Leikirnir koma nú á færibandi, alveg nákvæmlega eins og við viljum hafa það. Ekki síst þegar það gengur svona vel. Okkar menn eru á leið til Moskvu þar sem CSKA er andstæðingurinn.
Það er búist við töluverðum látum í Moskvu í dag og á morgun þar sem erkifjendur okkar í Liverpool eiga einnig leik í borginni. Þeir keppa gegn Spartak Moskvu í kvöld. Lögregla býst við töluverðum látum en það er reiknað með að um 2000 stuðningsmenn beggja liða muni ferðast frá Englandi. Snilldarhugmynd hjá UEFA að láta þessi lið spila í sömu borginni í sömu leikviku.
Forsvarsmenn United hafa meðal annars biðlað til stuðningsmanna sinna að vera ekki að flagga merkjum félagsins á götum úti og lögregluyfirvöld segja að þau verði með gríðarmikinn viðbúnað vegna leikjanna tveggja. Svo má ekki gleyma því að rússneskir knattspyrnuáhugamenn eru nákvæmlega engin lömb að leika sér við.
En hvað um það, tölum aðeins um leikinn á morgun. United byrjaði riðlakeppni Meistaradeildarinnar ágætlega með tiltölulega þægilegum sigri á Basel í fyrstu umferðinni, fyrir utan meiðsli Paul Pogba sem enn er ekki vitað hve lengi verður frá. CSKA kom flestum að óvörum með ágætis sigri á Benfica á útivelli þannig að liðin eru bæði með þrjú stig.
Flestir bjuggust við Benfica í toppbaráttu riðilsins þannig að reikna má með að CSKA-menn muni gera allt til þess að ná í að minnsta kosti stig til að styrkja sig í baráttunni um annað sætið. Okkar menn geta komið sér í þægilega stöðu á toppi riðilsins með sigri.
Andstæðingarnir
Þetta CSKA-lið þekkja flestir áhugamenn um fótbolta enda liðið með nokkuð fasta áskrift að Meistaradeildarsæti. Frá árinu 2003 hefur liðið verið svona ca. FH Rússlands, unnið fimm deildartitla og ef liðið er ekki í efsta sæti er það yfirleitt í öðru sæti. Það var það sem gerðist á síðasta tímabili þegar erkifjendurnir í Spartak höfðu sigur í mótinu.
Þjálfari liðsins er tiltölulega nýr en það er hinn ungi (fertugur) Viktor Goncharenko sem tók við í desember af Leonid Slutsky sem hafði stýrt liðinu í heila eilífð. Goncharenko er frá Hvíta-Rússlandi og er hann yngsti þjálfari allra tíma til að stýra liði í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Það gerði hann árið 2008 með BATE Borisov gegn Real Madrid, þá aðeins 31 árs gamall.
Liðið er í allt í lagi málum í rússnesku úrvalsdeildinni. Þar situr liðið í 4. sæti eftir 11 leiki með 20 stig, sjö stigum á eftir toppliði Zenit. Ég ætla svo sem ekki að þykjast vita mikið um þetta CSKA-lið en miðað við markatölu liðsins í deildinni, 14-9, virðist liðið eiga í vandræðum með að skora mörk, flest liðin í kringum CSKA hafa nefnilega skorað mun fleiri mörk.
Ljóst er að þetta CSKA-lið er ekki alveg jafn spennandi og hér á áðum áður þegar leikmenn liðsins voru reglulega orðaðir við stærri lið. Helsta nafnið er líklega Alan Dzagoev miðjumaður og líklega kannast flestir við Igor Akinfeev. Aðra kannast maður varla við en mér skilst að varnarmaðurinn Mario Fernandes, sem mögulega er þeirra besti leikmaður, verði mögulega frá vegna meiðsla á morgun.
Og svo okkar menn
Eins og við vitum öll eru strákarnir hans Mourinho á fljúgandi siglingu í öllum keppnum og það er bara nokkuð gaman að vera stuðningsmaður United þessa dagana. Manni finst eins og gamli góði fear-faktorinn sé aftur að mæta á svæðið enda sér maður að andstæðingarnir skjálfa oft á beinunum í göngunum fyrir leik þegar risarnir okkar eru að gera sig tilbúna.
