Í kvöld tók Bristol City á móti okkar mönnum í United á Ashton Gate Stadium í síðasta leik 8-liða úrslita deildarbikarsins. Zlatan Ibrahimovic, Anthony Martial og Marcus Rashford byrjuðu allir inn á og ef það eitt og sér var ekki nóg til að knattspyrnuáhugamenn fái vatn í munninn þá veit ég ekki hvað. Stemmingin á vellinum var vægast sagt alvöru bikarstemmning og gífurlega spennandi kvöld. United spilaði í gráu varavarabúningunum í kvöld en eins og eldri stuðningsmenn muna eftir þá hefur grái liturinn ekki alltaf verið sú heilladís sem hönnuðir búninganna hafa vonast eftir. Kvöldið í kvöld var ekki undantekning á reglunni.
United byrjaði að pressa stíft en liðsuppstillingin sem José Mourinho virtist benda til þess að hann yrði með 3 miðvarða línu með Daley Blind, Marcos Rojo og Victor Lindelöf í byrjunarliðinu og Luke Shaw í vinstri bakverði og Matteo Darmian í þeim hægri. Fljótlega kom þó í ljós að Blind virtist vera ætlað meira miðjuhlutverk og því um 4 manna vörn að ræða.
Á bekknum hjá United voru þeir Joel Castro Pereira, Juan Mata, Romelu Lukaku, Chris Smalling, Jesse Lingard, Ander Herrera og Henrikh Mkhitaryan.
Á sama tíma virtist Bristol City vera í 4-4-2 (eða 4-4-1-1 þar sem Jamie Paterson var örlítið aftar á vellinum en Bobby Reid sem spilaði fremstur hjá þeim). Lið heimamanna var skipað þeim Luke Steele (markvörður), Bailey Wright, Aden Flint, Nathan Baker, Hörður Björgvin Magnússon, Josh Brownhill, Marlon Pack, Korey Smith, Joe Bryan, Jamie Paterson og Bobby Reid. Varamenn voru Frank Fielding, Matt Taylor, Niclas Eliasson, Lloyd Kelly, Zak Vyner, Arnold Garita, Connor Evans.
Pogba missti boltann snemma í leiknum og gaf aukaspyrnu af löngu færi sem okkar maður Hörður Magnússon virtist ætla taka en Brownhill tók að lokum spyrnuna, fast skot beint á Romero sem blakaði boltanum yfir markið. Úr horninu kom önnur hornspyrna sem United hreinsaði en vörnin virtist ekki eins örugg og undanfarnar vikur og varnarmennirnir áttu í basli með að bera boltann ofar á völlinn.
Á sama tíma voru Bristol City menn voru óhræddir við að spila boltanum og greinilegt að liðið var fullt af sjálfstrausti. Þeir spiluðu stutt út úr vörninni og voru öruggir og yfirvegaðir og alls ekki í neinum háloftabolta. Daley Blind, sem átti ekki sinn besta leik, tókst að missa boltann sem varð til þess að Bristol City komst í sókn sem hefði getað orðið meira úr en að lokum rann út í sandinn.
Stuttu síðar barst svo boltinn til Martial sem lék heimamenn grátt og átti svo sendingu á Zlatan sem átti skot að marki, en boltinn virtist fara af varnarmanni og þaðan í þverslánna og Bristol City stálheppnir að vera ekki lentir 1-0 undir strax á 12 mín. Þar fyrir utan virtist lítið í gangi en þó virkaði Martial í stuði, tók góða spretti allan leikinn. Í eitt skiptið tókst honum að skilja Bailey Wright eftir en skotið hans var blokkað. Pogba var fyrstur á boltana og sendi strax á Zlatan sem kassaði boltann niður fyrir Tominay sem átti fast viðstöðulaust skot yfir markið. Fín tilraun engu að síður.
Í fyrstu alvöru sókn heimamanna varð Darmian að bjarga í horn en úr henni átti landsliðsmaðurinn Hörður Magnússon skalla sem stefndi ekki á markið en Blind hreinsaði rétt út fyrir vítateiginn þar sem hinn lánlausi Luke Shaw gaf strax aukaspyrnu á stórhættulegum stað. Úr aukaspyrnunni skapaðist engin hætta og Shaw gat því andað léttar.
