Þetta var skemmtilegasti leikur United í mörg ár! Og það var helst varnarvinnu beggja liða að þakka, og frammistöðu David de Gea sem varði 14 skot í leiknum, sem er það mesta sem markvörður hefur varið í einum leik frá því farið var að halda utan um þá tölfræði í úrvalsdeildinni.
Liðið var óbreytt frá Watford leiknum, Matić var heill en enginn Ibrahimović á bekknum
Varamenn: S.Romero, Darmian 76., Blind, McTominay, Ander Herrera 67., Mata, Rashford 93.
Lacazette hafði eins og Matic verið tæpur fyrir leikinn en var í byrjunarliði líkt og Matić.
United byrjaði betur, vann horn á 2. mínútu og komst yfir á þeirri fjórðu! Antonio Valencia átti það mark skuldlaust. Hann komst inn í sendingu til Koscielny, óð up að teig, gaf á Pogba sem í stað þess að stinga á Lukaku gaf aftur á Valencia. Valencia tók hann ekki í fyrsta og virtist vera of seinn þar sem Monreal var kominn í hann en skot Valencia klobbaði bæði Monreal og Cech í markinu! Arsenal sótti eitthvað en komst ekkert áleiðis og á 11. mínútu bætti United í.
Jesse Lingard pressaði frábærlega á varnarmenn, fyrst Monreal og svo Mustafi, og það endaði á að Mustafi gaf beint á Lukaku. Lukaku lék vel til hliðar, gaf fallega sendingu upp á Martial inn í teig sem gaf frábæra utanfótarsendingu á Lingard sem kom á hlaupinu, og setti boltann í stöng og inn. Frábær byrjun United.
Embed from Getty Images
Mustafi hafði eitthvað meiðst í markinu og fór útaf fyrir Alex Iwobi og Arsenal breytti í 4-2-3-1 uppstillingu og sótti nokkuð vel. Á sömu mínútunni áttu þeir tvö færi sem David de Gea virtist hálf óöruggur í, fyrra endaði á að Lingard setti hnéð í boltann og setti hann í horn, en það seinna kom úr horninu, Smalling hélt aftur af Lacazette sem náði þó skoti í fót De Gea, þaðan hrökk boltinn í Lacazette og síðan hárfínt framhjá. Ekki mjög traustvekjandi. Þetta munstur hélt áfram. Arsenal sótti en United átti ágætis mótsóknir. Lingard pressaði vel fram þegar Arsenal lék til baka og var frískur.
Þegar tæpur hálftími var liðinn af leik braut Rojo á Sanchez rétt utan teig, Özil sveiflaði boltanum fallega yfir vegginn en Ashley Young var á stönginni og skallaði vel frá. Nett hjá Young. Rétt á eftir átti Arsenal að skora. Lacazette fékk sendingu inn á markteig, missti boltann í Rojo og fékk hann aftur, lék á Rojo og De Gea var kominn niður. Lacazette átti að gera betur en skot hans fór á endanum í De Gea sem hafði náð að kasta sér áfram fyrir boltann. Þaðan fór boltinn í slána og út og Xhaka átti skot óhindraður en rétt framhjá.
Ekki mínútu seinna var það svo Cech sem varði vel en frá eigin manni, Kolasinac var að reyna að stöðva fyrirgjöf Pogba frá að komast á Lukaku.
Hörkufjör semsé í leiknum ekki síst þar sem varnarleikur beggja liða var ekki upp á það besta. Rojo var sérstaklega slakur hjá United, Arsenal var mun meira í pressunni og Lingard og Matić áttu báðir mikilvæg inngrip þegar Arsenal virtist meira en líklegt til að skora. De Gea var svo maðurinn þegar hann með skömmu millibili varði langskot bæði frá Bellerín og Kolasinac, og var fyrri varslan sérlega góð.
Fyrsta mínútan af þremur í viðbótartíma var síðan einn hasar í vítateig United, De Gea þurfti að verja tvisvar, og aftur var önnur varslan frábær, þegar boltinn hrökk af hnénu á Lukaku.
United var síðan næstum búið að bæta við á síðustu sekúndu hálfleiksins þegar vandræðagangur í vörn Arsenal endaði með skoti frá Lingard en Cech varði.
Svaðalegur fyrri hálfleikur þar sem United nýtti frábærlega vandræði Arsenal, en náðu síðan alltaf að loka fyrir sóknir Arsenal þó að oft væri aðdragandinn í boði varnarmistaka United.
Seinni hálfleikur byrjaði eins og þeim fyrri lauk með sókn Arsenal og það tók þá innan við fjórar mínútur að minnka muninn. Sending kom inn á teiginn, Lindelöf var staður og Aaron Ramsey stakk sér inn fyrir hann. Enginn elti og United vörnin heimtaði rangstöðu, sem var fjarri lagi. Ramsey reyndi hins vegar ekki skot en tók boltann niður sem reyndist svo vera bara snyrtileg sending á Lacazette sem var eini maðurinn sem hafði fylgt þessu eftir og Lacazette átti ekki í vandræðum með að skora örugglega. Flott hjá Arsenal en hroðalega lélegur varnarleikur.
