Aldrei þessu vant fór Manchester United vel af stað eftir landsleikjahlé með 4-1 sigri gegn Newcastle á laugardaginn var og á morgun halda góðu tímarnir vonandi áfram þegar við mætum Basel í Sviss. Sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar verður tryggt á St. Jakob-Park vellinum í Basel annað kvöld svo lengi sem við töpum ekki, eða ef CSKA Moskva vinnur ekki sinn leik þá förum við áfram hvernig sem fer.
United situr á toppi A-riðils í Meistaradeildinni með 12 stig en liðið hefur unnið alla fjóra leiki sína, þ.á.m. gegn Basel í fyrstu umferðinni; 3-0 á Old Trafford þar sem Fellaini, Lukaku og Rashford sáu um markaskorunina. Það var í þeim leik sem Paul Pogba meiddist og missti út rúma tvo mánuði af tímabilinu en hann er sneri aftur með stæl í síðasta leik.
Basel
Svisslendingarnir eru í öðru sæti riðilsins með sex stig. Eftir 3-0 tapið á Old Trafford skelltu þeir Benfica, 5-0, á heimavelli og unnu svo Moskvu í Rússlandi. Nú síðast töpuðu þeir hins vegar á St. Jakob-Park vellinum fyrir rússneska úrvalsdeildarliðinu og það er því mikið í húfi fyrir Basel á morgun, liðið er í dauðafæri á að komast áfram úr riðlinum og þyrfti helst úrslit gegn okkur á morgun. Heimafyrir eru Basel menn í 2. sæti úrvalsdeildarinnar, sex stigum frá toppliði Young Boys, en þeir unnu 5-1 sigur gegn botnliði Sion um helgina og koma því fullir sjálfstrausts til leiks á morgun.
Basel hefur í undanförnum leikjum verið að spila með kerfið 4-3-2-1 en þeir eru líklegir til að skipta í 3-4-1-2 í þetta erfiðum Evrópu leik. Liðið hefur farið nokkuð rólega af stað í svissnesku úrvalsdeildinni og gert ein fimm jafntefli í fyrstu 15 umferðunum. Þar hefur munað töluvert um fyrrum Norwich framherjannn, Ricky van Wolfswinkel, sem er að ná sér af fótbroti. Hann er markahæstur í liðinu með sjö mörk og gæti verið klár í slaginn á morgun. Miðjumaðurinn Taulant Xhaka verður fjarri góðu gamni er hann tekur út leikbann. Alexander Fransson og Germano Vailati eru ekki líklegir til að ná leiknum vegna meiðsla.
Einvígi morgundagsins verður það sjötta milli þessara liða en alltaf hafa þau mæst í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. United hefur unnið tvo, gert tvö jafntefli og tapað einum gegn Basel sem sló okkar menn auðvitað út úr Meistaradeildinni síðast þegar liðin mættust á St-Jakob vellinum í desember 2011.
Okkar menn
Eftir smá leiðindarkafla var afar kærkomið að vinna þennan Newcastle leik þægilega og þar skemmdu ekki fyrir endurkomur þeirra Paul Pogba, Zlatan Ibrahimovic og auðvitað Marcos Rojo. Nú er okkur í lófa lagið að halda áfram og tryggja efsta sæti riðilsins með hagstæðum úrslitum á morgun. Lokaleikurinn gegn CSKA Moskvu kemur rétt á undan risaslagnum um Manchester borg í deildinni og það kæmi sér vel að geta hvílt helstu leikmenn fyrir það einvígi.
Victor Lindelöf byrjaði sinn fyrsta úrvalsdeildarleik um helgina og hann verður að teljast líklegur til að spila sinn annan leik í röð á meðan þeir Phil Jones og Eric Bailly glíma við smávægileg meiðsli, Bailly gæti náð leiknum gegn Brighton um næstu helgi en Jones gerir það ekki. Jose Mourinho gladdi United menn um allan heim á laugardaginn þegar hann byrjaði með hina heilögu þrenningu (Rashford, Lukaku og Martial) gegn Newcastle og spurning hver/hverjir þeirra hvíla á morgun. Mkhitaryan, sem var fjarri góðu gamni í þeim leik af„taktískum“ ástæðum, gæti snúið aftur. Eftir að hafa misst af 12 leikjum sneri Paul Pogba til baka um helgina, spilaði rúman klukkutíma, skoraði og lagði upp.
Zlatan Ibrahimovic heldur svo áfram að koma engum á óvart með því að snúa alltof snemma til baka frá meiðslum og spilaði hann korter um helgina. Stóri Svíinn fær væntanlega einhverjar mínútur gegn Basel en Jose Mourinho staðfesti að hann mun ekki byrja leikinn. Michael Carrick æfði ekki með liðinu áður en það hélt til Sviss og verður því að teljast ólíklegur en Marcos Rojo, sem var ónotaður varamaður gegn Newcastle, er líklegur til að taka þátt eftir að hafa spilað hálfan æfingaleik á dögunum. Það er ekki ósennilegt að þeir leikmenn sem byrjuðu ekki gegn Newcastle komi inn á morgun, byrjunarliðið gæti litið svona út:
Mourinho hefur einhverjar áhyggjur af grasinu í Basel en þar vinna menn hörðum höndum að því að koma vellinum í stand. Völlurinn verður vonandi ekki til trafala en ef svo verður, gæti Mourinho ákveðið að hlífa þeim leikmönnum sem eru að stíga upp úr erfiðum meiðslum. Leikurinn hefst stundvíslega kl. 19:45 og vonandi verður sæti í 16-liða úrslitunum öruggt einhverjum tveimur tímum síðar.
Mourinho: The pitch looks ok, but I want to see after 20 mins. I respect the effort to improve it.
— James Robson (@JamesRobsonMEN) November 21, 2017
Kjartan says
Hann hlýtur að hvíla Valencia, Darmian kemur í staðinn.
Lukaku
Martial Mikki Lindgaard
Herrera Pogba(max60min)
Shaw, Blind, Linde, Darmian
Romero