Fyrstu 20 mín frekar rólegar að öðru leyti en strax á 21. mín kom gott skot frá Rashford eftir gullfallegt spil fyrir framan vítateig heimamanna en skotið endaði í innanverðri stönginni. Aftur bjargar ramminn heimamönnum og virtist um leið þeirra besti varnarmaður.
Eftir þetta fóru Bristol-menn að færa sig ofar á völlinn og voru óhræddir að halda boltanum. Hörður átti þá magnaða sendingu þegar hann skipti yfir á hægri vænginn þar sem kantmaðurinn brunaði inn í teig og átti fyrirgjöf sem fór í höndina á Martial að því er virtist og við stálheppnir að fá ekki dæmt á okkur víti en í staðinn fengu þeir horn sem Romero greip auðveldlega, en þegar Romero gerði sig líklegan til að rúlla út boltanum þá steig Flint fyrir Romero og boltinn datt niður og Flint skoraði en markið réttilega dæmt af. Það kom samt ekki í veg fyrir að Flint fagnaði ógurlega við góðar undirtektir áhorfenda.
Pogba átti svo hreint út sagt unaðslega sendingu inn í vítateig á Rashford sem því miður tókst ekki að pota boltanum fram hjá markverðinum en ef honum hefði tekist það þá hefði markið verið dæmt af því línuvörðuinn var ranglega búinn að flagga Rashford rangstæðan.
Næst átti Hörður fast skot á Romero sem Romero tókst að verja í horn, Hörður að minna á sig og var einn besti maður Bristol fram til þessa. Aftur kom upp atvik þar sem heimamenn reyndu að trufla Romero í útsparkinu. Næst dróg til tíðinda þegar Pogba fékk boltann á vallarhelming Bristol, snéri af sér varnarmann og stakk boltanum á Zlatan sem náði ekki að nýta sér færið og úr varð fyrsta horn Unitedmanna. Úr því fékk Zlatan annað tækifæri en skaut boltanum í átt að gervitunglum. Elsku karlinn virkaði ansi langt frá sínu besta í dag sem og raunar fleiri.
Corey smith komst einn inn fyrir eftir innkast frá Herði og frábæra fleytisnertingu frá samherja sínum en Blind tókst að komast fyrir það sem virtist klárt mark með fullkominni tæklingu á elleftu stundu. Tempó leiksins jókst rétt fyrir leikhlé sem gerði það að verkum að leikurinn varð enn opnari og skemmtilegri og fyrstu 45 mínúturnar gáfu góð fyrrheit um spennandi og áhugaverðan síðari hálfleik. Það var síðan varla mínúta liðin af síðari hálfleik þegar fyrsta gula spjaldið kom eftir að Pogba tók snúninginn framhjá Paterson sem tók hann niður og uppskar fyrsta gula spjald leiksins.
Stuttu síðar átti Martial lipran sprett, missti boltann en vann hann strax aftur en Brownhill tók hann niður. Rashford tók aukaspyrnuna en úr henni skapaðist mikil hætta þar sem fyrirgjöfin fór af varnarmanni og stefndi beinustu leið inn en Steele í markinu var vandanum vaxinn og bjargaði í horn.
Eftir þetta fór að halla undan fæti hjá okkar mönnum, Rashford missti boltann á miðjunni og eftir frábært hlaup hjá Joe Bryan, sem vanalega spilar í bakverði en spilaði á kantinum í dag, komst hann inn fyrir vörn United og hamraði boltann framhjá Romero upp í markvinkilinn. Gersamlega óverjandi en við verðum að setja spurningarmerki við miðvarðarparið okkar þarna.
Aftur fengum við aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig sem Pogba fiskaði. Bæði hann og Zlatan stóðu yfir boltanum en það kom í hlut svíans að taka spyrnuna sem betur fer því sá sænski setti boltann á milli varnarmanna í veggnum. Verulega skrýtin uppstilling í veggnum og hægt að setja stórt spurningarmerki við markvörð Bristol einnig þar sem boltinn virtist skjótast á milli handa hans.
Stuttu síðar kom Lukaku inn fyrir Blind, sóknarsinnuð skipting hjá Mourinho sem var greininlega ekkert alltof kátur með gang mála, skiljanlega. Pogba átti síðan fljótlega eftir það enn eina gullsendinguna inn í vítateig Bristol, að þessu sinni frá eigin vallarhelming, þar sem Belginn var kominn einn inn fyrir en mistókst að ná boltanum með sér og færið rann út í sandinn.
