Eftir góðan fyrri hálfleik og óþarflega erfiðan seinni hálfleikur náði Manchester United að landa sigri gegn WBA. Þrjú stig til viðbótar og það er þegar ljóst að Manchester United er að eiga sinn besta fyrri hluta deildartímabils frá því Ferguson lét af störfum. Liðið er að auki búið að vinna 3 útileiki í röð sem hefur ekki gerst áður á þessu tímabili, gerðist síðast í febrúar. Og svo má líka benda á að liðið er komið yfir 40 stiga múrinn og ætti því að vera öruggt frá falli. Gleðileg jól!
Henrikh Mkhitaryan var áfram fjarri góðu gamni og náði ekki einu sinni að setjast á bekkinn. Það vakti líka athygli fyrir leik að bæði Daley Blind og Matteo Darmian ferðuðust með liðinu á leikinn þrátt fyrir að vera hvorugur í leikmannahópi liðsins en Mkhitaryan var hvergi sjáanlegur. Það er spurning hvort hann hafi hreinlega spilað sinn síðasta leik fyrir félagið eða hvort það sé einhver leið til baka fyrir hann.
Byrjunarlið Manchester United í leiknum var svona:
Varamenn: Romero, Lindelöf, Rojo, Shaw, McTominay, Ibrahimovic, Martial.
WBA byrjaði með þetta lið:
Varamenn: Myhill, Robson-Kanu, Brunt, Barry, Rodriguez, McAuley, Field.
Leikurinn sjálfur
Manchester United hafði töluverða yfirburði í fyrri hálfleiknum. Liðið hélt boltanum meira frá fyrstu mínútu og reyndi að skapa sér eitthvað gegn þéttum varnarpakka WBA. WBA hafði ekki skorað í 3 leikjum á undan en heldur ekki fengið nema 1 mark á sig á þeim tíma og m.a. haldið hreinu á Anfield í vikunni.
Lingard var í holunni með þá Rashford og Mata sitt hvorum megin við sig og Lukaku þar fyrir framan. Fyrstu 20 mínúturnar var Manchester United með boltann 70% af tímanum. Ýmsir kvörtuðu yfir hægu uppspili en Mata og Lingard voru þó að reyna að koma með hlaup með og án bolta ásamt því sem Rashford var nokkuð áræðinn á kantinum. En það að brjóta niður varnir getur verið þolinmæðisverk.
WBA fékk boltann ekki mikið í fyrri hálfleiknum en virtist þó vera með tvær áætlanir í boði þegar það gerðist. Annars vegar keyrði James McClean upp vinstri kantinn og reyndi að finna pláss fyrir aftan Valencia. Hins vegar tók Oliver Burke sprettinn af hægri kantinum inn að miðju og þaðan upp völlinn til að ná samvinnu við Salomón Rondón og fá mögulega stungusendingu. Þetta tókst WBA nokkrum sinnum í leiknum, alveg þangað til það kom að því að gera eitthvað við boltann nálægt vítateig United. Þar voru Smalling og Jones afar öruggir og náðu að stoppa þær fáu sóknir sem WBA komst í, eða tryggja það að WBA næði allavega ekki góðri marktilraun.
Á 27. mínútu leiksins fékk Marcus Rashford boltann úti á vinstri teig. Þar náði hann auðveldlega að búa sér til pláss til að koma með fyrirgjöf og sendi flottan bolta fyrir markið. Lukaku stökk þar mun hærra en miðverðir WBA og skallaði boltann í markhornið. Virkilega vel gert hjá Rashford og Lukaku þarna. Lukaku fagnaði ekki markinu sem vakti að sjálfsögðu mikla athygli, sérstaklega þar sem hann fagnaði heldur ekki markinu gegn Bournemouth. Vissulega spilaði hann einu sinni með WBA svo það gæti spilað inn í en mér finnst það þó ólíklegt, sérstaklega eftir Bournemouth leikinn. Kannski er þetta eitthvað sem Lukaku á við sjálfan sig, kannski er þetta gagnrýni á eitthvað utan frá. Kannski fáum við að vita hvað veldur, kannski ekki. En hann er allavega byrjaður að skora aftur og það er frábært.
