Tottenham Hotspur vann sinn laugardagsleik gegn Huddersfield Town með tveimur mörkum gegn engu. Liverpool vann svo sinn leik seinni part laugardags gegn Newcastle United, einnig með tveimur mörkum gegn engu. Chelsea náði hins vegar ekki að vinna sinn sunnudagsleik heldur tapaði gegn verðandi meisturum Manchester City. Fyrir þennan leik Manchester United gegn Crystal Palace þá er því Liverpool aftur komið uppfyrir United í töflunni, Tottenham er aðeins einu stigi frá United en Chelsea áfram sex stigum á eftir. Það er því dauðafæri að slíta sig frá fimmta sætinu og koma muninum upp í 9 stig með 9 leiki eftir.
Við fáum mánudagsleik í þessari umferð og svo er enginn leikur í miðri viku þannig að næsti leikur á eftir þessum verður stórleikurinn gegn Liverpool. En fyrst er það Crystal Palace á Selhurst Park. Dómarinn í þeim leik verður Neil Swarbrick og leikurinn hefst kl. 20:00.
Við minnum á 49. þátt Djöflavarpsins sem kom út í vikunni.
Crystal Palace
Crystal Palace byrjaði leiktíðina afspyrnuilla. Tapaði fyrstu sjö leikjunum í röð án þess að ná að skora mark, tapaði samtals 9 af fyrstu 11 og liðið virtist ætla að setja einhvers konar met í því hversu snemma það myndi ná að tryggja sér farseðil niður í Championship deildina. En stjóraskiptin í september, þar sem Frank de Boer vék fyrir Roy Hodgson, hafði á endanum áhrif og liðið fór að finna mörk og stig ásamt því að verjast betur en það hafði gert til að byrja með. Palace náði m.a.s. að koma sér alla leið upp í 12. sætið eftir að hafa litið út fyrir að hafa eignað sér botnsæti deildarinnar.
Síðustu vikur hafa svo aftur orðið ansi erfiðar hjá félaginu, í síðustu 5 umferðum er uppskeran aðeins 2 stig og fyrir leikinn gegn Manchester United er ljóst að Crystal Palace þarf að vinna leikinn ef það ætlar ekki að fara aftur í fallsæti, eftir að hafa verið fyrir ofan fallsætin frá miðjum desember.
Margir okkar United stuðningsmanna hafa eflaust tuðað og pirrað sig á meiðslavandræðum United síðustu vikur. Það á þó lítið í ástandið hjá Crystal Palace, þar sem 13 leikmenn eru nú skráðir á meiðslalista félagsins. Það munar ansi mikið um það, sérstaklega um leikmenn eins og Zaha, Puncheon, Loftus-Cheek, Sakho, Sako og Tomkins.
Að auki má okkar maður, Timothy Fosu-Mensah, ekki spila þennan leik þar sem hann er í láni hjá Crystal Palace frá Manchester United. Fosu-Mensah hefur verið að standa sig vel á tímabilinu í stöðu hægri bakvarðar og miðvarðar hjá Palace, oftar en ekki verið með skárstu mönnum liðsins og það hefur hjálpað honum töluvert að fá að spila reglulega, jafnvel þótt það sé ekki hjá betra liði.
Þjóðverjinn Leroy Sane, kantmaðurinn knái hjá Manchester City, var í viðtali um daginn þar sem hann var m.a. spurður hver væri erfiðasti andstæðingur sem hann hefði mætt á tímabilinu. Hans svar var:
It was before when I was playing against Kyle Walker. And Crystal Palace’s right-back Timothy Fosu-Mensah, I have played against him twice this season, and even last season, he had me really well under control and I told him how happy I was to play against him.
Það verður spennandi að sjá hvort Timothy Fosu-Mensah muni nýta sér þessa reynslu til að gera góða atlögu að föstu sæti hjá Manchester United þegar hann snýr aftur til félagsins í sumar.
Mögulegt byrjunarlið heimamanna í þessum leik gæti verið á þessa leið:
Tomkins er tæpur en ef það er séns á að spila honum þá verður hann væntanlega þarna í hjarta varnarinnar. Miðjumaðurinn Milivojevic er markahæstur hjá Palace í deildinni með 7 mörk, það verður því mikilvægt að hafa góðar gætur á honum.
Manchester United
Manchester United endaði febrúar á mjög jákvæðum nótum með sterkum og gríðarlega mikilvægum sigri á Chelsea. Lykilúrslit í baráttunni um Meistaradeildarsæti og með þeim úrslitum endurheimti liðið 2. sætið frá Liverpool sem hafði tímabundið komist þangað. Nú er Liverpool aftur komið í 2. sætið og aftur vonum við að það sé bara tímabundið. Chelsea virðist vera að stimpla sig aðeins frá Meistaradeildarsætisbaráttunni, það er stutt í að þeir eigi annan stórleik gegn Tottenham og línur gætu farið að skýrast ansi mikið upp úr páskum.
En fyrst Manchester United þarf, eins og er, ekki að hafa það miklar áhyggjur af Meistaradeildarsæti þá er um að gera að gera almennilega áskorun að því að halda þessu 2. sæti í deildinni. Liðið á að vera nógu gott til að gera það, jafnvel þótt leikjadagskrá Liverpool sé næst auðveldust allra liða í deildinni (skv. Sky Sports allavega).
Manchester United hefur þó tapað síðustu 2 útileikjum í deildinni, gegn Tottenham og Newcastle. Crystal Palace getur verið erfitt heim að sækja, unnu m.a. Chelsea á heimavelli, brutu sigurgöngu Manchester City á Selhurst Park og í síðasta heimaleik Palace rétt marði Tottenham sigur með marki á 88. mínútu eftir að Crystal Palace hafði varist mjög vel í leiknum. Það er alveg ljóst að United þarf að mæta vel stemmt í þennan leik, það þýðir ekkert dútl eins og hefur verið of algengt í síðustu leikjum.
Herrera, Fellaini, Blind, Jones og Zlatan eru enn á meiðslalistanum. Marcos Rojo og Eric Bailly hafa verið að æfa og ættu að vera á leið til baka, sérstaklega þá Bailly sem hefur verið að fá mínútur hér og þar í síðustu leikjum. Það er spurning hvort það sé komið að því að hann fái að byrja leik.
Ég ætla að spá byrjunarliðinu svona:
Í ljósi úrslita hjá Chelsea þá má segja að þetta sé ekki algjör must win leikur, þannig lagað. Það er svigrúm, ef við segjum að lokatakmarkið sé fyrst og fremst að komast í Meistaradeildina að ári. En leikmenn mega ekki hugsa þannig, ég vona að þeir mæti inn í þennan leik og ætli sér að ná aftur 2. sætinu sem Liverpool tók af þeim.
Helgi P says
ég ætla mér að vona að Rashford byrji þennan leik hann verður bara að fá fleiri mín vil alls ekki missa hann frá okkur