Chris Hughton og hans menn í Brighton and Hove Albion mæta til okkar í Manchester á morgun kl 15:00 og eftir súra ferð til Sviss í meistaradeildinni er ekki ólíklegt að José Mourinho krefjist þess af okkar mönnum að þeir skili þremur stigum heim í búið. Reyndar fór liðið vel af stað eftir nýafstaðið landsleikjahlé en taka verður mið af mótherjunum sem verður að segjast eins og er að voru ekki þeir sterkustu sem við munum mæta á tímabilinu. Leikurinn gegn Basel kom stuðningsmönnum hressilega niður á jörðina aftur en liðið mátti teljast ansi óheppið að vera ekki búið að skora í fyrri hálfleik og hundfúlt tap reyndist niðurstaðan.
Embed from Getty Images
Það er því tilvalið fyrir Mourinho, eftir að hafa hvílt nokkra leikmenn í vikunni, að reyna að slá til flugeldaveislu á heimavelli á morgun fyrir stuðningsmenn þar sem flestir leikmenn liðsins eru heilir og leikfærir. Sem stendur er United í næstefsta sæti deildarinnar með 26 stig með Lundúnarliðin, Chelsea og Tottenham, rétt á eftir okkur en 8 stigum á eftir nágrönnum okkar í fyrsta sæti.
Sumir sparkspekingar og stuðningsmenn myndu telja þennan leik skyldusigur fyrir United en gott lið Brighton and Hove Albion hefur verið að gera það gott að undanförnu og það væri ekki ráðlagt að vanmeta andstæðinga okkar að þessu sinni.
Okkar menn
Það var ánægjulegt að sjá muninn á liðinu með innkomu Paul Pogba gegn Newcastle, sóknarleikur liðsins er bara hreint út sagt langumfram betri og skemmtilegri. Einnig fór það vel í höfund að sjá Marcos Rojo í byrjunarliðinu og klára heilan leik í vikunni enda var hann einn af okkar allra sterkustu leikmönnum á síðari hluta síðasta tímabils.
Það þarf líklegast ekki mörgum orðum um það að fara hvernig innkoma Zlatans fór í stuðningsmenn United en einnig frábært fyrir liðsandann og gefur Mourinho enn meiri fjölbreytni fram á við en stjórinn gaf það út í vikunni að Zlatan væri ekki tilbúinn fyrir byrjunarliðssæti.
Einnig var haft eftir honum að Pogba gæti bara spilað í um klukkustund og þá eru Michael Carrick, Eric Bailly og Phil Jones ennþá á meiðslalistanum. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að Anthony Valencia, Juan Mata og Ashley Young eru allir heilir og frískir eftir að hafa verið hvíldir í vikunni. Það má því búast við þeim í byrjunarliðið, auk Nemanja Matic og Marcus Rashford, en þeir komu báðir inn á í leiknum gegn Basel á miðvikudaginn.
Ef við lítum á hugsanlega uppstillingu fyrir leikinn á morgun þá má telja næsta víst að blásið verður til sóknar líkt og um síðustu helgi enda ekkert tilefni til annars, stuðningsmönnum til mikillar gleði. Fastlega má gera ráð fyrir að David de Gea standi milli stanganna og Smalling ásamt Lindelöf eða Rojo fyrir framan hann.
Ólíklegt má telja að Henrik Mkhitaryan sé kominn úr skammarkróknum enda ekki búinn að sýna sínar bestu hliðar upp á síðkastið. Þar sem Zlatan er sem fyrr sagði ekki í standi fyrir heila leik má fastlega gera ráð fyrir að Romelu Lukaku verði upp á topp enda virðist hann vera steyptur í byrjunarliði sama hversu mörg færi fara forgörðum hjá honum.
Mótherjinn
Í síðasta leik sínum fengu Mávarnir, eins og þeir eru gjarnan kallaðir, Stoke í heimsókn þar sem leiknum lauk með 2-2 jafntefli. Brighton and Hove Albion er sem stendur í 9. sætinu með 16 stig og er efsti nýliðinn í deildinni sem stendur. Stjórinn, Chris Hughton, tók við í af Sami Hyypia í lok árs 2014. Honum tókst að gera liðið stöðugra og eftir 22 leiki í röð án taps komst liðið í umspilssæti tímabilið 2015/2016 en mistókst að tryggja sér sæti í efstu deild.
Á síðasta tímabili náði liðið svo öðru sæti í Championship deildinni og voru í seilingarfjarlægð frá því að sigra deildina en eftir að ná einungis einu stigi úr síðustu þremur leikjunum misstu þeir titilinn til Newcastle. Chris Hughton hefur ekki verið að hrófla mikið við liðinu og þar Steve Sidwell er eini leikmaðurinn sem er ekki leikfær er vel hægt að hugsa sér að hann stilli upp óbreyttu liði frá Stoke leiknum um síðustu helgi.
Sextán sinnum hafa þessi lið mæst og hefur United unnið tíu af þeim, fimm hafa endað með jafntefli en eini ósigur okkar manna kom fyrir stjóratíð sir Alex Ferguson og áður en höfundur var orðinn svo mikið sem hugmynd svo við getum líklega ekki lesið um of í þá tölfræði.
Það eru liðin 24 ár síðan Brighton and Hove Albion mætti síðast til leiks á Old Trafford og lyktaði þeim leik með 1-0 sigri United. Ryan nokkur Giggs skoraði eina markið í þeim leik en síðan þá hefur margt vatn runnið til sjávar og enginn þeirra United-manna sem spilaði þann leik er enn að spila í dag. Við skulum því huga frekar að leiknum á morgun og líta á hann sem kjörið tækifæri til þess að auka bilið milli okkar og Chelsea sem eiga erfiðan útileik við Liverpool sem mæta líklegast grimmir til leiks eftir útreiðina gegn Sevilla í vikunni. Glory, glory!
Heiðar says
Spurning hvort að Mata fái ekki að vera í holunni og Martial úti á kanti. … mjög gaman að sjá Martial og Rashford saman í byrjunarliði um seinustu helgi.
Keane says
Bara ekki spila Lingard. Takk.