Innan við 10 mínútum síðar hafði Manchester United skorað annað mark. Í millitíðinni hafði Chris Smalling sýnt góðan varnarleik í tvígang og stoppað álitlegar skyndisóknir WBA. Fyrst tæklaði hann Burke sem var á hörkuspretti inn að teig United og svo náði hann að henda sér fyrir fyrirgjöf sem stefndi á Rondón inní markteignum og tækla þann bolta í burtu. Á 35. mínútu vann Jonny Evans tæklingu í teignum hinum megin en boltinn hrökk þaðan á Mata sem var rétt fyrir utan teiginn. Mata sá hvar Lingard kom á hörkuspretti að teignum og gaf flottan bolta á hann. Lingard hélt hlaupinu áfram og lét svo vaða utan teigs. Boltinn hrökk af miðverðinum Hegazi og þaðan í markið. Ben Foster hafði þegar skutlað sér í hina áttina og átti engan séns. Lingard heldur áfram að vera drjúgur fyrir liðið, hefur nú skorað 4 mörk í síðustu 5 deildarleikjum sem hann hefur spilað. Í síðustu 3 útileikjum sem hann hefur verið í byrjunarliði hefur hann skorað 4 mörk og lagt upp 1.
Fyrri hálfleikurinn kláraðist með yfirburðum Manchester United en strax og sá seinni hófst var ljóst að WBA ætlaði ekki að taka þessu þegjandi heldur láta vaða og reyna að ná allavega betri frammistöðu úr þeim hálfleik. Manchester United virtist á meðan ætla að leggja höfuðáherslu á að eyða ekki of mikilli orku í að verja þessi 3 stig.
Á 55. mínútu náði WBA að koma hættulegri fyrirgjöf fyrir markið þar sem Valencia var allt í einu einn gegn tveimur sóknarmönnum WBA. Valencia gerði þó gríðarlega vel í því að tækla boltann frá. En þarna hafði taflið snúist við frá því í fyrri hálfleik því nú var WBA meira í því að halda boltanum og reyna að byggja eitthvað upp á meðan Manchester United reyndi að treysta á skyndisóknirnar.
Á 64. mínútu þurfti Valencia að fara af velli vegna meiðsla, virtist tognaður aftan í læri. Hrikalegar fréttir og vonandi að hann verði ekki lengi frá. Fram að þessum tímapunkti hafði United heilt yfir haft fín tök á þessu, þrátt fyrir að hafa jafnvel dregið sig fulllangt aftur. En þarna gerðust tvær breytingar sem höfðu áhrif á leikinn, annars vegar það að Valencia fór út af, Young fór yfir í hægri bakvörð og Rojo kom inn sem vinstri bakvörður. Og hins vegar það að Pardew skipti Oliver Burke út af fyrir Jay Rodriguez og fór úr 4-5-1/4-3-3 yfir í 4-4-1-1. Eftir það virkuðu WBA líklegri til að ná einhverju úr sínum sóknartilburðum.
Það tókst svo hjá WBA að skora á 77. mínútu, fyrsta mark þeirra eftir að Pardew tók við þeim. Markið kom upp úr hornspyrnu, eitthvað sem kemur svosem ekki á óvart hjá WBA en það voru ákveðin vonbrigði að sjá hversu klaufalegir varnarmenn United voru þarna. Rojo virkaði út á þekju og boltinn hrökk af honum fyrir markið þar sem þrír leikmenn WBA hefðu getað mokað honum inn. Á endanum var það Gareth Barry sem skoraði. Krafturinn jókst í kjölfarið hjá WBA á meðan stressið jókst hjá United.
