Það var blautur og vindasamur dagur í Manchesterborg í dag þegar nýliðar Brighton mættu á Old Trafford í fyrsta sinn í 24 ár. Bæði lið stilltu upp lítið breyttu liði frá síðustu helgi og greinilegt að Mourinho ætlaði sér að blása til sóknar. Mourinho stillti sem fyrr upp sókndjörfu liði sem virtist geta boðið upp á hreint út sagt magnaða skemmtun. Sú varð ekki raunin.
Leikurinn fór hins vegar ekki vel af stað fyrir Chris Smalling sem virtist sjá tvöfalt fyrstu mínúturnar og átti hroðalega sendingu beint útaf en fyrsta sókn United kom eftir laglegt þríhyrningaspil milli Romelu Lukaku og Anthony Martial sem endaði með hrikalegu skoti frá Lukaku sem virtist ætla að kenna vellinum um að boltinn hefði endað upp í efri stúkunni fyrir aftan markið.
Brightonmenn voru hins vegar alls ekkert komnir til þess að leggjast í skotgrafir heldur voru þeir mjög líflegir strax frá upphafi og eftir fínan þríhyrning hjá Pascal Gross og Knockaert átti sá síðarnefndi stórhættulega fyrirgjöf sem virtist aðeins of föst til þess að Glenn Murray næði til boltans.
Næstu mínútur þyngdist pressa United verulega og Brighton and Hove Albion virtist eiga í mesta basli með að halda boltanum og ná fleiri en tveimur sendingum, trekk í trekk misstu þeir boltann á eigin vallarhelming sem United menn náðu þó ekki að nýta sér.
Gamli maður og fyrirliði Brighton, Bruno, átti gott hlaup upp hægri kantinn þar sem hann fíflaði Ashley Young upp úr skótauinu og lagði boltann út á Knockaert sem átti skot á markið sem truflaði ekki David de Gea að neinu ráði. Reyndar var Knockaert þeirra sprækasti maður á vellinum í fyrri hálfleik og var alls ekki hræddur við að láta vaða á markið, en með núverandi besta markvörð í heimi að loka búrinu var engin ástæða til þess að óttast.
Young tókst að fiska nokkrar aukaspyrnur í fyrri hálfleik og úr einni þeirra kom fyrirgjöf frá Juan Mata í átt að Lukaku sem mistókst að stýra boltanum á markið.
Hinu megin á vellinum fengu lærlingar Chris Hughton ódýra aukaspyrnu þökk sé Smalling og eftir frábæra fyrirgjöf frá Gross skapaðist hætta í teig United þegar Lukaku skallaði boltann beint niður fyrir framan markmannsteiginn en okkur tókst að hreinsa boltann úr teignum áður en nokkur Brighton maður náði til hans.
Brighton sýndu það að þeir eru engin lömb að leika sér við og leikurinn var í járnum en þegar hér var komið við sögu var sem himnarnir opnuðust og algjört skýfall í Manchesterborg, sem kom öllum hrauslega á óvart.
Hraðinn í leiknum var tekinn að aukast og Brighton voru skeinuhættir allan fyrri hálfleikinn, t.d. átti Bruno frábæra sendingu á Propper sem náði sem betur fer ekki skoti á rammann. Í næstu sókn átti Martial sendingu á Valencia sem lyfti boltanum á fjærstöngina þar sem Lukaku brást bogalistin enn og aftur en að þessu sinni var hann undir hraustlegri pressu frá miðverðinum Shane Duffy.
Antonio Valencia gaf auðvelda Brighton aukaspyrnu á silfurfati út við hliðarlínu hjá bekkjunum sem virtist ekki vera hættuleg en á einhvern óskiljanlegan hátt tókst Pascal Gross að senda boltann inn í teig nánast beint á hausinn á Glen Murray sem var gjörsamlega einn og óvaldaður í teignum en sem betur fer vantaði hann örfáa sentimetra ofan á hann til að hann næði boltanum.
