Jose Mourinho hvíldi nokkra lykilleikmenn í bikarleiknum eins og fastlega var búist við. Romero, Carrick og Lingard fengu allir pláss í byrjunarliðinu ásamt Blind, Darmian og Mata.
Gestirnir stilltu upp sterku liði og voru greinilega mættir til að fá eitthvað úr leiknum en Nigel Clough gerði nokkrar breytingar frá síðasta bikarleik og stillti upp þriggja manna vörn.
Það má segja að leikurinn hafi byrjað með krafti og áttu gestirnir fyrsta skot á markið. En fyrsta markið leit dagsins ljós strax á 5. mínútu, en Marcus Rashford skoraði þá eftir sendingu frá Carrick, sem reyndar Lingard gerði vel með að fleyta áfram fyrir Rashford inn í opið svæði í teignum.
Eftir markið settu Bruggararnir undir sig hausinn og gerðu atlögu að marki United og uppskáru aukaspyrnu sem Romero lenti í vandræðum með og kýldi ósannfærandi en engin raunveruleg hætta skapaðist.
Það var svo á 17. mínútu sem Rashford fékk boltann fyrir utan teig eftir sendingu frá Daley Blind, tók góðan snúning með boltann og smellti honum framhjá Connor Ripley í stöngina inn. Stórglæsilegt mark í alla staði og greinilegt að strákurinn hefur skilað inn sinni vinnu á æfingasvæðinu.
Eftir seinna mark Rashford tóku leikmenn United öll völd á vellinum og sóknarþungi liðsins jókst. Anthony Martial átti skot sem var varið í stöngina og svo átti Juan Mata góða tilraun þar sem hann klobbaði varnarmann og átti skot sem var varið en boltinn barst til Martial sem reyndi hjólhestaspyrnu sem fór af varnarmanni í horn. Hinu megin á vellinum átti Burton Albion þó góða spretti inn á milli og Mason komst inn fyrir vörn United en Sergio Romero var snöggur út úr markinu og lokaði búrinu vel.
Martial og Rashford voru gríðarlega ógnandi í þessum fyrri hálfleik og á 36. mín dansaði sá fyrrnefndi fyrir utan teig með boltann og renndi honum svo á Jesse Lingard sem átti skot sem fór reyndar af varnarmanni en endaði í netinu. Staðan orðin 3-0 og yfirburðirnir gífurlegir. Stuttu síðar var Lingard aftur kominn með boltann inn í teig og svo virtist sem Ben Turner krækti örlítið í Lingard sem missti jafnvægi en ekkert víti dæmt, eins og venjan virðist vera orðin. Eftir þetta róaðist leikurinn mjög mikið niður og lítið marktækt gerðist þar til flautað var til hálfleiks.
Seinni hálfleikur
Í hálfleik gerðu báðir stjórar breytingar, Warnock og Murphy komu inná fyrir gestina, en hjá United kom Luke Shaw inn á fyrir Mata við gríðarlegan fögnuð höfundar. Hann var ekki lengi að stimpla sig inn og skoraði mark fjórum mínútum síðar sem var ranglega dæmt af vegna rangstöðu.
Aftur róaðist leikurinn niður, fyrir tilstilli Michael Carrick, en þegar um korter var liðið af hálfleiknum sýndi franski snillingurinn okkar (lesist : Martial) enn og aftur töfrana sem hann hefur í löppunum og lék varnarmenn Burton grátt, komst einn inn fyrir en aftur gerði markvörður Burton vel og varði frá honum. Andartaki síðar kemst Martial aftur inn fyrir eftir sendingu frá Rashford, með smá heppni, en að þessu sinni brást honum ekki bogalistin og renndi boltanum snyrtilega fram hjá Ripley.
Þegar hér var komið við sögu var aftur farinn að bætast við sóknarþunga United sem skilaði svo fjórða markinu. Eftir markið gerði Mourinho skiptingu og setti Scott McTominay inn fyrir Rashford og stuttu síðar fékk Joel Peirera að koma inn fyrir Romero til að klára síðustu 20-25 mínúturnar. Martial átti enn eina tilraunina stuttu síðar og farið var að bera á pirring hjá liði gestanna, þó ekkert alvarlegt.
Það verður þó að taka hattinn ofan af fyrir leikmönnum Burton Albion því þeir gáfust aldrei upp og á 85. mín átti Dyer fínt skot fyrir þá sem fór rétt yfir slánna. Í næstu sókn tókst Lingard að fiska aukaspyrnu á stórhættulegum stað sem títtnefndur Martial tók en hann skrúfaði boltann hárfínt framhjá stönginni.