Mourinho hafði áður tekið Rashford út af fyrir Martial og reyndi þarna að ná meiri tökum og yfirvegun á miðjuna með því að setja McTominay inn á fyrir Jesse Lingard. Marcos Rojo virkaði sérstaklega stressaður og gaf til að mynda hornspyrnu á mjög klaufalegan hátt þegar hann ætlaði að hreinsa með hægri en setti boltann þess í stað aftur fyrir, óþægilega nálægt markinu hjá De Gea.
En Rojo átti reyndar líka virkilega góða sendingu utan af kantinum í lok leiks, beint á Romelu Lukaku í framlínunni. Lukaku náði að búa sér til smá pláss fyrir skot og náði næstum því að lauma boltanum í fjærhornið á markinu en hann endaði rétt framhjá. WBA fékk annað hættulegt horn þar sem önnur þvaga myndaðist en De Gea náði að fanga þann bolta. Hann lét svo Barry heyra það duglega eftir að sá síðarnefndi hafði verið full aðgangsharður eftir að De Gea var búinn að ná boltanum.
Þetta hafðist svo, United náði að hanga á forystunni í lokin og landa 3 stigum.
Pælingar eftir leik
Þessi leikur var kannski ekki mikið fyrir augað fyrstu 70 mínúturnar en Manchester United hafði samt sem áður góð tök á honum. Það breyttist allt eftir að Valencia þurfti að fara af velli. Rojo hefur því miður ekki náð að sýna þann stöðugleika sem hann gerði í fyrra. Hann hefur reyndar aldrei virkað sérstaklega traustvekjandi í bakverði og gerði það ekki heldur í dag.
Áður en Valencia fór af velli var Manchester United með boltann tæplega 62% af vellinum. Liðið hafði átt 7 skot en WBA 4. WBA hafði aðeins náð 2 tilraunum á rammann. En eftir að Rojo kom inn á þá var WBA með boltann rúmlega 60% af tímanum, átti samtals 8 marktilraunir þar sem 3 þeirra enduðu á rammanum og ein þeirra endaði sem mark. Á sama tíma átti Manchester United aðeins eina marktilraun, framhjá markinu. United vann m.a.s. færri skallabolta eftir að Valencia fór af velli. Fyrir það vann United 10 skallabolta en WBA 3. Eftir það vann United 3 skallabolta en WBA 6. Ekki að ég sé endilega að kenna Rojo um það allt en það breyttist ansi mikið í spilamennsku liðsins á þessum tímapunkti.
Stigin 3 komu þó og Manchester United er núna að eiga sína bestu byrjun síðan Ferguson stýrði liðinu. Og svo má gleðjast yfir því að Pogba sé núna búinn að taka út sitt leikbann, það verður munur að fá hann inn aftur.
Menn leiksins
Mér fannst Juan Mata eiga fínan leik. Það er ekki oft sem hann klárar 90 mínútur hjá United en hann gerði það og hljóp rúmlega 12 km í þokkabót. Hans sóknarframlag var flott í fyrri hálfleik en dalaði eins og hjá öllu liðinu eftir því sem á leið. Hann barðist þó og sinnti varnarskyldum.
Miðverðirnir komust vel frá þessu. Fannst Smalling og Jones flottir í leiknum. Brugðust vel við skyndisóknum WBA og stressið í lokin hefði líklega verið enn meira ef þeir hefðu ekki verið þarna.
Matic var að vanda flottur á miðjunni. Og Lingard öflugur framan af.
En ég ætla að velja Antonio Valencia mann leiksins. Hann átti ekki endilega bestu einstaklingsframmistöðu leiksins hjá okkar mönnum en hann var samt heilt yfir fínn og bjargaði t.d. marki með frábærum varnarleik gegn tveimur WBA leikmönnum. En hann fær þetta aðallega vegna þess hversu gríðarlega mikil áhrif það hafði á liðið þegar hann þurfti að yfirgefa völlinn. Það er óskandi að hann verði ekki lengi frá.
Hjöri says
Þvílíkur ömurlegur seinni hálfleikur hjá liðinu, þökkum fyrir ef við náum stigi úr þessum leik, þar sem WBA hefur valtað yfir liðið nú í seinni hálfleik.