Það lítur þó út fyrir að nokkrir af risunum mæti ekki til leiks á morgun. Paul Pogba er auðvitað meiddur, Marouane Fellaini er meiddur eftir suddalega ljóta tæklingu Shane Long í leiknum gegn Southampton um helgina. Þá segir sagan að Nemanja Matic sé að glíma við smávægileg meiðsl og sé tæpur.
Það væri afskaplega gott að þurfa ekki að nota hann í þessum leik svo hann geti verið frískur gegn Palace um helgina. Nú hefði verið gott að hafa Andreas Pereira til taks. Það er fátt annað í boði en að Michael Carrick komi inn á miðjuna og það kæmi mér lítið sem ekkert á óvart ef Phil Jones eða Victor Lindelöf kæmu þar einnig inn ef Matic getur ekki spilað. Sjáum þó hvað setur, miðja sem samanstendur af Carrick, Herrera og Matic er langlíklegust á morgun.
Frammi mun Lukaku án efa halda sæti sínu. Anthony Martial er væntanlegur á vinstri kantinn og eftir flotta innkomu Jesse Lingard gegn Burton í síðustu viku á hann skilið að koma hér inn.
Fyrir utan miðjuna er stærsta spurningamerkið líklega vörnin. Bailly og Jones virðast vera búnir að negla niður miðvarðastöðurnar en það væri fróðlegt að sjá hvort að Smalling og Lindelöf haldi sæti sínu. Smalling þarf svo sem alveg á leikæfingunni að halda og Lindelöf þarf hreinlega að fá leiki ef hann ætlar einhvern tímann að aðlagast lífinu hjá United, ef til vill eru þó aðrir leikir en útileikur í fimbulkuldinn í Moskvu betur fallnir til þess.
Ashley Young virðist vera búinn að spila sig aftur inn í liðið en það er spurning hvort að Darmain fá vinstri bakvarðastöðuna. Ég reikna fastlega með Valencia hægra megin en Young gæti allt eins dúkkað þar upp með Blind vinstra megin. Svo er Luke Shaw víst ennþá til en félagið hefur nýtt rétt sinn til þess að framlengja samning hans um eitt ár, samkvæmt heimildum ESPN. Mikið væri nú gaman að sjá hann þarna en aftur, kannski eru aðrir leikir en útileikur gegn CSKA betur fallnir til þess.
Ef til vill mættu vera meiri gæði í varnarlínu United en hún verður seint sökuð um að vera ekki afskaplega breið, sem er gott og Mourinho má endilega nýta þessa breidd í Meistaradeildinni.
Segjum sem svo að liðið verði svona á morgun en með fyrirvara um að Matic gæti verið meiddur:
Leikurinn fer fram á Luzhniki-vellinum og þaðan eiga United-menn fátt annað en góðar minningar. Liðið hefur aldrei tapað á rússneskri grundu áður og það er óþarfi að fara að byrja á því núna. Leikurin hefst klukkan 18.45, í þráðbeinni á Stöð 2 Sport 2.
Halldór Marteins says
Mourinho er búinn að staðfesta að Carrick sé líka frá vegna meiðsla. Það er slæmt, hefði viljað sjá hann spila þennan leik. Það að þurfa að nota tæpan Matic í þennan leik er hrikalegt og maður vonar að hann komist heill í gegnum þetta, það er forgangur nr. 1 í mínum huga.
Phil Jones og Valencia sáust annars ekki á flugvellinum. 19 manna hópur er staðfestur, miðað við reynslu þá tekur Mourinho yfirleitt 20 manna hóp með sér í svona ferðalög. Líklegt að allavega annar þeirra sé því enn í Manchester.
Staðfestur hópur er svona:
David de Gea
Sergio Romero
Joel Pereira
Eric Bailly
Chris Smalling
Daley Blind
Victor Lindelof
Axel Tuanzebe
Matteo Darmian
Ander Herrera
Nemanja Matic
Scott McTominay
Jesse Lingard
Ashley Young
Henrikh Mkhitaryan
Juan Mata
Romelu Lukaku
Anthony Martial
Marcus Rashford
Halldór Marteins says
Það að CSKA spili með 3 miðverði gæti gefið Mourinho tækifæri á að prófa sig áfram með 3 miðverði sjálfur, eins og hann hefur talað um að liðið gæti spilað eða gæti þurft að spila á tímabilinu.
Reikna ekki með skemmtilegum leik en ef United sleppur við frekari meiðsli og tapar ekki leiknum þá verð ég sáttur.
Björn Friðgeir says
Staðfest að hvorki Jones né Valencia verða með á morgun