Loksins, loksins!
Tilgangslausasta landsleikjahlé síðari ára, fyrir okkur Íslendinga allavega, er lokið og alvöru fótboltinn getur hafist á ný. Á morgun mætast tveir erkifjendur á hliðarlínunni en þeir Rafa Benitez og José Mourinho hafa eldað grátt silfur saman í meira en áratug. Þó svo að úrslitin ráðist inn á vellinum þá má reikna með harðri baráttu á hliðarlínunni.
Undir stjórn Mourinho hefur Manchester United gengið hörmulega í þeim leikjum sem liðið spilar eftir landsleikjahlé. Á þessu tímabili hefur liðið gert jafntefli gegn Stoke City og Liverpool. Í kjölfar Liverpools leiksins hefur gengi United í úrvalsdeildinni ekki verið upp á marga fiska en liðið hefur tapað tveimur af síðustu þremur leikjum. Tapið gegn Chelsea í síðasta leik fyrir landsleikjahlé svíður sérstaklega og reikna má með að Mourinho vilji sjá sína menn mæta af fullum krafti inn í leik helgarinnar.
Newcastle United
Stjóra gestanna þarf vart að ræða. Rafa Benitez er flestum áhugamönnum enskrar knattspyrnu vel kunnugur en hann ku vera í guðatölu hjá stuðningsmönnum Newcastle fyrir að koma þeim upp um deild eftir að hafa fallið með liðinu á þar síðasta tímabili.
Gengi Newcastle hefur verið nokkuð gott fyrir lið sem er nýkomið upp í úrvalsdeildina en liðið situr í 11. sæti með 14 stig þegar 11 umferðum er lokið. Newcastle hefur unnið fjóra leiki, gert tvö jafntefli og tapað fimm leikjum, þar af síðustu tveimur, báðum 1-0, gegn Burnley og AFC Bournemouth.
Alls eru fjórir leikmenn á meiðslalista félagsins en þar eru varnarmennirnir Jamaal Lascelles, sem er jafnframt fyrirliði liðsins, og Paul Dummett. Svo eru þeir Christian Atsu og Mikel Merino einnig á meiðslalistanum en enginn af þeim er leikfær fyrir leikinn á morgun samkvæmt vefsíðunni Physioroom.
Okkar menn
Við skautuðum aðeins yfir gengi okkar manna í síðustu leikjum hér að ofan en dagskipun morgundagsins ætti að vera einföld: Þrjú stig og blússandi sóknarleikur. Romelu Lukaku nýtti síðustu daga í að verða markahæsti leikmaður Belgíu frá upphafi, þó svo að FIFA samþykki það ekki, Victor Lindelöf sló Matteo Darmian út úr umspili um laust sæti á HM næsta sumar, Nemanja Matic fékk verðskuldaða hvíld, Phil Jones slasaðist í óþarfa æfingaleik og Anthony Martial gerði ÞETTA:
Beautiful skill by Martial to give Lacazette the tap in #GERFRA #MUFC pic.twitter.com/ECN3esJjWS
— dave (@Destaquito2) November 14, 2017
Svo spilaði Marcos Rojo 45 mínútur í 2-1 sigri U23 ára liðsins gegn Athletic Bilbao í gær áður en liðið hélt á Unicef Gala kvöldverð eins og sjá má á öllum helstu samskiptamiðlum leikmanna. Núna áðan staðfesti Mourinho að ekki einasta yrði Rojo á bekknum heldur yrðu þar líka Pogba og Ibrahimovic og það eru auðvitað frábærar fréttir!
Hvað varðar byrjunarlið morgundagsins þá væri ég til í að sjá hina heilögu þrenningu (Rashford, Lukaku og Martial) byrja leikinn. Mín helsta vangavelta byggist á því hvort Ashley Young og Marouane Fellaini ættu að byrja leikinn á kostnað Daley Blind og Ander Herrera. Ef vörn Newcastle saknar Lascelles jafn mikið og skyldi ætla væri eflaust ágætt að spila Young og Fellaini. Liðið væri þá eitthvað á þessa leið.
Leikurinn hefst klukkan 17:30 og væri tilvalið að byrja á annarri 4-0 sigurhrinu á morgun.
Rúnar P. says
Loksins… Er búinn að sitja yfir þessu landsleikjahléi eins köttur við stofuglugga sem fær ekki að fara út! :D
SHS says
Vona innilega að við fáum að sjá þetta
byrjunarlið einhvern tímann!
De Gea
Valencia – Bailly – Jones – Rojo
Herrera – Matic – Pogba
Rashford – Lukaku – Martial
Tommi says
Segir ì upphituninni að Mourinho hafi staðfest að Pogba, Rojo og Ibra verða à bekknum. Hann sagði að þeir væru ì hòpnum. Kæmi mér ekki à òvart ef Pogba myndi byrja.