liðið skoraði mikið af mörkum í fyrra og virðist það sama vera upp á teningnum í ár. Varnarleikurinn virðist þó ætla að vera spurningamerki. United var 3-0 undir í hálfleik þrátt fyrir að skapa fullt af færum. Mörk United skoruðu Aidan Barlow og Millen Baars en sá síðarnefndi gekk til liðs við félagið í sumar frá Ajax.
Liðið vann Stoke City, 2-1, nú í síðasta leik og er vonandi komið á beinu brautinu. Aftur skoraði Barlow en hitt markið skoraði Nishan Burkart.
Stjörnuleikmaður U18 ára liðsins er svo að sjálfsögðu Angel Gomes en eins og flestir vita varð hann yngsti leikmaðurinn til að spila fyrir United í úrvalsdeildinni þegar hann kom inn á fyrir Wayne Rooney í 2-0 sigrinum gegn Crystal Palace undir lok síðasta tímabils. Það verður áhugavert að fylgjast með honum í vetur.
Kieran McKenna, þjáfari U18 ára liðsins, var svo í ítarlegu viðtali við vefsíðu félagsins á dögum en þar sem þessi grein er orðin alltof löng þá verður ekki farið ítarlega út í það hér. Hann talar meðal annars um mikilvægi þess að spila The United Way og því muni U18 ára liðið halda áfram að spila blússandi sóknarbolta í vetur. Einnig talar hann um mikilvægi þróunar einstaklingsins, bæði innan sem utan vallar. Áherslan mun því vera á að búa til leikmenn fyrir aðalliðið þó það kosti einn og einn skell á tímabilinu.
Skildu eftir svar