Á morgun ferðast Manchester United til Bristol þar sem landsliðsmaðurinn Hörður Magnússon og félagar í Bristol City F.C. taka á móti okkur í 8-liða úrslitum Carabao deildarbikarsins. Nú fer leikjaálagið að þyngjast í kringum hátíðirnar en United á nánast leik á þriggja daga fresti út mánuðinn og því liggur í augum uppi að José Mourinho þarf að vera duglegur að gera breytingar á liðinu milli leika.
Jólamánuðurinn fer alla jafnan misvel í menn, hvort sem um ræðir andlega eða líkamlega, en þó að okkar menn hafi landað fjórum sigrum í öllum keppnum og aðeins tapað einum leik í desembermánuði þá voru nokkrir þættir sem skyggðu á þann árangur. Sterkur útisigur á Arsenal féll í skuggann á leikbanninu hjá Paul Pogba, ósigur gegn erkifjendunum í Manchester City gerði það að verkum að United er núna 11 stigum frá toppnum, ferill Henrikh Mkhitaryan hjá United virðist kominn á endastöð, Antonio Valencia meiddist gegn WBA og spilamennska liðsins án Pogba hefur ekki verið nein flugeldaveisla.
En það er ekki sanngjarnt gagnvart okkar mönnum að gagnrýna bara það sem betur má fara heldur verðum við að líta líka til þess sem hefur gengið vel. Til að mynda hefur Jesse Lingard staðið sig með prýði undanfarnar vikur en englendingurinn ungi er búinn að eiga þátt í tíu mörkum liðsins á þessari leiktíð.
Belgíska hraðlestin hefur svo loksins fundið skotskóna aftur og er búinn að skora í síðustu tveimur leikjum þó hann hafi sjálfur ekkert verið að missa sig í fagnaðarlátum og Scott McTominay er búinn að sýna okkur það að hann er gríðarlega mikið efni og spennandi ungur leikmaður sem verður áhugavert að fylgjast með í náinni framtíð.
Embed from Getty Images
Það verður því áhugavert að fylgjast með liðsuppstillingu José Mourinho á morgun. Ég gerist svo djarfur að spá því að Pogba farinn beint í liðið og það væri erfitt að líta framhjá Lingard eftir frammistöðu hans upp á síðkastið. Eins gæti Mourinho gefið Sergio Romero spilatíma til að reyna að halda honum en hann hefur ítrekað verið orðaður við önnur lið en þar sem HM er næsta sumar vill hann eflaust spila meira.
Fram á við má reikna með að Martial byrji í stað Rashford en varnarlínan okkar er talsvert meira spurningarmerki. Victor Lindelöf gæti komið inn fyrir Marcos Rojo, en sá síðarnefni er einu gulu spjaldi frá leikbanni. Valencia er úr myndinni í einhvern tíma og Ashley Young hefði gott af smá hvíld og því ekki ólíklegt að Luke Shaw og Matteo Darmian fái hugsanlega sæti í byrjunarliðinu. Sömu sögu er að segja með Matic, Mourinho gæti reynt að nýta þennan leik til að hvíla leikmenn fyrir jólatörnina sem er handan við hornið.
Mótherjinn
Bristol City F.C. á rætur að rekja aftur til 19. aldar en varð ekki atvinnumannafélag fyrr en um þar síðustu aldarmót. Síðan þá hefur heimavöllur þeirra, Ashton Gate Stadium, verið þeirra aðalvöllur en hann hefur gengið bókstaflega í gegnum eld og brennistein með liðinu en völlurinn hefur t. d. orðið fyrir barðinu á eldum og loftárásum nasista í síðari heimsstyrjöldinni. En í dag er heimavöllurinn í toppstandi enda einungis nokkrir mánuðir síðan vinnu við hann lauk en það var lengi búið að vera í kortunum að stækka völlinn. Í dag tekur völlurinn um 27 þúsund manns í sæti sem verða eflaust öll nýtt á miðvikudaginn þegar United kemur í heimsókn.
