Manchester United hefur gengið frá félagaskiptum Alexis Sánchez frá Arsenal.
Sánchez hefur verið langbesti leikmaður Skyttnanna frá því að hann var keyptur frá Barcelona sumarið 2014 eftir HM í Brasilíu. Sterkur orðrómur er búinn að vera um að þessi öflugi landsliðsmaður Síle myndi ganga til liðs við Josep Guardiola hjá Manchester City en í ekkert varð af þeim kaupum. Samningur Sánchez er til 4½ árs og er samkvæmt sögusögnum ansi ríflegur, enda þarf ekki að greiða Arsenal fyrir hann nema sem nemur matsvirði Henrikh Mkhitaryan, sem er nú líklega í kringum 15 milljónir punda, þar sem um slétt skipti á leikmönnum er að ræða.
Alexis Sánchez
Alexis Sánchez er fæddur 19. desember 1988 og er því nýorðinn 29 ára. Hann gekk til liðs við Udinese aðeins 17 ára gamall en var lánaður fyrstu tvo veturna, fyrst aftur heim til Síle þar sem hann lék með Colo-Colo og hjálpaði þeim að meistaratitli. Því næst var hann lánaður til argentínsku risanna í River Plate. Þeim gekk ekki vel í fyrra móti vetrarins en urðu meistarar í Clausura mótinu eftir jól.
Þá var kominn tími að spila fyrir Udinese og hann var fastamaður þar í þrjú ár og var síðan seldur fyrir metfé fyrir Sílemann til Barcelona sumarið 2011. Þar lék hann þrjú tímabil, á því fyrsta undir stjórn Pep Guardiola var hann nokkuð meiddur og þó hann hafi byrjað marga leiki var hann tekinn útaf í stórum meirihluta þeirra.en seinni tvö gengu mun betur og Barcelona varð meistari annað þeirra. Alexis spilaði í öllum framherjastöðunum, oftast með Messi og David Villa í hinum tveimur. Eftir að Barcelona missti af titilinum til Atlético síðasta ár Alexis þar, var Neymar keyptur og þá var Alexis ofaukið og hann var seldur til Arsenal sumarið 2014. Þó hafði hann síðasta tímabil sitt hjá Barcelona skorað flest mörk á ferlinum, 19 í deild.
Embed from Getty Images
Hjá Arsenal hefur hann verið lykilmaður og átti sitt besta tímabil í fyrra þegar hann skoraði 24 mörk í deild.
Hann hefur þó aldrei verið alveg ánægður hjá Arsenal sem kom í ljós þegar hann neitaði framlengingu á samningnum sem runnið hefði út í sumar og því hefur verið ljóst í nokkurn tíma að hann væri á förum. Fyrst og fremst var það meint metnaðarleysi Arsenal sem sveið og sagt er að leikur Arsenal í München í fyrra þegar Arsenal var kjöldregið af Bayern, 5-1, hafi verið síðasta hálmstráið.
Það virtist alltaf vera klappað og klárt að hann færi til Manchester City, og félagið var nálægt því að kaupa hann í fyrrasumar en af því varð ekki. Því var einungis beðið eftir því að hann yrði annað hvort seldur þangað nú í janúar eða færi frítt í sumar. En í síðustu viku barst allt í einu orðrómur um að United væri komið í spilið og að ætlaði að stela honum. Það hefur nú gengið eftir, City gaf eftir enda United ákveðið í að greiða verð og laun sem Alexis þætti ásættanleg. Þegar litið er á að City er vel búið sóknarmönnum kom ekki á óvart að þeir ákvæðu að fara ekki hærra í launum, en það þarf ekkert að ímynda sér að City hafi tapað þessu kapphlaupi eingöngu út á peninga. Alexis lék sem fyrr segir eitt tímabil hjá Guardiola hjá Barcelona, og það fer alveg tvennum sögum af því hversu vel þeim hafi samið. Einnig má alveg sjá það að Alexis getur verið alveg viss um sæti sitt í liði United ef hann leikur eins og hann á að sér að vera, en samkeppnin hefði vissulega verið meiri hjá City.
Þetta þýðir það að United er komið með framherja sem getur spilað í öllum hugsanlegum stöðum framlínunnar, vinstra megin, í holunni og hægra megin og jafnvel sem framherji eða fölsk nía ef því er að skipta. Vangaveltur um að hann sé fyrst og fremst vinstri kantur og muni því ýta Anthony Martial úr liðinu hafa verið uppi en sagt er að Mourinho hugsi fyrst og fremst um hann sem hægri kant, enda hefur sú staða verið meira til vandræða í vetur. En eins og fyrr segir þarf ekkert að ímynda sér annað en að með Alexis Sánchez sé United komið með einn leikmann í viðbót sem er algerlega öruggur með sæti sitt í liðinu.
Hann mun styrkja sóknina gríðarlega og ekki síst í Meistaradeildinni, enda má hann spila með United þar þó hann hafi leikið í Evrópudeildinni í haust.
Við fögnum komu Alexis Sánchez!
Henrikh Mkhitaryan
Samkvæmt samkomulagi félaganna fer Henrikh Mkhitaryan í hina áttina. Armeninn gekk til liðs við Manchester United sumarið 2016 og hefur gengið hjá honum verið upp og niður. Armeninn hefur vissulega sýnt brot af snilli sinni af vellinum og átti að öðrum ólöstuðum stærstan þátt í Evrópudeildartitli Unite síðasta vor, skoraði sex mörk í keppninni, þar af fimm í útsláttarhlutanum.
Þetta tímabil hefur verið hins vegar verið ein vonbrigði en Armeninn hefur ekki leikið vel síðan í ágúst.