Eftir þetta virtust bæði lið vera búin að fá nóg þar til Burton komst í góða sókn þar sem boltinn barst inn í teig eftir góða fyrirgjöf og Mason tókst að stýra boltanum í slánna. Pereira greip boltann en hélt honum ekki og boltinn barst til Dyer sem stýrði honum í fjærhornið og færði stuðningsmönnum gestanna kærkominn glaðning með heimferðinni en það verður að segjast eins og er að markvörðurinn hefði átt að gera miklu betur í þessari stöðu.
Heilt yfir spilaðist leikurinn mjög vel og sýndi United-liðið vel hversu annt þeim er að verja titilinn. Mourinho stillti ekki upp neinu varaliði en tókst samt að hvíla nokkra af lykilmönnum liðsins. Ungu leikmennirnir sem fengu tækifæri í kvöld stóðu sig misvel, lakastu verður að teljast Pereira sem hefði átt að gera mun betur í markinu sem við fengum á okkur.
Scott Tominay var sprækur og skilað sinni vinnu ágætlega og var út um allt á vellinum. Síðast en ekki síst var innkoma Luke Shaw mjög góð og gefur góð fyrirheit um komandi vikur hjá honum og nú er bara að bíða og vona að hann komist í 90 mín. form svo Mourinho geti farið að nota hann í stærri leikjum.
Maður leiksins verður þó að teljast Anthony Martial sem fór illa með varnarlínu Burton og átti skilið meira en bara eitt mark en Rashford spilaði líka mjög vel í leiknum. Lindelöf var ekki mjög öruggur í sínum leik og með Darmian við hlið sér virkaði sá hluti varnarinnar mun brothættari. Aðrir leikmenn skiluðu sínu, Carrick var akkerið á miðjunni og Mata var mjög skapandi fram á við svo eitthvað sé nefnt.
Ólíkt þeim leikjum þar sem United hefur verið að skora fjögur mörk þá kom megnið af mörkunum í kvöld í fyrrihálfleik og það verður að teljast gott, að liðið sé líka fært um að drepa leiki á fyrstu 45 mín en haldi ekki öllum stuðningsmönnum sínum á nálum með 1-0 forystu fram á lokamínúturnar eins og gerðist í Everton leiknum. Nú rétt í þessu var verið að draga í 16. liða úrslit og við fáum útileik á móti Swansea sem gæti reynst okkur mjög vel, a.m.k. miðað við síðasta leik liðanna.
Rúnar P says
Ég mundi segja að þetta væri nokkuð sterkt lið…?
Karl Garðars says
Wtf?
Egillg says
Aulamark í lokin en skiptir engu, ágætur skyldusigur gegn liði nokkuð mörgum klössum fyrir neðan okkur. Gaman að sjá Luke shaw en leikurinn var aldrei spennandi sem er kanski gott
GGMU
Cantona no 7 says
Góður og nokk þægilegur sigur.
Swansea næstir.
GGMU
einar__ says
Þvílíkt undur sem Martial er, hann sýndi stórkostlega takta í kvöld. Góður sigur og gaman að setja 4 mörk enn eina ferðina.
DMS says
Martial og Rashford mjög flottir. Gaman að sjá hvað Martial er að koma sterkur inn núna. Sjálfstraustið að aukast og tilþrifin fylgja með.
Halldór Marteins says
Fínasti leikur. Gaman að sjá sóknarmennina leika sér og hópleikmennina fá góðar mínútur. Enn skemmtilegra að það er ekki langt í næsta leik :)
Georg says
Rashford rosalegur og bestur á vellinu að öðrum ólöstuðum. Hann lét þetta virka auðvelt þegar það er það engann veginn gegn svona liðum.
Skil ekki enn hvað menn sjá við Luke Shaw. Hann er hraður en það er allt og sumt. Og það meiraðsegja endist ekki lengi ef hann meiðist mikið meir.
Hann leitar alltaf tilbaka, bara að sjá hann taka innköst sýnir ráðaleysi hans.
Það væri gaman að fá útskýringu á hvað fólk sjái við hann því ég vill trúa !!
Halldór Marteins says
Held það séu flestir með ákveðin spurningamerki við Luke Shaw. Hann sýndi það hins vegar hjá Southampton og í leikjunum áður en hann fótbrotnaði að hann getur verið öflugur sóknarbakvörður þegar sá gállinn er á honum.
Persónulega verð ég að segja að ég held hann eigi ekki framtíð hjá Manchester United. En ég sé samt af hverju menn vona að hann sanni sig og ég vona innilega að hann reki þessi orð mín þveröfug ofan í mig.