Á 66. mín var Henrik Mkhitaryan að gera sig kláran á hliðarlínunni en á sama tíma átti Hörður langt innkast sem Romero kom út í en mistókst að hitta boltann en blessunarlega tókst Flint ekki að stýra boltanum á markið sem stóð autt og opið eftir skógarhlaup Romero. Nú var hiti farinn að færast í leikinn og menn farnir að láta finna vel fyrir sér en þá fóru Zlatan og Hörður báðir útaf og inná komu Niclas Eliasson og Henrik Mkhitaryan. Fyrsta sóknin sem Mkhitaryan tók þátt í kom á 71. mín þar sem Lukaku kassaði niður boltann hann en Mkhitaryan renndi stungusendingu á Lukaku aftur sem átti gott skot sem Steele í marki Bristol varði.
Luke Shaw vann boltann vel á eigin vallarhelming og stakk boltanum umsvifalaust langt fram völlinn á Rashford sem var kominn í kjörstöðu til að renna boltanum á Lukaku sem var einn og óvaldaður hinu megin í vítateignum en tók aukasnertingu sem gaf Bryan tíma til að renna sér fyrir sendinguna og þar með bægja hættunni frá. Rashford langt frá sínu besta og í pirringskasti tæklaði Rashford Bryan og uppskar gult spjald fyrir.
Enn og aftur átti Pogba frábæra sendingu (deja vu?) inn fyrir vörn Bristol City þar sem belginn okkar var mættur og skallaði boltann fjær hornið sem Steele þurfti að hafa sig allan við að verja. Þegar hér var komið við sögu var pressa United farin að aukast. Hins vegar voru Bristol menn alltaf hættulegir þegar þeir komust upp völlinn og áttu sókn þar sem Paterson lék sér að Darmian, dansaði framhjá honum og setti boltann rétt yfir markið. Enn og aftur virkaði aftasta lína United óörugg og það eitt og sér gaf heimamönnum von.
Pogba fékk síðan sannkallað dauðafæri eftir falleg spil við Lukaku og Mkhitaryan sem endaði með því að hann komst einn inn fyrir vörnina en missti boltann að lokum of langt frá sér og markmaður Bristol var snöggur niður og náði boltanum á undan honum. Enn önnur hættuleg sending pogba kom stuttu seinna þegar hann setti boltann fyrir markið en Rashford náði ekki til boltans. Hins vegar hélt sóknin áfram og eftir að skot Mkhitaryan var blokkað vann hann skallaeinvígi við varnarmenn Bristol, ótrúlegt en satt, og boltinn barst til Pogba sem gerði vel í því að ná lúmsku skoti sem Steele náði með herkjum að blaka í horn. Inn vildi boltinn hreinlega ekki.
Flestir leikmenn United hafa eflaust verið farnir að huga að framlengingunni í uppbótartíma enda lítið að gerast þegar Korey Smith fær boltann, fer fimlega með hann framhjá miðjumönnum United, sendir á liðsfélaga sinni og tekur hlaup inn fyrir þyrnirósarvörn United, fær boltann aftur á kassann og kórónar kvöldið með því að kloppar argentíska óöryggið í markinu og sendir Bristol í undanúrslitin þar sem liðið mætir Manchester City á erfiðum útivelli.
Hugleiðingar eftir leik
Það eru fjöldinn allur af punktum sem hægt er að taka til umræðu eftir þennan leik. Fyrir þær Pollýönnur sem sjá alltaf ljósgeislann í myrkrinu þá er hægt að leiða hugann að því að United hafi losnað þarna við hugsanlega erfiða leiki gegn stóru liðunum, það mun ekki þurfa að færa til deildarleiki og Luke Shaw, Scott McTominay og Zlatan Ibrahimovic fengu allir dýrmætar mínútur og armenski frostpinninn var líflegur að sjá þó honum hefði mistekist að setja mark sitt á leikinn.
En af nóg er að taka ef við ætlum að einblína á það sem betur hefði mátt fara. Fyrir það fyrsta var vörnin út um allt og virkaði óskipulögð, ósamræmd og ekki í takt. Það virtist vanta alla leiðtogahæfileika í þessa varnarlínu og ekki hjálpaði til að Romero virkaði stressaðari en nokkurn tímann áður. Sú yfirvegun sem liðið hefur sýnt með því að spila út úr vörninni við nánast hvaða aðstæður sem er var hvergi sjáanleg og auðséð að liðið saknaði manna á borð við Antonio Valencia, Ashley Young, Chris Smalling og Phil Jones. Eins átti Rashford mjög dapran dag, ekkert virtist ganga upp hjá kauða og hann virkaði klaufskur og seinn og var langt frá sínu besta.
