…
“Lads it’s Tottenham” ⚽️ pic.twitter.com/85Qq79TmIJ
— Runólfur Trausti Þórhallsson (@Runolfur21) October 28, 2017
Á morgun, klukkan 20:00, fer José Mourinho með drengina sína, og okkar, í heimsókn á Wembley þar sem þeir munu mæta Harry Kane-liðinu eða Tottenham Hotspur eins og þeir kallast víst í daglegu tali. Að öllu gamni slepptu þá er þetta risa stór leikur og gæti hann haft mikil áhrif á komandi vikur hjá báðum liðum.
Mikilvægi leiksins
Það þarf ekkert að fara í felur með það að þessi leikur er algjör Must Win leikur fyrir bæði lið. Á meðan okkar menn eru í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 53 stig þá eru Tottenham í 5. sæti með 45 stig. Sigur þýðir sum sé að það séu 11 stig niður í 5. sæti og þó svo að maður vilji að United horfi upp töfluna þá er mjög gott að vita að bilið niður í 5. sæti, og þar af leiðandi út úr Meistaradeildarsæti, sé allavega meira en 2-3 leikir. Svo þurfa okkar menn auðvitað sigur til að halda pressunni á nágrönnunum í Manchester City ef það vill svo til að þeir misstígi sig á komandi vikum.
Hvað varðar heimamenn í Tottenham þá þurfa að sjálfsögðu sigur til að halda í við liðin fyrir ofan sig og eiga möguleika á Meistaradeildarsæti að ári en þeir eru aðeins tveimur stigum á eftir Liverpool í 4. sætinu og fimm stigum á eftir Chelsea í 5. sætinu. Svo vilja þeir eflaust ekki tapa öðrum leiknum á tímabilinu gegn United en eins og flestir ættu að muna þá vann Manchester United 1-0 sigur á Old Trafford er liðin mættust þar í október síðastliðnum.
Tottenham menn hafa mikið talað um að það hafi vantaði Harry Kane í téðan 1-0 sigur og voru fjölmiðlar uppfullir af því eftir leikinn. Það gleymdu hins vegar allir að Paul Pogba var hvergi sjáanlegur í liði Manchester United sem gerir sigurinn enn sætari en eins og við vitum öll þá á United oft á tíðum mjög erfitt með að spila án Frakkans síkáta.
Mótherji morgundagsins
Gengi Tottenham á tímabilinu hefur verið gott þó leikmenn og stuðningsmenn séu eflaust ósáttir með að vera í 5. sæti sem stendur. Þeir byrjuðu árið mjög vel en þeir unnu Swansea City 2-0 og Everton 4-0. Svo virðist sem einhver vírus hafi látið á sér kræla á æfingasvæði félagsins en Hugo Lloris og Christian Eriksen hafa báðir verið veikir undanfarna daga. Þeir tvímenningar misstu til að mynda af 1-1 jafnteflum Tottenham gegn Southampton og Newport County. Einnig hafa Danny Rose, Serge Aurier, Erik Lamela og Harry Winks misst af síðustu leikjum en þeir ættu allir að vera orðnir leikfærir fyrir leik morgundagsins.
Maurico Pochettino hefur aðeins hringlað með leikaðferð Tottenham á nýju ári en þeir hafa bæði spilað 4-3-3 sem og 3-4-1-1 útfærsluna Pochettino elskar.
José Mourinho, og fjölmiðlar, hafa verið duglegir að tengja United og Tottenham saman nýverið en Mourinho ku hafa sagt að Pochettino ætti að vera næsti stjóri Real Madrid. Svo hefur United verið orðað við Danny Rose ítrekað undanfarin misseri – eða allt þangað til Luke Shaw fór að spila eins og engill í desember mánuði. Rose hefur verið duglegur að ýta undir orðrómana sjálfur þar sem hann virðist vilja fara frá Tottenham til þess að fá feitari launatékka inn um lúgina í byrjun hvers mánaðar.
Að spá fyrir um byrjunarlið Tottenham er erfitt á þessum tíma en undirritaður myndi ekki gráta það ef Christian Eriksen myndi missa af leiknum.
