Á morgun er það suðurströndin sem bíður. Southamptonferð og leikur kl 3 á laugardegi, 2 að íslenskum tíma.
Southampton hefur gengið þolanlega í upphafi tímabils og eru með 8 stig eftir 5 leiki, hafa unnið West Ham og Crystal Palace, gert jafntefli við Swansea og Huddersfield en töpuðu fyrir Watford á heimavelli. United er því fyrsti stóri leikurinn þeirra. Mauricio Pellegrino (ekki Pellegrini) er nýr stjóri þeirra, kom frá Alavés þar sem hann gerði góða hluti með lítið lið og á að gera sama hjá Southampton.
Stærstu fréttirnar í kringum Southampton fyrir leikinn eru hvort Virgil van Dijk verði með, en hann missti af öllu undirbúningstímabilinu vegna óvissunnar um það hvort hann færi frá félaginu. Líkur eru á að hann byrji leikinn en einhverjir af þeim Yoshida, Stephens eða Wesley Hoedt eru þarna líka. Wesley Hoedt kom frá Lazio í sumar þessir þrir síðastnefndu hafa allir verið að spila. Reyndar keypti Southampton líka miðvörðinn Jan Bednarek í sumar og er því fjölmennt í stöðunni og erfitt að giska á hverjir byrja.
Einu önnur sumarkaup þeirra var miðvallarleikmaðurinn Mario Lemina sem kom frá Juventus og hefur víst staðið sig vel. Southampton er enda komið með gott orðspor sem millistöð á leið í önnur lið, þó aðallega eitt, og því ekki slæm hugmynd fyrir leikmenn að fara þangað til að koma ferlinum í góðan gír.
En það er framávið sem Southampton er í vandræðum. Liðið hefur ekki skorað í sjö af síðustu átta leikjum á St Mary’s, hafa skorað í tveimur leikjum af sex í haust (töpuðu 2-0 fyrir Wolves í deildarbikarnum) og aðeins fjórum af síðustu fjórtán ef litið er til síðustu leiktíðar einnig.
Þegar svoleiðis tölfræði er í gangi þá hljótum við að vera bjartsýn fyrir leikinn, ekki síst þar sem Manchester United virðist vera nær óstöðvandi markamaskína. En það eru held ég fátt stuðningsfólk United sem er farið að telja titla þó vel gangi núna, til þess hefur bjartsýni án innistæðu gert of vart við sig síðustu ár.
Lið United ætla ég að giska á að muni líta einhvern veginn svona út
Fellaini verður augljóslega með og síðan giska ég á að Martial byrji í stað Rashford en annars er liðið orðið nokkuð stöðugt. Nú er bara að halda áfram markaskoruninni og þá vinnst þessi leikur.
einar__ says
Ég er hæfilega bjartsýnn. Bjartsýnn því við höfum betra lið, höfum gott momentum og ættum að ná að landa þessu má morgun. En það er þetta bölvaða bananahýði sem leikirnir við S’ton hafa verið í gegnum tíðina.
Ég er ekki enn búinn að ná að þurrka úr minni hundleiðinlegt og gríðarlega svekkjandi 0-0 jafntefli við þetta lið á St Mary’s í fyrra.
Ég spái scrappy 1-2 sigri. Gabbiadini skorar fyrir dýrðlingana en Mata og Fellaini (sem setur hann örugglega inn með hnéinu eftir horn á 89′ mínútu) sjá um þetta fyrir okkar menn.