Við óskum honum til hamingju með afmælið í gær og óskum honum góðs gengis hjá Arsenal og efumst ekki um að hann eigi að standa sig þar, ekki ólíklegt að hann falli betur að stjórastíl Arsène Wenger en José Mourinho.
Bjarni says
Glæsilegar fréttir, bind miklar vonir að hann hrúgi inn mörkum fyrir okkur, skapi annað eins og að ungu leikmennirnir okkar geti lært eitthvað af honum. Einn besti framherji í bransanum segir stjórinn og ætti því að nýtast okkur vel og gott betur en það. Til lukku utd menn og konur, sóknarþunginn er kominn til að vera.
Rúnar P says
Ég segi velkominn heim Alexis og bless Mikki, ég mun þó sakna þín Mikki minn ;)
Karl Garðars says
Ég er einhvern veginn ekki að ná utan um þetta allt saman og á örugglega eftir að pissa á mig úr spenningi þegar ég sé hann koma inn á í sínum fyrsta leik fyrir klúbbinn.
einarb says
Stórkostleg kaup, vel spilað Mourinho og herra Woodward! Hrein bítti við Mkhi, svakalegt!
Helvíti spennandi þrenna frammi með Martial – Lukaku – Sanchez. Þetta mun vissulega bitna á spilatíma fyrir ‘local’ leikmennina Lingard og Rashford en fjandinn hafi það, þarna er kominn *heimsklassa* leikmaður á besta aldri. Það er vonandi að þetta verði vendipunktur á tímabilinu okkur í dag.
Maður finnur til með Wenger að missa sinn besta leikmann til erkifjenda en það er töluverð þórðargleði í að horfa á ArsenalFanTV þessa daganna (https://www.youtube.com/watch?v=92vgIJLCkX8). En þeir fá vissulega mjög góðan leikmann í Mkhitaryan í stað þess að fá skíttar 20m frá City, sem duga skammt á núverandi markaði.
Loksins, loksins er kominn leikmaður sem smellpassar í Sjöuna #Alexis7
EgillG says
Ég er nokkuð sammála Karli Garðars með þetta. næstu leikir verða mjög spennandi að sjá hvernig Alexis mun passa inní liðið.
Karl Garðars says
Vill ekki einhver púðludindill koma hingað núna og tala við okkur um bilið sem var að styttast… YN🖕A
Cantona no 7 says
Velkominn .
Vonandi á hann eftir að smellpassa í framlínuna hjá okkur.
G G M U
Georg says
@Karl Garðars lol nákvæmlega það sem ég var að hugsa, en nei…þeir/sigkarl eru að sleikja sárin eftir Swansea leikinn.
Frábært að fá Sanchez en maður setur spurningu við launapakkann og orðróminn um að launastrúktúr sé í uppnámi. Nú er bara að vona að Sanches smelli í liðið og að skemmtanagildi snarhækki
Björn Friðgeir says
Höfum engar áhyggjur af launum. traustar heimildir segja 300þ/viku, svipað og Pogba.
Auðvitað fær hann ríkulegan bónus við undirskrift, en það er beintengt því að hann kemur mjög ódýrt (Mkhitaryan er metinn á sirka 16 milljónir í reikningum félagsins og það er skipt á sléttu.
Audunn says
Fagna þessum kaupum og vonandi færa þau okkur aukin hraða, hugmyndarflug og kraft í sóknarleik liðsins. Ekki veitir af!
United með þennan mannskap í framlínu ásamt Pogba ætti að mér finnst að vera eitt svaðalegasta sóknarlið í heiminum. Það eru ekki mörg lið sem geta státað sig af annari eins sóknarlínu og United eftir þessi kaup.
Þá er bara að krossleggja fingur og vonast til þess að liðið fari nú að huga meira að sóknarbolta og minna svona Park The Bus fótbolta. Leikmaður eins og Sanchez mun ekki nenna svoleiðis rugli lengi, hann er bara þannig týpa.
Til að fullkomna liðið ennþá meira þá væri gjörsamlega geggjað að versla einn miðjumann líka, einhvern gæða leikmann eins og Jean Michael Seri. Það myndi heldur betur styrkja liðið mikið.
En ég er bjartsýnn á að þetta sé að koma með þessum kaupum á Sanchez, hann er hluti af púsluspilinu og annað skref í rétta átt.
Halldór Marteins says
Hefurðu séð Seri spila, Auðunn?
Er á SMS vagninum sjálfur. Hef ekkert séð til Seri en held þó að Seri sé töluvert öðruvísi leikmaður. En alveg klárt að heimsklassa miðjumaður (eða tveir) er það sem vantar næst.
Audunn says
Hef ekki séð mikið til hans en þó eitthvað smá.
Hann er einn af þessum leikmönnum sem maður heillast strax af, ekki ósvipað og þegar ég sá t.d NGolo Kante fyrst, það var strax eitthvað varið í hann að mér fannst.
Seri er duglegur leikmaður með góða tækni, það sem ég hef séð til hans þá er hann mjög góður á boltanum, skynsamur, sterkur, snöggur og með góða sendingargetu.
Þeir tveir eru samt ekkert líkir þannig, Kanté er meiri tæklari og varnarsinnaðri á meðan Seri er meiri miðjusóknarmaður en hann getur líka spilað sem svokallaður dmc.
Eini gallinn við hann er sá að hann er mjög lágvaxinn fyrir miðjumann í Ensku deildina, held að hann sé bara í kringum 165 cm.
En áður umtalaður Kanté er líka álíka lágvaxinn og við höfum séð hvað hann getur þannig að það kemur kannski ekki að sök.