Annað sem hægt er að telja sem neikvæðan hlut er munur á liðinu með og án Paul Pogba. Vinnusemi, líkamlegur styrkur, leikskilningur, yfirsýn og sendingargeta hans er hreint út sagt óbætanlegt. Hann átti trekk í trekk magnaðar sendingar inn fyrir vörn Bristol City en engin þeirra nýttist. Munurinn á liðinu er gígantískur og það er vandamál sem José Mourinho þarf að líta betur á. Nú er hafin leikjatörnin yfir hátíðirnar og verður meira púðri eytt í aðrar keppnir. Svo er janúarglugginn framundan og verður forvitnilegt að sjá hvort Mourinho telji að hann þurfi að koma inn með ný nöfn til að færa meira jafnvægi í hópinn. Bikarævintýri United er á enda en næsti deildarleikur er svo gegn Leicester City á útivelli á Þorláksmessu klukkan 15:00.
Karl Garðars says
Ekkert nema gott um þetta að segja. Hefði jafnvel mátt hafa fleiri pjakka á bekknum.
Joi says
Skildi Móri vera búinn að vinna leikinn áður en hann byrjar miða við uppstillinguna.
Karl Garðars says
Jæja, út af með eins og einn miðvörð.
Bjarni says
Æfa fyrirgjafir og horn.
Blue Moon says
Móri mætti með hálfa byrjunarliðið en gleymdi að taka með gameplanið. Skelfilegur leikur hjá United.
Karl Garðars says
Hahaha þvílík skita. Verðskuldað hjá Bristol. Þeir vildu vinna þennan leik á meðan hinir nenntu þessu alls ekki. Algjört metnaðarleysi.
Bjarni says
Þetta kom ekkert á óvart, einbeitingarleysi í slatta af færum, lélegar sendingar sem hefðu getað skapað eitthvað, slappar hornspyrnur og svo arfaslakur varnarleikur. Fá mark á sig í uppbótartíma eftir að hafa klúðrað fjölmörgum færum er stundum lýsandi fyrir þessa íþrótt. Skítur skeður og vonandi góð lexía fyrir framhaldið. Vona að leikmönnum sé ekki sama um svona úrslit því þau geta haldið áfram að koma.
Kjartan says
Það vita margir að Darmian getur ekki sótt fram á völlinn en hann virðist ekki heldur geta varist, hver er eiginlega tilgangurinn með þessum leikmanni?
Hvað er málið með þessar hornspyrnur sem ætluðu aldrei að drífa framhjá nærstönginni?
Bristol átti sigurinn skilið, taktískt þá var þeirra uppstilling mun betri en það sem Móri hafði upp á bjóða.
Auðvitað er maður drullufúll en það var samt skemmtilegt að fylgjast með stemningunni í lok leiks hjá Bristol, þetta er eitthvað sem þeir eru ekki vanir.
Joi says
Eins og í öllum leikjum sem einhver mótstaða er eingar lausnir hjá Móra ekki stjórnandi að mínu skapi og hefur alldrei verið og verður alldrei mætti fara min vegna kanski fengum við skárri stjóra,drulluðum á okkur á móti Bristol City sköm.
Hjöri says
Hvað kostaði Pogba 80 millur eða svo í puntum talið, ætli Bristol liðið nái þeirri upphæð? Stór efa það, á maður þá ekki að gera kröfu á að liðið vinni svona leiki?
silli says
Gaman að horfa á þennan ekta bikarleik, þar sem minna liðið gaf ALLT í leikinn, allir leikmenn vissu nákvæmlega hlutverk sín og börðust eins og ljón. BC minnti mig ansi mikið á landsliðið okkar, og hvernig „við“ tækluðum EM.
Þó ég hafi verið eld-heitur Manchester United stuðningsmaður í 27 ár, og finnst þess vegna glatað að hafa tapað þessum leik, þá get ég alls ekki verið allt of leiður yfir úrslitunum – Liðið með stóra hjartað vann!
GGMU