Á 41. mínútu náði Young fram hefndum gegn Bruno þegar hann fíflaði hann ásamt öðrum Brightonmanni með því að vippa boltanum fagmannlega framhjá þeim og skjóta sér á milli þeirra en þegar hann ætlaði að leggja boltann út í teig á samherja var eins og gestirnir hefðu fengið leyfi til að vera 30 inn á vellinum í einu, gular skyrtur hvert sem augað leit.
Hættulegasta færi hálfleiksins kom rétt fyrir hlé, þegar Rashford átti góða fyrirgjöf sem Pogba skallaði beint á Mathew Ryan í markinu hjá Brighton sem gerði sér lítið fyrir og varði líka frá Lukaku þegar hann fylgdi eftir. Stuttu síðar flautaði dómarinn til hálfleiks í þessum baráttuleik sem var ekki búinn að vera mikið fyrir augað en gaf þó ágætis fyrirheit um síðarhálfleikinn. Eða svo héldum við.
Síðari hálfleikur fór rólega af stað en þegar um fimm mínútur voru liðnar af leiknum var United í sókn og þéttur varnarmúr Birghton var nálægt því að vera rofinn þegar Lukaku reyndi skemmtilega hælsendingu inn fyrir vörnina en enn og aftur var Brighton leikmaður sem komst inn í sendinguna.
Brighton vörðust vel og voru skipulagðir og engan skildi undra að þeir séu ekki búnir að fá á sig nema 13 mörk fyrir leikinn í dag. Strax á 52. mínútu voru þeir samt farnir að tefja og spörkuðu til að mynda boltanum í burtu þegar United átti aukaspyrnu á miðjum vellinum. Juan Mata hljóp þá öskuillur í dómarann en þetta var í eitt af örfáum skiptum sem spánverjanum smávaxna brá fyrir á skjánum.
Á 55. mínútu stoppaði Victor Lindelöf síðan sókn með frábærri tæklingu sem skildi þó Knockaert eftir liggjandi á vellinum. Einhverjir Brighton menn voru hundfúlir yfir því að gestgjafarnir settu ekki boltann útaf og í kjölfarið fékk Glen Murray fyrsta gula spjald leiksins.
Zlatan Ibrahimovic heiðraði okkur svo með innkomu sinni á 62. mínútu og kom í stað fyrir Juan Mata sem hafði verið týndur allan leikinn. Ljónið virkaði þó ansi þungt og stirðbusalegt en vonandi nær hann að hrista af sér rykið og töfra fram gömlu gæðin á ný.
Lukaku var búinn að vera hljóðlátur það sem af var síðari hálfleik en góð pressa frá honum sá til þess að United fékk hornspyrnu á 66. mínútu og eftir hana barst boltinn út fyrir teig á Ashley Young sem tók fína gagnhreyfingu og hamraði á markið með viðkomu í Louis Dunk með þeim afleiðingum að boltinn skrúfaðist upp í markvinkilinn. Markið skráist sem sjálfsmark en gott og gilt engu að síður.
Leikurinn róaðist verulega eftir þetta, United virtust vera yfirvegaðir og með stjórn á leiknum en þó áttu Brighton menn ágætar rispur og komust í fín fær en þá vantaði alltaf lokasendinguna eða skotið. Býsna rólegur dagur hjá David de Gea. En Chris Hughton gerði tvöfalda breytingu á liðinu sínu, þeir Izquierdo og Hemed komu inn og þá færðist aukinn ferskleiki í leik liðsins.
Izquierdo var reyndar nálægt því að vera búinn að setja mark sitt á leikinn á öfugum vallarhelming strax eftir að hann kom inn á, þegar hann var að verjast Valencia og rann til en þegar hann var að standa upp breyttist hann skyndilega í markvörð og stoppaði fyrirgjöfina með höndinni. Klárt víti en ekkert dæmt.
Hættulegasta færi Brighton kom stuttu síðar eftir aukaspyrnu frá kantinum en Shane Duffy hitti boltann illa. United brunaði upp í sókn og Zlatan lagði boltann út á Mkhitaryan sem skrikaði fótur svo ekkert varð úr sókninni en Zlatan var jarðsettur af Duffy eftir sendinguna og fékk að líta gula spjaldið fyrir vikið.