United var næstum búið að svara skömmu síðar, Lingard komst innfyrir eftir enn ein varnarmistök Arsenal en Cech varði, boltinn fór í háum boga og varnarmenn eltu en boltinn endaði í stöng og skot Martial endaði í varnarmanni. Næsta sókn Arsenal endaði með vörslu De Gea og það var varla hægt að draga andann fyrir hasar.
David de Gea var í ‘besti markmaður í heimi’ hamnum í dag, Lacazette átti flott skot sem De Gea varði frábærlega en út í teig og þar kom Alexis Sanchez en bestu markmannsfætur heims fyrr og síðar sáu við honum, De Gea varði með sólanum.
Rojo fékk loksins gula spjaldið sitt fyrir að stíga á fót Alexis Sanchez á 58. mínútu.
Eins og í fyrri hálfleik kom það ekki til að United héldi boltanum á miðjunni. Í hvert skipti sem þeir fengu boltann var stímt upp í sókn og ekki að ástæðulausu svo brothætt virtist vörn Arsenal. Og það gaf frábæra niðurstöðu á 63. mínútu.
Jesse Lingard fékk að stíma óáreittur fram allan völinn og gaf síðan út á Pogba sem var óvaldaður og óð inn í teig. Koscielny virtist vera búinn að blokka hann vel en Pogba hreinlega hristi hann af sér eins og hann væri krakki og gaf frábæra sendingu fyrir þar sem Jesse var búinn að koma sér fyrir algerlega óvaldur og sendi boltann í netið. Frábært hjá Pogba og frábært hjá Lingard, sérstaklega var hreyfingin og staðsetningin áður en hann fékk sendinguna eins og hjá besta framherja.
De Gea bætti einni frábærri skutluvörslu í safnið, frá Sanchez í þetta sinnið, lá við að ég nennti ekki að minnast á það, svo staðlað virðist það vera hjá honum að verja svona.
Fyrsta skiptingin kom skömmu síðar. Tony Martial kom útaf eftir þokkalegan leik en Ander Herrera var ætlað að þjappa enn frekar varnarleikinn. Arsenal setti hins vegar kraft í sóknina, Danny Welbeck kom inná fyrir Granit Xhaka.
En á 74. mínútu fékk Paul Pogba verðskuldað rautt spjald. Hann var að elta bolta, Bellerín fór niður fyrir framan hann og Pogba traðkaði illa á kálfanum á Bellerín. Kannske finnst einhverjum þetta hafa verið harkalega dæmt, miðað við að dómarinn hafði látið leikinn ganga mjög vel og ekki spjaldað utan Rojo og Bellerín. en þetta var svona ‘yfir boltann’ traðk sem er rautt.
Jesse Lingard var fórnað fyrir Matteo Darmian til að reyna að treysta tíu manna liðið en Arsenal bætti enn einum sóknarmanninum við og sendi Giroud inn fyrir Kolasinac.
Sóknir Arsenal héldu áfram en United liði var nært allt komið inn í teig og ef Arsenal náði skoti var De Gea til varnar.
United fékk þó sókn og Lukaku komst framhjá Koscielny sem henti sér í bakið á Lukaku og tók hann niður. Dómarinn sleppti Koscielny við rautt þar sem þetta var úti á miðjum velli, mjög fagmannlegt brot hjá Koscielny. Hinu megin var Darmian hins vegar stálheppinn að ekki var dæmt
Í uppbótartíma kom Rashford inn fyrir Ashley Young, Arsenal hélt áfram að sækja en United hélt út.
Ef Paul Pogba væri ekki á leiðinni í þriggja leikja bann og missir því af leiknum gegn Manchester City á Old Trafford á sunnudaginn eftir viku værum við gjörsamlega í skýjunum eftir þennan leik. Varnarleikur United var vissulega ekki sá besti en leikaðferð Mourinho gekk alveg upp gegn enn veikari vörn Arsenal. Sigurinn heldur í við City sem á leik til góða, og færir okkur frá Arsenal.
David de Gea var hins vegar maðurinn sem vann þennan leik fyrir United. Arsenal átti 33 skot í leiknum, 15 á mark og sem fyrr segir varði De Gea 14 þeirra, ófá frábærlega. Hann er besti markvörður í heimi.
En það þarf líka að minnast á Jesse Lingard. Hann skoraði tvö mörk og átti að auki stóran þátt í undirbúningi þeirra beggja. Hraði hans gaf liðinu það sem þurfit til að keyra á Arsenal og hvorki Mata né Mkhitaryan hafa þann hraða sem þurfti í þessum leik. Langnæstbesti maðurinn United.
Martial var góður í fyrri hálfleik og Nemanja Matić er maðurinn sem við þurfum á miðjuna, en ekki síður eins og í þessum leik að taka að sér varnarhlutverk í erfiðum leikjum.
Enn og aftur: Frábær sigur! Njótum hans og höfum áhyggjur af Pogba síðar.