EgillG says
Þetta var svo fucking lélegt, þetta dæmi að slaka á og spara orku er svo fucking pirrandi, keyra á þessi litlu lið á fullu gasi klára leikinn.
Rúnar Þór says
3 stig en þetta er svo leiðinlegt! Engin hraði, ekkert tempo. Eigum bara einhver 3 skot en við erum allavega með góða nýtingu. Vill samt meiri hraða action og tilraunir. Pogba come back!!
Karl Garðars says
Góð 3 stig og fín mörk en spilamennskan frá seinna markinu og til leiksloka er skólabókardæmi um hversu sorglega fyrirsjáanlegir, kærulausir og úrtöku andlausir við getum verið. Þegar liðið dettur í þetta kjaftæði þá eru þetta án gríns með alleiðinlegustu fótboltaleikjum sem maður horfir á.
Þetta sér maður ekki hjá City og þetta þarf að laga ef liðið ætlar sér að fá eitthvað meira en meistaradeildarsæti á næstu leiktíð út úr þessari.
Mikið var rætt á sínum tíma um meðalhæð leikmanna sem Mourinho verslar en ég gat ekki með nokkru móti séð að það sé markvisst gert. Við spilum á móti W.B.A með Mata, Herrera, Rashford og Lingard. Ekki nóg með það þá förum við að sjálfsögðu í kick and run bolta við þá í þokkabót og miðjan okkar er jörðuð. Ég varð alls ekki ósáttur þegar McTominay kom inn en þessi leikur hefði, að ég tel, verið ideal fyrir Zlatan og Lukaku saman þegar halla fór undan fæti.
City myndi vissulega fara í þennan leik með svona dindla á miðjunni en þeir heita Sane, De Bruyne, Sterling og Silva. Þarna liggur munurinn.
Að því sögðu hafa Mata og Lingard verið fínir upp á síðkastið og mjög duglegir. Rashford átti ekki góðan dag og hefði mátt fara fyrr út af.
Nú ætti maður aldrei að setjast foxillur að skrifum eftir leiki og það er alls ekkert víst að ég verði 100% sammála sjálfum mér á morgun.. :)
En…. eftir standa 3 hálfpartinn óverðskulduð stig, meiddur Valencia og svo vorum við stálheppnir að skítmennið hann Barry hafi ekki meitt De Gea líka.
Bjarni says
Hef ekki þrek til að tjá tilfinningar mínar eftir þennan leik öðruvísi en að vera sammála þér, Karl. Næsti leikur mikilvægur, kemur ljós hvort Pogba er svona mikilvægur fyrir okkur.
einarb says
Smá mótvægi við svartnættinu hérna.
Mikilvægur sigur og mikilvæg 3 stig. Fínn fyrri hálfleikur en einsog oft þá lág liðið alltof aftarlega undir lokin og bauð hættunni heim. Þetta slapp og ég er sáttur.
Það er fullkomlega eðlilegt að reyna hanga á þessum sigri. Man. City rétt tókst að landa sigri 1-2 sigri á þessum leikvelli og hvorki Spurs né Liverpool náðu að leggja WBA nýverið. Þetta er bara alls ekki auðveldur leikur.
Við erum að leggja í jólabrjálæðið á helvíti góðu róli, auðvitað var þessi City leikur hörmung en fólk sem sér ekki framfarir getur skoðað síðustu fjórar viðeignir samanborið við þær í fyrra
í fyrra: 1 stig af 12
Watford úti – tap 3 -1
Arsenal úti – tap 2 – 0
City heima – tap 1 – 2
Bournemouth heima – jafnt 1 – 1
í ár: 9 stig af 12
Watford úti – sigur 2 -4
Arsenal úti – sigur 1 – 3
City heima – tap 1 – 2
Bournemouth heima – sigur 1 – 0
9 stig á móti 1.. svona samaburður er kannski ekki sanngjarn en það er klár framfaramerki á þessu liði.