Síðasta alvöru færi United-manna kom í kjölfarið þegar Ryan átti afleita sendingu úr teignum, beint á Zlatan sem átti fallegt samspil við Lukaku og Pogba aður en hann skaut sjálfum framhjá markinu.
Leikurinn var engin flugeldaveisla og virtust sumir leikmenn liðsins gjörsamlega heillum horfnir. Leikmenn eins og Martial, Matic og Lukaku voru langt frá sínu besta og Mata var týndur áður en hann rölti inn á völlinn. Valencia og Young áttu góða spretti en líka slæma spretti en ljósi punkturinn má segja að hafi verið svíinn í vörninni. Lindelöf virkaði mun öruggari en oft áður, átti góðar tæklinga og var harður í horn að taka og eitthvað er þá virkaði hann traustari aðilinn í hjarta varnarinnar í dag.
Embed from Getty Images
José Mourinho getur verið ánægður með stigin þrjú og þá staðreynd að hafa haldið hreinu en lítið annað. Á þriðjudaginn er svo leikur við Watford í deildinni en þeir skelltu Newcastle á sama tíma á útivelli með þremur mörkum og greinilegt að strákarnir hans Silva eru mun erfiðari þrekraun en Benitez og félagar. Það verður áhugavert að sjá hvort hann reyni að halda áfram uppteknum hætti og spila Martial og Rashford saman eða hvort hann hverfur aftur til fyrra horfs. Svo væri ekki leiðinlegt ef Mata eða Mkhitaryan færu að sýna sitt rétta andlit en eitt er víst að svona spilamennska skila ekki titlinum á réttan stað í borginni.
silli says
Hressandi!
Hjöri says
Niðurdrepandi. Já það er ekki hægt að segja annað en fyrri hálfleikur sé niðurdrepandi, þeir ná ekki að skora þó þeir séu nánast á marklínuni. Það þarf sko heldur betur að spíta í ætli þeir sér 3 stig úr þessum leik, en það næst ekki nema menn fari að reyna að skjóta á markið, veit að það er 10 manna varnarmúr að eiga við þarna. En nýtingin verður að vera miklu betri og hraðvirkari þegar þeir snúa vörn í sókn. Koma svo.
EgillG says
3 stig. verð sáttur með leikinn á mánudag
einarb says
Mikilvæg stig og týpískur leikur sem hefði endað með jafntefli í fyrra . Ashley Young með sitt fyrsta deildarmark í 18 mánuði og þvílík BOMBA. Reyndar sjálfsmark en ég er viss um að þetta ‘deflection’ var fullkomlega viljandi.
En svona miðað við spilamennskuna og óæskilega fjarveru glimmrandi sóknarleiks þá er mjög jákvætt við þennan dag að Spurs, Chelsea og Liverpool misstu öll stig í dag #jákvæðnin
Brighton er með helvíti fínt lið, þorðu að sækja og voru óheppnir að ná ekki í stig í dag, ekki hægt að taka neitt af þeim. Hef enga trú á þetta lið falli í vor.
Runólfur Trausti says
Þrjú stig eru þrjú stig. Það er allavega eitthvað en frammistöður liðsins undanfarið hafa ekki beint verið að heilla og maður er ekki beint bjartsýnn fyrir leiknum gegn Watford en United hefur aðeins unnið fjóra af níu útileikjum sínum í vetur (þar af tvo gegn Swansea City).
Eins spenntur og ég (og eflaust flestir) voru fyrir því að sjá Lukaku, Martial og Rashford frammi með Mata í holunni þá hefur það einhvern veginn ekki gengið. Kæmi lítið á óvart ef við sæum meira „compact“ og þéttara United lið gegn Watford.
Cantona no 7 says
Góð þrjú stig.
Stundum vinnast leikir ekki mjög glæsilega en það eru stigin sem skipta öllu máli.
Við verðum að vinna áfram næstu leiki en liðið þarf að spila betur.
G G M U
Blue Moon says
Hundleiðinlegur bolti sem þetta United lið er að spila. Það er af sem áður var þegar United spilaði skemmtilegasta sóknarboltann. Nú virðist sem að það skorti alla taktík hjá liðinu.