Bristol City hefur verið á góðri siglingu, unnið fjóra af síðustu fimm leikjum og er sem stendur í 3. sæti í Championship, fjórum stigum á eftir Cardiff City en mikill rýgur er milli stuðningsmanna þessara tveggja liða. Raunar eru Bristol Rovers helstu erkifjendur Bristolmanna en þar sem þeir eru í c-deildinni þá er sá fjandskapur ekki eins áberandi. Á síðustu leiktíð endaði liðið í 17. sæti b-deildarinnar með 54 stig, einungis 3 stigum frá fallsæti, svo hæglega má segja að gengi þeirra í ár sé fram úr vonum.
Við stjórnvölinn hjá Bristol er Lee David Johnson, 36 ára gamall fyrrum leikmaður liðsins en hann tók við liðinu á síðasta ári. Lee, sem er sonur fyrrum stjóra og fyrrverandi leikmaður liðsins, er í miklu uppáhaldi hjá stuðningsmönnum Bristol enda hefur liðið boðið upp á skemmtilegan bolta í vetur en það verður fróðlegt að sjá hvernig hann hyggst taka á móti stjörnumprýddu liði United. Á leið þeirra í 8-liða úrslit deildarbikarsins hefur honum tekist að stýra liðinu til sigur gegn þremur úrvalsdeildarliðum, en Watford, Stoke og Crystal Palace hafa öll þurft að lúta í lægra haldi fyrir Bristol City. Með markatöluna 9-3 út úr þessum þremur leikjum gæti hvaða Championship-stjóri sem er verið ánægður með en Lee sagði í viðtali á dögunum að hans menn væru hungraðir í meira og ætluðu ekki að sýna Manchester United einhverja óþarfa virðingu.
Hjá Bristol City hafa nokkur kunnugleg nöfn spilað í gegnum tíðina, t.a.m. Yannick Bolasie, Danny Rose, Tom Heaton og síðast en ekki síst Andy nokkur Cole sem lesendur ættu flestir hverjir að þekkja. Í dag er talsvert minni nöfn í herbúðum Bristol en þó ættu allir að kannast við a.m.k. einn núverandi liðsmann Bristol, landsliðsmanninn Hörð Magnússon, sem verður að öllum líkindum í leikmannahópnum. Hann hefur verið með Bristol síðan sumarið 2016 og að eigin sögn er hann klár í slaginn og má fastlega búast við því að hann byrji á miðvikudaginn.
Annars er það að frétta úr herbúðum Bristol að töluverð meiðsli eru hrjá þá þessa stundina en þeir Gary O’Neil, Famara Diédhiou, Jens Hegeler, Eros Pisano, Ivan Lucic og Callum O’Dowda eru allir meiddir. Annars spái ég tiltölulega líttbreyttu liði frá síðasta leik þeirra með 5-4-1 uppstillingu en þá liðið gæti litið út eitthvað á þá vegu.
Það er því við rammann reip að draga á miðvikudaginn og ættu United menn ekki að láta blekkjast, þó margir hverjir hafi verið ánægðir með dráttinn gegn Bristol, því þeir hafa sýnt það og sannað að þeir eru ekkert lamb að leika sér við. Vonandi mæta okkar menn rétt gíraðir og vel stemmdir á Ashton Gate Stadium á morgun og það verður spennandi að sjá liðið á ný með Paul Pogba.
Eins og áður sagði eru þetta 8-liða úrslit deildarbikarsins en í hinum leikjunum mætast Arsenal og West Ham í Lundúnarslag, Leicester City tekur á móti Manchester City og að lokum mætast Chelsea og Bournemouth. Leikirnir fara fram 19. desember og 20. desember en strax að leik loknum á Ashton Gate Stadium verður dregið í undanúrslitin sem fara fram 8. og 22. janúar.
Það er því ljóst að það lið sem nær að knýja fram sigur í þessum leik á verðugt verkefni fyrir höndum í janúar en við skulum ekki fara fram úr okkur heldur taka einn leik í einu og einbeita okkur að því að landa enn einum desembersigrinum. Glory Glory!
Bjarni says
Liðsuppstilling er ekkert svo galin ef hún verður svona. Mikki gæti fengið líflínu skv. fréttum en það er á hreinu að liðið sem spilar þennan leik hefur ekki efni á að vanmeta andstæðinginn, bikarleikir eru alltaf öðruvísi en venjulegir leikir sérstaklega þegar leikið er að kvöldlagi. Hef trú á skemmtilegum leik þar sem baráttan verður í fyrirrúmi og við höfum þetta á endanum.