Hello Meistaradeild, my old friend, afsakið slettuna. Eitt það allra versta við brotthvarf Sir Alex Ferguson hefur verið þessi leiðinlegi óstöðugleiki sem hefur komið í veg fyrir að Manchester United er ár eftir ár í Meistaradeildinni.
Það er auðvitað hlutverk José Mourinho að bæta úr því og það tókst á síðasta ári, þó að Krýsuvíkurleiðin hafi verið farin. Það er reyndar bara fínt vegna þess að þessi tiltekna leið er miklu skemmtilegri en að lenda bara í fjórða sæti ár eftir ár.
Við riðum ekkert sérstaklega feitum hesti frá því síðast þegar liðið tók þátt í Meistaradeildinni. Liðið komst ekki einu sinni upp úr riðlinum og ég hugsa að það hafi verið augnablikið sem margir áttuðu sig á að Louis van Gaal var ekki á réttri leið með liðið.
Það skiptir þó ekki svo miklu núna, nýtt tímabil, ný keppni, annar stjóri.
Andstæðingurinn
Svissnesku meistararnir í FC Basel ríða á vaðið og mæta til leiks í fyrsta Evrópudeildarkvöldinu á Old Trafford þetta tímabilið. Við þekkjum þetta lið svona sæmilega. Þeir eru auðvitað í áskrift að svissneska meistaratitlinum og spila alltaf í Meistaradeildinni. Við höfum mætt þessu liði fjórum sinnum í Meistaradeildinni, síðast árið 2011 þegar Basel sló United nokkuð háðuglega úr leik úr riðlakeppninni.
A-riðillinn er nokkuð sérstakur að því leyti að United er augljóslega sterkasta liðið en svo geta hin þrjú auðveldlega barist um annað sætið og því má búast við að Basel, CSKA og Benfica stilli leikjunum á Old Trafford upp sem bikarúrslitaleikjum.
Þetta Basel-lið á reyndar ekkert sérstaklega vel við José Mourinho. Basel var í riðli með Chelsea tímabilið 2013/14 og gerði sér lítið fyrir og vann báða leikina það tímabilið, nokkuð vel af sér vikið.
Basel hefur farið hægt af stað heima fyrir, að minnsta kosti á þeirra mælikvarða en liðið er aðeins í þriðja sæti með ellefu stig í sjö leikjum, þar af tveimur tapleikjum.
Eins og er móðins í dag róterar liðið á milli þriggja manna og fjögurra manna varnarlínu. Liðið hefur verið að skipta á milli 3-4-1-2 og 4-3-2-1 á tímabilinu. Liðið virðist þó vera í basli með vörnina sína enda fengið á sig heil 9 mörk í deildinni og er liðið aðeins með þrjú mörk í plús. Þar munar helst um Ricky van Wolfswinkel, Hollendinginn með skemmtilega nafnið sem átti að vera bjargvættur Norwich eitt tímabilið ef mig minnir rétt.
Hann er markahæsti leikmaður liðsins með sjö mörk í sjö leikjum. Aðrir þekktir leikmenn eru Eder Balanta miðvörður, Norðmaðurinn Mohammed Elyonoussi og Tékkinn Marek Suchy. Aðra leikmenn kannast maður varla við. Svo virðist sem að bæði Balanta og Norðmaðurinn hafi verið hvíldir í síðasta leik auk þess sem að Suchy fékk rautt spjald í seinni hálfleik. Þeir ættu að vera úthvíldir, þó að helgarleikurinn þeirra hafi reyndar tapast.
Við
Leikurinn gegn Stoke um helgina voru auðvitað viss vonbrigði eins og Runólfur fór skilmerkilega í gegnum í færslu á síðunni í gær. Ef það var eitthvað sem fór í taugarnar á manni við Mourinho í fyrra var það hvernig hann neitaði nánast alfarið að nýta sér hópinn. Auðvitað hefur það sína kosti og galla. Það kostaði okkur alvöru atlögu að titlinum en færði okkur að sama skapi tvo bikara.
Við sáum svipað uppi á teningnum um helgina þegar litlar sem engar breytingar voru gerðar á hópnum þrátt fyrir að sumir leikmenn hefðu haft gott af hvíld eftir löng landsleikjaferðalög. Ef Mourinho ætlar sér langt á öllum vígstöðvum þarf hann nefnilega að rótera mun betur á milli leikja.
Auðvitað þarf hann að gera gegn Basel að einhverju leyti. Miðvarðaparið okkar, sem átti reyndar afskaplega dapran leik gegn Stoke, verður ekki með á morgun. Bailly og Jones eru báðir í banni og því má fastlega gera ráð fyrir því að Smalling og þá sérstaklega Lindelöf komi úr frystikistunni.
Að öðru leyti myndi ég halda að Martial komi inn í byrjunarliðið ásamt Mata á kostnað Rashford og Mkhitaryan. Ekki það að þessir tveir eigi eitthvað skilið að detta út úr liðinu, það væri bara fínt að nýta hópinn í þessum leik.
Persónulega væri ég alveg til í að sjá Carrick koma inn vegna þess að Evrópukvöldin eru hans kvöld, finnst það samt ólíklegt. Já, og svo Blind fyrir Darmian, bara svona svo að það sé örlítill sóknarþungi upp vinstra megin.
Verkefnið er annars ansi einfalt. Þrjú stig í fyrsta heimaleiknum til þess að byrja þessa atlögu að Meistaradeildartitlinum af alvöru. Svo væri fínt að sleppa við meiðsli, erfiðasta prófið til þessa á tímabilinu, leikur gegn Everton bíður handan við hornið.
Leikurinn hefst klukkan 18.45. Dómari er hinn franski Ruddy Buquet.
Skildu eftir svar