41 heildarstig eftir 18 umferðir er bara alls enginn heimsendir. Við erum að snúa þessum jafnteflum í sigra, hanga á og halda út forsystunni í stað þess að missa þau niður í jafntefli einsog var orðið að running theme í fyrra.
Hvað þessa spilamennsku varðar þá er ég viss um að Mourinho er jafn fúll og við hin með hana og ég hef fulla trú á að hann reyni að gera nauðsynlegar breytingar í janúarglugganum eða næsta sumar.
Georg says
@einarb
Ég held að svartnættið sé ekki útaf stigasöfnun, heldur leiðindunum hvernig að þeirri söfnun sé staðið..
Simmi says
Mér finnst frekar asnalegt hversu margir hérna eru að kvarta undan spilamenskunni á meðan við erum alltaf að ná í 3 stig. Það sést svo augljóslega að Paul Pogba er besti og mikilvægasti leikmaður United. Án hans er allt annað tempó í liðinu. Hann er sem betur fer að koma aftur eftir bann og meiðsli. United hefur gengið mjög vel að ná í úrslit án hans þó svo að það hafi yfirleitt ekki verið fallegt hvernig þeir fóru að því. En stigin eru mikilvægust og nú þegar Pogba er kominn aftur get ég lofað ykkur að spilamenskan eigi eftir að batna. Það er bara ekki hægt að spila sama bolta án Pogba, þannig við ættum að vera þakklátir fyrir stigin sem við höfum náð að hala inn án hans. Efast ekki um að Mourinho fái til sín skapandi miðjumann í janúar eða næsta sumar þannig að ef Pogba verður frá þá bitni það ekki jafn mikið á spilamennskunni.
Audunn says
Já já ég fagna sannarlega 3 stigum á þessu svaðalega törni sem er í gangi núna.
Mikilvægast er að safna sem flestum stigum, ég hef sagt það áður að ég get vel sætt mig við það að knattspyrnulegum gæðum sé fórnað fyrir 3 stig, sérstaklega á útivelli.
Leikur sem liðið sýndi á móti City var hinsvegar ekki boðlegur á Old Trafford, það er einfaldlega mín skoðun.
En auðvita vill maður sjá betri fótbolta frá einu dýrasta knattspyrnuliði í heiminum, það er ekki spurning.
Held að það sé bara mikilvægara á þessum tímapunkti að safna stigum og auka sjálfstraust liðsins jafnt og þétt.
Eitt af vandamálum liðisin er klárlega hversu gífurlega mikilvægur Pogba er, það er ekki gott að stóla svona mikið á einn leikmann.
Svo minni ég auðvita á happadrætti klúbbsins sem er í fullum gangi.
Mjög flottir vinningar í boði eins og ferð á United leik ofl ofl .
Miðinn kostar aðeins þúsund kall og allur ágóði af sölu fer í að bjóða fötluðum einstaklingum á leiki ásamt fylgdarmanni.
Tek við pöntunum á seljaland@gmail.com :)
Karl Garðars says
Sammála Auðunn.
Auðvitað er öllum sigrum tekið fagnandi í svona törn og maður hefði allan daginn tekið þessum úrslitum fyrir leik en svona dýrt lið á að ráða við það að einn-tveir leikmenn meiðist.
Það er oft talað um að sigla þessu heim, eyða ekki of miklu púðri, passa að meiðast ekki o.s.frv o.s.frv en í fullri alvöru þá er þetta lull algjört bull.
Það getur bara ekki verið gott þegar lullið breytist hálfpartinn í drullu upp á bak og að menn eru pungsveittir í tómum eltingarleik og nauðvörn.
Og ef við hugsum um blessuð börnin þá eru pabbarnir uppstökkir, nagla- og hárlausir, öskrandi á sjónvarpið og það eru að koma jól!!!
En eins og Einarb bendir á þá er Stjórinn líklega jafn sáttur með stigin og ósáttur með spilamennskuna. Við getum treyst því að þetta verður lagað.