Okkar menn
Eftir þrjú jafntefli í desember mánuði þá hafa okkar menn heldur betur rifið sig í gang og unnið síðustu 5 leiki og haldið hreinu í þeim öllum. Án þess að fara of djúpt í gengi liðsins á þessu ári þá er vert að nefna 4-0 sigur liðsins á Yeovil Town í FA-bikarnum um helgina þar sem það var fyrsti leikur Alexis Sanchez fyrir Manchester United.
Þessi félagaskipti gætu haft mikil áhrif á tímabilið hjá okkar mönnum en þó svo að Henrikh Mkhitaryan sé góður leikmaður þá var ljóst að Mourinho treysti honum ekki og svo er hann hreinlega ekki í sama gæðaflokki og Sanchez.
Meiðslalistinn er svipaður og síðustu vikur en Eric Bailly er enn frá, Zlatan Ibrahimovic er að vinna í sínum málum en hann virðist ekki vera alveg tilbúinn í átök ensku úrvalsdeildarinnar. Svo er Daley Blind sömuleiðis á meiðslalistanum en hann ætti að vera kominn aftur á ról í næstu viku.
Flestir lykilmenn liðsins fengu frí gegn Yeovil en Sanchez byrjaði sinn fyrsta leik ásamt því að Luke Shaw spilaði 90 mínútur í vinstri bakverðinum. Þá komu Lingard og Lukaku komu inn af varamannabekknum en þeir kumpánar skoruðu báðir í leiknum. Martial, Pogba, Matic, Smalling, Jones og Valencia fengu allir frí. Þannig að stærsta spurningin fyrir leikinn annað kvöld er hvort Mourinho ætli að spila 4-3-3 eða hvort hann fari í þriggja manna varnarlínu – það byggist væntanlega á því hvort Mourinho haldi að Tottenham muni spila með þriggja manna varnarlínu eða ekki.
Að lokum er svo stóra spurningin: Byrjar Alexis Sanchez leikinn?
Svarið er mjög einfalt: Já.
Persónulega reikna ég með því að hann komi inn fyrir Juan Mata þar sem sá spænski spilaði 90 mínútur gegn Yeovil. Hvort Sanchez verði hægra megin eða miðsvæðis verður að koma í ljós en liðið á morgun verður eflaust líkt þessu hér að neðan. Spá leiksins er svo 3-1 sigur þökk sé mörkum frá Sanchez, Lingard og Lukaku.
Jón Sæm says
Hrikalega spenntur fyrir þessum leik! Sérstaklega spenntur að sjá Sanchez spila með okkur gegn alvöru andstæðingi og með meistara Paul Pogba!
Held líka að nýja sjöan okkar eigi eftir að búa til fleiri færi fyrir risann okkar Lukaku.. þá er spurningin.. á hann eftir að nýta þau?
Karl Garðars says
Sammála. Ég var að lesa upphitunina með hnút í maganum þegar ég skrollaði niður á myndina af nýju 7unni og hugsaði samstundis: siiijittt hvað þetta voru rosaleg kaup í svo marga staði. Maður trúir þessu varla enn.
Þetta verður einn mikilvægasti leikur tímabilsins og ég vona að okkar menn mæti með læti.
Björn Friðgeir says
Ritstjórn er öll á kafi í öðru og enginn tími fyrir gluggafærslu en endilega dúndrið inn slúðri í tilefni dagsins:
MEN vill halda því fram að United sé að íhuga að bjóða í Mahrez og sé líka að skoða Fred, sem átti jú að fara til City núna í janúar en fór í bið útaf meiðslum Sané.
Þetta er auðvitað hvort tveggja bull :D
Halldór Marteins says
Það væri óneitanlega nokkuð fyndin innkaupastrategía að vinna markvisst að því að stela leikmönnum sem City hefur áhuga á :D en ég hef ekki mikla trú á að einhver komi inn í dag. Helsta sem gæti gerst er að Blind fari til Ítalíu.
Bjarni says
Hef trú á opnum og flæðandi sóknarleik beggja liða í kvöld. Varnarmenn liðanna verða ekki öfundsverðir og úrslitin ráðast á dagsforminu sem er frekar leiðinlegur frasi. Frábærir skapandi einstaklingar í báðum liðum ætti að tryggja góða skemmtun og þó við höfum nælt í Sanchez til frambúðar þá er ekkert gefið fyrirfram. Bíð spenntur eftir liðsuppstillingunni, sérstaklega varnarlega, og vona innilega að menn þar á bæ verði með fókusinn í lagi.