Karl Garðars says
Tvíklobbi fyrir allan peninginn!
Turninn Pallister says
Sjá þennan Lingard!!
Turninn Pallister says
Stígðu nú upp Móri, við höldum ekki 1 marki forystu undir þessari pressu!!
Karl Garðars says
Siiiijittttt!!! Þvílíkur þjófnaður…! Og þvílíkur maður DDG!
Viðar says
Finnst þetta rauða spjald mjög strangur dómur.. jújú hann stígur á hann en hann fer ekki hátt upp með fótinn og er klárlega ekki að reyna þetta
Rúnar Þór says
Geggjaður leikur!! De Gea er besti gk í heimi, hann kom út úr móður sinni í markmannshönskum.
Þetta er ástæðan fyrir því að ég skil ekki þá sem vilja bara láta Lingard fara. Hann er ekki einn af bestu mönnum deildarinnar EN hann er drullugóður í þessu pressuhlutverki og getur komið með svona frammistöður
Dýrt að missa Pogba!! er einhverjar fréttir af Fellaini???
Geggjuð skemmtun Takk fyrir mig
Cantona no 7 says
Þvílíkur sigur.
Þvílíkur leikur.
Þvílíkt frammistaða.
Þvílíkt lið.
Þvílíkur stjóri,
Þvílíkur dómari.
G G M U
Jón says
25%posession og ja við erum ekki burnley eða sunderland heldur manutd. Það kemur sá tími að við verðum ekki svona heppnir afram
DMS says
Flottur sigur. Gleymum því ekki að Arsenal hafði unnið 13 leiki í röð á Emirates áður en þeir mættu okkur í dag. Ég bjóst alls ekki við svona leik, liðin skiptust á að sækja til að byrja með og þetta var end-to-end leikur í dágóðan tíma þó Arsenal hafi legið meira á okkur. Það auðvitað breyttist svo þegar Pogba fauk útaf. Mér fannst ekki neinn illur vilji í brotinu, leikmaður Arsenal leggst niður með fótinn og þess vegna stígur Pogba ofan á hann á mjög slæmum stað. En það er erfitt að andmæla rauða spjaldinu.
Maður hefur engu að síður áhyggjur af því að mæta Man City án Paul Pogba. Sóknarleikur liðsins er hugmyndasnauður án hans.
Rúnar P says
Besta comment BT Sport commentatorins “can we just skip halftime and keep playing, please” what a game!
Bjarni says
Var að horfa aftu á brot af því besta með De Gea og fannst vörnin oftast klikka í frákastinu, voru seinir eða staðir þannig að hann þurfti þá að verja aftur. Þvílíkur markmaður en persónulega væri ég glaður ef hann þyrfti ekki stöðugt vera að bjarga okkur fyrir horn, varnarmenn okkar mega ekki treysta of á þetta. Vona samt að hann sýni áfram svona tilburði enda veitir ekki í næsta leik. Þar fær hann nóg að gera.
Audunn says
Virkilega sterkur sigur og mikilvæg 3 stig, þessi sigur sendir ákveðin skilaboð til annara liða í kringum okkur.
Ég er mjög ánægður með hvernig United hóf þennan leik, það er gífurlega mikilvægt að hefja ekki svona leiki á hælunum og í nauðvörn.
Fannst nánast allir leikmenn vera að spila vel nema Rojo var mjög oft úti á túni, ég hef oftar en einu sinni sett stórt spurningarmerki um gæði hans, hann á fína spretti inn á milli en er svo gjörsamlega úti að skíta og ákvarðanartökur eftir því.
Er alveg á því að bæði hann og Darmian séu ekki nógu góðir fyrir United.
Myndi alveg vera til í að skipta þeim út.
En jæja, þá er það City um næstu helgi, það er eins og við vitum leikur sem má alls alls alls ekki tapast.
Ef City vinnur þann leik þá er deildin nánast búin og það fyrir jól, það þarf eitthvað meiriháttar að gerast ef svo er ekki.
United verður að eiga mjög góðan leik og ættu í sjálfu sér alveg að vera með sjálfstraust til að bjóða City birginn.
Auðvita er hræðilegt fyrir United að Pogba verði ekki með en svona er bara boltinn, það getur allt gerst og því getur lið eins og United ekki afsakað sig með því að segja að það vanti einn leikmann.
Lið á þessari stæðrargráðu verður að hafa nægilega breidd og gæði til að leysa svona vandamál.
Rauðhaus says
Núna er þetta fjórða tímabilið í röð sem David De Gea er í þessu ótrúlega formi. Ég spyr mig í fullri alvöru hvort hann sé hreinlega á pari við kónginn sjálfan, Peter Schmeichel.
Ég upplifði Peter Schmeichel tímann og man vel hversu ótrúlegur hann var fyrir okkur. Einn besti markvörður allra tíma sennilega. Hann átti þó líka sín „móment“ og tók stundum smávægilegar dýfur í formi. David er núna búinn að vera í ótrúlegu formi í langan tíma og gerir mjög fá mistök. Neuer, til samanburðar, gerir miklu fleiri mistök.