Þá er röðin komin að því að bjóða Sean Dyche og lærlinga hans í Burnley í heimsókn á Old Trafford á annan í jólum en þá fara fram átta leikir í ensku úrvalsdeildinni. Segja má að bæði lið séu að sleikja sárin eftir síðustu leiki. United datt út á móti Bristol City í deildarbikarnum fyrir viku síðan og tapaði dýrmætum stigum á afar grátlegan hátt á móti 10 leikmönnum Leicester á Þorláksmessu.
Burnley aftur á móti steinlá á heimavelli gegn Tottenham þar sem Harry Kane setti þrennu. Bæði lið hljóta því að líta á þennan leik sem leið til þess að endurheimta sjálfstraustið og mikið undir hjá báðum liðum. United er einungis þremur stigum á undan Chelsea sem er í 3. sætinu og Burnley menn vilja eflaust ólmir komast aftur á sigurbraut og halda sér í baráttu um evrópusæti en liðið var lengi vel í 4. sæti.
United
Ef við horfum blákalt á staðreyndir þá gefur auga leið að liðið hefur ekki verið að spila eins vel og það gerði í upphafi leiktíðar og svo virðist sem leikgleðin, krafturinn og baráttuandinn í liðinu sé ekki sá sami og hann var. Nú er jólatörnin byrjuð af krafti, engir bikarleikir eða meistaradeildarleikir í bráð og José Mourinho neyðist til að gera mikið af breytingum á liðinu sínu eins og sást í síðasta leik þegar Lindelöf spilaði í hægri bakverði. Þetta ætti því að vera tilvalinn tími fyrir hvern þann leikmann, sem hefur ekki fengið margar mínútur í deildinni í ár, til þess að grípa tækifærið og sýna hvað í honum býr.
Leikmenn eins og Luke Shaw, Alex Tuanzebe, Scott McTominay auk eldri leikmanna á borð við Zlatan Ibrahimovic og Henrik Mkhitaryan gætu reynt að dusta af sér rykið og komast í gott leikform. Það eru einnig nokkrir sem hafa ekki verið að nýta þau tækifæri sem þeir hafa fengið, Romero, Blind og Darmian voru engan veginn á pari fyrir jól og Rashford hefur verið langt frá sínu besta í síðustu leikjum.
Þegar kemur að liðsuppstillingunni tel ég að nokkrir einstaklingar velji sig hreinlega sjálfir, Nemanja Matic, David de Gea, Phil Jones, Romelu Lukaku verða líklega allir í byrjunarliðinu og að sjálfsögðu Paul Pogba sem hefur ekki tapað á Old Trafford síðan í september 2016. Restin af vörninni skipar sig ekki alveg sjálf. Smalling þurfti að klára síðasta leik meiddur og alls kosta óvíst hvort hann geti spilað og Lindelöf þótti ekki gífurlega sannfærandi í hægri bakverðinum. Því væri tilvalið að gefa Alex Tuanzebe tækifærið í þeirri stöðu á morgun. Michael Carrick, Marouane Fellaini, Eric Bailly og Antonio Valencia eru enn allir meiddir og óvíst hvenær við fáum að sjá þá aftur á vellinum.
Burnley
Ef nokkur maður hefði misst út úr sér á síðustu leiktíð að hann teldi að Burnley hefði átt möguleika á því að koma á heimavöll United og sækja þangað stig er líklegt að hlegið hefði verið að honum, svo slæmt var gengi Burnley á útivelli. Þeim tókst aðeins að vinna Crystal Palace á útivelli og 14 töp og 4 jafntefli þýddi að þeim tókst einungis að landa 7 stigum af 57 mögulegum í þeim viðureignum.
Embed from Getty Images
Hins vegar átti Tom Heaton hreint út sagt magnaðan leik í markinu þann daginn, þar á meðal átti hann afar sérstaka og eftirminnilega sprelligosamarkvörslu eftir skot frá Zlatan af stuttu færi. United tókst ekki að skora í leiknum og endaði leikurinn 0:0 sem þýddi að eitt af þessum örfáu útivallastigum sem Burnley tókst að krækja í á síðustu leiktíð kom þegar liðin mættust á Old Trafford. Leikurinn var samt ekki leiðinlegur en glöggir stuðningsmenn muna eflaust eftir því að United átti 38 marktilraunir en inn vildi boltinn ekki. United á því harm að hefna frá því í fyrra.
Nú hefur Sam Dyche samt heldur betur snúið við blaðinu hjá Burnley frá síðustu leiktíð en liðið hefur einungis tapað tveimur útileikjum í vetur, gegn Manchester City og Leicester City. Liðið hefur náð í stig á Anfield og White Hart Lane og tókst meira að segja að ná í öll stigin í ógleymanlegum leik á Stamford Bridge í fyrstu umferðinni.
Sam Dyche var klókur á leikmannamarkaðinum í sumar þegar seldi þá Michael Keane og Andre Gray og fékk í þeirra stað Chris Wood, Phil Bardsley og Jack Cork ásamt fleirum. Liðsheildin hjá Burnley er orðin mun betri og vörnin talsvert þéttari en sem dæmi má nefna að fram að leiknum gegn Tottenham höfðu þeir bara fengið á sig 12 mörk sem var jafnmikið og United og City.
Jóhann Berg Guðmundsson hefur líka verið að blómstra það sem af er þessari leiktíð undir stjórn Dyche og er íslenski landsliðsmaðurinn komin með fimm stoðsendingar og einungis fjórir leikmenn í allri deildinni sem hafa fleiri stoðsendingar en hann og þar af eru þrír úr City. Þetta væri kannski ekki jafn áhugavert ef ekki væri fyrir þá staðreynd að Burnley hefur aðeins skorað 16 mörk í deildinni á meðan City hefur skorað 60 á sama tíma. Jóhann Berg er greinilega staðráðinn í að festa sæti sitt í byrjunarliði Íslands fyrir HM í Rússlandi og verður verðugt verkefni að halda honum í skefjum á morgun. En ef við lítum á mögulega uppstillingu Burnley á morgun þá gæti hún litið út eitthvað í líkingu við þetta:
Chris Wood haltraði af vellinum í leiknum gegn Tottenham en hann er stórt spurningarmerki, James Tarkowski er enn í leikbanni og þeir Robbie Brady og Tom Heaton, sem átti sannkallaðan draumaleik síðast á Old Trafford, eru báðir ennþá frá vegna meiðsla.
Ef við lítum aðeins á tölfræðina þá sést að hún er hliðholl okkar mönnum. Við höfum unnið 19 af 23 úrvalsdeildarviðureignum okkar á annan í jólum sem er um 83% vinningshlutfall og besti árangur allra liða í keppninni, ekki amalegt það. Að sama skapi höfum við ekki tapað deildarleik á heimavelli fyrir Burnley síðan 1962, síðan þá höfum við gert fimm jafntefli og sigrað átta viðureignir en þar að auki hefur Paul Pogba ekki tapað deildarleik síðan 23. október 2016 en þessi taplausa deildarleikjahrina hans telur eina 20 sigra og 11 jafntefli.
Embed from Getty Images
Þrátt fyrir það hefur þetta ekkert með leikinn á morgun að gera, einungis um skemmtilegar staðreyndir að ræða, því það má heita næsta víst að Jóhann Berg og félagar mæta dýrvitlausir í leikinn á morgun eftir útreiðina gegn Tottenham og má búast við mjög erfiðum baráttuleik. Vonandi mæta okkar menn aðeins vitlausari en Burnley menn eftir grátlegt jafntefli við Leicester fyrir jól.
Glory, glory!
Skildu eftir svar